Meistaranemar vinna efni fyrir Hugrás og Sirkústjaldið

Jón Karl Helgason, 08/10/2014

hendur2"Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku" nefnist námskeið sem við Brynja Þorgeirsdóttir kennum á meistarastigi í Íslensku á þessu hausti. Þeir 25 nemendur sem skráðir eru í námskeiðið skila vikulega af sér einum texta (menningarfrétt, gagnrýni, viðtali, pistli) sem snertir menningarlíf samtímans. Nemendur lesa yfir efni hverjir hjá öðrum, þá les ég næstu gerð textana og loks ritstýrir Brynja því efni sem nemendur hafa hug á að birta á Hugrás. Sumt efni úr námskeiðinu hefur birst á menningarvefnum Sirkústjaldinu sem nemendur innan Íslensku- menningardeildar ritstýra sjálfir. Á síðustu vikum hafa hátt í 20 textar hópsins birst á Hugrás, þar á meðal fjölbreytt kvikmyndagagnrýni um myndir sem sýndar voru á RIFF. Þá hafa fjórir textar birst á Sirkústjaldinu, nú síðast pistill eftir Sigríði Nönnu Gunnarsdóttur, sem er meðal ritstjóra vefsins.

Valhalla, I am coming!

Jón Karl Helgason, 02/10/2014

immigrant"Valhalla I am coming!: Modern Mythifications of the Vikings" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnu sem Myth Study Group stendur fyrir í Háskóla Íslands fimmtudaginn 2. október. Þar hyggst ég ræða um svonefnt vikinga metal rokk sem sækir sér að nokkru leyti innblástur í norræna goðafræði. Sjónum verður einkum beint að textagerð valinna víkinga-metal-hljómsveita. Það lítur út fyrir að rætur hennar liggi hjá bresku rokksveitinni Led Zeppelin og tengist lagin "Immigrant Song" sem varð til í framhaldi af Íslandsheimsókn hennar fyrir hálfum fimmta áratug. Málstofan sem ég tek þátt í verður í stofu 220 í aðalbyggingu HÍ og hefst kl. 14.00.

Art in Translation: Marvel og Madsen

Jón Karl Helgason, 15/09/2014

Ráðstevalhallafna Art in Translation verður haldin í Norræna húsinu 18. - 20. september með þátttöku fjölda erlendra og innlendra gesta. Dagskrá ráðstefnunnar er afar fjölbreytt. Þar ber hæst fyrirlestur Amy Tan að kvöldi föstudagsins 19. september kl. 20.00 en bandaríska skáldkonan mun þar ræða um líf sitt og skáldskap. Ég verð ásamt Mac an Breithiún og Olgu Holownia þátttakandi í málstofunni Graphic Representations á laugardagsmorgninum kl. 9.00-10.15 í Öskju, stofu 130.  Fyrirlestur minn nefnist "Comic Adaptations of the Eddas: Marvel’s The Mighty Thor and Madsen’s Valhalla-series".

Samband hugsunar og heims

Jón Karl Helgason, 14/09/2014

HugsunPSÞriðjudagskvöldið 16. september tek ég þátt í málþinginu Stjórnar hugsunin heiminum? sem fram fer í Hannesarholti í Þingholtunum. Tilefni málþingsins eru tvær bækur sem nýlega hafa komið út eftir Pál Skúlason fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Ríkið og rökvísi stjórnmála (2013) og Hugsunin stjórnar heiminum (2014). Sameiginlegt stef bókanna er að færa rök fyrir því hvers vegna við þurfum á heimspeki að halda. Á málþinginu mun Páll flytja ávarp um eðli og hlutverk heimspekinnar. Að því loknu munum við Hulda Þórisdóttir lektor fjalla um þetta sameiginlega stef bókanna og velta upp áhugaverðum spurningum í ljósi röksemda þeirra. Mun Hulda einkum beina athygli sinni að rökvísi stjórnmálanna en ég veltir fyrir sér sambandi hugsunar og heims, meðal annars í ljósi skrifa Páls um Derrida. Málþingið hefst kl. 20.00 og er öllum opið.

