Stóri ódauðleikinn í Þjóðarspegli

Jón Karl Helgason, 23/10/2012

"Stóri ódauðleikinn: Menningarminni, ósýnileg trúarbrögð og skurðgoð þjóðríkisins" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á málstofunni Menningararfur á Íslandi í Þjóðarspegli 2012 föstudaginn 26. október í Odda 101. Málstofan hefst kl. 11.00 og stendur til 12.45 en meðal annarra þátttakenda eru Guðmundur Hálfdanarson, Bryndís Björgvinsdóttir, Ólafur Rastrick, Áki Guðni Karlsson, Karl Aspelund, Kristinn Schram og Katla Kjartansdóttir. Í mínum fyrirlestri hyggst ég meðal annars viðra hugmyndir Jans og Aleidu Assmann og Thomasar Luckmann og tengja margháttuðum minningarmörkum um veraldlega og trúarlega þjóðardýrlinga. Rétt er að geta þess að hver fyrirlestur byggir á 21 glæru og tekur 7 mínútur í flutningi en formið kallast Pecha Kucha og nýtur vaxandi vinsælda úti í hinum stóra fræðaheimi. PS. Nú er hægt að nálgast hér upptöku frá þessari málstofu.

Höfundur Njálu: Námskeið hjá Endurmenntun

Jón Karl Helgason, 01/10/2012

Hver var höfundur vinsælustu Íslendingasögunnar? Hét hann Sturla Þórðarson, Þorvarður Þórarinsson eða Snorri Sturluson, eða leynist hann kannski meðal persóna sögunnar sjálfrar? Eitt vinsælasta og umdeildasta viðfangsefni þeirra Íslendinga sem fjölluðu um Njáls sögu á 20. öld var hver hefði skrifað söguna. Í námskeiðinu "Höfundur Njálu", sem ég kenni hjá Endurmenntun Háskóla Íslands dagana 8., 15. og 22. október, verður fjallað um helstu kenningar um þetta efni, þeirra á meðal skrif Barða Guðmundssonar, Matthíasar Johannessen og Helga Haraldssonar. Einnig verður rætt um að hve miklu leyti persónur sögunnar og síðari tíma menn hafa haft áhrif þann texta sem finna má í nútímaútgáfum og -þýðingum verksins.

Doktorsvörn Kristjáns Jóhanns

Jón Karl Helgason, 24/09/2012

Kristján Jóhann Jónsson varði doktorsritgerð sína um Grím Thomsen, Heimsborgari og þjóðskáld, í hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 21. september síðastliðinn. Við Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði, vorum andmælendur og fluttum hvor sína ræðuna en inn í þær fléttuðust spurningar til Kristjáns Jóhanns og svör hans við þeim. Í inngangi andmæla minna sagði ég meðal annars: "Eins og merkja má af þessari lýsingu er um afar yfirgripsmikla rannsókn að ræða, þar sem ævi, skáldskapur og ýmis önnur skrif Gríms eru tekin til athugunar, en einnig skoðað með hvaða hætti viðtökur samtímamanna hans og síðari tíma manna hafa fallið ítrekað ofan í fáein sídýpkandi hjólför. Markmið ritgerðarinnar eru að koma umræðunni um Grím upp úr þessum hjólförum. ... Í þessari afstöðu til viðfangsefnisins felast ein helstu nýmæli ritgerðarinnar; hún segir okkur margt um Grím Thomsen en um leið segir hún okkur margt um það hvernig við hneigjumst til að tala um Grím og raunar mörg önnur skáld nítjándu aldarinnar." Ég vil nota tækifærið og óska Kristjáni Jóhanni til hamingju með þennan merka áfanga.

Að endingu eftir Julian Barnes

Jón Karl Helgason, 19/09/2012

Út er komin hjá Bjarti þýðing mín á skáldsögunni Að endingu (The Sense of an Ending) eftir breska rithöfundinn Julian Barnes. Sögumaður verksins er Tony Webster sem á að baki farsælan starfsferil og hjónaband sem rann hljóðlega út í sandinn. Hann er sáttur við fortíð sína án þess að leiða oft hugann að henni - allt þar til honum berst bréf frá lögmanni sem neyðir hann til að horfast í augu við sjálfan sig og tvo æskuvini, einn lífs, annan liðinn. Julian Barnes er í hópi snjöllustu núlifandi rithöfunda Bretlands en á liðnu ári hlaut hann hin eftirsóttu Booker-verðlaun fyrir þessa áleitnu og hnitmiðuðu sögu.

Dýra- og plöntufræði Þórðar Magnússonar

Jón Karl Helgason, 04/04/2012

"Tvær djöfulsins dúfur, eins digrar og beljujúgur. Dýra- og plöntufræði Þórðar Magnússonar" er titill á stuttri grein sem ég hef birt á bókmenntavefnum Subbuskapur og sóðabækur. Viðfangsefnið er fyrsta og eina ljóðabók Þórðar Magnússonar sem út komi árið 1994, tæpum 30 árum eftir andlát höfundarins. Útgáfan var í höndum frænda Þórðar, Gylfa Gíslasonar myndlistarmanns, og fór ekki mjög hátt. Enda þótt ekki sé um að ræða verk sem markar tímamót í bókmenntasögunni þá býr skáldið yfir persónulegri rödd og athyglisverðu sjónarhorni á veröldina. 

