El paper dels sants culturals

Jón Karl Helgason, 22/06/2014

frombeyondNýlega birtist í katalónska menningartímaritinu L'Espill, sem gefið er út í Barcelona, greinin "El paper dels sants culturals". Um er að ræða þýðingu Jaume Subriana á grein minni "The Role of Cultural Saints in European Nation States“ sem birtist upphaflega árið 2011 í afmælisriti Itamars Even-Zohar. Subriana er prófessor við Opna háskólann í Katólóníu en einnig þekkt ljóðskáld. Eiga rannsóknir hans á katalónskum minningarmörkum og menningarsögu margt sameiginlegt með þeim rannsóknum sem við Marijan Dović höfum unnið að ásamt fleirum á menningarlegum þjóðardýrlingum Evrópu. Höfum við þremenningar uppi áform um frekara samstarf á þessu rannsóknarsviði á næstu misserum.

Hallgerður, Hjördís og Hedda á Hvollsvelli

Jón Karl Helgason, 04/04/2014

ibsenNjáls saga hefur orðið fjölmörgum leikskáldum innblástur en í flestum tilvikum er um að ræða aðlögun á afmörkuðum þáttum verksins. Er útkoman afar misjöfn að gæðum, líkt og ég hef rakið í bók minni Höfundar Njálu. Í fyrirlestri sem ég flyt á sögusetrinu á Hvollsvelli sunnudaginn 6. apríl hyggst ræða nokkur þeirra erlendu verka sem byggaja á sögunni, þeirra á meðal Víkingana frá Hálogalandi eftir Henrik Ibsen. Þar er að finna stolta kvenhetju, Hjördísi að nafni, sem líkist bæði Hallgerði langbrók og Guðrúnu Ósvífursdóttur og vísar jafnframt fram á veginn til Heddu Gabler. Fyrirlesturinn hefst kl. 17.00 og er öllum opinn.

Þjóðardýrlingatal á Ísafirði

Jón Karl Helgason, 26/03/2014

Ódáinsakurpetit3Föstudaginn 28. mars flyt ég erindi um þjóðardýrlinga á Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði. Erindið byggist öðrum þræði á bók minni Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga, sem út kom hjá Sögufélagi á liðnu hausti. Í fyrirlestrinum, sem ég nefni Þjóðardýrlingatal, hyggst ég gera samanburð á stöðu og hlutverki Jóns Sigurðssonar og Jónasar Hallgrímssonar sem þjóðardýrlinga og varpa ljósi á það hvernig mynd þeirra hefur verið endurgerð á frímerkjum, seðlum og í eir. Erindið hefst kl. 12.10 í kaffistofu Háskólaseturs við Suðurgötu 12.

Aðkomumenn, þjóðarvitund og minningar

Jón Karl Helgason, 14/02/2014

tyrkjaranAðkomumenn, þjóðarvitund og minningar er titill á málstofu sem við Þorsteinn Helgason, Sumarliði Ísleifsson og Kim Simonsen tökum þátt í á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 15. mars næstkomandi. Þorsteinn mun þar ræða um minningar Íslendinga um Tyrkjaránið, Sumarliði fjallar um fimm ferðalýsingar frá Íslandi frá því fyrir 1750 og Kim ræðir um áhrif erlendra ferðalýsinga á þróun færeyskrar þjóðarvitundar. Þess má geta að þeir Þorsteinn og Kim hafa nýlega lokið við glæsilegar doktorsrannsóknir sem fyrirlestrar þeirra byggja á og Sumarliði er að ljúka við doktorsritgerð sem tengist hans viðfangsefni á þinginu. Sjálfur mun ég taka til athugunar ferðabókina Norðan Vatnajökuls eftir danska listfræðinginn Paul Vad, sem kom út árið 1994, en þar segir af pílagrímsferð höfundar á slóðir Hrafnkels sögu. Málstofustjóri er Emily Lethbridge sem sjálf býr að einstakri reynslu sem pílagrímur á söguslóðum.

Tungumálanám og tölvutækni

Jón Karl Helgason, 07/02/2014

populusFöstudaginn 7. febrúar stendur Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis í samvinnu við Rannsóknarstofu í máltileinkun fyrir málstofu um notkun tölvutækni við tungumálanám. Meðal þeirra sem þar taka til máls eru Tuija Lehtonen og Juha Jalkanen, frá háskólanum í Jyväskylä, sem ræða um gagnvirka tungumálakennslu á Netinu og Hannes Högni Vilhjálmsson og Branislav Bedi sem ræða um nýtt verkefni fyrir erlenda nemendur í íslensku þar sem unnið er með sýndarveruleika. Loks munum við Birna Arnbjörnsdóttir fjalla um þróun Icelandic Online á síðustu og næstu misserum. Ráðstefnan verður á Hótel Sögu, í Kötlusal, og hefst klukkan 14.

