Trúarleg minni í Vikivaka

Jón Karl Helgason, 13/12/2010

"Dómsdagsmynd Gunnars Gunnarssonar," er titill greinar sem ég birti í nýútkomnu hausthefti Andvara 2010 en í henni er fjallað um trúarleg og persónuleg minni í skáldsögunni Vikivaka. Greinin er eins konar viðauki við grein sem ég birti Skírni vorið 2008 um Vikivaka sem sögusögn (e. metafiction) en að þessu sinni beinist athyglin að því hvernig höfundur vinnur með tvö þekkt bíblíutákn, lúðrana sem boða komu dómsdags og Jakobsstigann sem liggur frá jörðu himins. Sérstakri athygli er beint að vestrænum og austrænum dómsdagsmyndum en í niðurlagi er drepið á tengsl skáldsögunnar við ævi Gunnars sjálfs.

Sögusagnir og Snorra-Edda

Jón Karl Helgason, 26/11/2010

"Sögusagnir: Sjónarhorn á íslenskar miðaldabókmenntir"  er titillinn á fyrirlestri sem ég flyt á málþinginu Staðlausir stafir í hátíðarsal Háskóla Íslands 4. desember næstkomandi. Málþing er haldið af Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum til heiðurs Helgu Kress, prófessors emeritus. Í fyrirlestrinum hyggst ég ræða um að hve miklu marki íslenskar miðaldabókmenntir fjalla um tungumálið, sína eigin tilurð, skáldskaparfræði og viðtökur. Sótt verður í skrif Helgu og Laurence de Looze um efnið, auk þess sem sérstakri athygli verður beint að Eddu Snorra Sturlusonar.

Minni, gleymska og norðurslóðir

Jón Karl Helgason, 16/11/2010

Minni og gleymska á Norður Atlantshafi (Memory and Forgetting in the North Atlantic) er yfirskrift vinnustofu fyrir doktorsnema sem Deildir menningar- og listfræði við Kaupmannahafnarháskóla og Deild evrópskrar menningarfræða við Háskólann í Hróarskeldu standa fyrir 23. nóvember næstkomandi. Meðal fyrirlesara þennan dag eru Joep Leerssen, Marianna Ping Huang, Kim Simonsen og við Sumarliði Ísleifsson. Fyrirlestur minn fjallar um samfélagslegt hlutverk þjóðardýrlinga. Að minnsta kosti tveir framhaldsnemendur við Íslensku- og menningardeild verða meðal þátttakenda og munu þeir kynna rannsóknarverkefni sín með veggspjöldum.

Kapphlaupið milli Bjarna og Jónasar

Jón Karl Helgason, 04/11/2010

"Bjarni eða Jónas? Kanónísering þjóðskálds á 19. öld," er titillinn á erindi sem ég flyt á Jónasarvöku í Þjóðmenningarhúsinu 16. nóvember kl. 17.15. Hugmyndin er kanna þann núning sem var á milli aðdáenda Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar á árabilinu 1880-1900 um það hvor ætti frekar skilið að bera lárviðarsveig þjóðskáldsins. Bogi Melsteð hélt minningu Bjarna mjög á lofti og gerði honum hátt undir höfði í Sýnisbók íslenskra bókmennta á 19. öld sem út kom 1891. Bogi sat ennfremur í nefnd um gerð minnisvarða um skáldið en fjársöfnun vegna hans virðist ekki hafa gengið sem skyldi. Svo fór að Jónas skaut Bjarna ref fyrir rass, meðal annars fyrir atbeina manna eins og Hannesar Hafstein. Því er það að Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember, fæðingardagur Jónsar, en ekki 30. desember, fæðingardagur Bjarna.

M.A. ritgerðir Ástu Kristínar og Ernu

Jón Karl Helgason, 11/10/2010

Þær Ásta Kristín Benediktsdóttir og Erna Erlingsdóttir hafa á þessu ári lokið við M.A. ritgerðir í íslenskum bókmenntum undir minni leiðsögn. Í ritgerðinni ""Form og stíll örðugt viðfangs." Frásagnaraðferð í verkum Jakobínu Sigurðardóttur" færir Ásta Kristín veigamikil rök fyrir því að Jakobína eigi skilið að vera talin einn af formbyltingarhöfundum íslenskrar sagnagerðar. Ritgerð Ernu ber titilinn "Skáldskapur og stjórnmál: Íslenskt bókmenntasvið um miðja 20. öld". Þar eru kenningar franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu lagðar til grundvallar greiningu á útgáfustarfi íslenskra sósíalista, deilum um úthlutun rithöfundalauna, klofningi í félagsskap íslenskra rithöfunda og stofnun Almenna bókafélagsins.  Efni þessara athyglisverðu ritgerða mun vonandi birtast á opinberum vettvangi á næstu misserum.

Kennsluvika í Feneyjum

Jón Karl Helgason, 01/10/2010

Vikuna 3. til 9. október 2010 verð ég gestakennari við málvísindadeild Università Ca' Foscari í Feneyjum, og flyt þar meðal annars fyrirlestra um bókmenntalega meðvitund í íslenskum miðaldabókmenntum og um viðtökur Íslendingasagna í Evrópu á 19. og 20. öld. Þá mun ég taka þátt í vinnustofu sem helguð er fjölkerfiskenningum (polysystem-theory) ísraelska fræðimannsins Itamar Even-Zohars en hann verður þar meðal þátttakenda. Ferðin er styrkt af Erasmus-áætlun Evrópusambandsins.