Bein Jónasar og Fáfræði Kundera

Jón Karl Helgason, 29/03/2012

"A Poet’s Great Return: Jónas Hallgrímsson’s reburial and Milan Kundera’s Ignorance" er titill greinar sem ég hef nýlega birt á ensku í tímaritinu Scandinavian Canadian Studies. Þar fjalla ég um það með hvaða hætti Milan Kundera fléttar frásögn af beinamáli Jónasar Hallgrímssonar inn í skáldsögu sína Fáfræðina, þar á meðal þau atriði þar sem lýsing tékkneska skáldsins stangast á við staðreyndir. Um er að ræða efni sem ég gerði upphaflega nokkra grein fyrir í bók minni í Ferðalok: Skýrsla handa akademíu sem út kom á íslensku árið 2003. 

Lárviðarskáld. Valið milli Bjarna og Jónasar

Jón Karl Helgason, 13/03/2012

"Lárviðarskáld. Valið milli Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar" er titill á nýrri grein sem ég birti í fyrsta hefti Tímarits Máls og menningar 2012. Í inngangi vek ég athygli á því að fram eftir nítjándu öld voru þeir Bjarni og Jónas gjarnan nefndir í sömu andrá sem bestu skáld þjóðarinnar. Síðan segir: "Í ljósi þessa mats er forvitnilegt að velta fyrir sér hvenær, hvernig og hvers vegna Jónas skýtur Bjarna ref fyrir rass sem þjóðskáld. Nú er svo komið að afmælisdegi Jónasar, 16. nóvember, er minnst árlega sem Dags íslenskrar tungu og fæðingarstaður hans, Hraun í Öxnadal, er friðlýstur fólkvangur. Hvorki afmælisdagur Bjarna né fæðingarstaður hans, Brautarholt á Kjalarnesi, njóta slíkrar blessunar af hálfu opinberra aðila. Ekki er til einföld skýring á því af hverju þróunin hefur orðið með þessum hætti en hér verður hugað að nokkrum vísbendingum um núning og meting milli stuðningsmanna þeirra tveggja á ofanverðri nítjándu öld um hvor ætti fremur skilið að bera lárviðarkrans. Athyglisvert er að í báðum hópum koma nánir ættingjar skáldanna tveggja við sögu." Og svo hefst greinin ... 

Davíð Kopperfíld-kjaftæðið og Salinger

Jón Karl Helgason, 12/03/2012

Árið 1988 kom út fyrsta ritið fram til þess tíma sem kalla má ævisögu bandaríska rithöfundarins J.D. Salingers, bókin In Search of J.D. Salinger (Í leit að J.D. Salinger). Höfundurinn var fimmtugur Breti, Ian Hamilton, ljóðskáld og bókmenntamaður. Það sérkennilega við verk Hamiltons er að jafnframt því að rekja feril Salingers segir hann frá tilurð bókar sinnar, tilraunum sínum til að grafa upp heimildir, ræða við skólafélaga Salingers og vini, og síðast en ekki síst frá samskiptum sínum við skáldið. Í nýrri grein, "Allt þetta Davíð Kopperfíld-kjaftæði" sem var að birtast á bókmenntavefnum Subbuskapur og sóðarit, fjalla ég um bók Hamiltons og þau illu örlög að geta ekki hætt að vera til, enda þótt maður sé dauður. 

Íslendingasögur á tímum netvæðingar

Jón Karl Helgason, 06/03/2012

Málstofan Íslendingasögur: Samtíð, saga, framtíð verður hluti af Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands laugardaginn 10. mars næstkomandi frá kl. 10-12. Málstofan er helguð rannsóknum á ólíkum þáttum sem snerta sögu og viðtökur Íslendingasagnanna. Guðrún Nordal fjallar um fyrstu áratugina í sögu Laxdæla sögu, Katelin Parsons ræðir um rannsóknir sínar á þýðingum Egils sögu, Emily Lethbridge fjallar um fjórhjóladrifnar rannsóknir sínar á sögusviði sagnanna („fornsagnalestur undir beru lofti“) og ég fjalla um þær nýju leiðir sem netið og stafræn tækni hafa opnað í rannsóknum einstakra sagna, þeirra á meðal Njáls sögu og Egils sögu. Fyrirlestur minn nefnist "Vefur Darraðar og Wikisaga: Tengsl gagnagrunna og rannsókna". Í lok málstofunnar verður formlega opnaður nýr gagnagrunnur, Wikisaga, sem Bókmennta- og listfræðastofnun og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum standa að, en vonast er til að hann geti auðveldað störf þeirra sem fást við kennslu og rannsóknir á Eglu, bæði hér á landi og erlendis. 

200 ára afmæli tekin út á Hugrás

Jón Karl Helgason, 01/03/2012

"Hver fær að blása á kertin?" er yfirskrift þriggja greina sem ég er að birta á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs þessa daganna. Fyrsta greinin, sem helguð er 200 ára afmæli H.C. Andersen 2005 og þátttöku Tinu Turner í því, birtist fimmtudaginn 23. febrúar, önnur greinin, sem er að mestu helguð fyrstu stóru Shakespeare-hátíðinni í Stratford 1769, birtist mánudaginn 27. febrúar, og þriðja greinin um 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar og Jónasar Hallgrímssonar birtist á Hugrás 5. mars.  Stofn þessara texta er fyrirlestur sem ég flutti á ráðstefnu um Jón Sigurðsson fyrir tæpu ári en þriðja greinin er þó í raun ný af nálinni. Greinarnar þrjár eru hægt að lesa saman í einni beit eða hverja í sínu lagi.