Rabbað um hagnýt verkefni í kennslu
Kennslunefnd Hugvísindasviðs heldur í marsmánuði þrjá rabbfundi um kennslu. Tilgangurinn er að skapa vettvang fyrir umræðu um bætta kennslu og kennslumenningu innan deilda sviðsins. Fundirnir verða í hádeginu miðvikudagana 11., 18. og 25. mars. Við Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda ríðum á vaðið núna á miðvikudaginn. Í mínu spjalli hyggst ég ræða um tilraunir mínar til að láta nemendur vinna hagnýt og raunhæf verkefni í námskeiðum, kosti þess og ókosti. Meðal verkefna sem ég fjalla um eru vefirnir Wikisaga: Lýsandi heimildaskrá Eglu og Njálu og Hrunið, þið munið: Gagnabanki um samtímasögu. Þá mun ég ræða samstarf mitt við Hugrás í tengslum við námskeiðið Loksins,loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku. Fundurinn verður í stofu 101 í Árnagarði frá kl. 12 til 12:45.