Category: Uncategorized

Tieck, Fjölnir og fjölkerfakenning Even-Zohars

Jón Karl Helgason, 01/06/2013

tieck"Der Blonde Eckbert in an Alien Polysystem. The Reception of Tieck’s «skröksaga» in 19th-Century Iceland", er titill á grein sem ég birti í greinasafninu Textual Production and Status Contests in Rising and Unstable Societies sem út er komið í ritstjórn Massimiliano Bampi og Marina Buzzoni hjá Ca' Foscari-háskólanum í Feneyjum. Greinin fjallar um viðtökur á ævintýri eftir þýska skáldið Tieck sem birtist í íslenska tímaritinu Fjölni árið 1837. Eins og aðrir höfundar sem eiga greinar í safninu styðst ég við fjölkerfakenningu ísraelska fræðimannsins Itamars Even-Zohar en hann á einmitt fyrstu grein bókarinnar sem fjallar um íslenskar miðaldabókmenntir og hlutverk þeirra í íslensku miðaldasamfélagi. Bókin er hluti af ritröðinni Filologie medievali e moderni og er aðgengileg á netinu.

Sherlock Holmes, Giovanni Morelli og íslenskir miðaldahöfundar

Jón Karl Helgason, 27/05/2013

Sherlock"Clues of Authorship. Sherlock Holmes, Giovanni Morelli and Medieval Saga Authors" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnu Association for the Advancement of Scandinavian Studies in Canada (AASSC) í borginni Victoria í Kanada miðvikudaginn 5. júní næstkomandi. Þar hyggst ég ræða um þær aðferðir og rök sem fræðimenn hafa beitt í umfjöllun sinni um hina sígildu spurningu: Hver var höfundur Njálu? Ráðstefnan er hluti af viðamiklu þingi félags- og hugvísindafólks í Kanada, Congress of the Canadian Federation for the Humanities and Social Sciences.

Útgáfa tímarritraðarinnar 1005

Jón Karl Helgason, 27/05/2013

1005Nýlega kom út fyrsti árgangur tímaritraðarinnar 1005 en áformað er að gefa út þrjá árganga hennar á jafnmörgum árum. Í fyrsta árgangi er að finna þrjú athyglisverð verk; sakamálasöguna Hælið eftir Hermann Stefánsson, ljóðabálkinn Bréf úr borg dulbúinna storma eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og fræðigátuna Bautasteinn Borgesar eftir Jón Hall Stefánsson. Ég sit ásamt Ragnari Helga Ólafssyni, Eiríki Guðmundssyni, Oddnýju Eir Ævarsdóttur, Þresti Helgasyni og höfundunum þremur í ritnefnd. 1005 er gefið út í 200 tölusettum eintökum, áþreifanlega upplagið er á þrotum en hægt er að kaupa hvert hefti fyrir sig í ótakmörkuðu upplagi á vef e-bóka.

Styrkir til ólíkra verkefna

Jón Karl Helgason, 16/04/2013

vinlandÁ liðnum vikum hafa tvö ólík verkefni sem ég tek þátt í hlotið góða styrki. Annars vegar hlaut vefverkefnið Icelandic Online 5-6 styrk úr Kennslumálasjóði Háskóla Íslands og hins vegar hlaut rannsóknarverkefnið Afterlife of Eddas and Sagas styrki frá Watanabe Trust Fund og The Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation. Síðarnefndu styrkirnir gera mér kleift að fara til Japan á komandi vetri til að vinna að rannsóknum á áhrifum íslenskra miðaldabókmennta á japanska teiknimyndasagnahöfunda.

Bakjarlar menningarlegs minnis

Jón Karl Helgason, 11/04/2013

jónasVæntanlegur 10.000 króna seðill Seðlabanka Íslands, prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson, Dagur íslenskrar tungu og Menningarfélagið Hraun í Öxnadal er meðal þess sem ber á góma í grein minni "Stóri ódauðleikinn: Minningarmörk, borgaraleg trúarbrögð og bakjarlar menningarlegs minnis". Greinin birtist í nýútkomnu hefti Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar sem þær Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Daisy Neijmann ritstýra. Heftið allt er helgað minni og gleymsku en aðrir höfundar sem fjalla þarna um þau efni eru Irma Erlingsdóttir, Róbert Haraldsson, Andreas Huyssen, Kristín Loftsdótttir, Marion Lerner, Úlfar Bragason og Sverrir Jakobsson. Þá er í heftinu athyglisverður myndaþáttur um minnismerki á Íslandi eftir Ketil Kristinsson.

Hvað er pólýúretan?

Jón Karl Helgason, 01/04/2013

aaronAndri Ólafsson og Steingrímur Teague fengu Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textagerð ársins á plötu Moses Hightower, Önnur Mósebók. Af því tilefni birti ég á Hugrás umfjöllun um texta plötunnar og reyni að skýra hvers vegna þar er ort um “seli steypta í pólýúretan”. Umfjöllunin kallast á við eldri grein eftir mig á Hugrás sem fjallar um texta á fyrstu plötu þeirra félaga, Búum til börn.