Hugleiðing um helgifestu

Jón Karl Helgason, 28/09/2010

Á undanförnum öldum hafa tilteknir evrópskir einstaklingar átt beinan eða óbeinan þátt í að móta og efla þjóðarvitund landa sinna, gjarnan með afskiptum af stjórnmálum eða störfum á vettvangi menningar og lista. Í fyrirlestri sem ég flyt í fundaröð Alþjóðamálastofnunar föstudaginn 1. október ræði ég um þær formgerðir og þá siði sem mótast hafa í kringum nöfn og minningu þessara einstaklinga, sem og félagslegt hlutverk þeirra á síðari tímum. Þegar hugað er að þessum þáttum koma í ljós svo margar hliðstæður við kristna dýrlingahefð og að vart er um tilviljun að ræða. Fyrirlesturinn nefnist „Evrópskir þjóðardýrlingar: Hugleiðing um helgifestu“, hann er í stofu 103 á Háskólatorgi og hefst klukkan 12.00.

Sameiningartákn þjóðarinnar

Jón Karl Helgason, 17/09/2010

Í tengslum við Vísindavöku, sem haldin er föstudaginn 24. september, býður RANNÍS almenningi í Vísindakaffi dagana á undan á Súfistanum, Laugavegi 18, frá kl. 20.00-21.30. Fimmtudaginn 23. september mun ég fjalla þar um efnið "Hver eru sameiningartákn íslensku þjóðarinnar? Frá Njáli Þorgeirssyni til Helga Hóseassonar." Mig langar til að fá gesti til að velta fyrir sér með hvaða hætti ýmsar persónur úr íslenskri sögu og bókmenntum hafa til lengri eða skemmri tíma orðið fulltrúar þjóðarinnar allrar eða tiltekinna hópa innan hennar. Meðal þess sem ber á góma eru styttur og minnismerki í Reykjavík, rithöfundasöfn á landsbyggðinni, götuheiti og íslenskir peningaseðlar. Þess má geta að rannsóknarverkefnið Cultural Saints of the European Nation States verður kynnt á Vísindavökunni í Hafnarhúsinu daginn eftir frá kl. 17.00-22.00.

Uppi á stórum stalli Jón

Jón Karl Helgason, 30/08/2010

Sunnudaginn 12. september næstkomandi verð ég meðal fyrirlesara á málþingi sem Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stendur fyrir. Þingið ber yfirskriftina "Framtíð Jóns Sigurðssonar - Karlar á stalli og ímyndasköpun" og er efnt til þess í tilefni af væntanlegu stórafmæli Jóns forseta á næsta ári. Aðrir fyrirlesarar eru Sigurður Gylfi Magnússon, Páll Björnsson og Guðmundur Hálfdanarson. Ég hyggst fjalla um líkneski Jóns forseta sem stendur á Austurvelli gegnt Alþingishúsinu en upprunalega hugmyndin var að koma því fyrir framan við Safnahúsið við Hverfisgötu. Saga þess tengist einnig styttum af Bertel Thorvaldsen, Jónasi Hallgrímssyni, Kristjáni IX og Hannesi Hafstein sem settir voru á stall í höfuðstaðnum á árabilinu 1875 til 1931. Þess má geta að kynning á málþinginu á Skagaströnd á eyjunni.is hefur vakið töluverða athygli og umræður. Þingið fer fram í Bjarmanesi á Skagaströnd, það stendur frá kl. 13.00 til 16.00 og er öllum opið.

Turnleikhús Thors og Inception eftir Nolan

Jón Karl Helgason, 04/08/2010

Þessa dagana er ég að ganga frá fræðigrein til prentunar um skáldsöguna Turnleikhúsið (1979) eftir Thor Vilhjálmsson. Greinin mun birtast í næsta hefti Ritsins, tímariti Hugvísindastofnunnar, seinna á þessu ári. Söguna greini ég meðal annars með hliðsjón af skrifum Umbertos Eco um völundarhús, hugmyndum Italo Calvino um veruleikasvið og umfjöllun Brians McHale um tálsýnir (trompe l'oeil). Þess má geta að margar þeirra fagurfræðilegu hugmynda sem Thor vinnur með ganga aftur í kvikmynd Christophers Nolan, Inception, sem notið hefur gríðarlegra vinsælda í kvikmyndahúsum síðustu daga. Sögusvið Turnleikhússins minnir á Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu en reynist vera afar draumkennd útgáfa byggingarinnar þar sem víddirnar þrjár eru í uppnámi og ítrekað gefið til kynna að lesandinn sé staddur í heimi innan heims innan heims. Í sögu Thors, rétt eins og kvikmynd Nolans, má ennfremur finna viss tengsl við hugarheim hollenska teiknarans M.C. Eschers (1898-1972), til dæmis myndirnar Afstæði og Upp á við og niður á við. Ég fjalla nánar um þetta efni í stuttum pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.