Nýjar þýðingar á verkum Sjóns
Nýlega barst mér í hendur kínversk þýðing Wang Shuhui á skáldsögunni Skugga-Baldri eftir Sjón. Shuhui er fyrrverandi nemandi okkar í Íslensku sem öðru máli við H.Í. og hefur á liðnum árum kennt íslensku við Háskóla erlendra fræða í Peking. Þetta er fyrsta bókmenntaþýðing hennar úr íslensku og vonandi ekki sú síðasta. Það vill svo til að annar nemandi í Íslensku sem öðru máli, Ana Stanićević, lauk nýlega við að þýða Mánastein eftir Sjón á serbnesku, auk þess að skrifa afar áhugaverðan inngang að verkinu. Um var að ræða B.A. verkefni sem ég leiðbeindi Önu með. Ekki er enn ljóst hvort eða hvenær þýðingin fæst útgefin í Serbíu en þess má geta að Skugga-Baldur kom þar út í þýðingu annars fyrrum nemenda okkar, Tatjönu Latinovic, fyrir tæpum áratug.