Hvernig er hægt að endurheimta miðaldir?

Jón Karl Helgason, 04/07/2014

treeceDagana 15.-20. júlí verður haldin í Háskóla Íslands alþjóðleg ráðstefna The New Chaucer Society. Um er að ræða viðburð sem skipulagður er annað hvert ár og hefur verið til skiptist í Bretlandi og í Bandaríkjunum en nú var ákveðið að fræðimenn hittust á miðri leið. Hingað til lands koma um 500 gestir en einnig tekur hópur Íslendinga þátt. Um það bil 400 fyrirlestrar eru á fjölbreyttri dagskrá þingsins. Ég verð meðal þeirra sem flytja erindi 17. júlí í málstofu sem ber titilinn Recovering the Middle Ages sem Tim W. Machan hefur haft veg og vanda af að skipuleggja. Þar hyggst ég ræða um nokkrar bækur breska barnabókahöfundarins Henry Treece sem byggja á íslenskum fornbókmenntum og bera þær saman við eldri verk eftir Allen French og J.R.R. Tolkien. Fyrirlesturinn nefni ég "Romantic Past and Barbarian Frenzy".

Nýjar þýðingar á verkum Sjóns

Jón Karl Helgason, 04/07/2014

wangNýlega barst mér í hendur kínversk þýðing Wang Shuhui á skáldsögunni Skugga-Baldri eftir Sjón. Shuhui er fyrrverandi nemandi okkar í Íslensku sem öðru máli við H.Í. og hefur á liðnum árum kennt íslensku við Háskóla erlendra fræða í Peking. Þetta er fyrsta bókmenntaþýðing hennar úr íslensku og vonandi ekki sú síðasta. Það vill svo til að annar nemandi í Íslensku sem öðru máli, Ana Stanićević, lauk nýlega við að þýða Mánastein eftir Sjón á serbnesku, auk þess að skrifa afar áhugaverðan inngang að verkinu. Um var að ræða B.A. verkefni sem ég leiðbeindi Önu með. Ekki er enn ljóst hvort eða hvenær þýðingin fæst útgefin í Serbíu en þess má geta að Skugga-Baldur kom þar út í þýðingu annars fyrrum nemenda okkar, Tatjönu Latinovic, fyrir tæpum áratug.

Grafskrift Íslendingaþátta

Jón Karl Helgason, 04/07/2014

armannÚt er komin í ritröðinni Studia Islandica bókin Íslendingaþættir. Saga hugmyndar eftir Ármann Jakobsson prófessor í íslensku. Ármann heldur því þar fram að Íslendingaþættir sem bókmenntagrein hafi í rauninni verið búnir til af mönnum sem ritstýrðu alþýðuútgáfum þáttanna í upphafi 20. aldar. Hann spáir því í lok bókar að vaxandi áhugi fræðimanna á upprunalegu samhengi þessara texta, m.a. í Morkinskinnu og Flateyjarbók, muni á næstu árum og áratugum leiða til þess "að þættir verða ekki lengur taldir til sérstakrar greinar eða undirgreinar miðaldabókmennta".  Bók Ármanns er sannarlega ætlað að leggja lóð á þá vogarskál. Ég kom að ritstjórn þessarar bókar fyrir hönd Bókmennta- og listfræðistofnunnar og vil nota tækifærið og óska Ármanni til hamingju með vekjandi og ögrandi bók.

Jónas og Snorri þýða H.C. Andersen

Jón Karl Helgason, 23/06/2014

NRÚt er komið í Noregi greinasafnið Nordic Responses. Translation, History, Literary Culture í ritstjórn Jakob Lothe, Ástráðs Eysteinssonar og Mats Jansson. Þarna er að finna tólf greinar um þýðingar, þar af fjórar sem snerta Ísland. Ein þeirra er grein eftir Ástráð um Hemingway á Íslandi, önnur er grein Hólmfríðar Garðarsdóttur um íslenskar þýðingar bókmennta frá Suð- og Mið-Ameríku, þriðja er grein Martins Ringmars um norrænar þýðingar á Sölku Völku og sú fjórða grein mín "Translation and Canonization: Posthumous Writings by Hans Christian Andersen and Jónas Hallgrímssonar". Viðfangsefni þar er ritið Úr dularheimum. Fimm ævintýri sem framkallaðist í gegnum ósjálfráða skrift Guðmundar Jónssonar (síðar Kamban) árið 1906. Eitt þessara fimm ævintýra er sagt vera eftir Jónas Hallgrímssonar en hin fjögur eru meintar þýðingar Jónasar (og í einu tilviki Jónasar og Snorra Sturlusonar) á ævintýrum sem H.C. Andersen ku hafa sett saman eftir andlát sitt.

El paper dels sants culturals

Jón Karl Helgason, 22/06/2014

frombeyondNýlega birtist í katalónska menningartímaritinu L'Espill, sem gefið er út í Barcelona, greinin "El paper dels sants culturals". Um er að ræða þýðingu Jaume Subriana á grein minni "The Role of Cultural Saints in European Nation States“ sem birtist upphaflega árið 2011 í afmælisriti Itamars Even-Zohar. Subriana er prófessor við Opna háskólann í Katólóníu en einnig þekkt ljóðskáld. Eiga rannsóknir hans á katalónskum minningarmörkum og menningarsögu margt sameiginlegt með þeim rannsóknum sem við Marijan Dović höfum unnið að ásamt fleirum á menningarlegum þjóðardýrlingum Evrópu. Höfum við þremenningar uppi áform um frekara samstarf á þessu rannsóknarsviði á næstu misserum.

