Bakjarlar menningarlegs minnis

Jón Karl Helgason, 11/04/2013

jónasVæntanlegur 10.000 króna seðill Seðlabanka Íslands, prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson, Dagur íslenskrar tungu og Menningarfélagið Hraun í Öxnadal er meðal þess sem ber á góma í grein minni "Stóri ódauðleikinn: Minningarmörk, borgaraleg trúarbrögð og bakjarlar menningarlegs minnis". Greinin birtist í nýútkomnu hefti Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar sem þær Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Daisy Neijmann ritstýra. Heftið allt er helgað minni og gleymsku en aðrir höfundar sem fjalla þarna um þau efni eru Irma Erlingsdóttir, Róbert Haraldsson, Andreas Huyssen, Kristín Loftsdótttir, Marion Lerner, Úlfar Bragason og Sverrir Jakobsson. Þá er í heftinu athyglisverður myndaþáttur um minnismerki á Íslandi eftir Ketil Kristinsson.

Hvað er pólýúretan?

Jón Karl Helgason, 01/04/2013

aaronAndri Ólafsson og Steingrímur Teague fengu Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textagerð ársins á plötu Moses Hightower, Önnur Mósebók. Af því tilefni birti ég á Hugrás umfjöllun um texta plötunnar og reyni að skýra hvers vegna þar er ort um “seli steypta í pólýúretan”. Umfjöllunin kallast á við eldri grein eftir mig á Hugrás sem fjallar um texta á fyrstu plötu þeirra félaga, Búum til börn.

Doktorsvörn á vettvangi stafrænna hugvísinda

Jón Karl Helgason, 26/02/2013

trishFyrr í dag var ég andmælandi við doktorsvörn Trish Baer við enskudeild University of Victoria í Kanada. Ritgerðin ber titilinn "An Old Norse Mythology Image Hoard: From the Analog Past to the Digital Present". Hún fjallar um myndskreytingar í handritum og útgáfum sem hafa að geyma forníslenskar bókmenntir, einkum goðsögulegt efni og jafnframt um gagnagrunninn MyNDIR á veraldarvefnum sem Trish hefur hannað  með aðstoð tölvufræðings til að birta myndir af slíku efni. Vefurinn sem hér um ræðir er enn um sinn lokaður almenningi, enda í þróun en Baer hyggst bæta jafnt og þétt við efnið á næstu misserum, jafnframt því að kynna niðurstöður rannsókna sinna. Verkefnið í heild tilheyrir í raun fræðasviði sem í enskumælandi löndum er farið að kalla digital humanities eða stafræn hugvísindi, en ein af þekktustu deildum á því sviði í heiminum nú um stundir er reyndar við King's College í Cambridge. Ps. Nú er búið að opna fyrir almennan aðgang að MyNDIR á vef háskólans í Victoria.

Biskupamóðir í Páfagarði: áhugaverð M.A. ritgerð

Jón Karl Helgason, 04/02/2013

"Biskupamóðir í Páfagarði" er titill á afar áhugaverðri og yfirgripsmikilli M.A. ritgerð sem Sigríður Helga Þorsteinsdóttir var að ljúka við undir minni leiðsögn. Í inngangi er efninu lýst svo: "Ritgerðin fjallar um ólíkar birtingarmyndir Guðríðar Þorbjarnardóttur, einnar aðalsöguhetju Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu, sem oft eru nefndar Vínlandssögur. Viðfangsefnið er greint í ljósi endurritunarfræða, þýðingarfræða og með hliðsjón af rannsóknum á evrópskum þjóðardýrlingum. ... Birtingarmyndir Guðríðar Þorbjarnardóttur í skáldskap og veruleika í 1000 ár gefa mikilvægar vísbendingar um samtímann hverju sinni en jafnframt kemur í ljós að Guðríður hefur bæði fyrr og síðar verið greind og túlkuð í ljósi kristinnar dýrlingahefðar." Hægt er að nálgast ritgerðina á Skemmunni, rétt eins og flest önnur lokaverkefni íslenska háskólasamfélagsins. Mig langar til að óska Sigríði Helgu til hamingju með þennan stóra áfanga.

Á gatnamótum Njálsgötu og Snorrabrautar

Jón Karl Helgason, 10/01/2013

Hvernig hafa Íslendingasögurnar haldið dampi í 800 ára? Þetta var leiðarstefs sænsku útvarpskvennanna Miu Gerdin og Ullu Strängberg sem heimsóttu Ísland á liðnu sumri, leituðu að Snorra Sturlusyni í Reykholt og heimsóttu rithöfundana Sjón og Gerði Kristnýju í Reykjavík. Þær fengu mig líka til að leiða sig um gamla bæinn þar sem Njálsgata, Bergþórugata og Snorrabraut bera glöggan vott um tengsl fortíðar og samtíðar, bókmennta og borgar. Fyrri þáttur þeirra, På jakt efter den isländska sagans betydelse, var á dagskrá sænska útvarpsins í liðinni viku en sá síðari er á dagskrá 14. janúar. Ps. Síðari þátturinn er nú aðgengilegur á vef sænska útvarpsins.

