"Lárviðarskáld. Valið milli Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar" er titill á nýrri grein sem ég birti í fyrsta hefti Tímarits Máls og menningar 2012. Í inngangi vek ég athygli á því að fram eftir nítjándu öld voru þeir Bjarni og Jónas gjarnan nefndir í sömu andrá sem bestu skáld þjóðarinnar. Síðan segir: "Í ljósi þessa mats er forvitnilegt að velta fyrir sér hvenær, hvernig og hvers vegna Jónas skýtur Bjarna ref fyrir rass sem þjóðskáld. Nú er svo komið að afmælisdegi Jónasar, 16. nóvember, er minnst árlega sem Dags íslenskrar tungu og fæðingarstaður hans, Hraun í Öxnadal, er friðlýstur fólkvangur. Hvorki afmælisdagur Bjarna né fæðingarstaður hans, Brautarholt á Kjalarnesi, njóta slíkrar blessunar af hálfu opinberra aðila. Ekki er til einföld skýring á því af hverju þróunin hefur orðið með þessum hætti en hér verður hugað að nokkrum vísbendingum um núning og meting milli stuðningsmanna þeirra tveggja á ofanverðri nítjándu öld um hvor ætti fremur skilið að bera lárviðarkrans. Athyglisvert er að í báðum hópum koma nánir ættingjar skáldanna tveggja við sögu." Og svo hefst greinin ...
Árið 1988 kom út fyrsta ritið fram til þess tíma sem kalla má ævisögu bandaríska rithöfundarins J.D. Salingers, bókin In Search of J.D. Salinger (Í leit að J.D. Salinger). Höfundurinn var fimmtugur Breti, Ian Hamilton, ljóðskáld og bókmenntamaður. Það sérkennilega við verk Hamiltons er að jafnframt því að rekja feril Salingers segir hann frá tilurð bókar sinnar, tilraunum sínum til að grafa upp heimildir, ræða við skólafélaga Salingers og vini, og síðast en ekki síst frá samskiptum sínum við skáldið. Í nýrri grein, "Allt þetta Davíð Kopperfíld-kjaftæði" sem var að birtast á bókmenntavefnum Subbuskapur og sóðarit, fjalla ég um bók Hamiltons og þau illu örlög að geta ekki hætt að vera til, enda þótt maður sé dauður.
Málstofan Íslendingasögur: Samtíð, saga, framtíð verður hluti af Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands laugardaginn 10. mars næstkomandi frá kl. 10-12. Málstofan er helguð rannsóknum á ólíkum þáttum sem snerta sögu og viðtökur Íslendingasagnanna. Guðrún Nordal fjallar um fyrstu áratugina í sögu Laxdæla sögu, Katelin Parsons ræðir um rannsóknir sínar á þýðingum Egils sögu, Emily Lethbridge fjallar um fjórhjóladrifnar rannsóknir sínar á sögusviði sagnanna („fornsagnalestur undir beru lofti“) og ég fjalla um þær nýju leiðir sem netið og stafræn tækni hafa opnað í rannsóknum einstakra sagna, þeirra á meðal Njáls sögu og Egils sögu. Fyrirlestur minn nefnist "Vefur Darraðar og Wikisaga: Tengsl gagnagrunna og rannsókna". Í lok málstofunnar verður formlega opnaður nýr gagnagrunnur, Wikisaga, sem Bókmennta- og listfræðastofnun og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum standa að, en vonast er til að hann geti auðveldað störf þeirra sem fást við kennslu og rannsóknir á Eglu, bæði hér á landi og erlendis.
