Gísli Sigurðsson og Ævar Kjartansson hafa undanfarnar vikur spjallað við fræðimenn á sviði íslenskra fornbókmennta á Rás 1. Þættirnir, sem bera titilinn Fornbókmenntirnar og við, eru frumfluttir á sunnudagsmorgnunum kl. 9.00 og endurfluttir bæði á mánudagskvöldum kl. 21.00 og fimmtudögum kl. 13.00. Síðasta sunnudag fékk ég að úttala mig um eigin rannsóknir og viðhorf til fornritanna og lagði þar meðal annars áherslu á rannsóknir mínar á viðtökum Njálu, gagnagrunninn Wikisögu, og nýtt rannsóknarverkefni sem ég kalla Afterlife of Eddas and Saga. Þess má geta að nýlega fékk ég framhaldsstyrk frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands til að kosta frekari vinnu nemenda við þá rannsókn.
Í dag var vefnámskeiðið Icelandic Online 5 opnað almenningi. Um er að ræða kennsluefni í íslensku sem öðru máli fyrir lengra komna og er áhersla lögð á menningarlæsi og orðaforða. Við Olga Holownia og Daisy L. Neijmann höfum ritstýrt efninu en um tæknilega hlið verkefnisins hafa þau Olga og Mark Berge séð. Verkefnið er unnið með styrk frá Nordplus og Kennslumálasjóði Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið og Ljósmyndasafn Reykjavíkur hafa lagt verkefninu lið en beinir aðilar að því eru m.a. Íslensku- og menningardeild, Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Stofnun Árna Magnússonar, auk háskólastofnana í Noregi og Finnlandi.
"The Distributed Authorship of Heimskringla" er titill á fyrirlestri sem ég mun halda við Rikkyo háskólann í Tokyo 25. nóvember næstkomandi á ráðstefnunni Old Icelandic Texts in Medieval Northern Europe. Meðal annarra þátttakenda eru Noriko Motone, Shiho Mizuno, Shinobu Wada, , Takahiro Narikawa, Sayaka Matsumoto og Tsukusu Jinn Itó. Hinn 29. nóvember mun ég einnig halda fyrirlestur við Kyoto háskólann sem ég nefni "Medieval Sagas as Modern Hypertexts" þar sem ég mun kynna margmiðlunardiskinn Vef Darraðar, sem fylgdi bók minni Höfundar Njálu árið 2001, og gagnagrunninn Wikisögu: Lýsandi heimildaskrá Egils sögu. Þessir fyrirlestrar fléttast inn í tveggja vikna rannsóknarferð mína til Japans en Minoru Ozawa, lektor við Rikkyo háskólann í Tokyo, og Sayaka Matsumoto, aðjunkt við Kyoto háskóla, hafa veitt mér ómetanlega aðstoð við undirbúning hennar. Ferðin er styrkt af Watanabe Trust Fund og The Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation. PS. Fyrirlestrar ráðstefnunnar sem haldin var við Rikkyo háskólann eru nú aðgengilegir á vef Minoru Ozawa.
Hvernig leita íslenskir stjórnmálamenn í menningarlífið og menningarsöguna til að styðja við stefnumál sín og ímynd? Hver eru tengslin milli Jónasar Hallgrímssonar, Hannesar Hafsteins, Jónasar frá Hriflu, Einars Olgeirssonar, Sigurðar Nordals og Davíðs Oddssonar? Leitað verður svara við þessum spurningum á samræðu um fagurfræði íslenskrar stjórnmálabaráttu sem Sögufélag og Hannesarholt standa fyrir miðvikudaginn 20. nóvember kl. 20.00. Sagnfræðingarnir Guðni Th. Jóhannesson, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Ólafur Rastrick verða málshefjendur, auk mín, en einnig er gert ráð fyrir virkri þátttöku gesta. Aðgangseyrir er 1.000 krónur.
Hvað á Óðinn í Vafþrúðnismálum sameiginlegt með Gandálfi í sögum Tolkiens? Hver eru tenglin á milli Fóstbræðra sögu og skáldsögunnar Gerplu eftir Halldór Laxness og loks sýningar Þjóðleikhússins á leikriti með sama nafni? Hvað á Þór í Þrymskviðu sameiginlegt með persónunni sem Chris Hemsworth leikur í kvikmyndunum Thor og Thor: The Dark World? Hver eru tengsl Grænlendinga sögu og Eiríks sögu við manga-teiknimyndaseríuna Vinland Saga eftir Makoto Yukimura? Hvernig stóð á því að Ólafur Ragnar Grímsson færði páfanum í Róm styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur? Svörin við þessum og fjölmörgum öðrum spennandi spurningum fást í námskeiðinu Hetjur taka hamskiptum (ÍSL208G) sem ég kennir á B.A. stigi í íslensku á vorönn 2014. Það er ekki seinna vænna að skrá sig.
