Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska, þjóðrækni og þjóðremba

2. Íslensk málrækt felst í því að gæta þess að umhyggja fyrir íslenskunni snúist ekki upp í þjóðrembu og andstöðu við önnur tungumál

Það er alkunna að tungumálið lék eitt aðalhlutverkið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Allt frá upphafi baráttunnar snemma á 19. öld var áhersla lögð á íslenskuna og mikilvægi hennar fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund, og iðulega var sett samasemmerki milli hnignunar tungumálsins og dvínandi þjóðerniskenndar. En þótt áhersla væri lögð á endurreisn tungunnar og hreinsun af dönskum áhrifum í tengslum við eflingu þjóðerniskenndar og baráttu fyrir auknum réttindum Íslendinga á 19. öld var bar­áttan einkum háð innanlands en ekki við dönsk stjórnvöld.

Á seinni hluta 19. aldar var verið að draga skarpari landamæri en áður víða um Evrópu og þjóð­ríki í nútímaskilningi voru að verða til. Víða lentu þá innan sama ríkis hópar og þjóðarbrot sem töluðu mismunandi tungumál. Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld iðu­lega áherslu á eitt ríkismál, og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála innan ríkisins. En dönsk stjórnvöld virðast aldrei hafa gert miklar tilraunir til að þröngva dönsku upp á Íslendinga.

Þvert á móti – allt frá 17. öld voru gefnar út ýmsar tilskipanir og konungsbréf sem ýmist heimiluðu eða mæltu fyrir um notkun íslensku á ýmsum sviðum stjórnsýslunnar. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar því ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Tungumálið var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslend­inga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notað til að leiða Íslendingum sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungumálið vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var það vopnið.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að vilja veg íslenskunnar sem mestan. En stundum hefur umræða um hana borið keim af öfgafullri þjóðernisstefnu og hreinleiki málsins jafnvel verið tengdur hreinleika kynstofnsins. Á þessu örlaði á uppgangstíma nasismans á fjórða áratug síðustu aldar og svipaðar raddir hafa stöku sinnum heyrst á síðustu árum, einkum hjá forvígismönnum Íslensku þjóðfylkingarinnar.

En það er líka stutt frá áherslu á íslenska þjóðmenningu yfir í hugmyndir um yfirburði íslenskunnar yfir önnur tungumál. Slíkt má ekki viðgangast. Umhyggja fyrir íslenskunni er heilbrigð þjóðrækni sem við megum ekki láta víkja fyrir þjóðrembu, því að eins og Guðni Th. Jóhannesson hefur sagt „er þjóðrækni til fyrirmyndar en þjóðremba alls ekki. Hún felur í sér gorgeir og þótta í garð annarra, dramb og yfirlæti. Þjóðremba elur á óvild, þjóðrækni snýst um umburðarlyndi, víðsýni og náungakærleik“.

Um þessar mundir er mikið rætt um aukna enskunotkun á Íslandi og hugsanleg ensk áhrif á íslenskuna. Þessi umræða eru eðlileg og nauðsynleg en mikilvægt er að hún snúist ekki upp í andstöðu við ensku eða erlend mál yfirleitt. Enskan er ekki óvinurinn þótt því sé stundum haldið fram. Enskan er alþjóðamál sem er mikilvægt að hafa á valdi sínu og það er gott að börn og unglingar læri hana sem best. En hún má hins vegar ekki valta yfir íslenskuna. Það er á okkar ábyrgð að svo verði ekki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenskan sem menningarverðmæti

1. Íslensk málrækt felst í því að hafa í huga að í hverju tungumáli felast menningarverðmæti og við berum ábyrgð á framtíð íslenskunnar.

Talið er að um sjö þúsund tungumál séu nú töluð í heiminum. Rúm 40% þeirra, tæp þrjú þúsund, eru talin í útrýmingarhættu og tvö þúsund af þeim eru töluð af færri en þúsund manns. UNESCO áætlar að meira en helmingur þeirra tungumála sem nú eru töluð muni deyja út fyrir lok þessarar aldar og hefur sett fram áætlun um tungumál í hættu (Endangered Language Programme) til að stuðla að varðveislu sem flestra mála vegna þess að í öllum þessum tungumálum felast ómetanleg menningarverðmæti.

