Ný þýðing Jónasar Hallgrímssonar

Jón Karl Helgason, 31/05/2010

Árið 1906 komu út á íslensku fjórar þýðingar Jónasar Hallgrímssonar á áður óþekktum ævintýrum eftir danska skáldið Hans Christian Andersen. Einu þessara ævintýra fylgdi danskur frumtexti og í sömu útgáfu mátti einnig finna áður óbirta smásögu eftir Jónas sjálfan. Allir höfðu þessir textar orðið til í framhaldi af ósjálfráðri skrift sautján ára menntaskólapilts, Guðmundar Jónssonar, síðar Kamban. Ég hyggst fjalla um þessar þýðingar á ráðstefnunni Translation, History, Literary Culture. Nordic Perspectives sem Bókmennta- og listfræðastofnun stendur fyrir í Háskóla Íslands 25.-26. júní næstkomandi.

Rannsóknir á Prešeren

Jón Karl Helgason, 31/05/2010

Dagana 20. maí til 10. júní 2010 nýt ég starfsaðstöðu við Rannsóknarstofnun slóvenskra bókmennta og bókmenntafræða vegna sameiginlegs rannsóknarverkefnis hennar og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands sem fengið hefur heitið Cultural Saints of the European Nation States. Í fyrsta áfanga beinast rannsóknirnar að Jónasi Hallgrímssyni (1807-1845) og slóvenska skáldinu France Prešeren (1800-1849) en þeir eiga ýmislegt sameiginlegt, bæði sem skáld og þjóðardýrlingar. Slóvensku fræðimennirnir Marko Juvan og Marijan Dović heimsækja Ísland í tengslum við þetta verkefni en auk mín mun Sveinn Yngvi Egilsson dvelja í Ljúbljana á árinu. Í haust kennum við Sveinn Yngvi námskeið á M.A. stigi í íslensku sem nefnist Þjóðardýrlingar og verður Marko Juvan þar meðal fyrirlesara.