Atómstöðin og nútímalistir

Jón Karl Helgason, 23/07/2014

atomstationSumarsagan í Víðsjá á Rás 1 þessar vikurnar er Atómstöð Halldórs Laxness. Af því tilefni hafa umsjónarmenn þáttarins átt nokkuð viðtöl við bókmenntafræðinga um afmarkaða þætti sögunnar. Á síðustu vikum hafa samkennarar mínir við Íslensku- og menningardeild, prófessorarnir Bergljót Kristjánsdóttir og Ármann Jakobsson, meðal annars rætt um pólitíkina í sögunni og um persónuleika organistans. Í þessari viku átti Magnús Örn Sigurðsson síðan viðtal við mig um þá umræðu um nútímalistir sem finna má í skáldsögunni. Ég benti meðal annars á að hugmyndir Uglu um myndlist minna nokkuð á gagnrýni sem Laxness skrifaði um sýningu á myndum úr safni Markúsar Ívarssonar árið 1944. Einnig vakti ég athygli a tónverki eftir Roberto Gerhard sem Ugla hlutar á í húsi organistans. Fróðlegt er að velta fyrir sér að hve miklu marki þessi umræða geymir lykil að fagurfræði Atómstöðvarinnar og meintum tengslum hennar við veruleikann en það væri ekki síður forvitnilegt að skoða hvernig umræðan um íslenskan módernisma tekur á sig mynd í skáldverkum af ýmsum toga sem út koma á árunum 1945-1948, þar á meðal Uppstigningu Sigurðar Nordals, Eftir örstuttan leik Elíasar Marar, Gresjum guðdómsins eftir Jóhann Pétursson, Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, og Atómstöð HKL.

Íslenskar miðaldabókmenntir og japanskt manga

Jón Karl Helgason, 08/07/2014

vinlandsagaÁ liðnum áratugum hafa þó nokkrir japanskir teiknimyndahöfundar sótt sér innblástur til íslenskra miðaldabókmennta. Titlar á borð við Matantei Loki og Vínland saga hafa notið þar umtalsverðra vinsælda og haft mótandi áhrif á hugmyndir heimamanna um norræna goðafræði og menningarheim víkinganna. Þessa dagana er á dagskrá Ríkisútvarpsins Rás 1 tveggja þátta röð þar sem ég fjalla um þetta efni. Þættirnir byggja á viðtölum sem ég tók í Japan í nóvembermánuði en meðal viðmælenda minna þar var Makoto Yukimura, tæplega fertugur listamaður sem hóf að teikna Vínland sögu sína fyrir níu árum og er enn að. Hægt er að hlusta á fyrri þáttinn, sem var á dagskrá sunnudaginn 6. júlí, og á seinni þáttinn, sem var á dagskrá sunnudaginn 13. júlí, á vef Ríkisútvarpsins.

Hvernig er hægt að endurheimta miðaldir?

Jón Karl Helgason, 04/07/2014

treeceDagana 15.-20. júlí verður haldin í Háskóla Íslands alþjóðleg ráðstefna The New Chaucer Society. Um er að ræða viðburð sem skipulagður er annað hvert ár og hefur verið til skiptist í Bretlandi og í Bandaríkjunum en nú var ákveðið að fræðimenn hittust á miðri leið. Hingað til lands koma um 500 gestir en einnig tekur hópur Íslendinga þátt. Um það bil 400 fyrirlestrar eru á fjölbreyttri dagskrá þingsins. Ég verð meðal þeirra sem flytja erindi 17. júlí í málstofu sem ber titilinn Recovering the Middle Ages sem Tim W. Machan hefur haft veg og vanda af að skipuleggja. Þar hyggst ég ræða um nokkrar bækur breska barnabókahöfundarins Henry Treece sem byggja á íslenskum fornbókmenntum og bera þær saman við eldri verk eftir Allen French og J.R.R. Tolkien. Fyrirlesturinn nefni ég "Romantic Past and Barbarian Frenzy".

