Category: Uncategorized

Ráðgjafinn Terry Gunnell

Jón Karl Helgason, 08/05/2024

Málþing til heiðurs Terry Gunnell verður haldið föstudaginn 10. maí kl. 14.00-16.00 á Háskólatorgi HÍ. Tilefnið eru starfslok Terrys sem prófessors í þjóðfræði við Félagsvísindasvið. Málþingið samanstendur af stuttum (og sumpart alvörulausum) erindum og tónlistarflutningi. Það kom í minn hlut að fjalla um efnið "Ráðgjafinn Terry Gunnell" ("Terry Gunnell the consultant") en eins og allir vita naut alþjóðlegt kvikmyndateymi The Northman sérfræðiþekkingar hans fyrir fáeinum árum. Það hefði kannski verið heppilegt að fleiri myndrænar túlkanir norrænna goðsagna og fornsagna hefðu verið unnar undir verkstjórn Terrys?

Unuhús og Erlendur

Jón Karl Helgason, 02/05/2024

Á þessu vori hef ég kenndi í Endurmenntun námskeið sem nefnist Unuhús: Miðstöð listalífs um miðbik 20. aldar. Námskeiðinu lauk formlega í lok apríl en eiginlegur lokapunktur þess er þó viðburður sem við Sunneva Kristín Sigurðardóttir stöndum að á Gljúfrasteini nú á laugardaginn, 4. maí kl. 16.00. Hann ber yfirskriftina "Ásur þrjár og Ingur tvær. Vinahópur Erlendar í Unuhúsi". Sunneva ræðir þar m.a. um vináttu Erlendar, Nínu Tryggvadóttur og Sólveigar Sandholt en ég mun m.a. fjalla um vináttu Erlendar við Stefán Bjarman og Benedikt Stefánsson.

Árdagar myndasögunnar

Jón Karl Helgason, 23/04/2024

"Gamanmynd í fjórum sýningum" er titill nýrrar greinar sem ég birti í vorhefti Andvara. Þar reyni ég að kortleggja landnám myndasögunnar á íslenskum vettvangi og legg höfuðáherslu fyrstu þrjá áratugi liðinnar aldar. Ég staðfesti með ýmsum misþekktum dæmum að Muggur og Tryggvi Magnússon eru brautryðjendur á þessu sviði en dreg líka fram tvær skopmyndir eftir Vestur-Íslendinga þar sem talblöðrur er nýttar. Eldri myndin, "Verkefni" eftir P.M. Clemens, birtist í Heimskringlu 1908 og yngri myndin, "Síðasta atriðið í síðasta þætti í "Beinadalnum" ..." eftir Charles Thorson, birtist í Heimkringlu 1909.

Hvers vegna skrifa Íslendingar svona margar glæpasögur?

Jón Karl Helgason, 23/04/2024

Í byrjun febrúar var þýski bókmenntaþátturinn Literatur helgaður íslenskum glæpasögum og var ein af rannsóknarspurningum þáttarins "Hvers vegna skrifa Íslendingar svona margar glæpasögur?" Ég var meðal þeirra sem Marten Hahn ræddi við í þessu sambandi en af öðrum viðmælendum hans má nefna Ragnar Jónasson, Yrsu Sigurðardóttur og Lilju Sigurðardóttur. Skýringar okkar voru af ýmum og ólíkum toga. Hægt er að nálgast upptöku af þættinum, sem kallaður var "Eis, Feuer, Mord" á heimasíðu Deutschlandfunk.

Sögur af Ragnari í Smára

Jón Karl Helgason, 06/02/2024

Miðvikudaginn 7. febrúar verða 120 ár liðinn frá fæðingu Einars Ragnars Jónssonar, sem er þó betur þekktur undir nafninu Ragnar í Smára. Hann var goðsögn í lifanda lífi; kraftmikill sveitastrákur úr Flóanum sem gerðist iðnrekandi, bókaútgefandi, málverkasafnari og lífið og sálin í íslensku tónlistarlífi um áratugaskeið. Af þessu tilefni efnum við Marteinn Sindri Jónsson til viðburðar í Hannesarholti undir yfirskriftinni Sögur af Ragnari í Smára. Formleg dagskrá hefst klukkan 17.00 í Hljóðbergi, sal Hannesarholts, en kaffihúsið á jarðhæðinni er opið á undan fyrir þá sem vilja koma fyrr og skála fyrir afmælisbarninu. ps. Viðtal við mig var flutt í Mannlega þættinum á Rás 1 á sjálfan afmælisdaginn og miðvikudaginn 1. maí var fluttur útvarpsþáttur okkar Marteins Sindra sem byggði á dagskránni í Hannesarholti. Þá birti ég einnig grein í tímaritið Vísbendingu um "viðskiptamódel Ragnars í Smára".

