Jarðvegur skapandi greina
"Jarðvegur skapandi greina" er titill á stuttri grein sem ég birti í vorblaði Vísbendingar 21. mars, 2025. Blaðið er helgað þjóðhagslegu og menningarlegu hlutverki hinna svonefndu "skapandi greina". Í greininni velti ég fyrir mér hvernig hið svonefnda "almannarými" mótast hérlendis á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, m.a. í stásstofum, fyrir tilstilli félagasamtaka og á vettvangi blaða, tímarita. Tek ég meðal annars dæmi af tímariti Baldvins Einarssonar, Ármanni á Alþingi, og Unuhúsi, heimili Erlendar Guðmundssonar. Almannarýmið er mikilvæg forsenda þess fjölþætta íslensks listalífs sem tekur að blómstra fyrir alvöru á fullveldis- og lýðveldistímanum og er væntanlega og vonandi enn á okkar dögum jarðvegur skapandi einstaklinga á ýmsum sviðum.