Nýjar þýðingar á verkum Sjóns

Jón Karl Helgason, 04/07/2014

wangNýlega barst mér í hendur kínversk þýðing Wang Shuhui á skáldsögunni Skugga-Baldri eftir Sjón. Shuhui er fyrrverandi nemandi okkar í Íslensku sem öðru máli við H.Í. og hefur á liðnum árum kennt íslensku við Háskóla erlendra fræða í Peking. Þetta er fyrsta bókmenntaþýðing hennar úr íslensku og vonandi ekki sú síðasta. Það vill svo til að annar nemandi í Íslensku sem öðru máli, Ana Stanićević, lauk nýlega við að þýða Mánastein eftir Sjón á serbnesku, auk þess að skrifa afar áhugaverðan inngang að verkinu. Um var að ræða B.A. verkefni sem ég leiðbeindi Önu með. Ekki er enn ljóst hvort eða hvenær þýðingin fæst útgefin í Serbíu en þess má geta að Skugga-Baldur kom þar út í þýðingu annars fyrrum nemenda okkar, Tatjönu Latinovic, fyrir tæpum áratug.

Grafskrift Íslendingaþátta

Jón Karl Helgason, 04/07/2014

armannÚt er komin í ritröðinni Studia Islandica bókin Íslendingaþættir. Saga hugmyndar eftir Ármann Jakobsson prófessor í íslensku. Ármann heldur því þar fram að Íslendingaþættir sem bókmenntagrein hafi í rauninni verið búnir til af mönnum sem ritstýrðu alþýðuútgáfum þáttanna í upphafi 20. aldar. Hann spáir því í lok bókar að vaxandi áhugi fræðimanna á upprunalegu samhengi þessara texta, m.a. í Morkinskinnu og Flateyjarbók, muni á næstu árum og áratugum leiða til þess "að þættir verða ekki lengur taldir til sérstakrar greinar eða undirgreinar miðaldabókmennta".  Bók Ármanns er sannarlega ætlað að leggja lóð á þá vogarskál. Ég kom að ritstjórn þessarar bókar fyrir hönd Bókmennta- og listfræðistofnunnar og vil nota tækifærið og óska Ármanni til hamingju með vekjandi og ögrandi bók.

Jónas og Snorri þýða H.C. Andersen

Jón Karl Helgason, 23/06/2014

NRÚt er komið í Noregi greinasafnið Nordic Responses. Translation, History, Literary Culture í ritstjórn Jakob Lothe, Ástráðs Eysteinssonar og Mats Jansson. Þarna er að finna tólf greinar um þýðingar, þar af fjórar sem snerta Ísland. Ein þeirra er grein eftir Ástráð um Hemingway á Íslandi, önnur er grein Hólmfríðar Garðarsdóttur um íslenskar þýðingar bókmennta frá Suð- og Mið-Ameríku, þriðja er grein Martins Ringmars um norrænar þýðingar á Sölku Völku og sú fjórða grein mín "Translation and Canonization: Posthumous Writings by Hans Christian Andersen and Jónas Hallgrímssonar". Viðfangsefni þar er ritið Úr dularheimum. Fimm ævintýri sem framkallaðist í gegnum ósjálfráða skrift Guðmundar Jónssonar (síðar Kamban) árið 1906. Eitt þessara fimm ævintýra er sagt vera eftir Jónas Hallgrímssonar en hin fjögur eru meintar þýðingar Jónasar (og í einu tilviki Jónasar og Snorra Sturlusonar) á ævintýrum sem H.C. Andersen ku hafa sett saman eftir andlát sitt.