Spjallað um viðtökur íslenskra fornbókmennta
Gísli Sigurðsson og Ævar Kjartansson hafa undanfarnar vikur spjallað við fræðimenn á sviði íslenskra fornbókmennta á Rás 1. Þættirnir, sem bera titilinn Fornbókmenntirnar og við, eru frumfluttir á sunnudagsmorgnunum kl. 9.00 og endurfluttir bæði á mánudagskvöldum kl. 21.00 og fimmtudögum kl. 13.00. Síðasta sunnudag fékk ég að úttala mig um eigin rannsóknir og viðhorf til fornritanna og lagði þar meðal annars áherslu á rannsóknir mínar á viðtökum Njálu, gagnagrunninn Wikisögu, og nýtt rannsóknarverkefni sem ég kalla Afterlife of Eddas and Saga. Þess má geta að nýlega fékk ég framhaldsstyrk frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands til að kosta frekari vinnu nemenda við þá rannsókn.