Vatnsberinn verður færður niður í Bankastræti

Jón Karl Helgason, 30/05/2011

Í liðinni viku birti ég greinina "Hvar á blessuð vatnskerlingin heima?" á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Í greininni taldi ég óráð af borgaryfirvöldum að flytja listaverkið Vatnsberann eftir Ásmund Sveinsson, ofan úr Öskjuhlíð niður í Austurstræti, eins og Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hafði gert að tillögu sinni. Síðastliðinn fimmtudag samþykkti borgarráð að flytja listaverkið niður í miðbæ en í stað þess að staðsetja það í Austurstræti var ákveðið að setja það upp á horni Bankastrætis og Lækjargötu, svo að segja á þeim stað sem upphaflega var ætlaður undir þetta verk árið 1949. Það verður að segjast eins og er að sú staðsetning er heldur skárri en Austurstrætið, enda þótt óljóst sé hvort þessi síðbúni hreppaflutningur hefði verið listamanninum að skapi.

Var Sigurður Nordal póstmódernisti?

Jón Karl Helgason, 30/05/2011

Í nýútkominni grein í vorhefti Skírnis 2011, ""Þú talar eins og bók, drengur": Tilraun um meðvitaðan skáldskap", fjalla ég um leikritið Uppstigningu eftir Sigurð Nordal en það var fyrst sett á svið í Iðnó haustið 1945. Í niðurlagi greinarinnar segir meðal annars:

"Árni Ibsen fullyrðir í fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu að þótt Uppstigning sé ekki gallalaust leikrit – honum þykir verkið fulllangt enda sé hugmyndaheimur þess flókinn – marki höfundur þess „upphaf samtíma okkar“.  Hægt er að taka undir þau orð með því að benda á að mörg þeirra einkenna meðvitaðra skáldverka sem hér hafa verið til umræðu hafa gjarnan verið kennd við móderníska eða jafnvel póstmóderníska fagurfræði. Í þessu sambandi má vísa til umfjöllunar Ástráðs Eysteinssonar um samband þessara tveggja hugtaka í greininni „Hvað er póstmódernismi?“ Hann ræðir þar þá hugmynd bandaríska rithöfundarins Johns Barth að „póstmódernistar „samhæfi“ raunsæi og módernisma. Þeir dragi lærdóm af hvorumtveggju en hefji sig um leið upp yfir þær andstæður sem ríkt hafi á milli þessara bókmenntastrauma.“  Ástráður hefur efasemdir um slíkar hugmyndir, honum þykir sem þær beri „of mikinn keim af einingu og lausn“, eins og vel sjáist í riti Lindu Hutcheon Fagurfræði póstmódernismans (A Poetics of Postmodernism, 1988):

"Að hennar mati felst póstmódernismi í því að innleiða sögulegar hefðir á svið verksins en grafa þar jafnóðum undan þeim; sýna hvernig þær virki sem skýring á veruleikanum en sýna um leið að þær standist ekki. Póstmódernisminn tekur hverskonar mótsagnir í þjónustu sína og leikur sér að þeim; hann er alltaf bæði og. Módernismi og realismi eru þar ljúfir leikbræður og hafa gengið upp í einn samnefnara.“ 

Í framhaldi veltir Ástráður fyrir sér að hve miklu leyti sé í raun um að ræða póstmódernískan leshátt sem hægt er að beita á ólík verk frá ólíkum tímum bókmenntasögunnar sem innlimi með einhverjum hætti andstæð fagurfræðileg viðmið eða brúi bilið milli hámenningar og lágmenningar. Í síðarnefnda tilvikinu þurfi „samhæfðu“ verkin reyndar að skilja sig frá klisjunum með innbyggðri „sjálfsvitund sem ber lesanda þau boð að verið sé að stæla hefðbundin form og honum gefist kostur á að taka þátt í þeim leik. Oft leiðir þetta til þess að verkið tekur eigin merkingargrundvöll til athugunar, viðurkenni jafnvel opinskátt að það sé skáldskapur.“  Nordal leiðir vissulega saman hefðir raunsæisins og framúrstefnu í leikriti sínu, leikur sér að þeim og grefur undan þeim jafnóðum en af viðbrögðum sumra gagnrýnenda að dæma virðist eitthvað vanta upp samhæfinguna. Ólíkar uppfærslur verksins virðast vega salt á milli þess að vera bæði og eða hvorki né."

Hver fær að blása á kertin?

Jón Karl Helgason, 15/05/2011

Þjóðhetjan og þjóðríkið er yfirskrift ráðstefnu sem Háskóli Íslands stendur fyrir föstudaginn 27. maí nk. í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Ég hyggst flytja þar erindi um skipulagningu og dagskrá hátíðarhaldanna sem efnt var til í Danmörku í tilefni af 200 ára afmæli H.C. Andersen en þau voru á margan hátt umdeild, ekki síst miklir tónleikar í Kaupmannhöfn þar sem bandaríska söngkonan Tina Turner steig á stokk. Erindið nefni ég "Hver fær að blása á kertin?" Ráðstefnan um þjóðhetjuna og þjóðríkið fer fram í hátíðarsalnum í aðalbyggingu Háskóla Íslands og stendur frá kl. 13.00-16.30. (PS. Nú er hægt er sjá upptökur frá ráðstefnunni á myndbandsvef Háskóla Íslands).

