Hver kannast við skáldsögurnar La Spirale eftir Gustave Flaubert, Pilgrim on the Hill eftir Philip K. Dick og Sanditon eftir Jane Austen? Eða er einhver sem hefur séð uppfærslu á leikritunum Penelópa eftir Æskílos, Kókalos eftir Aristófanes og Love‘s Labour‘s Won eftir Shakespeare? Bók glötuðu bókanna. Ófullkomin saga allra snilldarverkanna sem þú munt aldrei lesa (The Book of Lost Books. An incomplete history of all the great books you‘ll never read) er titillinn á riti sem skoski ritstjórinn og bókmenntagagnrýnandinn Stuart Kelly sendi frá sér árið 2005 en kom út í endurskoðaðri útgáfu á liðnu ári. Um hana fjalla ég í stuttum pistli sem nýlega birtist á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs HÍ.
Ferðafélagar“ er heiti á fyrirlestraröð Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands og Gljúfrasteins í vetur. Ég ríð á vaðið sunnudaginn 2. október með erindi sem nefnist „Skáldsagan Jón eftir Ernest Hemingway. Þýðingarvandi Stefáns Bjarmans og Halldórs Laxness“. Á fimmta áratug liðinnar aldar tók Stefán Bjarman að sér að þýða skáldsögu Hemingways, For Whom the Bell Tolls, fyrir bókaforlagið Helgafell. Stefán lenti í miklum hremmingum við það verkefni og átti meðal annars í harðvítugum deilum við útgefanda verksins, Ragnar Jónsson í Smára, um hver íslenski titillinn skyldi vera. Einn ljósasti punkturinn í þýðingarvinnunni var hins vegar þegar Halldór Laxness hitti Stefán og bauðst til að lesa yfir uppkast að þýðingunni. Í fyrirlestri mínum rifja ég upp þessa sögu og velti vöngum yfir því hvað hún og fleiri frásagnir af Halldóri, sem einnig tengjast þýðingum, geta sagt okkur um skáldið á Gljúfrasteini og samtíma þess. PS. Hluti af þessum fyrirlestri er nú aðgengilegur á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.Ferðafélagar“ er heiti á fyrirlestraröð Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands og Gljúfrasteins í vetur. Ég ríð á vaðið sunnudaginn 2. október með erindi sem nefnist „Skáldsagan Jón eftir Ernest Hemingway. Þýðingarvandi Stefáns Bjarmans og Halldórs Laxness“. Á fimmta áratug liðinnar aldar tók Stefán Bjarman að sér að þýða skáldsögu Hemingways, For Whom the Bell Tolls, fyrir bókaforlagið Helgafell. Stefán lenti í miklum hremmingum við það verkefni og átti meðal annars í harðvítugum deilum við útgefanda verksins, Ragnar Jónsson í Smára, um hver íslenski titillinn skyldi vera. Einn ljósasti punkturinn í þýðingarvinnunni var hins vegar þegar Halldór Laxness hitti Stefán og bauðst til að lesa yfir uppkast að þýðingunni. Í fyrirlestri mínum rifja ég upp þessa sögu og velti vöngum yfir því hvað hún og fleiri frásagnir af Halldóri, sem einnig tengjast þýðingum, geta sagt okkur um skáldið á Gljúfrasteini og samtíma þess.
"Relics and Rituals: The Canonization of Cultural "Saints" from a Social Perspective," er titill á grein sem ég hef nýverið birt í slóvenska tímaritinu Primerjalna književnost (Samanburðarbókmenntir). Í greininni fjalla ég um félagslegt hlutverk þjóðardýrlinga í ljósi á helgifestu þriggja 19. aldar skálda; slóvenska ljóðskáldsins France Prešeren, danska ævintýraskáldsins Hans Christian Andersen og loks Jónasar Hallgrímssonar. Samanburður á arfleifð þeirra þriggja leiðir meðal annars í ljós and Andersen hefur athyglisverða sérstöðu gagnvart þeim Prešeren og Jónasi sem markast meðal annars af því að Danir háðu ekki sjálfstæðisbaráttu á 19. og 20. öld, ólíkt Slóvenum og Íslendingum. Dagana 1-.3. september næstkomandi kynni ég þær rannsóknir sem hér um ræðir á ráðstefnunni Literary Dislocations sem evrópsk samtök samanburðarbókmenntafræðinga standa fyrir í borgunum Skopje og Ohrid í Makedóníu, en á ráðstefnunni verður sérstök málstofa helguð evrópskum þjóðardýrlingum.
