Íslenska sem annað líf - á öldum ljósvakans og víðar

Jón Karl Helgason, 15/02/2012

Síðastliðinn föstudag stóð námsgreinin Íslenska sem annað mál fyrir ráðstefnunni Íslenska sem annað líf þar sem átta fyrrverandi nemendur okkar sögðu frá reynslu sinni af náminu og þeim tækifærum og ögrunum sem hafa mætt þeim í íslensku samfélagi að námi loknu. Margrét Jónsdóttir, prófessor við námsgreinina, átti hugmyndina að þessari ráðstefnu og stóð að undirbúningi hennar ásamt okkur Sigríði Þorvaldsdóttur. Aðsókn var góð en auk þess hafa fjölmiðlar sýnt henni töluverðan áhuga. Á fimmtudaginn í liðinni viku var viðtal við Ingrid Kuhlman í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í tengslum við ráðstefnuna og í morgun voru Aleksandra M. Cieślińska og Róland R. Assier í viðtali á Rás 2. Loks má nefna að í Samfélaginu í nærmynd fyrr í dag var viðtal við Joönnu Marcinkowsku, annan fyrrum nemanda okkar, en hún hefur nýlega hafið störf sem pólskumælandi ráðgjafi innflytjenda hjá Reykjavíkurborg. Í viðtalinu ræddi hún meðal annars um reynslu sína af því að læra íslensku við Háskóla Íslands og lét vel af því. Það er ómetanlegt fyrir námsgreinina að eiga svo góða málsvara í hópi brautskráðra nemenda. Ps. Í Fréttablaðinu birtist 22. febrúar viðtal við Cynthiu Trililani um erindið sem hún flutti á ráðstefnunni Íslenska sem annað líf en þar fjallaði hún um staðalímyndir asískra kvenna á Íslandi.

Doktorsvörn Ólafs Rastrick

Jón Karl Helgason, 04/02/2012

Í gærdag varði Ólafur Rastrick doktorsritgerð sína við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Við Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur vorum andmælendur við vörnina. Andmæli okkar munu væntanlega birtast opinberlega á þessu ári en í niðurlagi minnar ræðu sagði ég meðal annars: "Doktorsritgerð Ólafs Rastrick, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910‒1930, er fagnaðarefni í íslenskum fræðum. Enda þótt Ólafi takist ekki að skýra fyllilega þá andstöðu gegn módernismanum sem gætti í listumræðu hér á landi lengi fram eftir tuttugustu öld þá varpar hann forvitnilegu ljósi á það efni. Höfuðgildi ritgerðarinnar felst hins vegar eins og að var stefnt í því að sýna fram á hvernig menningin, í mjög víðtækum skilningi, öðlast mikilvægt samfélagslegt hlutverk hér á landi á umræddu tímabili og verður í raun að veraldlegum trúarbrögðum þess fullvalda og síðar sjáflstæða þjóðríkis hér var að mótast." Ég vil nota þetta tækifæri og óska Ólafi til hamingju með merkan áfanga.

Hafmeyjustyttur og gosdrykkjakælar

Jón Karl Helgason, 13/01/2012

Nýjasta hefti Ritsins er að hluta til helgað fræðigreinum um Evrópu. Mitt framlag til þeirrar umfjöllunar er greinin "Menningarlegir þjóðardýrlingar Evrópu. Samanburður á France Prešeren og Hans Christian Andersen". Hún byggir á rannsóknum sem ég vann í síðasta rannsóknarleyfi mínu í Kaupmannahöfn og Ljúblíana en á liðnu ári birti ég einnig tvær greinar á ensku um þetta sama efni, auk þess að taka þátt í málstofu um þjóðardýrlinga í Skopje og Ohrid í Makadóníu. Í niðurstöðum íslensku greinarinnar segir meðal annars: "Þegar hugað er að félagslegu hlutverki þjóðardýrlinga innan þjóðríkisins liggur beint við að bera það saman við þau örlög sem textar og listaverk þessara sömu manna hafa fengið í neyslusamfélagi nútímans. Líkt og Itamar Even-Zohar hefur bent á eru þessi verk sjaldnast skynjuð og skilin í heild sinni eða í sögulegu samhengi; þegar þau hafa orðið hluti af hinu svonefnda hefðarveldi (e. canon) er þeim gjarnan dreift til almennings í bútum. Styttan af hafmeyjunni og þjóðsöngur Slóveníu, þar sem aðeins eru sungin valin erindi úr ljóði Prešerens, eru dæmi um þetta en það mætti líka nefna að vasaútgáfur af hafmeyjunni eru afar vinsæll minjagripur í Danmörku. Með hliðstæðum hætti er stór ljósmynd af líkneski slóvenska skáldsins á Prešerenstorgi algeng skreyting á gosdrykkjakælum sem standa við hlið söluturna í Ljúblíana og víðar um Slóveníu."

