"Hver skóp Þingvelli sem sögulegt minnismerki?" er titill greinar sem ég birti í nýju hefti Sögu, tímarits Sögufélags. Þar gagnrýni ég þá viðteknu skoðun að Jónas Hallgrímsson hafi lagt grunn að nútímahugmyndum Íslendinga um staðinn með ljóðum á borð við „Ísland“ og „Fjallið Skjaldbreiður“. Í grein í Skírni árið 2009 setti Sveinbjörn Rafnsson reyndar fram þá kenningu að Finnur Magnússon og Baldvin Einarsson hafi haft sín áhrif á þessi ljóð Jónasar en ég tel málið sé aðeins flóknara; skrif þeirra félaga eru að öllum líkindum bergmál skrifa breskra ferðamanna um Þingvelli frá öðrum áratug nítjándu aldar, einkum þó Sir Georges S. Mackenzie.
"Fingraför fornsagnahöfunda" er grein sem við Sigurður Ingibergur Björnsson og Steingrímur Páll Kárason birtum í nýjasta hefti Skírnis sem er nú á leið til áskrifenda. Þar er fjallað um leit manna að höfundum íslenskra fornsagna, og kynntar stílmælingar (e. stylometry) þeirra Sigurðar og Steingríms sem gefa vísbendingar um það hvort Snorri Sturluson sé, eins og margir telja, höfundur Egils sögu, og eins hvort Sturla Þórðarson, eins og Matthías Johannessen og Einar Kárason hafa haldið fram, sé höfundur Njáls sögu. Niðurstöður þessara mælinga styrkja aðra kenninguna en veikja hina, og gefa þar að auki forvitnilegar vísbendingar um stílleg tengsl fleiri fornsagna. Þess má geta að stílmælingar á fornsögum verða til umfjöllunar í fréttaþættinum Kveik þriðjudagskvöldið 28. nóvember.
Við Sif Ríkharðsdóttir og Sverrir og Ármann Jakobsdóttir efnum til samdrykkju í stofu 301 í Árnagarði föstudaginn 10. nóvember kl. 12.00-13.00. Tilefnið eru fimm nýleg fræðirit á ensku sem við höfum ýmist samið eða ritstýrt. Ármann mun kynna bók sína, The Troll Inside You: Paranormal Activity in the Medieval North, sem út kom hjá Punctum síðastliðið sumar. Sif mun kynna bók sína Emotions in Old Norse Literature. Translations, Voices, Contexts sem út kom hjá Boydell & Brewer nú í október. Sverrir mun kynna tvö nýútkomin greinasöfn, annars vegar The Routledge Research Companion to the Medieval Icelandic Sagas sem hann ritstýrir ásamt Ármanni Jakobssyni og hins vegar Sturla Þórðarson: Skald, Chieftain and Lawman sem hann ritstýrir ásamt Jóni Viðari Sigurðssyni. Að síðustu mun ég kynna bók mína Echoes of Valhalla. The Afterlife of the Eddas and Sagas sem út kom hjá Reaktion Books í aprílmánuði. Fundarstjóri er Torfi H. Tulinius. Gestum er velkomið að hafa með sér nesti og nærast á meðan á samdrykkjunni stendur.
Í Smásögum heimsins birtast íslenskar þýðingar á snjöllum smásögum úr öllum heimsins hornum. Á liðnu ári kom út fyrsta bindið með smásögum frá Norður-Ameríku en nú er komið út annað bindið þar sem smásögur frá Rómönsku-Ameríku birtast. Meðal höfunda sem eiga þarna sögur eru Jorge Luis Borges, Juan Rulfo, Clarice Lispector, Julio Cortázar, Pedro Peix, Yanick Lahens og María Luisa Bombal. Í stórum hópi þýðenda eru Guðbergur Bergsson, Ásdís R. Magnúsdóttir, Friðrik Rafnsson, Erla Erlendsdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir, Hermann og Jón Hallur Stefánssynir, María Gestsdóttir, Sigfús Bjartmarsson, Skúli Jónsson, Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir en tvö þeirra síðastnefndu eru með mér í ritstjórn þessa metnaðarfulla verkefnis. Áformað er að sögur frá Asíu og Eyjaálfu komi út að ári.
"The Development of Cultural Infrastructure in Small Societies" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnu The International Society for Polysystem Studies (ISPS) í Trento á Ítalíu 7. október næstkomandi. Þetta er í annað sinn sem þessi ráðstefna er haldin en fyrir ári síðan var hún í Reykholti. Að baki ISPS standa fræðimenn frá ólíkum löndum sem hafa nýtt í sínum rannsóknum kenningar ísraelska fræðimannsins Itamars Even-Zohar um fjölkerfisfræði (polysystem studies) en hann er heiðursgestur ráðstefnunnar. Gestgjafar hennar að þessu sinni eru ítölsku bókmenntafræðingarnir Massimiliano Bampi sem kennir við Ca-Foscari háskólann í Feneyjum og Fulvio Ferrari, sem kennir við Háskólann í Trento. Fulvio er jafnframt annar af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar. Erindi hans nefnist "Old Norse literature and Italian cultural polysystem: translations and rewrites".
