Íslendingasögur á tímum netvæðingar
Málstofan Íslendingasögur: Samtíð, saga, framtíð verður hluti af Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands laugardaginn 10. mars næstkomandi frá kl. 10-12. Málstofan er helguð rannsóknum á ólíkum þáttum sem snerta sögu og viðtökur Íslendingasagnanna. Guðrún Nordal fjallar um fyrstu áratugina í sögu Laxdæla sögu, Katelin Parsons ræðir um rannsóknir sínar á þýðingum Egils sögu, Emily Lethbridge fjallar um fjórhjóladrifnar rannsóknir sínar á sögusviði sagnanna („fornsagnalestur undir beru lofti“) og ég fjalla um þær nýju leiðir sem netið og stafræn tækni hafa opnað í rannsóknum einstakra sagna, þeirra á meðal Njáls sögu og Egils sögu. Fyrirlestur minn nefnist "Vefur Darraðar og Wikisaga: Tengsl gagnagrunna og rannsókna". Í lok málstofunnar verður formlega opnaður nýr gagnagrunnur, Wikisaga, sem Bókmennta- og listfræðastofnun og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum standa að, en vonast er til að hann geti auðveldað störf þeirra sem fást við kennslu og rannsóknir á Eglu, bæði hér á landi og erlendis.