Sérhvert tungumál er einstakt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi er frábrugðið öllum öðrum tungumálum, merkingar­blæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er (og slík gögn eru forgengileg eins og sannaðist átakanlega í bruna þjóðminjasafns Brasilíu haustið 2018), verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.

Samkvæmt mælikvarða UNESCO um lífvænleik tungumála er íslenska í fimmta og efsta styrkleikaflokki og er örugg (safe). Kvarði UNESCO byggist á nokkrum mælistikum og hingað til hefur verið talið ótvírætt að íslenska sé í efsta þrepi á þeim öllum. Til að komast í efsta þrepið þarf málið að vera notað af öllum aldurshópum, frá börnum og upp úr; vera notað af öllum íbúum málsvæðisins; vera notað á öllum sviðum og til allra þarfa; aðlagast nýjum notkunarsviðum; og eiga sér ritmál, rithefð, mállýsingar, orðabækur, bókmenntir og fjölmiðla, og ritmálið þarf að vera notað í stjórnsýslu og menntun.

En ef til vill er ekki lengur alveg ljóst að íslenska nái efsta þrepi samkvæmt öllum viðmiðum. Utanaðkomandi áreiti á tungumálið hefur stóraukist á síðasta áratug, bæði af völdum þjóð­félags­breytinga og tæknibreytinga. Þeim íbúum landsins sem ekki tala íslensku fer t.d. ört fjölg­andi, og enskunotkun fer vaxandi á ýmsum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu, háskólakennslu, viðskiptalífinu og víðar. Jafnframt hafa komið fram vangaveltur um hugsanlega truflun á máltöku vegna ónógrar íslensku í málumhverfinu. Þá gæti alþjóðavæðingin haft áhrif á viðhorf málnotenda til íslenskunnar og valdið þannig auknum þrýstingi á hana.

Þar að auki er ekki víst að þessi viðmið dugi lengur til að mæla lífvænleik tungumála í því stafræna þjóðfélagi sem við búum nú í. Áhrif tungumála hvers á annað berast nú ekki eingöngu gegnum sambýli í raunheiminum, heldur ekki síður gegnum stafrænt málsambýli – net- og snjalltækjanotkun, áhorf á efni á erlendum efnis- og streymisveitum eins og YouTube og Netflix, spilun tölvuleikja á ensku o.fl., og langtímaáhrif þessara þátta eru óljós. Eitt er þó alveg ljóst: Það er okkar að sjá til þess að íslenskan lifi. Ef málnotendur hafa ekki áhuga á því að halda í málið og þar með þau menningarverðmæti sem það geymir er það dauðadæmt. Ábyrgðin er okkar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mikilvægi háskólakennslu á íslensku

Það er ekki að ástæðulausu að Háskóli Íslands, helsta vísinda- og menntastofnun landsins, hefur sett sér málstefnu þar sem lögð er áhersla á að íslenska sé sjálfgefið talmál og ritmál skólans, í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu, og sérstaka ástæðu þurfi til að bregða út af því. Fullyrða má að Háskólinn hafi allt frá upphafi gegnt lykilhlutverki í því að viðhalda menningarlegu fullveldi Íslands. Eina nýja deildin sem varð til um leið og Háskólinn var Heimspekideild, eina deildin sem hafði ekki það hlutverk að mennta embættismenn heldur áttu íslensk fræði – rannsóknir á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu – að vera í öndvegi. Háskólinn er eina menntastofnun landsins þar sem íslenska er kennd sem sérstök grein, allt til æðstu prófgráðu.

Ein meginbreytingin við það að æðri menntun fluttist inn í landið var sú að kennslan fór fram á íslensku, þótt vissulega hafi meginhluti lesefnis í mörgum deildum skólans lengi verið á erlendum málum. Þetta hefur skipt miklu máli fyrir íslenskuna því að margir kennarar skólans hafa verið brautryðjendur í því að rita um fræði sín á íslensku. Ef þeir hefðu ekki átt kost á akademísku starfi á Íslandi er óvíst, og raunar ólíklegt, að margir þeirra hefðu lagt slík skrif fyrir sig. Það hefði getað haft þau áhrif að ýmis fræðasvið lægju óbætt hjá garði og ekki væru til vísindarit, fræðsluefni fyrir almenning eða kennsluefni á íslensku á þeim sviðum.