Leshringur um bókmenntir og lögfræði

Jón Karl Helgason, 01/01/2024

Í júní 2020 fékk ég styrk frá HÍ vegna stuðnings við samfélagsvirkni akademísks starfsfólks. Verkefnið, „Lög og bókmenntir“, miðaði að því að efla samræðu milli sviða lögfræði og bókmenntafræði um lög og bókmenntir, m.a. með námskeiðahaldi. Vegna COVID frestaðist upphaf verkefnis um rúmt ár en í millitíðinni hóf Ég samstarf við Hafstein Þór Hauksson, dósent við Lagadeild, um þetta verkefni og hafa allir viðburðir verið skipulagðir af okkur í sameiningu. Alls hafa verið skipulögð þrjú tengd námskeið, hið fyrsta með þátttöku starfsfólks Héraðsdóms Reykjavíkur, og síðari tvö með félögum í Lögfræðingafélagi Íslands, og tvær málstofur, sú fyrri á Hugvísindaþingi og sú síðari á Þjóðarspegli. Einnig hefur verkefnið tengst ferð Lögfræðingafélagsins á söguslóðir Sjöundármála, þátttöku Jóns Karls á öðru Hugvísindaþingi og umfjöllun í Lögmannablaðinu. Annáll starfsins er aðgengilegur hér á vefnum.

Fjarkönnun bókmenntasögunnar

Jón Karl Helgason, 18/12/2023

Í nýju hefti Skírnis birtum við Benedikt Hjartarson. Magnús Þór Þorbergsson og Steingrímur Páll Kárason grein sem ber titilinn "Fjarkönnun íslenskrar bókmenntasögu". Á síðari hluta liðins áratugar fengu Benedikt og Magnús Þór takmarkaðan aðgang að gagnagrunni Landskerfis bókasafna (LB) um útgefin íslensk rit til að vinna afmarkaða rannsókn á útgáfu bókmenntaþýðinga á íslensku á fullveldistímabilinu. Vorið 2022 fengum við Steingrímur almennari aðgang að þessum sömu gögnum í þeim tilgangi að miðla með myndrænum hætti vissum lykiltölum íslenskrar bókaútgáfu. Í þessari grein eru teknar saman helstu niðurstöður beggja rannsókna en jafnframt rætt um fáein áhugaverð framtíðarverkefni á þessu sviði.

Skáldskaparfræði Eiríks Laxdals

Jón Karl Helgason, 18/12/2023

Í nýútkominni Griplu birti ég fræðigrein um frásagnarfræðileg einkenni Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal. Greinin er skrifuð á ensku og ber titilinn "“Should she tell a story …” In Quest of Eiríkur Laxdal’s Poetics". Á það er bent að sagan eigi ýmislegt sameiginlegt með frásagnarbókmenntum fyrri alda og í því sambandi gerður samanburður á henni og hinni forngrísku Ódysseifskviðu, arabíska  sagnasafninu  Þúsund  og  einni  nótt  og  franska  miðaldatextanum  Leitin að  hinum  helga  gral.  Þegar  tekið  er  tillit  til  efniviðar,  uppbyggingar  og  jafnvel  persónusköpunar  Ólafssögu  má  líta  á  hana sem skilgetið afkvæmi aldalangrar bókmenntahefðar lagskiptra frásagna þar sem ekki er aðeins unnið úr munnlegri sagnahefð heldur er sú hefð beinlínis sett á svið.

Þýðing á fyrstu leynilögreglusögunni

Jón Karl Helgason, 05/11/2023

"Morðin í Líkhúsgötu" eftir Edgar Allan Poe er jafnan talin marka upphaf leynilögreglusögunnar sem sérstakrar bókmenntagreinar. Hún er sú fyrsta af þremur smásögum höfundar þar sem rannsakandinn C. Auguste Dupin leysir snúið sakamál. Ónefndur vinur hans er sögumaður í öllum þessum þremur sögum og er hann áhugaverður forveri Watsons læknis í sögunum A.C. Doyle um Sherlock Holmes. Þegar ég kenndi námskeið í glæpasögum fyrir fáum árum komst ég að því, mér til furðu, að sagan "Morðin í Líkhúsgötu" væri ekki til í íslenskri þýðingu. Ég ákvað að bæta úr því og uppgötvaði skömmu síðar að bókaforlagið Dimma, undir stjórn Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, hefði í hyggju að gefa út úrval þýðinga á verkum Poes á íslensku. Bókin er nýkomin út, í ritstjórn Aðalsteins og Ástráðs Eysteinssonar. Ber verkið hinn látlausa titil Kvæði og sögur. Þar er, auk þýðingar minnar, að finna hinar tvær leynilögreglusögurnar um Dupin og einnig fjöldan allan af öðrum sígildum verkum þessa merka höfundar.

Heimur smásögunnar kortlagður

Jón Karl Helgason, 28/09/2023

"Heimur smásögunnar" er titill á viðamikilli ráðstefnu sem Bókmennta- og listfræðastofnun, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og STUTT, rannsóknastofa í smásögum og styttri textum standa að 30. september og 1. október í Veröld, húsi Vigdísar. Á þriðja tug bókmenntafræðinga sem flestir starfa við Háskóla Íslands fjalla þar um smásögur frá ýmsum hliðum. Í mínu erindi, sem er á dagskrá síðari daginn kl. 13.30, hyggst ég fjalla um smásögurnar „Vor í Fíalta“ eftir Vladimir Nabokov og „Konan með hundinn“ eftir Anton Tsjekhov og íslenskar þýðingar þeirra. Fyrirlesturinn ber titilinn: "Í fjólunni endurómar altraddarlegt heiti á fallegum bæ“ en það er tilvitnun í snilldarþýðingu Rúnars Helga Vignissonar á fyrrnefndu sögunni.