Turnleikhús Thors og Inception eftir Nolan
Þessa dagana er ég að ganga frá fræðigrein til prentunar um skáldsöguna Turnleikhúsið (1979) eftir Thor Vilhjálmsson. Greinin mun birtast í næsta hefti Ritsins, tímariti Hugvísindastofnunnar, seinna á þessu ári. Söguna greini ég meðal annars með hliðsjón af skrifum Umbertos Eco um völundarhús, hugmyndum Italo Calvino um veruleikasvið og umfjöllun Brians McHale um tálsýnir (trompe l'oeil). Þess má geta að margar þeirra fagurfræðilegu hugmynda sem Thor vinnur með ganga aftur í kvikmynd Christophers Nolan, Inception, sem notið hefur gríðarlegra vinsælda í kvikmyndahúsum síðustu daga. Sögusvið Turnleikhússins minnir á Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu en reynist vera afar draumkennd útgáfa byggingarinnar þar sem víddirnar þrjár eru í uppnámi og ítrekað gefið til kynna að lesandinn sé staddur í heimi innan heims innan heims. Í sögu Thors, rétt eins og kvikmynd Nolans, má ennfremur finna viss tengsl við hugarheim hollenska teiknarans M.C. Eschers (1898-1972), til dæmis myndirnar Afstæði og Upp á við og niður á við. Ég fjalla nánar um þetta efni í stuttum pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.