Staða íslenskunnar innan Háskólans hefur óneitanlega breyst talsvert á síðustu árum og námskeiðum sem eru kennd á ensku hefur smátt og smátt farið fjölgandi. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur eðlilegrar og nauðsynlegrar þátttöku skólans í alþjóðlegu háskólastarfi. Erlendum stúdentum hefur fjölgað mikið, bæði skiptinemum og þeim sem stefna á gráðu frá skólanum, og á síðustu árum hefur erlendum kennurum einnig fjölgað. Það er líka þáttur í akademískri þjálfun stúdenta að gera þeim kleift að fjalla um viðfangsefni sín á alþjóðlegu fræðimáli, sem er enska en ekki íslenska hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Þessi þróun má hins vegar ekki leiða til þess að heilu greinarnar verði eingöngu kenndar á ensku. Eitt meginhlutverk Háskólans er að þjóna íslensku samfélagi – stuðla að „miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls“ eins og segir í lögum um háskóla. Raunar held ég að færa megi rök að því skólinn leiki stærra hlutverk í samfélagi sínu en nokkur annar háskóli í heiminum. Í fyrstu setningarræðu skólans tók Björn M. Ólsen fram að auk þeirra meginhlutverka að vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun þyrfti skólinn „að veita mönnum þá undirbúningsmentun, sem þeim er nauðsynleg, til þess að þeir geti tekist á hendur ýms embætti eða sýslanir í þjóðfjelaginu“ – úti um allt land, á öllum sviðum þjóðlífsins. Það er grundvallaratriði að þetta fólk geti talað um fræði sín og viðfangsefni við almenning – á máli sem fólk skilur. Það getur reynst þrautin þyngri ef fólkið hefur ekki fengið neina æfingu í því í námi sínu vegna þess að allt lesefni og öll kennsla hafi verið á ensku.

Jarðvísindafólk við Háskólann og Veðurstofuna er tíðir gestir í fjölmiðlum til að tala um hugsanleg eldgos í Öræfajökli, Kötlu, á Reykjanesskaga og víðar, og þetta fólk fer einnig austur í Öræfasveit og undir Eyjafjöll og suður í Grindavík til að ræða við heimafólk og útskýra stöðuna. Ég veit alveg hvað sigketill er, og kvikuhólf, og sprengigos, og jökulhlaup, og ég er ekki í vafa um að Öræfingar og Eyfellingar og Grindvíkingar vita það líka. En ég hef ekki hugmynd um hvað neitt af þessu er á ensku, þannig að það er eins gott að Magnús Tumi og Páll Einarsson og Kristín á Veðurstofunni og öll hin eru ekki í neinum vandræðum með að útskýra stöðuna með hjálp þessara orða og margra fleiri íslenskra íðorða sem við þekkjum öll.

En ef öll jarðvísindakennsla við skólann færi fram á ensku er ekkert víst að þau hefðu þessi orð á valdi sínu – og það er ekki einu sinni víst að sum orðin væru til, vegna þess að fjöldi kennara við Háskólann hefur unnið mikið starf við að íslenska orðaforða fræðigreina sinna. Þannig gera þau fræðifólki á sínu sviði kleift að tala um fræði sín á íslensku – ekki bara þeim sem hafa lært við skólann, heldur líka þeim sem hafa numið sín fræði erlendis. Þetta er gott dæmi um mikilvægi þess að Háskólinn leggi rækt við íslenskuna – leggi sitt af mörkum til þess að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum, svo vitnað sé í íslenska málstefnu og málstefnu Háskólans.

Posted on Færðu inn athugasemd

Staða íslenskunnar

Á síðustu dögum hafa tveir fésbókarvinir haft samband við mig hvor í sínu lagi og beðið mig að hitta sig til að ræða um lesskilning, orðaforða og stöðu íslenskunnar. Þetta eru konur sem ég þekki frá fornu fari og vinna báðar með börnum og unglingum, önnur talmeinafræðingur og hin framhaldsskólakennari.

Báðar höfðu svipaða sögu að segja - þeim finnst hafa orðið miklar breytingar á fáum árum. Börn komi inn í leikskólana með minni orðaforða og lélegri málþroska á ýmsan hátt, og orðaforði og ritfærni framhaldsskólanema fari minnkandi. Báðar hafa miklar áhyggjur af þróuninni og eru fullar áhuga á að gera eitthvað til að bæta stöðuna, og spurðu mig hvað væri til ráða.