Af-lýsing kreppunnar (De-scribing the Crisis)

Jón Karl Helgason, 20/01/2014

cafoscariDe-scribing the Crisis: Narratives of Europe's Present (sem mætti þýða sem Aflýsing kreppunnar eða jafnvel Afskriftir kreppunnar) er titill ráðstefnu sem Università Ca’ Foscari í Feneyjum stendur fyrir dagana 30.-31. janúar næstkomandi. Tíu fræðimenn munu þar ræða um hina efnahagslegu og pólitísku kreppu sem sett hefur mark sitt á Evrópu á undanförnum árum og ólíkar birtingarmyndir hennar í bókmenntunum. Ég mun, ásamt Ernst Hollander, taka þátt í málstofu um kreppu hins norræna módels og kalla fyrirlestur minn "Stuffed Parrots and Edible Gold: Staging the Icelandic Financial Collapse". Eins og titillinn gefur til kynna hyggst ég beina sjónum að sviðsetningu íslenska hrunsins á leiksviði og mun meðal annars ræða um leikrit Sjóns, Ufsagrýlur frá árinu 2010, og leikrit Braga Ólafssonar, Maður að mínu skapi! frá 2013. Í næstu viku kenni ég ennfremur sem ERASMUS-kennari á námskeiði í miðaldabókmenntum við Università Ca’ Foscari. Þar fjalla ég um endurritun íslenskra fornsagna, og hyggst beina sjónum sérstaklega að Snorra Sturlusyni, Halldóri Laxness og Makoto Yukimura.

Spjallað um viðtökur íslenskra fornbókmennta

Jón Karl Helgason, 20/01/2014

Gísl Sig copyGísli Sigurðsson og Ævar Kjartansson hafa undanfarnar vikur spjallað við fræðimenn á sviði íslenskra fornbókmennta á Rás 1. Þættirnir, sem bera titilinn Fornbókmenntirnar og við, eru frumfluttir á sunnudagsmorgnunum kl. 9.00 og endurfluttir bæði á mánudagskvöldum kl. 21.00 og fimmtudögum kl. 13.00. Síðasta sunnudag fékk ég að úttala mig um eigin rannsóknir og viðhorf til fornritanna og lagði þar meðal annars áherslu á rannsóknir mínar á viðtökum Njálu, gagnagrunninn Wikisögu, og nýtt rannsóknarverkefni sem ég kalla Afterlife of Eddas and Saga. Þess má geta að nýlega fékk ég framhaldsstyrk frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands til að kosta frekari vinnu nemenda við þá rannsókn.

Vefnámskeiðið Icelandic Online 5 opnað

Jón Karl Helgason, 10/12/2013

iol myndÍ dag var vefnámskeiðið Icelandic Online 5 opnað almenningi. Um er að ræða kennsluefni í íslensku sem öðru máli fyrir lengra komna og er áhersla lögð á menningarlæsi og orðaforða. Við Olga Holownia og Daisy L. Neijmann höfum ritstýrt efninu en um tæknilega hlið verkefnisins hafa þau Olga og Mark Berge séð. Verkefnið er unnið með styrk frá Nordplus og Kennslumálasjóði Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið og Ljósmyndasafn Reykjavíkur hafa lagt verkefninu lið en beinir aðilar að því eru m.a. Íslensku- og menningardeild, Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Stofnun Árna Magnússonar, auk háskólastofnana í Noregi og Finnlandi.

Dreifður höfundarskapur Heimskringlu

Jón Karl Helgason, 15/11/2013

rikkyo"The Distributed Authorship of Heimskringla" er titill á fyrirlestri sem ég mun halda við Rikkyo háskólann í Tokyo 25. nóvember næstkomandi á ráðstefnunni Old Icelandic Texts in Medieval Northern Europe. Meðal annarra þátttakenda eru Noriko Motone, Shiho Mizuno, Shinobu Wada, , Takahiro Narikawa, Sayaka Matsumoto og Tsukusu Jinn Itó. Hinn 29. nóvember mun ég einnig halda fyrirlestur við Kyoto háskólann sem ég nefni "Medieval Sagas as Modern Hypertexts" þar sem ég mun kynna margmiðlunardiskinn Vef Darraðar, sem fylgdi bók minni Höfundar Njálu árið 2001, og gagnagrunninn Wikisögu: Lýsandi heimildaskrá Egils sögu. Þessir fyrirlestrar fléttast inn í tveggja vikna rannsóknarferð mína til Japans en Minoru Ozawa, lektor við Rikkyo háskólann í Tokyo, og Sayaka Matsumoto, aðjunkt við Kyoto háskóla, hafa veitt mér ómetanlega aðstoð við undirbúning hennar. Ferðin er styrkt af Watanabe Trust Fund og The Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation. PS. Fyrirlestrar ráðstefnunnar sem haldin var við Rikkyo háskólann eru nú aðgengilegir á vef Minoru Ozawa.

Bræðralög: Fagurfræði stjórnmálabaráttunnar

Jón Karl Helgason, 12/11/2013

HHHvernig leita íslenskir stjórnmálamenn í menningarlífið og menningarsöguna til að styðja við stefnumál sín og ímynd? Hver eru tengslin milli Jónasar Hallgrímssonar, Hannesar Hafsteins, Jónasar frá Hriflu, Einars Olgeirssonar, Sigurðar Nordals og Davíðs Oddssonar? Leitað verður svara við þessum spurningum á samræðu um fagurfræði íslenskrar stjórnmálabaráttu sem Sögufélag og Hannesarholt standa fyrir miðvikudaginn 20. nóvember kl. 20.00. Sagnfræðingarnir Guðni Th. Jóhannesson, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Ólafur Rastrick verða málshefjendur, auk mín, en einnig er gert ráð fyrir virkri þátttöku gesta. Aðgangseyrir er 1.000 krónur.