Hvernig er hægt að endurheimta miðaldir?
Dagana 15.-20. júlí verður haldin í Háskóla Íslands alþjóðleg ráðstefna The New Chaucer Society. Um er að ræða viðburð sem skipulagður er annað hvert ár og hefur verið til skiptist í Bretlandi og í Bandaríkjunum en nú var ákveðið að fræðimenn hittust á miðri leið. Hingað til lands koma um 500 gestir en einnig tekur hópur Íslendinga þátt. Um það bil 400 fyrirlestrar eru á fjölbreyttri dagskrá þingsins. Ég verð meðal þeirra sem flytja erindi 17. júlí í málstofu sem ber titilinn Recovering the Middle Ages sem Tim W. Machan hefur haft veg og vanda af að skipuleggja. Þar hyggst ég ræða um nokkrar bækur breska barnabókahöfundarins Henry Treece sem byggja á íslenskum fornbókmenntum og bera þær saman við eldri verk eftir Allen French og J.R.R. Tolkien. Fyrirlesturinn nefni ég "Romantic Past and Barbarian Frenzy".