Því miður varð fátt um svör. Ég kann engar töfralausnir frekar en aðrir. Það er svo sem auðvelt að slá um sig með almennum heilræðum eins og ég og aðrir hafa oft gert - tala við börn og unglinga, lesa fyrir þau og með þeim, virkja sköpunarmátt þeirra í stað þess að drepa hann niður, gera íslenskuna áhugaverða og spennandi í þeirra augum, endurskoða námsefni og kennsluaðferðir, o.s.frv.

Þetta er allt gott og blessað, en hvernig á að útfæra það? Þetta gerist ekki nema með markvissu samstarfi foreldra, skóla, stjórnvalda og samfélagsins alls. Við þurfum að átta okkur á hvað er í húfi - hvað það skiptir miklu máli að unga fólkið finni hjá sér áhuga, vilja og þörf til að nota íslensku. Ef okkur tekst ekki að skapa jákvætt viðhorf til málsins hjá börnum og unglingum skiptir engu máli hvað við gerum að öðru leyti.

Það versta er skeytingarleysi í garð íslenskunnar. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt hún sé höfð á eftir ensku á skiltum í Leifsstöð. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt auglýsingar í búðargluggum séu eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt fyrirtæki sendi starfsmönnum tölvupóst sem er eingöngu á ensku. En það sýnir, meðvitað eða ómeðvitað, ákveðið viðhorf til íslenskunnar - viðhorf sem smitar út frá sér og gerir meiri skaða en við áttum okkur á í fljótu bragði.

Posted on Færðu inn athugasemd

PISA - gagnrýni og úrbætur

[Erindi flutt á fundinum Lykillinn að heiminum: Menntun skapar tækifæri, 16. janúar 2020.]

Þótt ég hafi gagnrýnt PISA-prófin nokkuð harkalega, bæði núna og ekki síst fyrir þremur árum, vil ég í upphafi taka fram að ég held að þessi próf séu í grundvallaratriðum mjög góð og gagnleg, úthugsuð og vel samin, og geti þess vegna gefið mikilvægar upplýsingar um stöðu nemenda og verið góður grundvöllur til samanburðar, bæði milli landa og frá ári til árs. En til að svo sé þarf að vera tryggt að samræmi milli frumtexta og þýðingar sé sem mest. Það tel ég að hafi brugðist í íslenskri útgáfu prófsins, a.m.k. í prófinu frá 2015 sem ég skoðaði vel (sjá bls. 100 o.áfr.) – ég hef ekki haft tök á að kanna prófið frá 2018 með sama hætti.

Til að raunhæfur samanburður milli landa geti farið fram þurfa að liggja fyrir upplýsingar um til hvers sé hægt að ætlast. Fyrir ensku, og væntanlega fjölda annarra mála, eru til ítarlegar upplýsingar um eðlilegan orðaforða 10 ára barna, 11 ára barna, 12 ára barna o.s.frv. Það má almennt gera ráð fyrir að börn tileinki sér algengustu orð málsins fyrst, og eftir því sem þau eldast læri þau fleiri og sjaldgæfari orð. Því þarf að hafa skrá um algengustu orð málsins í tíðniröð til að velja þau orð sem eru notuð í þýðingu prófsins, og reyna eftir því sem unnt er að gæta samræmis þannig að algengt orð í ensku sé ekki þýtt með sjaldgæfu orði á íslensku, og öfugt.

En hvernig er staðan hjá okkur? Engar upplýsingar um orðaforða mismunandi aldurshópa eru til fyrir íslensku. Við höfum m.ö.o. ekki hugmynd um það hvaða orð er eðlilegt að 15 ára unglingar hafi á valdi sínu. Er t.d. eðlilegt að ætlast til að þeir þekki orðið skeið í merkingunni 'tímabil', svo að tekið sé dæmi úr PISA 2018? Við þessum skorti á upplýsingum er svo sem ekkert að gera – nema gera vandaðar rannsóknir á orðaforða barna og unglinga til að koma upp viðmiðum um orðaforða hvers aldurshóps. Ég get vel skilið að það sé hvorki á verksviði né valdi Menntamálastofnunar að gera slíkar rannsóknir – en þær eru bráðnauðsynlegar.