Næstkomandi föstudag stendur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir málþinginu "Yfir saltan mar" sem helgað er skáldskap argentínska skáldsins Jorge Luis Borges. Fyrir hlé munum við Hólmfríður Garðarsdóttir, Sigríður Á. Eiríksdóttir og Jón Hallur Stefánsson halda stutt erindi á íslensku um afmarkaða þætti í höfundarverki Borgesar en eftir hlé flytur Daniel Balderston, prófessor og framkvæmdastjóri Borgesar-setursins (Borges-Center) við Háskólann í Pittsburg lengri fyrirlestur á ensku sem ber yfirskriftina: „Hvernig skrifaði Borges?". Erindi mitt á þinginu ber titilinn "Villtur í völundarhúsi Borgesar" en í því beini ég athygli að þeim tveimur smásögum skáldsins sem ég hef hvað mest dálæti á, "Garður gangstíga sem greinast" og "Dauðinn og áttavitinn". Þingið fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og stendur frá kl. 14.00-17.00.
"Loksins: Fyrsta íslenska grafíska skáldsagan" er titill á stuttri ritfregn sem ég hef birt á Hugrás um grafísku skáldsöguna Skugginn af sjálfum mér eftir Bjarna Hinriksson. Líkt og titillinn gefur til kynna er um að ræða sjálfsævisögulegt verk og þó ekki, eins og Bjarni útskýrir vel í nýlegu útvarpsviðtali. Aðalpersónur sögunnar eru fráskilinn íslenskur teiknimyndasagnahöfundur, Kolbeinn Hálfdánarson, og sonur hans, Sindri. Lesandinn slæst í för með þeim feðgum í sólarlandaferð til Kanaríeyja og er myndrænn þáttur verksins að hluta til byggður á ljósmyndum frá ferð Bjarna og sonar hans á þær sömu slóðir. Um er að ræða afar áhugavert verk sem markar gleðileg tímamót í íslenskri teiknimyndasagnagerð.
"Vofa Hitlers" er titillinn á greinarkorni sem ég birti í 3. hefti Tímarits Máls og menningar 2013 en það er nýkomið út. Þar er brugðið upp svipmyndum úr íslenskri bókmenntasögu vikuna 5. til 12. maí árið 1945 en meðal þeirra sem koma við þá sögu eru Sigurður Nordal, Elías Mar, Gunnar Gunnarsson, Steinn Steinarr, Nína Tryggvadóttir, Guðmundur Kamban, Charlie Chaplin og Adolf Hitler. Um er að ræða sýnishorn úr handriti í smíðum sem ber vinnutitilinn Líkið í lestinni. Íslensk bókmenntasaga 1945-1948 sem ég vonast til að senda frá mér á næstu árum.
Í fyrri hluta september kemur út á vegum Sögufélags bók mín Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga. Hún fjallar um eðli og hlutverk þjóðardýrlinga og þær aðferðir sem notaðar eru til að rækta minningu þeirra á opinberum vettvangi. Höfuðáhersla er lögð á skáld og listamenn en stjórnmálamenn og trúarhetjur koma einnig við sögu. Bókin hefur að geyma níu tengdar tilraunir á mörkum bókmenntafræði og sagnfræði, þjóðernisrannsókna og minnisfræða. PS. Laugardaginn 21. september kl. 15.00 mun ég fara í pílagrímagöngu um íslenskan ódáinsakur í miðborg Reykjavíkur á vegum Sögufélags og Bókmenntaborgarinnar. Gangan hefst við Hljómskálann kl. 15.00.
"Fiction as Philosophy: William H. Gass' Conception of Metafiction" er titill á fyrirlestri sem ég hyggst flytja á 20. ráðstefnu alþjóðlegra samtaka samanburðarbókmenntafræðinga (International Comparative Literature Association) sem fram fer í Sorbonne-háskólanum í París vikuna 18.-24. júlí næstkomandi. Þar hyggst ég grafast fyrir um þá merkingu sem William H. Gass lagði í hugtakið metafiction um og eftir 1970 og bera hugtakið saman við önnur áþekkt hugtök frá þessum sama tíma. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu um hugtök og heiti í samanburðarbókmenntum og er á dagskrá morguninn 19. júlí.