Hlutverk þjóðardýrlinga í Evrópu

Jón Karl Helgason, 30/12/2011

"The Role of Cultural Saints in European Nation States" er titill á stuttri grein sem ég hef nýlega birt í afmælisriti ísraelska fræðimannsins Itamars Even-Zohar. Ritið ber titilinn Culture Contacts and the Making of Cultures, ritstjórar þess eru þau Rakefet Sela-Sheffy og Gideon Toury og útgefandi er Rannsóknarstofa í menningarfræðum við háskólann í Tel Aviv. Even-Zohar er hve þekktastur fyrir kenningar sínar um bókmenntir sem fjölþætt kerfi (polysystem) en skrif hans um stöðu þýddra bókmennta innan bókmenntakerfisins hafa haft afar mikil áhrif á alþjóðavettvangi. Á síðari árum hafa rannsóknir hans í auknum mæli beinst að hlutverki menningar í mótun þjóðríkja og því hvernig smáríkjum og smærri menningarheildum gengur að fóta sig frá einu tímabili til annars. Öll skrif Even-Zohars eru aðgengileg á heimasíðu hans.

Tvær gjörólíkar hrunbækur

Jón Karl Helgason, 25/11/2011

"Samhengi valdsins" er titillinn á pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs, sem ég hef skrifað. Þar er fjallað um tvær nýútkomnar bækur, Þræðir valdsins eftir Jóhann Hauksson og Samhengi hlutanna eftir Sigrúnu Davíðsdóttur. Bæði eru þau Jóhann og Sigrún þrautreyndir blaðamenn sem hafa hlotið lof og viðurkenningar fyrir umfjöllun sína um hrun íslenska bankakerfisins og afleiðingar þess en í bókum sínum fara þau gjörólíkar leiðir að þessu sama efni. Jóhann nýtir sér bakgrunn sinn sem félagsfræðingur til að greina siðrofið í íslensku viðskiptalífi og stjórnmálum á meðan Sigrún endurskrifar Rannsóknarskýrslu Alþingis og beitta útvarpspistla sína um íslenska "útrásarævintýrið" á formi spennusögu í anda Stiegs Larsson.

Georg Brandes og áhrif hans hér landi

Jón Karl Helgason, 18/11/2011

Í dag birtist á Vísindavefnum stutt yfirlitsgrein eftir mig um Georg Brandes og áhrif hans á norrænar bókmenntir. Í greininni er meðal annars vakin athygli á því að íslensku skáldin Jón Ólafsson, Gestur Pálsson og Hannes Hafstein þýddu allir skrif eftir Brandes um og eftir 1880, auk þess sem Hannes Hafstein skrifaði merka grein um þennan danska bókmenntagagnrýnanda sem birtist í Heimdalli 1883. Í lok greinarinnar er heimildaskrá með hlekkjum á þessar greinar sem eru aðgengilegar á hinum ómetanlega heimildavef Landsbókasafnsins, timarit.is.

Bók glötuðu bókanna

Jón Karl Helgason, 06/10/2011

Hver kannast við skáldsögurnar La Spirale eftir Gustave Flaubert, Pilgrim on the Hill eftir Philip K. Dick og Sanditon eftir Jane Austen? Eða er einhver sem hefur séð uppfærslu á leikritunum Penelópa eftir Æskílos, Kókalos eftir Aristófanes og Love‘s Labour‘s Won eftir Shakespeare? Bók glötuðu bókanna. Ófullkomin saga allra snilldarverkanna sem þú munt aldrei lesa (The Book of Lost Books. An incomplete history of all the great books you‘ll never read) er titillinn á riti sem skoski ritstjórinn og bókmenntagagnrýnandinn Stuart Kelly sendi frá sér árið 2005 en kom út í endurskoðaðri útgáfu á liðnu ári. Um hana fjalla ég í stuttum pistli sem nýlega birtist á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs HÍ.