Orðtíðniskrá fyrir íslensku hefur verið í tæp 30 ár, síðan Íslensk orðtíðnibók kom út 1991. Hún byggist á 500 þúsund orðum úr fáum textaflokkum, en frá 2012 hefur verið hægt að nýta Markaða íslenska málheild sem hefur að geyma 25 milljónir orða úr fjölmörgum textaflokkum, og síðan í fyrra hefur verið hægt að nýta Risamálheild sem inniheldur 1,4 milljarða orða úr fjölbreyttum textum. En ég veit ekki til þess að þessar skrár hafi verið nýttar við þýðingu PISA-prófsins sem mér finnst alveg stórfurðulegt og ámælisvert. Í nýrri grein í Netlu hafa Auður Pálsdóttir og Sigíður Ólafsdóttir sýnt fram á að í PISA-prófinu 2018 er töluvert um ósamræmi í tíðniflokkum orða milli frumtexta og þýðingar, og í meira en 2/3 þeirra dæma sem þær skoðuðu hallar á íslenskuna, þ.e. íslensku orðin eru í sjaldgæfari tíðniflokki en þau ensku. Eftirfarandi tafla er úr grein Auðar og Sigríðar:

Til að gefa hugmynd um það hversu mikil áhrif vinnubrögð við þýðingu geta haft á niðurstöður prófsins tek ég dæmi úr sýnihefti um lesskilningsverkefni í PISA sem Námsmatsstofnun, fyrirrennari Menntamálastofnunar, gaf út 2008 (og endurbætta útgáfu 2017). Þar er texti sem þýddur var fyrir prófið árið 2000 en fór á flakk haustið 2016 og olli mikilli hneykslun á Facebook og víðar – svo mikilli að Menntamálastofnun sá sig knúna til að senda frá sér frétt um hann. Þar sagði að í heftinu væri „ekki sá texti sem notaður var í sjálfu prófinu. Þegar heftið var tekið saman vildi svo til að rangur texti var valinn en ekki hin endanlega útgáfa“. Stofnunin birti svo aðra útgáfu sem hún sagði að hefði verið notuð í prófinu. Lítum nú á eina málsgrein úr frumtextanum (bls. 62) ásamt upphaflegu þýðingunni og hinni endanlegu.

Væntanlega velkjast fæstir í vafa um það að endurskoðaða þýðingin sé á miklu vandaðri íslensku. En hér er samt margs að gæta. Eitt er það að endurskoðaða þýðingin er rúmum þriðjungi lengri en bæði frumtextinn og upphaflega þýðingin – 27 orð á móti 20. Fjöldi málsgreina og orðafjöldi eru tveir stuðlar af þremur í LIX-formúlunni sem oft var notuð til að reikna þyngdarstig texta. Þriðji stuðullinn er fjöldi orða sem eru meira en sex bókstafir – tvö í upphaflegri þýðingu, fimm í endurskoðun. Sé LIX-formúlunni beitt á þetta dæmi kemur út að textinn í upphaflegu (vondu) þýðingunni er léttastur (LIX 30), þar á eftir kemur enski frumtextinn (LIX 35), en endurskoðaða þýðingin er langþyngst (LIX 45). Nú er auðvitað ekki hægt að alhæfa út frá einni málsgrein, auk þess sem skiptar skoðanir eru um gildi LIX-formúlunnar. En varla leikur vafi á því að lengd málsgreina og löng orð hafa áhrif á lesskilning. Þess vegna þarf að huga að þessu í þýðingunni.

Í enska textanum er vatnið í ánni brown, og það er þýtt sem brúnt í upphaflegu þýðingunni – sem er auðvitað ekki röng þýðing, þannig séð. En í endurskoðuðu þýðingunni er vatnið orðið mórautt. Nú er það í samræmi við íslenska málhefð að tala um á í vexti sem mórauða eða kolmórauða frekar en brúna. Í þeim skilningi er augljóslega betra mál á endurskoðuðu þýðingunni. Hins vegar er alls ekki víst að unglingarnir sem taka prófið þekki lýsingarorðið mórauður. Í Risamálheild eru 9.418 dæmi um brúnn, en aðeins 562 um mórauður. Sé litið á tíðniröð er brúnn í sæti 7.120, en mórauður í sæti 48.118. Til samanburðar er brown í sæti 1.782 í enskri tíðniskrá. Þótt þessi breyting virðist til bóta, frá sjónarmiði íslensks máls, þá gerir hún textann í raun þyngri og skekkir þar með samanburðargrundvöllinn.

