Íslenskar miðaldabókmenntir og japanskt manga
Á liðnum áratugum hafa þó nokkrir japanskir teiknimyndahöfundar sótt sér innblástur til íslenskra miðaldabókmennta. Titlar á borð við Matantei Loki og Vínland saga hafa notið þar umtalsverðra vinsælda og haft mótandi áhrif á hugmyndir heimamanna um norræna goðafræði og menningarheim víkinganna. Þessa dagana er á dagskrá Ríkisútvarpsins Rás 1 tveggja þátta röð þar sem ég fjalla um þetta efni. Þættirnir byggja á viðtölum sem ég tók í Japan í nóvembermánuði en meðal viðmælenda minna þar var Makoto Yukimura, tæplega fertugur listamaður sem hóf að teikna Vínland sögu sína fyrir níu árum og er enn að. Hægt er að hlusta á fyrri þáttinn, sem var á dagskrá sunnudaginn 6. júlí, og á seinni þáttinn, sem var á dagskrá sunnudaginn 13. júlí, á vef Ríkisútvarpsins.