Lesendur Svövu leggja höfuðið í bleyti

Jón Karl Helgason, 10/05/2011

Smásaga Svövu Jakobsdóttur, ,,Saga handa börnum”, var meðal lesefnis á námskeiðinu Íslenskar bókmenntir síðari alda sem ég kenndi nemendum á þriðja ári í Íslensku sem annað mál á þessu vori. Við undirbúning kennslunnar rakst ég á athyglisverða umræðu um söguna á lesendasíðu dagblaðsins Vísis frá kvennaárinu 1975 en þar var meðal annars deilt um heilaleysi aðalpersónu sögunnar og meint fattleysi lesenda hennar. Einn málshefjenda sagði af þessu tilefni:  "Mér þótti sagan ljót — ég vil segja viðbjóður. Ég held þó, að ég sé ekki það sljó(r), að ég skilji ekki til fullnustu, hvert verið er að fara.“ Hægt er að fræðast nánar um þessi skoðanaskipti í nýjum pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.

Stytturnar í miðbænum

Jón Karl Helgason, 26/03/2011

Stytturnar í miðbæ Reykjavíkur eru viðfangsefni mitt í ríflega hálftíma löngum veffyrirlestri sem aðgengilegur er á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Þar er rakið hvernig líkneski af nafngreindum einstaklingum röðuðust upp í höfuðstaðnum á árabilinu 1875 til 1975 en megináhersla er lögð á þær breytingar sem voru gerðar á skipulagi þeirra árið 1931. Fyrirlesturinn var upphaflega fluttur á málþingi um framtíð Jóns Sigurðssonar sem Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stóð fyrir í september á liðnu ári.

Dularfulla fánastangamálið

Jón Karl Helgason, 16/03/2011

Að morgni 16. nóvember 1907, þegar menn hugðust draga upp blá-hvíta fána í tilefni af aldarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, komust þeir að því að búið var að skera á bönd fjölmargra fánastanga í miðbæ Reykjavíkur. Í fyrirlestrinum "Dularfulla fánastangamálið. Átökin í kringum aldarminningu Jónasar Hallgrímssonar", sem ég flyt á síðara Hugvísindaþingi 26. mars, verður þessi dularfulli „glæpur“ tekinn til rannsóknar og tengdur afhjúpun á styttu Jónasar síðar þennan sama dag, sem og flokkadráttum í íslenskum stjórnmálum á fyrstu árum heimastjórnarinnar. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu um Menningarsagnfræði í stofu 52 í kjallara Aðalbyggingar Háskóla Íslands sem hefst kl. 15.00.

Nordal, Brecht og Pirandello

Jón Karl Helgason, 10/03/2011

Haustið 1945 frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur leikritið Uppstigningu eftir H.H. en þeir upphafstafir vísuðu til einnar aukapersónu verksins, Hæstvirts höfundar. Í lok sýningartímans kom á daginn að á bak við þetta dulnefni stóð Sigurður Nordal (1886-1974), prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Í fyrirlestrinum "„Þú talar eins og bók“. Pirandello, Brecht og Nordal" sem ég flyt á fyrra Hugvísindaþingi föstudaginn 11. mars ætla ég að setja verk Nordals í samband við fagurfræði leikritahöfundanna Luigis Pirandello (1867-1936) og Bertold Brecht (1898-1956) og kenningar bandaríska bókmenntafræðingsins Brians Stonehill um meðvituð skáldverk (e. self-conscious fiction). Fyrirlesturinn hefst klukkan 13.35, í stofu 225 í aðalbyggingu Háskólans.

Hvað er asesúlfam-K?

Jón Karl Helgason, 25/02/2011

Geisladiskurinn Búum til börn með hljómsveitinni Moses Hightower er tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir framúrskarandi textasmíði. Af því tilefni birti ég á Hugrás, nýju vefriti Hugvísindasviðs, greinina Hvað er asesúlfam-K? um samband textasmiða hljómsveitarinnar, þeirra Andra Ólafssonar og Steingríms Karls Teague, við íslenska tungu. Niðurstaða þessa alvörulausa ritdóms er í stuttu máli sú að þeir félagar séu skínandi dægurlagaskáld enda eru textarnir þeirra löðrandi í dásamlega einlægri sjálfsíróníu.

Ritstuldur í íslenskum skáldskap

Jón Karl Helgason, 21/02/2011

"Translating, Rewriting, Plagiarizing: Crisis of Authorship in Contemporary Icelandic Literature" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnunni Writing (in the) crisis: on the situation of Icelandic contemporary literature sem Háskólinn í Basel í Sviss stendur fyrir 3. til 5. mars næstkomandi. Í fyrirlestrinum hyggst ég ræða hvernig íslenskir höfundar á borð við Braga Ólafsson, Eirík Guðmundsson, Einar Kárason, Hermann Stefánsson, Stefán Mána og Sjón hafa á liðnum árum fengist við spurningar um höfundarskap, frumleika, ritstuld og endurritun í sumum skáldsagna sinna. Í nokkrum tilvikum er vísað með beinum hætti til umdeilanlegrar heimildanotkunar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness sem út kom árið 2003 en fróðlegt er að velta fyrir sér hvort einhver tengsl séu á milli ritstuldar og íslenska bankahrunsins.

Miðnætursólborgarstjórinn

Jón Karl Helgason, 31/01/2011

Jón Gnarr, leiðtogi Besta flokksins, á að baki fjölbreyttan feril sem skemmtikraftur, leikari og rithöfundur. Í tilefni af núverandi starfsskyldum Jóns sem borgarstjóri hef ég skrifað stutta grein, Miðnætursólborgarstjórinn, um eina af fyrstu bókum hans, skáldsöguna Miðnætursólborgin, en þar er dregin upp martaðarkennda mynd af Reykjavík framtíðarinnar. Greinin birtist á Hugrás, nýju vefriti Hugvísindasviðs.