Orðið dissolving í enska textanum er upphaflega þýtt með eyða upp en í endanlegum texta með svarfa úr. Í Risamálheild eru 113.079 dæmi um eyða (þar af aðeins 152 um eyða upp) en 15 dæmi um svarfa (þar af 3 um svarfa úr) og eyða er í sæti 1.087, en svarfa er ekki meðal fjögur hundruð þúsund algengustu orða málsins. Til samanburðar er dissolve í sæti 4.337 í ensku. Það má því segja að orðið í prófinu sjálfu sé alltof þungt, en orðið í upphaflegu þýðingunni of létt ef miðað er við sögnina eina en of þungt ef miðað er við sambandið eyða upp. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé dæmigert fyrir vinnubrögð við þýðingu prófsins. Ég er bara að benda á hvað það skiptir miklu að þýðingin sé byggð á bestu tiltæku upplýsingum um orðaforða og orðtíðni. Það hefur ekki verið gert.

Ég er ekki einn um að hafa gert athugasemdir við þýðingu og málfar PISA-prófsins. Ásdís Bergþórsdóttir sálfræðingur gagnrýndi þýðinguna harðlega fyrir þremur árum, og ég sá ekki betur en sú gagnrýni væri réttmæt að mestu leyti. Anna Ingólfsdóttir, prófessor í tölvunarfræði við HR og framhaldsskólakennari í stærðfræði til margra ára sagði nýlega á Facebook: „ég tel að Písakönnuninni þurfi að taka með fyrirvara. Ég sá til dæmis eitt verkefnið í raungreinum og það var svo illa þýtt (óljóst orðalag) að ég átti fullt í fangi með að átta mig til hvers var ætlast. Ef það á að bera saman niðurstöður úr mismunandi löndum, þarf maður að vera viss um að prófin séu sambærileg.“ Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á að í bæði stærðfræði- og náttúrufræðiprófunum er mikill texti, og skilningur á honum er forsenda þess að geta svarað spurningunum, ekki síður en kunnátta í stærðfræði og náttúrufræði.

Þrátt fyrir að hafa miklar efasemdir um marktækni íslenska PISA-prófsins finnst mér ekki ástæða til að draga í efa að lesskilningi íslenskra ungmenna fari hrakandi, en ég held að það endurspegli fyrst og fremst veikari stöðu íslenskunnar í málsamfélaginu á síðustu árum en áður – sem ýmsar vísbendingar eru um. Það hefur margsinnis verið bent á hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa þrengt að íslenskunni undanfarinn áratug. Börn og unglingar eru í miklu meiri tengslum en áður við enskan málheim og lesa minna á íslensku. Það getur leitt til þess að þau tileinki sér ekki ýmis orð og setningagerðir sem eru forsenda þess að skilja fjölbreytta texta til hlítar. Þróunin ætti því ekki að koma á óvart, en þetta kallar á önnur viðbrögð en ef um tæknileg atriði varðandi lestur er að ræða.  Læsisátakið sem hefur verið í gangi er ugglaust gott og gilt en það er samt hætt við að það skili litlu ef ekki er um leið hugað að því að styrkja stöðu íslenskunnar í samfélaginu, ekki síst meðal barna og unglinga.

Til þess þarf margvíslegar aðgerðir og það er mikilvægt að ráðast að rótum vandans, og fráleitt að varpa allri ábyrgðinni á skólakerfið eða kenna því um stöðuna. Ef við viljum bæta lesskilning ungs fólks er forgangsverkefni að efla rannsóknir á íslenskum orðaforða og setningagerð – setja fram rökstudd viðmið um það hvaða orðaforða og hvaða setningagerðir hver aldurshópur þarf að hafa á valdi sínu, og útbúa síðan viðeigandi kennsluefni fyrir hvern aldurshóp. Til að öðlast góðan lesskilning þurfa börnin að læra annars konar orðaforða en fæst með venjulegum yndislestri, og ná valdi á fjölbreyttari og flóknari setningagerðum en notaðar eru í samtölum og afþreyingarefni. Þennan orðaforða og þessar setningagerðir þarf að kenna sérstaklega, með því að láta börn og unglinga lesa viðeigandi texta. Það þarf líka að stórauka framboð á fjölbreyttu fræðslu- og afþreyingarefni á íslensku.