Í nýju hefti af Andvara birti ég grein undir titlinum "Manngangur sjálfstæðisbaráttunnar" þar sem rakið er hvernig líkneski Jóns Sigurðssonar rataði á Austurvöll. Í upphafi greinarinnar er vitnað í nýlega skáldsögu Kára Tuliniusar, Píslarvottar án hæfileika, þar sem segir frá fimm reykvískum ungmennum sem dreymir um að skipuleggja hryðjuverk en eiga í nokkru basli með að finna sér málstað sem þau geta trúað á og barist fyrir. Í síðari hluta sögunnar, sem gerist í nóvembermánuði 2008, sitja tvö þessara ungmenna, Sóli og Lilja, á bekk undir styttunni af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og ræða um styttur bæjarins og táknrænt gildi þeirra. Sóli saknar líkneskis af Jóni Arasyni, eina „Íslendingnum sem beitti vopnum gegn Dönum“. ‘Listaskáldið góða’ er hins helsta átrúnaðargoð Lilju og ef hún mætti ráða hefðu líkneski þeirra Jóns Sigurðssonar, sem stendur á miðjum Austurvelli, umsvifalaus vistaskipti. Hún segir meðal annars: "Af hverju heldurðu að Jónas sé hafður hérna í felum í rjóðri í Hljómskálagarðinum meðan dauðyfli eins og Jón Sigurðs stendur fyrir framan Alþingi? Ég meina það, gaurnum datt ekkert betra í hug til að vekja athygli á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en að senda danska ríkinu gíróseðil eins og einhver helvítis þjóðarbúðarloka. Hann er mest sorrí sjálfstæðishetja í öllum heiminum.“ Í augum stúlkunnar er Jón táknmynd þess úrkynjaða valds sem hún og félagar hennar vilja gera uppreisn gegn – „vælukjói og konungssleikja, hetja búrókrata og endurskoðenda“. Jónas er aftur á móti táknmynd sjálfs uppreisnarandans, enda þykist hún viss um að ef hann hefði „verið lifandi og á Þjóðfundinum hefði hann pottþétt farið út í beinar aðgerðir“. Í Andvaragreininni kemur skýrt fram að margháttaðar hugmyndir voru á lofti um staðsetningu þeirra Jónasar og Jóns í borgarmyndinni á sínum tíma og að það er engan veginn sjálfgefið að þeir skuli vera nú þar sem þeir eru.Í nýju hefti af Andvara birti ég grein undir titlinum "Manngangur sjálfstæðisbaráttunnar" þar sem rakið er hvernig líkneski Jóns Sigurðssonar rataði á Austurvöll. Í upphafi greinarinnar er vitnað í nýlega skáldsögu Kára Tuliniusar, Píslarvottar án hæfileika, þar sem segir frá fimm reykvískum ungmennum sem dreymir um að skipuleggja hryðjuverk en eiga í nokkru basli með að finna sér málstað sem þau geta trúað á og barist fyrir. Í síðari hluta sögunnar, sem gerist í nóvembermánuði 2008, sitja tvö þessara ungmenna, Sóli og Lilja, á bekk undir styttunni af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og ræða um styttur bæjarins og táknrænt gildi þeirra. Sóli saknar líkneskis af Jóni Arasyni, eina „Íslendingnum sem beitti vopnum gegn Dönum“. ‘Listaskáldið góða’ er hins helsta átrúnaðargoð Lilju og ef hún mætti ráða hefðu líkneski þeirra Jóns Sigurðssonar, sem stendur á miðjum Austurvelli, umsvifalaus vistaskipti. Hún segir meðal annars: "Af hverju heldurðu að Jónas sé hafður hérna í felum í rjóðri í Hljómskálagarðinum meðan dauðyfli eins og Jón Sigurðs stendur fyrir framan Alþingi? Ég meina það, gaurnum datt ekkert betra í hug til að vekja athygli á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en að senda danska ríkinu gíróseðil eins og einhver helvítis þjóðarbúðarloka. Hann er mest sorrí sjálfstæðishetja í öllum heiminum.“ Í augum stúlkunnar er Jón táknmynd þess úrkynjaða valds sem hún og félagar hennar vilja gera uppreisn gegn – „vælukjói og konungssleikja, hetja búrókrata og endurskoðenda“. Jónas er aftur á móti táknmynd sjálfs uppreisnarandans, enda þykist hún viss um að ef hann hefði „verið lifandi og á Þjóðfundinum hefði hann pottþétt farið út í beinar aðgerðir“. Í Andvaragreininni kemur skýrt fram að margháttaðar hugmyndir voru á lofti staðsetning þeirra Jónasar og Jóns í borgarmyndinni á sínum tíma og að það er engan veginn sjálfgefið að þeir skuli vera nú þar sem þeir eru.
