Skrifaði Sturla Þórðarson Skáldið eftir Einar Kárason?

Jón Karl Helgason, 07/11/2012

Við Einar Kárason skiptumst á skoðunum í Kastljósi 7. nóvember um þá kenningu hans að Sturla Þórðarson væri höfundur Njálu. Einar setur þessa kenningu fram með fræðilegum rökum í nýrri Skírnisgrein en hann vinnur einnig með hana í nýrri skáldsögu sinni, Skáldið, sem er lokabindið í þríleik hans um Sturlungaöldina. Í Kastljóssviðtalinu reyndi ég að draga málflutning Einars í efa, eins og til var ætlast, meðal annars með því að benda á að með þeim rökum sem hann notar megi halda því fram að Sturla Þórðarson hafi skrifað Skáldið ... sagan minnir að minnsta kosti æði mikið á Íslendinga sögu Sturlu. Ég verð samt að viðurkenna að umfjöllun Einars um Sturlu og Njálu hefur vakið upp nýjan áhuga hjá mér á efninu. Málflutningur hans er að ýmsu leyti sannfærandi og skynsamlegur og á vafalítið eftir að vekja úr dvala þann stóra hóp Njálu- og Sturlungulesenda sem áhuga hafa á efninu.