Það er mjög mikilvægt að auka íslenskukennslu í skólum og endurskoða námsefni eins og á að gera samkvæmt þingsályktun síðan í vor, en það dugir skammt ef grundvöllurinn, sem er lagður á máltökuskeiði á fyrstu árum barnsins, er of veikur. Samtal foreldra og barna, og lestur fyrir börn og með börnum, er frumforsendan. Ef þessi grundvöllur er sterkur getur skólakerfið byggt ofan á hann og eflt lesskilning. En þá skiptir máli að kennslutíminn sé nýttur vel – ekki í ófrjóa greiningarvinnu eða vonlausa baráttu við langt gengnar málbreytingar, heldur í lestur hvers kyns texta, eflingu orðaforða og þjálfun í ritun og munnlegri tjáningu. Það skiptir öllu máli að átta sig á að ábyrgðin á því að bæta úr verður ekki lögð á skólakerfið eitt og sér – þetta er ekki síður verkefni foreldra og annarra uppalenda, og samfélagsins í heild.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslensk málrækt

Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að

Posted on Færðu inn athugasemd

Konuforseti

Í Málvöndunarþættinum á Facebook og víðar hefur oftar en einu sinni skapast umræða um orðið konuforseti sem kemur fyrir í titli á nýrri barnabók um Vigdísi Finnbogadóttur. Margir hafa hneykslast á þessu orði og sagt að það sé barnamál – þetta heiti kvenforseti á íslensku. Það er auðvitað rétt að það er hefð fyrir orðinu kvenforseti þótt sú hefð sé raunar ekki ýkja gömul – elsta dæmið um orðið á tímarit.is er 60 ára gamalt og orðið komst ekki í almenna notkun fyrr en með kjöri Vigdísar 1980.

Bæði orðin, kvenforseti og konuforseti, eru jafnrétt íslenska, í þeim skilningi að þau lúta orðmyndunarreglum málsins. Samsett orð í íslensku eru einkum af tvennum toga – í sumum er fyrri liðurinn orðstofn, eins og kven-, en í öðrum er fyrri liðurinn eignarfall (eintölu eða fleirtölu), eins og konu-. Það eru til ýmsar fullkomlega viðurkenndar samsetningar með konu- sem fyrri lið – konudagur, konukvöld, konuríki, konubíll, konuleit, konuefni, konukind, Konukot o.fl.

En þótt báðar orðmyndunaraðferðirnar sem nefndar eru hér að ofan séu jafnréttar er almennt séð eðlilegt að halda sig við hefðina – ef komin er hefð á aðra aðferðina er oftast ástæðulaust að mynda orð sömu merkingar eftir hinni aðferðinni. En það er samt ekki rangt.

Það er líka rétt að athuga að fjölbreytni í málnotkun þykir yfirleitt af hinu góða. Það er ekkert að því að hafa fleiri en eitt orð yfir sama hugtak. Í slíkum tilvikum hafa orðin oft með sér einhverja verkaskiptingu – barn er formlegra en krakki, bifreið er formlegra en bíll, fákur er formlegra en hestur o.s.frv. Það táknar ekki að annað orðið um hvert þessara hugtaka sé eitthvað betra eða réttara en hitt – þau henta bara mismunandi aðstæðum, mismunandi málsniði.

Þannig er það einmitt í þessu tilviki. Höfundur umræddrar bókar hefur skýrt titilinn fullkomlega: „Bókin er um barn sem fer í heimsókn til Vigdísar í þeim tilgangi að skrifa um hana bók. Titill bókarinnar er titill barnsins.“

Eitt af því merkilegasta og stórkostlegasta við börn er hvað þau eru óhrædd við að nota málið. Ef þau kunna ekki orð um eitthvað sem þau vilja tala um búa þau til sitt eigið orð, í samræmi við þær reglur málsins sem þau hafa tileinkað sér. Konuforseti er orð af því tagi. Kvenforseti er sjaldgæft orð sem ekki er hægt að búast við að ung börn þekki, og myndin kven- er svo fjarlæg orðinu kona að það er ekki við því að búast að börn hafi orðmyndun með henni á valdi sínu. En þau eru ekki í neinum vanda með að búa til orðið konuforseti – gott og gilt orð í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur.

