Heimskringla wa dare ga kaita noka?

Jón Karl Helgason, 25/01/2015

snorri2

"Heimskringla wa dare ga kaita noka?: Sakuhin to Chosha/Bunsan Shippitsu-sha no Fukuzatsu na Kankei" er titill á japanskri þýðingu Tsukusu Jinn Ito á grein minni "Dreifður höfundarskapur Heimskringlu" sem nýlega birtist í fræðitímaritinu Balto-Scandia 31 (október 2014): 53-62. Í greininni vek ég athygli á því að textarnir sem saman mynda Heimskringlu eiga sér afar fjölbreytilegan uppruna og að erfitt er að meta hlutdeild Snorra Sturlusonar í hverjum texta fyrir sig. Útgáfa greinarinnar er einn af ávöxtum af heimsókn minni til Japan fyrir rúmi ári síðan en meðal markmiða hennar var að mynda tengsl við japanska fræðimenn sem sinna íslenskum fræðum.

Northern Myths, Modern Identities

Jón Karl Helgason, 20/11/2014

Adventure073p8Northern Myths, Modern Identities: The Nationalization of Mythologies in Northern Europe 1800-2014 er titill á viðamikilli alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður við Háskólann í Groningen í Hollandi dagana 27.-29. nóvember næstkomandi. Þar verða fluttir yfir 20 fyrirlestrar um gildi goðsagna og goðsögulegs hugsunarháttar fyrir þjóðríkjaþróun nútímans. Norræn goðafræði kemur þar töluvert við sögu. Meðal heiðursfyrirlesara eru Tom Shippey og Joep Leerssen. Ég er í hópi fjögurra fræðimanna sem koma frá Íslandi til að taka þátt í ráðstefnunni í Groningen en hinir eru Daisy L. Neijmann, Sumarliði Ísleifsson og Gylfi Gunnlaugsson. Líkt og í erindi mínu hjá Félagi þjóðfræðinga fyrr í mánuðinum hyggst ég ræða um birtingarmyndir Þórs í bandarískum teiknimyndum á árum síðari heimsstyrjaldar.

Þroskabraut Thors í bandarískum myndasögum

Jón Karl Helgason, 06/11/2014

sandman"Þroskabraut Thors í bandarískum myndasögum" er titill á fyrirlestri sem ég held á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í fundarsal Þjóðminjasafnsins á morgun, föstudaginn 6. nóvember kl. 12.00. Þar hyggst ég ræða um nokkrar lítt þekktar bandarískar myndasögur sem út komu á árunum 1940 til 1960 þar sem norræni þrumuguðinn var í aðalhlutverki. Ég hyggst færa rök fyrir því að þetta séu eiginlegir frumtextar fyrstu sögunnar um The Mighty Thor sem Marvel-fyrirtækið sendi frá sér árið 1962. Ps. Grein mín um þetta efni hefur nú birst í nýju hefti Tímarits Máls og menningar og ber þar titilinn "Æsilegasta ofturhetja allra tíma".

Spjallað við Kjarnann um styttur bæjarins

Jón Karl Helgason, 23/10/2014

vatnsberi"Engir falískir eirstöplar fyrir konur," er yfirskrift hljóðritaðs viðtals við mig sem birtist á Kjarnanum í þessari viku í viðtalsröðinni Þáttur um kúl hluti. Við Birgir Þór Harðarson hittumst á kaffihúsinu í Ráðhúsi Reykjavíkur og spjölluðum saman í tæpan hálftíma um stytturnar í Reykjavík, sögu þeirra og merkingu. Tilefnið var að einhverju leyti útgáfa bókar minnar Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga sem Sögufélagið gaf út fyrir rúmu ári síðan. Talið barst m.a. að styttunum af Jónasi Hallgrímssyni og Bertel Thorvaldsen en einnig að Vatnsbera Ásmundar Sveinssonar og Óþekkta embættismanninum eftir Magnús Tómasson.

Meistaranemar vinna efni fyrir Hugrás og Sirkústjaldið

Jón Karl Helgason, 08/10/2014

hendur2"Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku" nefnist námskeið sem við Brynja Þorgeirsdóttir kennum á meistarastigi í Íslensku á þessu hausti. Þeir 25 nemendur sem skráðir eru í námskeiðið skila vikulega af sér einum texta (menningarfrétt, gagnrýni, viðtali, pistli) sem snertir menningarlíf samtímans. Nemendur lesa yfir efni hverjir hjá öðrum, þá les ég næstu gerð textana og loks ritstýrir Brynja því efni sem nemendur hafa hug á að birta á Hugrás. Sumt efni úr námskeiðinu hefur birst á menningarvefnum Sirkústjaldinu sem nemendur innan Íslensku- menningardeildar ritstýra sjálfir. Á síðustu vikum hafa hátt í 20 textar hópsins birst á Hugrás, þar á meðal fjölbreytt kvikmyndagagnrýni um myndir sem sýndar voru á RIFF. Þá hafa fjórir textar birst á Sirkústjaldinu, nú síðast pistill eftir Sigríði Nönnu Gunnarsdóttur, sem er meðal ritstjóra vefsins.

Valhalla, I am coming!