Í liðinni viku birti ég greinina "Hvar á blessuð vatnskerlingin heima?" á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Í greininni taldi ég óráð af borgaryfirvöldum að flytja listaverkið Vatnsberann eftir Ásmund Sveinsson, ofan úr Öskjuhlíð niður í Austurstræti, eins og Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hafði gert að tillögu sinni. Síðastliðinn fimmtudag samþykkti borgarráð að flytja listaverkið niður í miðbæ en í stað þess að staðsetja það í Austurstræti var ákveðið að setja það upp á horni Bankastrætis og Lækjargötu, svo að segja á þeim stað sem upphaflega var ætlaður undir þetta verk árið 1949. Það verður að segjast eins og er að sú staðsetning er heldur skárri en Austurstrætið, enda þótt óljóst sé hvort þessi síðbúni hreppaflutningur hefði verið listamanninum að skapi.
Í nýútkominni grein í vorhefti Skírnis 2011, ""Þú talar eins og bók, drengur": Tilraun um meðvitaðan skáldskap", fjalla ég um leikritið Uppstigningu eftir Sigurð Nordal en það var fyrst sett á svið í Iðnó haustið 1945. Í niðurlagi greinarinnar segir meðal annars:
"Árni Ibsen fullyrðir í fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu að þótt Uppstigning sé ekki gallalaust leikrit – honum þykir verkið fulllangt enda sé hugmyndaheimur þess flókinn – marki höfundur þess „upphaf samtíma okkar“. Hægt er að taka undir þau orð með því að benda á að mörg þeirra einkenna meðvitaðra skáldverka sem hér hafa verið til umræðu hafa gjarnan verið kennd við móderníska eða jafnvel póstmóderníska fagurfræði. Í þessu sambandi má vísa til umfjöllunar Ástráðs Eysteinssonar um samband þessara tveggja hugtaka í greininni „Hvað er póstmódernismi?“ Hann ræðir þar þá hugmynd bandaríska rithöfundarins Johns Barth að „póstmódernistar „samhæfi“ raunsæi og módernisma. Þeir dragi lærdóm af hvorumtveggju en hefji sig um leið upp yfir þær andstæður sem ríkt hafi á milli þessara bókmenntastrauma.“ Ástráður hefur efasemdir um slíkar hugmyndir, honum þykir sem þær beri „of mikinn keim af einingu og lausn“, eins og vel sjáist í riti Lindu Hutcheon Fagurfræði póstmódernismans (A Poetics of Postmodernism, 1988):
"Að hennar mati felst póstmódernismi í því að innleiða sögulegar hefðir á svið verksins en grafa þar jafnóðum undan þeim; sýna hvernig þær virki sem skýring á veruleikanum en sýna um leið að þær standist ekki. Póstmódernisminn tekur hverskonar mótsagnir í þjónustu sína og leikur sér að þeim; hann er alltaf bæði og. Módernismi og realismi eru þar ljúfir leikbræður og hafa gengið upp í einn samnefnara.“
Í framhaldi veltir Ástráður fyrir sér að hve miklu leyti sé í raun um að ræða póstmódernískan leshátt sem hægt er að beita á ólík verk frá ólíkum tímum bókmenntasögunnar sem innlimi með einhverjum hætti andstæð fagurfræðileg viðmið eða brúi bilið milli hámenningar og lágmenningar. Í síðarnefnda tilvikinu þurfi „samhæfðu“ verkin reyndar að skilja sig frá klisjunum með innbyggðri „sjálfsvitund sem ber lesanda þau boð að verið sé að stæla hefðbundin form og honum gefist kostur á að taka þátt í þeim leik. Oft leiðir þetta til þess að verkið tekur eigin merkingargrundvöll til athugunar, viðurkenni jafnvel opinskátt að það sé skáldskapur.“ Nordal leiðir vissulega saman hefðir raunsæisins og framúrstefnu í leikriti sínu, leikur sér að þeim og grefur undan þeim jafnóðum en af viðbrögðum sumra gagnrýnenda að dæma virðist eitthvað vanta upp samhæfinguna. Ólíkar uppfærslur verksins virðast vega salt á milli þess að vera bæði og eða hvorki né."
