Af-lýsing kreppunnar (De-scribing the Crisis)
De-scribing the Crisis: Narratives of Europe's Present (sem mætti þýða sem Aflýsing kreppunnar eða jafnvel Afskriftir kreppunnar) er titill ráðstefnu sem Università Ca’ Foscari í Feneyjum stendur fyrir dagana 30.-31. janúar næstkomandi. Tíu fræðimenn munu þar ræða um hina efnahagslegu og pólitísku kreppu sem sett hefur mark sitt á Evrópu á undanförnum árum og ólíkar birtingarmyndir hennar í bókmenntunum. Ég mun, ásamt Ernst Hollander, taka þátt í málstofu um kreppu hins norræna módels og kalla fyrirlestur minn "Stuffed Parrots and Edible Gold: Staging the Icelandic Financial Collapse". Eins og titillinn gefur til kynna hyggst ég beina sjónum að sviðsetningu íslenska hrunsins á leiksviði og mun meðal annars ræða um leikrit Sjóns, Ufsagrýlur frá árinu 2010, og leikrit Braga Ólafssonar, Maður að mínu skapi! frá 2013. Í næstu viku kenni ég ennfremur sem ERASMUS-kennari á námskeiði í miðaldabókmenntum við Università Ca’ Foscari. Þar fjalla ég um endurritun íslenskra fornsagna, og hyggst beina sjónum sérstaklega að Snorra Sturlusyni, Halldóri Laxness og Makoto Yukimura.