Skáldskaparfræði, speglar og miðaldir
"Skáldskaparfræði, speglar og miðaldir" er titill á grein sem ég hef nú birt á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands en þar ræði ég um rannsóknir nokkurra fræðimanna sem hafa afhjúpað skáldskaparfræði íslenskra miðaldabókmennta og haft veruleg áhrif á mínar eigin rannsóknir. Greinin er að stofni til hluti af erindi sem ég flutti árið 2010 á málþinginu Staðlausir stafir sem helgað var Helgu Kress, lærimóður minni í Almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún er þekktust fyrir feminískar bókmenntarannsóknir sínar en þarna vek ég athygli á einni hlið þeirra sem minni gaumur hefur verið gefinn. Ég ræði í framhaldi stuttlega um rannsóknir Laurence de Looze og Torfa H. Tuliniusar á Egils sögu, en ég hef unnið töluvert með þeim báðum á liðnum árum, nú síðast ásamt Russell Poole að ritstjórn bókarinnar Egil: The Viking Poet, sem mun koma út hjá University of Toronto Press innan tíðar.