Saga seinni heimsstyrjaldar handa börnum
Í vorhefti Sögu birti ég allanga grein undir titlinum "Tindátarnir flýðu en foringinn sprakk!" sem fjallar um myndabókina Tindátana eftir Stein Steinarr og Nínu Tryggvadóttur, tilurð hennar og merkingu. Greinin varpar meðal annars ljósi á forsíðumynd tímaritsins sjálfs, sem fengin er úr bókinni, en á henni má sjá Adolf Hitler í hvítu sprengiskýi. Athyglisvert er hve nákvæmlega þau Nína og Steinn spá fyrir um endalok seinni heimsstyrjaldar í verki sínu, sem kom út árið 1943, tveimur árum áður en ófriðnum lauk í raun og veru. En það er líka merkilegt hvernig þessi ríflega 80 ára barnabók á, því miður, enn brýnt erindi við samtímann.