Category: Uncategorized

Nordal, Brecht og Pirandello

Jón Karl Helgason, 10/03/2011

Haustið 1945 frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur leikritið Uppstigningu eftir H.H. en þeir upphafstafir vísuðu til einnar aukapersónu verksins, Hæstvirts höfundar. Í lok sýningartímans kom á daginn að á bak við þetta dulnefni stóð Sigurður Nordal (1886-1974), prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Í fyrirlestrinum "„Þú talar eins og bók“. Pirandello, Brecht og Nordal" sem ég flyt á fyrra Hugvísindaþingi föstudaginn 11. mars ætla ég að setja verk Nordals í samband við fagurfræði leikritahöfundanna Luigis Pirandello (1867-1936) og Bertold Brecht (1898-1956) og kenningar bandaríska bókmenntafræðingsins Brians Stonehill um meðvituð skáldverk (e. self-conscious fiction). Fyrirlesturinn hefst klukkan 13.35, í stofu 225 í aðalbyggingu Háskólans.

Hvað er asesúlfam-K?

Jón Karl Helgason, 25/02/2011

Geisladiskurinn Búum til börn með hljómsveitinni Moses Hightower er tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir framúrskarandi textasmíði. Af því tilefni birti ég á Hugrás, nýju vefriti Hugvísindasviðs, greinina Hvað er asesúlfam-K? um samband textasmiða hljómsveitarinnar, þeirra Andra Ólafssonar og Steingríms Karls Teague, við íslenska tungu. Niðurstaða þessa alvörulausa ritdóms er í stuttu máli sú að þeir félagar séu skínandi dægurlagaskáld enda eru textarnir þeirra löðrandi í dásamlega einlægri sjálfsíróníu.

Ritstuldur í íslenskum skáldskap

Jón Karl Helgason, 21/02/2011

"Translating, Rewriting, Plagiarizing: Crisis of Authorship in Contemporary Icelandic Literature" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnunni Writing (in the) crisis: on the situation of Icelandic contemporary literature sem Háskólinn í Basel í Sviss stendur fyrir 3. til 5. mars næstkomandi. Í fyrirlestrinum hyggst ég ræða hvernig íslenskir höfundar á borð við Braga Ólafsson, Eirík Guðmundsson, Einar Kárason, Hermann Stefánsson, Stefán Mána og Sjón hafa á liðnum árum fengist við spurningar um höfundarskap, frumleika, ritstuld og endurritun í sumum skáldsagna sinna. Í nokkrum tilvikum er vísað með beinum hætti til umdeilanlegrar heimildanotkunar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness sem út kom árið 2003 en fróðlegt er að velta fyrir sér hvort einhver tengsl séu á milli ritstuldar og íslenska bankahrunsins.

Miðnætursólborgarstjórinn

Jón Karl Helgason, 31/01/2011

Jón Gnarr, leiðtogi Besta flokksins, á að baki fjölbreyttan feril sem skemmtikraftur, leikari og rithöfundur. Í tilefni af núverandi starfsskyldum Jóns sem borgarstjóri hef ég skrifað stutta grein, Miðnætursólborgarstjórinn, um eina af fyrstu bókum hans, skáldsöguna Miðnætursólborgin, en þar er dregin upp martaðarkennda mynd af Reykjavík framtíðarinnar. Greinin birtist á Hugrás, nýju vefriti Hugvísindasviðs.

Trúarleg minni í Vikivaka

Jón Karl Helgason, 13/12/2010

"Dómsdagsmynd Gunnars Gunnarssonar," er titill greinar sem ég birti í nýútkomnu hausthefti Andvara 2010 en í henni er fjallað um trúarleg og persónuleg minni í skáldsögunni Vikivaka. Greinin er eins konar viðauki við grein sem ég birti Skírni vorið 2008 um Vikivaka sem sögusögn (e. metafiction) en að þessu sinni beinist athyglin að því hvernig höfundur vinnur með tvö þekkt bíblíutákn, lúðrana sem boða komu dómsdags og Jakobsstigann sem liggur frá jörðu himins. Sérstakri athygli er beint að vestrænum og austrænum dómsdagsmyndum en í niðurlagi er drepið á tengsl skáldsögunnar við ævi Gunnars sjálfs.