Andmælaræður birtar í Sögu

Jón Karl Helgason, 30/12/2012

Í nýju hefti Sögu, tímarits Sögufélagsins, birtust andmælaræður okkar Rósu Magnúsdóttur sem fluttar voru við doktorsvörn Ólafs Rastricks í febrúarmánuði síðastliðnum en hann varði þá doktorsritgerð í sagnfræði, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910‒1930. Í ræðu minni gagnrýndi ég Ólaf einkum fyrir ófullnægjandi umfjöllun um skrif Sigurðar Nordals en ég hrósaði honum meðal annars fyrir hve víðfeðma sýn hann hefði á viðfangsefnið. Ég segi í því sambandi: "Ekki er aðeins hugað að umræðum manna um viðurkenndar listgreinar á borð við myndlist, sígilda tónlist og fagurbókmenntir, heldur er einnig vikið að skrifum um listamannalaun, fatatísku, djasstónlist, kvikmyndir, áfengisnotkun og samkvæmisdansa, svo dæmi séu tekin, sem og þeim merkilegu tengslum sem eru milli skattlagningar á tiltekin svið menningar og framlaga til annarra sviða hennar. Þá er lofsvert hvernig Ólafur, í greiningu á opinberum afskiptum af menningarmálum, horfir „til ríkisins sem fjölbreytilegs og ósamstæðs safns stofnana, sjónarmiða og markmiða“ (bls. 140) og tekur þar að auki tillit til mikilvægs starfs frjálsra félagasamtaka á þessum vettvangi." Þess verður vonandi ekki langt að bíða að ritgerð Ólafs komi út á bók.

Framgangur, rannsóknarleyfi, doktorsvörn

Jón Karl Helgason, 30/11/2012

Í vikunni var mér tilkynnt að ég hefði fengið framgang í starfi úr stöðu dósents í stöðu prófessors við Háskóla Íslands. Á vorönn 2013 verð ég í rannsóknarleyfi og hyggst ég verja hluta þess við rannsóknir í Cambridge í Bretlandi. Höfuðviðfangsefni mitt eru viðtökur og endurritun íslenskra miðaldabókmennta en fyrr á árinu skrifaði ég undir samning við breska útgáfufyrirtækið Reaktion Books um ritun bókar um það efni. Vinnutitill verksins er Afterlife of Eddas and Sagas og er áætlað útgáfuár 2015. Einnig vonast ég til að geta varið hluta tímans í Slóveníu og unnið þar með Marijan Dović að sameiginlegu verkefni sem ber titilinn Cultural Saints of European Nation States. Loks má geta að 10. desember næstkomandi verð ég einn þriggja andmælenda við doktorsvörn Kim Simonsen við Hróaskelduháskóla en doktorsritgerð hans fjallar m.a. um tilurð og þróun færeyskrar þjóðarímyndar. Ps. Nú er hægt að nálgast upptöku af doktorsvörn Kim Simonsen á heimasíðu Hróaskelduháskólans.

Maður dagsins og sódabarinn Adlon

Jón Karl Helgason, 16/11/2012

Fyrir réttum mánuði síðan var afhjúpaður bókmenntaskjöldur við Aðalstræti 6-8 í Reykjavík þar sem sódabarinn Adlon, öðru nafni Langibar, var til húsa um miðja síðustu öld. Skjöldurinn vísar til þess að staðurinn er nefndur í skáldsögunni Vögguvísu eftir Elías Mar. Í tilefni af því og Degi íslenskrar tungu birti ég í dag stutta grein á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs, þar sem rakið er hvernig Elías hefur "komist á kortið" í íslenskri bókmenntaumræðu. Sagan af þeirri þróun gefur vísbendingu um það hvernig einstakir höfundar og verk geta orðið hluti af svonefndu hefðarveldi (e. canon) íslenskra bókmennta og hve fjölbreyttir farvegir slíkrar helgifestu (e. canonization) eru.

Skrifaði Sturla Þórðarson Skáldið eftir Einar Kárason?

Jón Karl Helgason, 07/11/2012

Við Einar Kárason skiptumst á skoðunum í Kastljósi 7. nóvember um þá kenningu hans að Sturla Þórðarson væri höfundur Njálu. Einar setur þessa kenningu fram með fræðilegum rökum í nýrri Skírnisgrein en hann vinnur einnig með hana í nýrri skáldsögu sinni, Skáldið, sem er lokabindið í þríleik hans um Sturlungaöldina. Í Kastljóssviðtalinu reyndi ég að draga málflutning Einars í efa, eins og til var ætlast, meðal annars með því að benda á að með þeim rökum sem hann notar megi halda því fram að Sturla Þórðarson hafi skrifað Skáldið ... sagan minnir að minnsta kosti æði mikið á Íslendinga sögu Sturlu. Ég verð samt að viðurkenna að umfjöllun Einars um Sturlu og Njálu hefur vakið upp nýjan áhuga hjá mér á efninu. Málflutningur hans er að ýmsu leyti sannfærandi og skynsamlegur og á vafalítið eftir að vekja úr dvala þann stóra hóp Njálu- og Sturlungulesenda sem áhuga hafa á efninu.

Heldurðu, að ég hafi aldrei átt móður?

Jón Karl Helgason, 23/10/2012

Næstkomandi laugardag, 27. október standa Reykjavík Bókmenntaborg og Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands fyrir málþingi um Elías Mar og Vögguvísu. Meðal fyrirlesara eru Þorsteinn Antonsson, Svavar Steinn Guðmundsson, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Sólveig Ólafsdóttir og Tómas R. Einarsson. Ég flyt þar líka fyrirlestur sem kallast "„Heldurðu, að ég hafi aldrei átt móður?“ Ungur og einstæður höfundur kveður sér hljóðs". Málþingið verður haldið í Þjóðarbókhlöðunni frá kl. 13.00 til 15.30 og er það skipulagt í samstarfi við Landsbókasafn Íslands – Háskólabóksafn, ReykjavíkurAkademíuna og Lesstofuna en hún hefur nýlega endurútgefið Vögguvísu í fallegri kiljuútgáfu. Ps. Nú er hægt að hlýða á upptöku frá málþinginu á vef Ríkisútvarpsins.