Skáldsagan Jón eftir Hemingway

Jón Karl Helgason, 01/10/2011

Ferðafélagar“ er heiti á fyrirlestraröð Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands og Gljúfrasteins í vetur. Ég ríð á vaðið sunnudaginn 2. október með erindi sem nefnist „Skáldsagan Jón eftir Ernest Hemingway. Þýðingarvandi Stefáns Bjarmans og Halldórs Laxness“. Á fimmta áratug liðinnar aldar tók Stefán Bjarman að sér að þýða skáldsögu Hemingways, For Whom the Bell Tolls, fyrir bókaforlagið Helgafell. Stefán lenti í miklum hremmingum við það verkefni og átti meðal annars í harðvítugum deilum við útgefanda verksins, Ragnar Jónsson í Smára, um hver íslenski titillinn skyldi vera. Einn ljósasti punkturinn í þýðingarvinnunni var hins vegar þegar Halldór Laxness hitti Stefán og bauðst til að lesa yfir uppkast að þýðingunni. Í fyrirlestri mínum rifja ég upp þessa sögu og velti vöngum yfir því hvað hún og fleiri frásagnir af Halldóri, sem einnig tengjast þýðingum, geta sagt okkur um skáldið á Gljúfrasteini og samtíma þess. PS. Hluti af þessum fyrirlestri er nú aðgengilegur á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.Ferðafélagar“ er heiti á fyrirlestraröð Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands og Gljúfrasteins í vetur. Ég ríð á vaðið sunnudaginn 2. október með erindi sem nefnist „Skáldsagan Jón eftir Ernest Hemingway. Þýðingarvandi Stefáns Bjarmans og Halldórs Laxness“. Á fimmta áratug liðinnar aldar tók Stefán Bjarman að sér að þýða skáldsögu Hemingways, For Whom the Bell Tolls, fyrir bókaforlagið Helgafell. Stefán lenti í miklum hremmingum við það verkefni og átti meðal annars í harðvítugum deilum við útgefanda verksins, Ragnar Jónsson í Smára, um hver íslenski titillinn skyldi vera. Einn ljósasti punkturinn í þýðingarvinnunni var hins vegar þegar Halldór Laxness hitti Stefán og bauðst til að lesa yfir uppkast að þýðingunni. Í fyrirlestri mínum rifja ég upp þessa sögu og velti vöngum yfir því hvað hún og fleiri frásagnir af Halldóri, sem einnig tengjast þýðingum, geta sagt okkur um skáldið á Gljúfrasteini og samtíma þess.

Félagslegt hlutverk þjóðardýrlinga

Jón Karl Helgason, 12/08/2011

"Relics and Rituals: The Canonization of Cultural "Saints" from a Social Perspective," er titill á grein sem ég hef nýverið birt í slóvenska tímaritinu Primerjalna književnost (Samanburðarbókmenntir). Í greininni fjalla ég um félagslegt hlutverk þjóðardýrlinga í ljósi á helgifestu þriggja 19. aldar skálda; slóvenska ljóðskáldsins France Prešeren, danska ævintýraskáldsins Hans Christian Andersen og loks Jónasar Hallgrímssonar. Samanburður á arfleifð þeirra þriggja leiðir meðal annars í ljós and Andersen hefur athyglisverða sérstöðu gagnvart þeim Prešeren og Jónasi sem markast meðal annars af því að Danir háðu ekki sjálfstæðisbaráttu á 19. og 20. öld, ólíkt Slóvenum og Íslendingum. Dagana 1-.3. september næstkomandi kynni ég þær rannsóknir sem hér um ræðir á ráðstefnunni Literary Dislocations sem evrópsk samtök samanburðarbókmenntafræðinga standa fyrir í borgunum Skopje og Ohrid í Makedóníu, en á ráðstefnunni verður sérstök málstofa helguð evrópskum þjóðardýrlingum.

Eiga Jón og Jónas að hafa vistaskipti?