Þjóðhetjan og þjóðríkið er yfirskrift ráðstefnu sem Háskóli Íslands stendur fyrir föstudaginn 27. maí nk. í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Ég hyggst flytja þar erindi um skipulagningu og dagskrá hátíðarhaldanna sem efnt var til í Danmörku í tilefni af 200 ára afmæli H.C. Andersen en þau voru á margan hátt umdeild, ekki síst miklir tónleikar í Kaupmannhöfn þar sem bandaríska söngkonan Tina Turner steig á stokk. Erindið nefni ég "Hver fær að blása á kertin?" Ráðstefnan um þjóðhetjuna og þjóðríkið fer fram í hátíðarsalnum í aðalbyggingu Háskóla Íslands og stendur frá kl. 13.00-16.30. (PS. Nú er hægt er sjá upptökur frá ráðstefnunni á myndbandsvef Háskóla Íslands).
Smásaga Svövu Jakobsdóttur, ,,Saga handa börnum”, var meðal lesefnis á námskeiðinu Íslenskar bókmenntir síðari alda sem ég kenndi nemendum á þriðja ári í Íslensku sem annað mál á þessu vori. Við undirbúning kennslunnar rakst ég á athyglisverða umræðu um söguna á lesendasíðu dagblaðsins Vísis frá kvennaárinu 1975 en þar var meðal annars deilt um heilaleysi aðalpersónu sögunnar og meint fattleysi lesenda hennar. Einn málshefjenda sagði af þessu tilefni: "Mér þótti sagan ljót — ég vil segja viðbjóður. Ég held þó, að ég sé ekki það sljó(r), að ég skilji ekki til fullnustu, hvert verið er að fara.“ Hægt er að fræðast nánar um þessi skoðanaskipti í nýjum pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.
Stytturnar í miðbæ Reykjavíkur eru viðfangsefni mitt í ríflega hálftíma löngum veffyrirlestri sem aðgengilegur er á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Þar er rakið hvernig líkneski af nafngreindum einstaklingum röðuðust upp í höfuðstaðnum á árabilinu 1875 til 1975 en megináhersla er lögð á þær breytingar sem voru gerðar á skipulagi þeirra árið 1931. Fyrirlesturinn var upphaflega fluttur á málþingi um framtíð Jóns Sigurðssonar sem Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stóð fyrir í september á liðnu ári.
Að morgni 16. nóvember 1907, þegar menn hugðust draga upp blá-hvíta fána í tilefni af aldarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, komust þeir að því að búið var að skera á bönd fjölmargra fánastanga í miðbæ Reykjavíkur. Í fyrirlestrinum "Dularfulla fánastangamálið. Átökin í kringum aldarminningu Jónasar Hallgrímssonar", sem ég flyt á síðara Hugvísindaþingi 26. mars, verður þessi dularfulli „glæpur“ tekinn til rannsóknar og tengdur afhjúpun á styttu Jónasar síðar þennan sama dag, sem og flokkadráttum í íslenskum stjórnmálum á fyrstu árum heimastjórnarinnar. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu um Menningarsagnfræði í stofu 52 í kjallara Aðalbyggingar Háskóla Íslands sem hefst kl. 15.00.