Jón Karl Helgason, 02/10/2014

immigrant"Valhalla I am coming!: Modern Mythifications of the Vikings" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnu sem Myth Study Group stendur fyrir í Háskóla Íslands fimmtudaginn 2. október. Þar hyggst ég ræða um svonefnt vikinga metal rokk sem sækir sér að nokkru leyti innblástur í norræna goðafræði. Sjónum verður einkum beint að textagerð valinna víkinga-metal-hljómsveita. Það lítur út fyrir að rætur hennar liggi hjá bresku rokksveitinni Led Zeppelin og tengist lagin "Immigrant Song" sem varð til í framhaldi af Íslandsheimsókn hennar fyrir hálfum fimmta áratug. Málstofan sem ég tek þátt í verður í stofu 220 í aðalbyggingu HÍ og hefst kl. 14.00.

Art in Translation: Marvel og Madsen

Jón Karl Helgason, 15/09/2014

Ráðstevalhallafna Art in Translation verður haldin í Norræna húsinu 18. - 20. september með þátttöku fjölda erlendra og innlendra gesta. Dagskrá ráðstefnunnar er afar fjölbreytt. Þar ber hæst fyrirlestur Amy Tan að kvöldi föstudagsins 19. september kl. 20.00 en bandaríska skáldkonan mun þar ræða um líf sitt og skáldskap. Ég verð ásamt Mac an Breithiún og Olgu Holownia þátttakandi í málstofunni Graphic Representations á laugardagsmorgninum kl. 9.00-10.15 í Öskju, stofu 130.  Fyrirlestur minn nefnist "Comic Adaptations of the Eddas: Marvel’s The Mighty Thor and Madsen’s Valhalla-series".

Samband hugsunar og heims

Jón Karl Helgason, 14/09/2014

HugsunPSÞriðjudagskvöldið 16. september tek ég þátt í málþinginu Stjórnar hugsunin heiminum? sem fram fer í Hannesarholti í Þingholtunum. Tilefni málþingsins eru tvær bækur sem nýlega hafa komið út eftir Pál Skúlason fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Ríkið og rökvísi stjórnmála (2013) og Hugsunin stjórnar heiminum (2014). Sameiginlegt stef bókanna er að færa rök fyrir því hvers vegna við þurfum á heimspeki að halda. Á málþinginu mun Páll flytja ávarp um eðli og hlutverk heimspekinnar. Að því loknu munum við Hulda Þórisdóttir lektor fjalla um þetta sameiginlega stef bókanna og velta upp áhugaverðum spurningum í ljósi röksemda þeirra. Mun Hulda einkum beina athygli sinni að rökvísi stjórnmálanna en ég veltir fyrir sér sambandi hugsunar og heims, meðal annars í ljósi skrifa Páls um Derrida. Málþingið hefst kl. 20.00 og er öllum opið.

Atómstöðin og nútímalistir

Jón Karl Helgason, 23/07/2014

atomstationSumarsagan í Víðsjá á Rás 1 þessar vikurnar er Atómstöð Halldórs Laxness. Af því tilefni hafa umsjónarmenn þáttarins átt nokkuð viðtöl við bókmenntafræðinga um afmarkaða þætti sögunnar. Á síðustu vikum hafa samkennarar mínir við Íslensku- og menningardeild, prófessorarnir Bergljót Kristjánsdóttir og Ármann Jakobsson, meðal annars rætt um pólitíkina í sögunni og um persónuleika organistans. Í þessari viku átti Magnús Örn Sigurðsson síðan viðtal við mig um þá umræðu um nútímalistir sem finna má í skáldsögunni. Ég benti meðal annars á að hugmyndir Uglu um myndlist minna nokkuð á gagnrýni sem Laxness skrifaði um sýningu á myndum úr safni Markúsar Ívarssonar árið 1944. Einnig vakti ég athygli a tónverki eftir Roberto Gerhard sem Ugla hlutar á í húsi organistans. Fróðlegt er að velta fyrir sér að hve miklu marki þessi umræða geymir lykil að fagurfræði Atómstöðvarinnar og meintum tengslum hennar við veruleikann en það væri ekki síður forvitnilegt að skoða hvernig umræðan um íslenskan módernisma tekur á sig mynd í skáldverkum af ýmsum toga sem út koma á árunum 1945-1948, þar á meðal Uppstigningu Sigurðar Nordals, Eftir örstuttan leik Elíasar Marar, Gresjum guðdómsins eftir Jóhann Pétursson, Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, og Atómstöð HKL.

Íslenskar miðaldabókmenntir og japanskt manga

Jón Karl Helgason, 08/07/2014

vinlandsagaÁ liðnum áratugum hafa þó nokkrir japanskir teiknimyndahöfundar sótt sér innblástur til íslenskra miðaldabókmennta. Titlar á borð við Matantei Loki og Vínland saga hafa notið þar umtalsverðra vinsælda og haft mótandi áhrif á hugmyndir heimamanna um norræna goðafræði og menningarheim víkinganna. Þessa dagana er á dagskrá Ríkisútvarpsins Rás 1 tveggja þátta röð þar sem ég fjalla um þetta efni. Þættirnir byggja á viðtölum sem ég tók í Japan í nóvembermánuði en meðal viðmælenda minna þar var Makoto Yukimura, tæplega fertugur listamaður sem hóf að teikna Vínland sögu sína fyrir níu árum og er enn að. Hægt er að hlusta á fyrri þáttinn, sem var á dagskrá sunnudaginn 6. júlí, og á seinni þáttinn, sem var á dagskrá sunnudaginn 13. júlí, á vef Ríkisútvarpsins.