M.A. ritgerðir Ástu Kristínar og Ernu
Þær Ásta Kristín Benediktsdóttir og Erna Erlingsdóttir hafa á þessu ári lokið við M.A. ritgerðir í íslenskum bókmenntum undir minni leiðsögn. Í ritgerðinni ""Form og stíll örðugt viðfangs." Frásagnaraðferð í verkum Jakobínu Sigurðardóttur" færir Ásta Kristín veigamikil rök fyrir því að Jakobína eigi skilið að vera talin einn af formbyltingarhöfundum íslenskrar sagnagerðar. Ritgerð Ernu ber titilinn "Skáldskapur og stjórnmál: Íslenskt bókmenntasvið um miðja 20. öld". Þar eru kenningar franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu lagðar til grundvallar greiningu á útgáfustarfi íslenskra sósíalista, deilum um úthlutun rithöfundalauna, klofningi í félagsskap íslenskra rithöfunda og stofnun Almenna bókafélagsins. Efni þessara athyglisverðu ritgerða mun vonandi birtast á opinberum vettvangi á næstu misserum.