Sunnudaginn 12. september næstkomandi verð ég meðal fyrirlesara á málþingi sem Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stendur fyrir. Þingið ber yfirskriftina "Framtíð Jóns Sigurðssonar - Karlar á stalli og ímyndasköpun" og er efnt til þess í tilefni af væntanlegu stórafmæli Jóns forseta á næsta ári. Aðrir fyrirlesarar eru Sigurður Gylfi Magnússon, Páll Björnsson og Guðmundur Hálfdanarson. Ég hyggst fjalla um líkneski Jóns forseta sem stendur á Austurvelli gegnt Alþingishúsinu en upprunalega hugmyndin var að koma því fyrir framan við Safnahúsið við Hverfisgötu. Saga þess tengist einnig styttum af Bertel Thorvaldsen, Jónasi Hallgrímssyni, Kristjáni IX og Hannesi Hafstein sem settir voru á stall í höfuðstaðnum á árabilinu 1875 til 1931. Þess má geta að kynning á málþinginu á Skagaströnd á eyjunni.is hefur vakið töluverða athygli og umræður. Þingið fer fram í Bjarmanesi á Skagaströnd, það stendur frá kl. 13.00 til 16.00 og er öllum opið.
Þessa dagana er ég að ganga frá fræðigrein til prentunar um skáldsöguna Turnleikhúsið (1979) eftir Thor Vilhjálmsson. Greinin mun birtast í næsta hefti Ritsins, tímariti Hugvísindastofnunnar, seinna á þessu ári. Söguna greini ég meðal annars með hliðsjón af skrifum Umbertos Eco um völundarhús, hugmyndum Italo Calvino um veruleikasvið og umfjöllun Brians McHale um tálsýnir (trompe l'oeil). Þess má geta að margar þeirra fagurfræðilegu hugmynda sem Thor vinnur með ganga aftur í kvikmynd Christophers Nolan, Inception, sem notið hefur gríðarlegra vinsælda í kvikmyndahúsum síðustu daga. Sögusvið Turnleikhússins minnir á Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu en reynist vera afar draumkennd útgáfa byggingarinnar þar sem víddirnar þrjár eru í uppnámi og ítrekað gefið til kynna að lesandinn sé staddur í heimi innan heims innan heims. Í sögu Thors, rétt eins og kvikmynd Nolans, má ennfremur finna viss tengsl við hugarheim hollenska teiknarans M.C. Eschers (1898-1972), til dæmis myndirnar Afstæði og Upp á við og niður á við. Ég fjalla nánar um þetta efni í stuttum pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.
Árið 1906 komu út á íslensku fjórar þýðingar Jónasar Hallgrímssonar á áður óþekktum ævintýrum eftir danska skáldið Hans Christian Andersen. Einu þessara ævintýra fylgdi danskur frumtexti og í sömu útgáfu mátti einnig finna áður óbirta smásögu eftir Jónas sjálfan. Allir höfðu þessir textar orðið til í framhaldi af ósjálfráðri skrift sautján ára menntaskólapilts, Guðmundar Jónssonar, síðar Kamban. Ég hyggst fjalla um þessar þýðingar á ráðstefnunni Translation, History, Literary Culture. Nordic Perspectives sem Bókmennta- og listfræðastofnun stendur fyrir í Háskóla Íslands 25.-26. júní næstkomandi.
Dagana 20. maí til 10. júní 2010 nýt ég starfsaðstöðu við Rannsóknarstofnun slóvenskra bókmennta og bókmenntafræða vegna sameiginlegs rannsóknarverkefnis hennar og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands sem fengið hefur heitið Cultural Saints of the European Nation States. Í fyrsta áfanga beinast rannsóknirnar að Jónasi Hallgrímssyni (1807-1845) og slóvenska skáldinu France Prešeren (1800-1849) en þeir eiga ýmislegt sameiginlegt, bæði sem skáld og þjóðardýrlingar. Slóvensku fræðimennirnir Marko Juvan og Marijan Dović heimsækja Ísland í tengslum við þetta verkefni en auk mín mun Sveinn Yngvi Egilsson dvelja í Ljúbljana á árinu. Í haust kennum við Sveinn Yngvi námskeið á M.A. stigi í íslensku sem nefnist Þjóðardýrlingar og verður Marko Juvan þar meðal fyrirlesara.