Miðstöð íslenskra bókmennta stendur á næstu dögum fyrir þýðendaþingi þar sem um 30 þýðendur íslenskra bókmennta koma saman til skrafs og ráðagerða. Dagskráin fer fram í Veröld - húsi Vigdísar Finnbogadóttur dagana 11. til 12. september og kemur rétt í kjölfarið á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem fram fer dagana 6. til 9. september. Ég held erindi fyrir þýðendahópinn mánudaginn 11. september sem ber titilinn "Sendiherrar án diplómatískra réttinda: Hugleiðing um íslenskunám og þýðendur íslenskra bókmennta". Þar hyggst ég ræða um tengslin á milli okkar dýrmætu þýðenda og kennslu í íslensku sem öðru máli hér við Háskóla Íslands og við aðrar hliðstæðra námsbrautir víða um heim.
Síðustu vikuna í apríl held ég þrjá fyrirlestra við breska háskóla sem tengjast útgáfu Echoes of Valhalla: The Afterlife of Eddas and Sagas, sem bókaforlagið Reaktion Books sendi frá sér um miðjan marsmánuð. Fyrsta fyrirlesturinn flyt ég við University of Leeds þriðjudaginn 25. apríl kl. 17.30 og ber hann titilinn "Brothers in Arms? Snorri Sturluson and Stan Lee as Rewriters of Nordic Myth." Fimmtudaginn 27. apríl flyt ég annan fyrirlestur við University College í London kl. 17.30 og ber hann titilinn "Ibsen's Hiördis, Bottomley's Hallgerd, Shakespeare's Lady Macbeth". Þriðja og síðasta fyrirlesturinn flyt ég við Department of Anglo-Saxon, Norse and Celtic í Cambridge-háskóla 28. apríl kl. 17.00 en hann ber titilinn "Echoes of Valhalla in Viking Metal: The influences of Snorri Sturluson and Led Zeppelin."
Út er komin bók mín, Echoes of Valhalla. The Afterlife of the Eddas and Sagas. Eins og titillinn gefur til kynna er fjallað hér um framhaldslíf íslenskra miðaldabókmennta en sjónum er einkum beint að teiknimyndasögum, kvikmyndum, ferðabókum, leikritum og tónlist. Meðal þeirra listamanna sem við sögu koma eru teiknararnir Jack Kirby og Peter Madsen, leikskáldin Henrik Ibsen and Gordon Bottomley, ferðabókahöfundarnir Frederick Metcalfe og Poul Vad, tónskáldin Richard Wagner og Edward Elgar, rokkararnir Jimmy Page og Robert Plant og kvikmyndaleikstjórarnir Roy William Neill og Richard Fleischer. Þá er einn kafli bókarinnar helgaður endurritaranum Snorra Sturlusyni. Útgefandi Echoes of Valhalla er breska bókaforlagið Reaktion Books en bókinni er dreift í Bandaríkjunum í gegnum University of Chicago Press. Þess má geta að nýlega rataði bókin inn á tíu bóka lista breska dagblaðsins Guardian "Top 10 books about the Vikings". Á þessu misseri held ég fáeina fyrirlestra um efni bókarinnar í Danmörku og Bretlandi. Sá næsti verður við Árnastofnun í Kaupmannahöfn 6. apríl og ber titilinn "Poul Vad, Hrafnkatla and Páll Gíslason."
Á liðnu ári var ég leiðbeinandi eða meðleiðbeinandi að þremur MA ritgerðum; einni í þýðingafræði, einni í ritlist og einni í miðaldafræðum. Natalia Kovachkina lauk við rússneskar þýðingar á átján íslenskum smásögum sem hún valdi og ritaði formála að. Nokkrar þýðingana hafa þegar birst í rússneskum tímaritum og fleiri eru væntanlegar en skemmtilegast væri þó að þetta tilkomikla safn kæmi út á bók í Moskvu fyrr eða síðar. Jóhannes Ólafsson lauk við íslenska þýðingu sína á skáldsögunni Fear and Loathing in Las Vegas eftir Hunter S. Thompson. Ber hún titilinn Uggur og andstyggð í Las Vegas: Villimannslegt ferðalag að hjarta ameríska draumsins og kemur væntanlega út hjá Forlaginu síðar á þessu ári. Í nóvember var Jóhannes í viðtali á Rás 1, Ríkisútvarpinu, um Thompson og þýðingu sína. Loks má nefna MA ritgerð Shirley N. McPhaul, "Vikings and Gods in Fictional Worlds: Remediation of the Viking Age in Narrative-Driven Video Games" en þar er fjallað um nýtt og spennandi efni; tölvuleiki sem sækja sér innblástur í norræna goðafræði og fornsögur. Ég vil óska þeim öllum til hamingju með MA gráðurnar og þessi metnaðarfullu lokaverkefni.
Myth and "Nation Building" er titill á ráðstefnu sem Sorbonne-háskólinn og Grundtvig-lærdómssetrið í Árósum standa að í París 26. til 27. janúar næstkomandi. Þar mun hátt í tugur fræðimanna og -kvenna fjalla um hlutverk norrænna heiðinna goðsagna í þróun evrópskra þjóðríkja á nítjándu öld. Það kemur í minn hlut að fjalla um Ísland í þessu samhengi en fyrirlestur minn á þinginu ber titilinn "'Og hvur sá Ás, sem ata þeir í kvæði': Nordic Myth and Iceland's Independence Movement". Ætlunin er að skoða sérstaklega kvæði Jónasar Hallgrímssonar, þar á meðal "Hulduljóð" og "Ísland" en síðarnefnda kvæðið er ágætt dæmi um það hvernig íslenska þjóðskáldið vinnur úr erlendum fyrirmyndum í verkum sínum. Mun ég sérstaklega ræða tengsl kvæðisins við skrif Oehlenschlägers og Grundtvigs.