Ráðstefna og vefur um bankahrunið
Hrunið, þið munið er titill viðamikillar ráðstefnu sem haldin verður í Háskóla Íslands dagana 5.-6. október. Ein kveikja ráðstefnunnar var vefur með sama titili sem við Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi dósent í sagnfræði, hófum að þróa með nemendum okkar í sagnfræði og íslensku á árunum 2014 en fjölmargir fleiri aðilar innan Háskóla Íslands og víðar hafa verið að leggja þar inn efni allar götur síðan. Meðal þeirra atkvæðamestu eru Markús Þórhallsson, Einar Kári Jóhannsson, Andrés Fjelsted og Halldór Xinyu Zhang. Í framhaldi af þessu starfi höfðum við Kristín Loftsdóttir forgöngu um ráðstefnuhaldið, háskólarektor Jón Atli Benediktsson tók vel undir hugmyndina og hefur styrkt verkefnið með margvíslegum hætti en Berglind Rós Magnúsdóttir, Magnús Diðrik Baldursson, Ragnar Sigurðsson. Rúnar Vilhjálmsson og Jón Bragi Pálsson hafa unnið með okkur að undirbúningi. Á ráðstefnunni taka um 100 fræðimenn og -konur til máls í um 20 málstofum.