"Hver fær að blása á kertin?" er yfirskrift þriggja greina sem ég er að birta á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs þessa daganna. Fyrsta greinin, sem helguð er 200 ára afmæli H.C. Andersen 2005 og þátttöku Tinu Turner í því, birtist fimmtudaginn 23. febrúar, önnur greinin, sem er að mestu helguð fyrstu stóru Shakespeare-hátíðinni í Stratford 1769, birtist mánudaginn 27. febrúar, og þriðja greinin um 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar og Jónasar Hallgrímssonar birtist á Hugrás 5. mars. Stofn þessara texta er fyrirlestur sem ég flutti á ráðstefnu um Jón Sigurðsson fyrir tæpu ári en þriðja greinin er þó í raun ný af nálinni. Greinarnar þrjár eru hægt að lesa saman í einni beit eða hverja í sínu lagi.
Síðastliðinn föstudag stóð námsgreinin Íslenska sem annað mál fyrir ráðstefnunni Íslenska sem annað líf þar sem átta fyrrverandi nemendur okkar sögðu frá reynslu sinni af náminu og þeim tækifærum og ögrunum sem hafa mætt þeim í íslensku samfélagi að námi loknu. Margrét Jónsdóttir, prófessor við námsgreinina, átti hugmyndina að þessari ráðstefnu og stóð að undirbúningi hennar ásamt okkur Sigríði Þorvaldsdóttur. Aðsókn var góð en auk þess hafa fjölmiðlar sýnt henni töluverðan áhuga. Á fimmtudaginn í liðinni viku var viðtal við Ingrid Kuhlman í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í tengslum við ráðstefnuna og í morgun voru Aleksandra M. Cieślińska og Róland R. Assier í viðtali á Rás 2. Loks má nefna að í Samfélaginu í nærmynd fyrr í dag var viðtal við Joönnu Marcinkowsku, annan fyrrum nemanda okkar, en hún hefur nýlega hafið störf sem pólskumælandi ráðgjafi innflytjenda hjá Reykjavíkurborg. Í viðtalinu ræddi hún meðal annars um reynslu sína af því að læra íslensku við Háskóla Íslands og lét vel af því. Það er ómetanlegt fyrir námsgreinina að eiga svo góða málsvara í hópi brautskráðra nemenda. Ps. Í Fréttablaðinu birtist 22. febrúar viðtal við Cynthiu Trililani um erindið sem hún flutti á ráðstefnunni Íslenska sem annað líf en þar fjallaði hún um staðalímyndir asískra kvenna á Íslandi.
Í gærdag varði Ólafur Rastrick doktorsritgerð sína við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Við Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur vorum andmælendur við vörnina. Andmæli okkar munu væntanlega birtast opinberlega á þessu ári en í niðurlagi minnar ræðu sagði ég meðal annars: "Doktorsritgerð Ólafs Rastrick, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910‒1930, er fagnaðarefni í íslenskum fræðum. Enda þótt Ólafi takist ekki að skýra fyllilega þá andstöðu gegn módernismanum sem gætti í listumræðu hér á landi lengi fram eftir tuttugustu öld þá varpar hann forvitnilegu ljósi á það efni. Höfuðgildi ritgerðarinnar felst hins vegar eins og að var stefnt í því að sýna fram á hvernig menningin, í mjög víðtækum skilningi, öðlast mikilvægt samfélagslegt hlutverk hér á landi á umræddu tímabili og verður í raun að veraldlegum trúarbrögðum þess fullvalda og síðar sjáflstæða þjóðríkis hér var að mótast." Ég vil nota þetta tækifæri og óska Ólafi til hamingju með merkan áfanga.