Doktorsvörn á vettvangi stafrænna hugvísinda

Jón Karl Helgason, 26/02/2013

trishFyrr í dag var ég andmælandi við doktorsvörn Trish Baer við enskudeild University of Victoria í Kanada. Ritgerðin ber titilinn "An Old Norse Mythology Image Hoard: From the Analog Past to the Digital Present". Hún fjallar um myndskreytingar í handritum og útgáfum sem hafa að geyma forníslenskar bókmenntir, einkum goðsögulegt efni og jafnframt um gagnagrunninn MyNDIR á veraldarvefnum sem Trish hefur hannað  með aðstoð tölvufræðings til að birta myndir af slíku efni. Vefurinn sem hér um ræðir er enn um sinn lokaður almenningi, enda í þróun en Baer hyggst bæta jafnt og þétt við efnið á næstu misserum, jafnframt því að kynna niðurstöður rannsókna sinna. Verkefnið í heild tilheyrir í raun fræðasviði sem í enskumælandi löndum er farið að kalla digital humanities eða stafræn hugvísindi, en ein af þekktustu deildum á því sviði í heiminum nú um stundir er reyndar við King's College í Cambridge. Ps. Nú er búið að opna fyrir almennan aðgang að MyNDIR á vef háskólans í Victoria.

Biskupamóðir í Páfagarði: áhugaverð M.A. ritgerð

Jón Karl Helgason, 04/02/2013

"Biskupamóðir í Páfagarði" er titill á afar áhugaverðri og yfirgripsmikilli M.A. ritgerð sem Sigríður Helga Þorsteinsdóttir var að ljúka við undir minni leiðsögn. Í inngangi er efninu lýst svo: "Ritgerðin fjallar um ólíkar birtingarmyndir Guðríðar Þorbjarnardóttur, einnar aðalsöguhetju Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu, sem oft eru nefndar Vínlandssögur. Viðfangsefnið er greint í ljósi endurritunarfræða, þýðingarfræða og með hliðsjón af rannsóknum á evrópskum þjóðardýrlingum. ... Birtingarmyndir Guðríðar Þorbjarnardóttur í skáldskap og veruleika í 1000 ár gefa mikilvægar vísbendingar um samtímann hverju sinni en jafnframt kemur í ljós að Guðríður hefur bæði fyrr og síðar verið greind og túlkuð í ljósi kristinnar dýrlingahefðar." Hægt er að nálgast ritgerðina á Skemmunni, rétt eins og flest önnur lokaverkefni íslenska háskólasamfélagsins. Mig langar til að óska Sigríði Helgu til hamingju með þennan stóra áfanga.

Á gatnamótum Njálsgötu og Snorrabrautar

Jón Karl Helgason, 10/01/2013

Hvernig hafa Íslendingasögurnar haldið dampi í 800 ára? Þetta var leiðarstefs sænsku útvarpskvennanna Miu Gerdin og Ullu Strängberg sem heimsóttu Ísland á liðnu sumri, leituðu að Snorra Sturlusyni í Reykholt og heimsóttu rithöfundana Sjón og Gerði Kristnýju í Reykjavík. Þær fengu mig líka til að leiða sig um gamla bæinn þar sem Njálsgata, Bergþórugata og Snorrabraut bera glöggan vott um tengsl fortíðar og samtíðar, bókmennta og borgar. Fyrri þáttur þeirra, På jakt efter den isländska sagans betydelse, var á dagskrá sænska útvarpsins í liðinni viku en sá síðari er á dagskrá 14. janúar. Ps. Síðari þátturinn er nú aðgengilegur á vef sænska útvarpsins.

Andmælaræður birtar í Sögu

Jón Karl Helgason, 30/12/2012

Í nýju hefti Sögu, tímarits Sögufélagsins, birtust andmælaræður okkar Rósu Magnúsdóttur sem fluttar voru við doktorsvörn Ólafs Rastricks í febrúarmánuði síðastliðnum en hann varði þá doktorsritgerð í sagnfræði, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910‒1930. Í ræðu minni gagnrýndi ég Ólaf einkum fyrir ófullnægjandi umfjöllun um skrif Sigurðar Nordals en ég hrósaði honum meðal annars fyrir hve víðfeðma sýn hann hefði á viðfangsefnið. Ég segi í því sambandi: "Ekki er aðeins hugað að umræðum manna um viðurkenndar listgreinar á borð við myndlist, sígilda tónlist og fagurbókmenntir, heldur er einnig vikið að skrifum um listamannalaun, fatatísku, djasstónlist, kvikmyndir, áfengisnotkun og samkvæmisdansa, svo dæmi séu tekin, sem og þeim merkilegu tengslum sem eru milli skattlagningar á tiltekin svið menningar og framlaga til annarra sviða hennar. Þá er lofsvert hvernig Ólafur, í greiningu á opinberum afskiptum af menningarmálum, horfir „til ríkisins sem fjölbreytilegs og ósamstæðs safns stofnana, sjónarmiða og markmiða“ (bls. 140) og tekur þar að auki tillit til mikilvægs starfs frjálsra félagasamtaka á þessum vettvangi." Þess verður vonandi ekki langt að bíða að ritgerð Ólafs komi út á bók.