Sögusagnir og Snorra-Edda

Jón Karl Helgason, 26/11/2010

"Sögusagnir: Sjónarhorn á íslenskar miðaldabókmenntir"  er titillinn á fyrirlestri sem ég flyt á málþinginu Staðlausir stafir í hátíðarsal Háskóla Íslands 4. desember næstkomandi. Málþing er haldið af Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum til heiðurs Helgu Kress, prófessors emeritus. Í fyrirlestrinum hyggst ég ræða um að hve miklu marki íslenskar miðaldabókmenntir fjalla um tungumálið, sína eigin tilurð, skáldskaparfræði og viðtökur. Sótt verður í skrif Helgu og Laurence de Looze um efnið, auk þess sem sérstakri athygli verður beint að Eddu Snorra Sturlusonar.

Minni, gleymska og norðurslóðir

Jón Karl Helgason, 16/11/2010

Minni og gleymska á Norður Atlantshafi (Memory and Forgetting in the North Atlantic) er yfirskrift vinnustofu fyrir doktorsnema sem Deildir menningar- og listfræði við Kaupmannahafnarháskóla og Deild evrópskrar menningarfræða við Háskólann í Hróarskeldu standa fyrir 23. nóvember næstkomandi. Meðal fyrirlesara þennan dag eru Joep Leerssen, Marianna Ping Huang, Kim Simonsen og við Sumarliði Ísleifsson. Fyrirlestur minn fjallar um samfélagslegt hlutverk þjóðardýrlinga. Að minnsta kosti tveir framhaldsnemendur við Íslensku- og menningardeild verða meðal þátttakenda og munu þeir kynna rannsóknarverkefni sín með veggspjöldum.

Kapphlaupið milli Bjarna og Jónasar

Jón Karl Helgason, 04/11/2010

"Bjarni eða Jónas? Kanónísering þjóðskálds á 19. öld," er titillinn á erindi sem ég flyt á Jónasarvöku í Þjóðmenningarhúsinu 16. nóvember kl. 17.15. Hugmyndin er kanna þann núning sem var á milli aðdáenda Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar á árabilinu 1880-1900 um það hvor ætti frekar skilið að bera lárviðarsveig þjóðskáldsins. Bogi Melsteð hélt minningu Bjarna mjög á lofti og gerði honum hátt undir höfði í Sýnisbók íslenskra bókmennta á 19. öld sem út kom 1891. Bogi sat ennfremur í nefnd um gerð minnisvarða um skáldið en fjársöfnun vegna hans virðist ekki hafa gengið sem skyldi. Svo fór að Jónas skaut Bjarna ref fyrir rass, meðal annars fyrir atbeina manna eins og Hannesar Hafstein. Því er það að Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember, fæðingardagur Jónsar, en ekki 30. desember, fæðingardagur Bjarna.

M.A. ritgerðir Ástu Kristínar og Ernu

Jón Karl Helgason, 11/10/2010

Þær Ásta Kristín Benediktsdóttir og Erna Erlingsdóttir hafa á þessu ári lokið við M.A. ritgerðir í íslenskum bókmenntum undir minni leiðsögn. Í ritgerðinni ""Form og stíll örðugt viðfangs." Frásagnaraðferð í verkum Jakobínu Sigurðardóttur" færir Ásta Kristín veigamikil rök fyrir því að Jakobína eigi skilið að vera talin einn af formbyltingarhöfundum íslenskrar sagnagerðar. Ritgerð Ernu ber titilinn "Skáldskapur og stjórnmál: Íslenskt bókmenntasvið um miðja 20. öld". Þar eru kenningar franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu lagðar til grundvallar greiningu á útgáfustarfi íslenskra sósíalista, deilum um úthlutun rithöfundalauna, klofningi í félagsskap íslenskra rithöfunda og stofnun Almenna bókafélagsins.  Efni þessara athyglisverðu ritgerða mun vonandi birtast á opinberum vettvangi á næstu misserum.

Kennsluvika í Feneyjum

Jón Karl Helgason, 01/10/2010

Vikuna 3. til 9. október 2010 verð ég gestakennari við málvísindadeild Università Ca' Foscari í Feneyjum, og flyt þar meðal annars fyrirlestra um bókmenntalega meðvitund í íslenskum miðaldabókmenntum og um viðtökur Íslendingasagna í Evrópu á 19. og 20. öld. Þá mun ég taka þátt í vinnustofu sem helguð er fjölkerfiskenningum (polysystem-theory) ísraelska fræðimannsins Itamar Even-Zohars en hann verður þar meðal þátttakenda. Ferðin er styrkt af Erasmus-áætlun Evrópusambandsins.