Nýjasta hefti Ritsins er að hluta til helgað fræðigreinum um Evrópu. Mitt framlag til þeirrar umfjöllunar er greinin "Menningarlegir þjóðardýrlingar Evrópu. Samanburður á France Prešeren og Hans Christian Andersen". Hún byggir á rannsóknum sem ég vann í síðasta rannsóknarleyfi mínu í Kaupmannahöfn og Ljúblíana en á liðnu ári birti ég einnig tvær greinar á ensku um þetta sama efni, auk þess að taka þátt í málstofu um þjóðardýrlinga í Skopje og Ohrid í Makadóníu. Í niðurstöðum íslensku greinarinnar segir meðal annars: "Þegar hugað er að félagslegu hlutverki þjóðardýrlinga innan þjóðríkisins liggur beint við að bera það saman við þau örlög sem textar og listaverk þessara sömu manna hafa fengið í neyslusamfélagi nútímans. Líkt og Itamar Even-Zohar hefur bent á eru þessi verk sjaldnast skynjuð og skilin í heild sinni eða í sögulegu samhengi; þegar þau hafa orðið hluti af hinu svonefnda hefðarveldi (e. canon) er þeim gjarnan dreift til almennings í bútum. Styttan af hafmeyjunni og þjóðsöngur Slóveníu, þar sem aðeins eru sungin valin erindi úr ljóði Prešerens, eru dæmi um þetta en það mætti líka nefna að vasaútgáfur af hafmeyjunni eru afar vinsæll minjagripur í Danmörku. Með hliðstæðum hætti er stór ljósmynd af líkneski slóvenska skáldsins á Prešerenstorgi algeng skreyting á gosdrykkjakælum sem standa við hlið söluturna í Ljúblíana og víðar um Slóveníu."
"The Role of Cultural Saints in European Nation States" er titill á stuttri grein sem ég hef nýlega birt í afmælisriti ísraelska fræðimannsins Itamars Even-Zohar. Ritið ber titilinn Culture Contacts and the Making of Cultures, ritstjórar þess eru þau Rakefet Sela-Sheffy og Gideon Toury og útgefandi er Rannsóknarstofa í menningarfræðum við háskólann í Tel Aviv. Even-Zohar er hve þekktastur fyrir kenningar sínar um bókmenntir sem fjölþætt kerfi (polysystem) en skrif hans um stöðu þýddra bókmennta innan bókmenntakerfisins hafa haft afar mikil áhrif á alþjóðavettvangi. Á síðari árum hafa rannsóknir hans í auknum mæli beinst að hlutverki menningar í mótun þjóðríkja og því hvernig smáríkjum og smærri menningarheildum gengur að fóta sig frá einu tímabili til annars. Öll skrif Even-Zohars eru aðgengileg á heimasíðu hans.
"Samhengi valdsins" er titillinn á pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs, sem ég hef skrifað. Þar er fjallað um tvær nýútkomnar bækur, Þræðir valdsins eftir Jóhann Hauksson og Samhengi hlutanna eftir Sigrúnu Davíðsdóttur. Bæði eru þau Jóhann og Sigrún þrautreyndir blaðamenn sem hafa hlotið lof og viðurkenningar fyrir umfjöllun sína um hrun íslenska bankakerfisins og afleiðingar þess en í bókum sínum fara þau gjörólíkar leiðir að þessu sama efni. Jóhann nýtir sér bakgrunn sinn sem félagsfræðingur til að greina siðrofið í íslensku viðskiptalífi og stjórnmálum á meðan Sigrún endurskrifar Rannsóknarskýrslu Alþingis og beitta útvarpspistla sína um íslenska "útrásarævintýrið" á formi spennusögu í anda Stiegs Larsson.
Í dag birtist á Vísindavefnum stutt yfirlitsgrein eftir mig um Georg Brandes og áhrif hans á norrænar bókmenntir. Í greininni er meðal annars vakin athygli á því að íslensku skáldin Jón Ólafsson, Gestur Pálsson og Hannes Hafstein þýddu allir skrif eftir Brandes um og eftir 1880, auk þess sem Hannes Hafstein skrifaði merka grein um þennan danska bókmenntagagnrýnanda sem birtist í Heimdalli 1883. Í lok greinarinnar er heimildaskrá með hlekkjum á þessar greinar sem eru aðgengilegar á hinum ómetanlega heimildavef Landsbókasafnsins, timarit.is.