Hallgerður, Hjördís og Hedda á Hvollsvelli

Jón Karl Helgason, 04/04/2014

ibsenNjáls saga hefur orðið fjölmörgum leikskáldum innblástur en í flestum tilvikum er um að ræða aðlögun á afmörkuðum þáttum verksins. Er útkoman afar misjöfn að gæðum, líkt og ég hef rakið í bók minni Höfundar Njálu. Í fyrirlestri sem ég flyt á sögusetrinu á Hvollsvelli sunnudaginn 6. apríl hyggst ræða nokkur þeirra erlendu verka sem byggaja á sögunni, þeirra á meðal Víkingana frá Hálogalandi eftir Henrik Ibsen. Þar er að finna stolta kvenhetju, Hjördísi að nafni, sem líkist bæði Hallgerði langbrók og Guðrúnu Ósvífursdóttur og vísar jafnframt fram á veginn til Heddu Gabler. Fyrirlesturinn hefst kl. 17.00 og er öllum opinn.

Þjóðardýrlingatal á Ísafirði

Jón Karl Helgason, 26/03/2014

Ódáinsakurpetit3Föstudaginn 28. mars flyt ég erindi um þjóðardýrlinga á Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði. Erindið byggist öðrum þræði á bók minni Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga, sem út kom hjá Sögufélagi á liðnu hausti. Í fyrirlestrinum, sem ég nefni Þjóðardýrlingatal, hyggst ég gera samanburð á stöðu og hlutverki Jóns Sigurðssonar og Jónasar Hallgrímssonar sem þjóðardýrlinga og varpa ljósi á það hvernig mynd þeirra hefur verið endurgerð á frímerkjum, seðlum og í eir. Erindið hefst kl. 12.10 í kaffistofu Háskólaseturs við Suðurgötu 12.

Aðkomumenn, þjóðarvitund og minningar

Jón Karl Helgason, 14/02/2014

tyrkjaranAðkomumenn, þjóðarvitund og minningar er titill á málstofu sem við Þorsteinn Helgason, Sumarliði Ísleifsson og Kim Simonsen tökum þátt í á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands 15. mars næstkomandi. Þorsteinn mun þar ræða um minningar Íslendinga um Tyrkjaránið, Sumarliði fjallar um fimm ferðalýsingar frá Íslandi frá því fyrir 1750 og Kim ræðir um áhrif erlendra ferðalýsinga á þróun færeyskrar þjóðarvitundar. Þess má geta að þeir Þorsteinn og Kim hafa nýlega lokið við glæsilegar doktorsrannsóknir sem fyrirlestrar þeirra byggja á og Sumarliði er að ljúka við doktorsritgerð sem tengist hans viðfangsefni á þinginu. Sjálfur mun ég taka til athugunar ferðabókina Norðan Vatnajökuls eftir danska listfræðinginn Paul Vad, sem kom út árið 1994, en þar segir af pílagrímsferð höfundar á slóðir Hrafnkels sögu. Málstofustjóri er Emily Lethbridge sem sjálf býr að einstakri reynslu sem pílagrímur á söguslóðum.

Tungumálanám og tölvutækni

Jón Karl Helgason, 07/02/2014

populusFöstudaginn 7. febrúar stendur Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis í samvinnu við Rannsóknarstofu í máltileinkun fyrir málstofu um notkun tölvutækni við tungumálanám. Meðal þeirra sem þar taka til máls eru Tuija Lehtonen og Juha Jalkanen, frá háskólanum í Jyväskylä, sem ræða um gagnvirka tungumálakennslu á Netinu og Hannes Högni Vilhjálmsson og Branislav Bedi sem ræða um nýtt verkefni fyrir erlenda nemendur í íslensku þar sem unnið er með sýndarveruleika. Loks munum við Birna Arnbjörnsdóttir fjalla um þróun Icelandic Online á síðustu og næstu misserum. Ráðstefnan verður á Hótel Sögu, í Kötlusal, og hefst klukkan 14.

Af-lýsing kreppunnar (De-scribing the Crisis)

Jón Karl Helgason, 20/01/2014

cafoscariDe-scribing the Crisis: Narratives of Europe's Present (sem mætti þýða sem Aflýsing kreppunnar eða jafnvel Afskriftir kreppunnar) er titill ráðstefnu sem Università Ca’ Foscari í Feneyjum stendur fyrir dagana 30.-31. janúar næstkomandi. Tíu fræðimenn munu þar ræða um hina efnahagslegu og pólitísku kreppu sem sett hefur mark sitt á Evrópu á undanförnum árum og ólíkar birtingarmyndir hennar í bókmenntunum. Ég mun, ásamt Ernst Hollander, taka þátt í málstofu um kreppu hins norræna módels og kalla fyrirlestur minn "Stuffed Parrots and Edible Gold: Staging the Icelandic Financial Collapse". Eins og titillinn gefur til kynna hyggst ég beina sjónum að sviðsetningu íslenska hrunsins á leiksviði og mun meðal annars ræða um leikrit Sjóns, Ufsagrýlur frá árinu 2010, og leikrit Braga Ólafssonar, Maður að mínu skapi! frá 2013. Í næstu viku kenni ég ennfremur sem ERASMUS-kennari á námskeiði í miðaldabókmenntum við Università Ca’ Foscari. Þar fjalla ég um endurritun íslenskra fornsagna, og hyggst beina sjónum sérstaklega að Snorra Sturlusyni, Halldóri Laxness og Makoto Yukimura.