Jón Karl Helgason, 16/06/2011

Í nýju hefti af Andvara birti ég grein undir titlinum "Manngangur sjálfstæðisbaráttunnar" þar sem rakið er hvernig líkneski Jóns Sigurðssonar rataði á Austurvöll. Í upphafi greinarinnar er vitnað í nýlega skáldsögu Kára Tuliniusar, Píslarvottar án hæfileika, þar sem segir frá fimm reykvískum ungmennum sem dreymir um að skipuleggja hryðjuverk en eiga í nokkru basli með að finna sér málstað sem þau geta trúað á og barist fyrir. Í síðari hluta sögunnar, sem gerist í nóvembermánuði 2008, sitja tvö þessara ungmenna, Sóli og Lilja, á bekk undir styttunni af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og ræða um styttur bæjarins og táknrænt gildi þeirra. Sóli saknar líkneskis af Jóni Arasyni, eina „Íslendingnum sem beitti vopnum gegn Dönum“.  ‘Listaskáldið góða’ er hins helsta átrúnaðargoð Lilju og ef hún mætti ráða hefðu líkneski þeirra Jóns Sigurðssonar, sem stendur á miðjum Austurvelli, umsvifalaus vistaskipti. Hún segir meðal annars: "Af hverju heldurðu að Jónas sé hafður hérna í felum í rjóðri í Hljómskálagarðinum meðan dauðyfli eins og Jón Sigurðs stendur fyrir framan Alþingi? Ég meina það, gaurnum datt ekkert betra í hug til að vekja athygli á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en að senda danska ríkinu gíróseðil eins og einhver helvítis þjóðarbúðarloka. Hann er mest sorrí sjálfstæðishetja í öllum heiminum.“ Í augum stúlkunnar er Jón táknmynd þess úrkynjaða valds sem hún og félagar hennar vilja gera uppreisn gegn – „vælukjói og konungssleikja, hetja búrókrata og endurskoðenda“. Jónas er aftur á móti táknmynd sjálfs uppreisnarandans, enda þykist hún viss um að ef hann hefði „verið lifandi og á Þjóðfundinum hefði hann pottþétt farið út í beinar aðgerðir“. Í Andvaragreininni kemur skýrt fram að margháttaðar hugmyndir voru á lofti um staðsetningu þeirra Jónasar og Jóns í borgarmyndinni á sínum tíma og að það er engan veginn sjálfgefið að þeir skuli vera nú þar sem þeir eru.Í nýju hefti af Andvara birti ég grein undir titlinum "Manngangur sjálfstæðisbaráttunnar" þar sem rakið er hvernig líkneski Jóns Sigurðssonar rataði á Austurvöll. Í upphafi greinarinnar er vitnað í nýlega skáldsögu Kára Tuliniusar, Píslarvottar án hæfileika, þar sem segir frá fimm reykvískum ungmennum sem dreymir um að skipuleggja hryðjuverk en eiga í nokkru basli með að finna sér málstað sem þau geta trúað á og barist fyrir. Í síðari hluta sögunnar, sem gerist í nóvembermánuði 2008, sitja tvö þessara ungmenna, Sóli og Lilja, á bekk undir styttunni af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og ræða um styttur bæjarins og táknrænt gildi þeirra. Sóli saknar líkneskis af Jóni Arasyni, eina „Íslendingnum sem beitti vopnum gegn Dönum“.  ‘Listaskáldið góða’ er hins helsta átrúnaðargoð Lilju og ef hún mætti ráða hefðu líkneski þeirra Jóns Sigurðssonar, sem stendur á miðjum Austurvelli, umsvifalaus vistaskipti. Hún segir meðal annars: "Af hverju heldurðu að Jónas sé hafður hérna í felum í rjóðri í Hljómskálagarðinum meðan dauðyfli eins og Jón Sigurðs stendur fyrir framan Alþingi? Ég meina það, gaurnum datt ekkert betra í hug til að vekja athygli á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en að senda danska ríkinu gíróseðil eins og einhver helvítis þjóðarbúðarloka. Hann er mest sorrí sjálfstæðishetja í öllum heiminum.“ Í augum stúlkunnar er Jón táknmynd þess úrkynjaða valds sem hún og félagar hennar vilja gera uppreisn gegn – „vælukjói og konungssleikja, hetja búrókrata og endurskoðenda“. Jónas er aftur á móti táknmynd sjálfs uppreisnarandans, enda þykist hún viss um að ef hann hefði „verið lifandi og á Þjóðfundinum hefði hann pottþétt farið út í beinar aðgerðir“. Í Andvaragreininni kemur skýrt fram að margháttaðar hugmyndir voru á lofti staðsetning þeirra Jónasar og Jóns í borgarmyndinni á sínum tíma og að það er engan veginn sjálfgefið að þeir skuli vera nú þar sem þeir eru.