En hér hangir meira á spýtunni. Börn hafa gaman af tungumálinu og hæfileikar þeirra til nýsköpunar í máli eru dýrmætir fyrir íslenskuna og framtíð hennar. Með því að hafna nýsköpun barnanna, með því að vera sífellt að segja að þeirra orð séu ekki til, erum við að brjóta niður áhuga þeirra á málinu og vinna gegn íslenskunni. Þess í stað eigum við að taka nýmyndunum barnanna vel og nota þær til að kveikja umræður um tungumálið – umræður sem börnin eru móttækileg fyrir.

Höfundur umræddrar bókar segir að orðið konuforseti í titlinum sé valið í samráði við Vigdísi sjálfa. Enginn getur sakað Vigdísi um að vilja ekki veg íslenskunnar sem mestan. En hún skilur að ólík orð henta mismunandi aðstæðum. Hún skilur að framtíð íslenskunnar veltur á því að börnin hafi áhuga á að nota hana, og þann áhuga má ekki drepa með því að berja niður frjóa málnotkun þeirra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málfræðikennsla

Um daginn hringdi í mig framhaldsskólanemi sem ég kannast við og var að spyrja mig út í orðflokkagreiningu. Hann var á leið í íslenskupróf og var óviss á ýmsum atriðum en hafði lært utan að nokkrar þumalfingursreglur um einkenni ákveðinna orðflokka og var að bera undir mig hvort einhverjar líkur væru á að þær kæmu honum í gegnum prófið.

Það var greinilegt að íslenska var ekki uppáhaldsnámsgrein hans – hann er í iðnnámi og gat ómögulega séð nokkurn tilgang í þessari greiningu. Ég gat ekki annað en tekið undir það. Mér finnst fráleitt að verja takmörkuðum kennslutíma í íslensku í tilgangslausa og steingelda greiningu af þessu tagi, og í vonlausa baráttu gegn áratuga gömlum málbreytingum sem gera málinu engan skaða. Þetta þýðir alls ekki að ég sé á móti allri málfræðikennslu – skárra væri það nú. Málfræðin er gagnleg til að átta sig á uppbyggingu tungumálsins og til að auðveldara sé að leiðbeina um ýmis atriði í meðferð þess.

EN – og það er stórt EN – til að hún nýtist á þann hátt þarf að vera á einhverju að byggja. Það þarf að vera búið að þjálfa nemendur í að lesa margs konar texta og fjalla um hann frá ýmsum hliðum. Það þarf að vera búið að vekja áhuga nemenda á málinu og fjölbreytileik þess. Þá getur málfræðikennslan verið gagnleg – og jafnvel skemmtileg ef rétt er á haldið. Greiningarvinna án grundvallar er hins vegar bara til bölvunar.

Af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að hún tekur tíma frá mikilvægari hlutum – lestri margvíslegra texta, þjálfun í orðaforða og lesskilningi, ritun, munnlegri tjáningu o.þ.h. Hins vegar vegna þess að hún gerir nemendur fráhverfa íslensku sem námsgrein og elur á neikvæðum viðhorfum þeirra til málsins. Nú veit ég auðvitað að kennsla í grunn- og framhaldsskólum er með ýmsu móti og dettur ekki í hug að fullyrða að áherslur í kennslunni séu alls staðar á greiningu og rétt mál. En samræmdu prófin gera a.m.k. sitt til að viðhalda þessu. Ef við ætlum að bæta árangur okkar í PISA verður að breyta þessu.

Posted on Færðu inn athugasemd

PISA

Ég hjómaði yfir PISA-skýrsluna og fór á fund um hana á Menntavísindasviði  Það er auðvitað alvarlegt mál að útkoma íslenskra unglinga á lesskilningsprófi fari versnandi en það er athyglisvert að lesskilningurinn er sér á báti í þessu – útkoman í stærðfræði- og náttúrufræðilæsi er svipuð og síðast (en ekki góð). Þetta vekur þá spurningu hvort útkoman í lesskilningsprófinu endurspegli fyrst og fremst veikari stöðu íslenskunnar í málsamfélaginu á síðustu árum en áður – sem ýmsar vísbendingar eru um.

Það hefur margsinnis verið bent á það hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa þrengt að íslenskunni undanfarinn áratug – t.d. í grein minni í Skírni 2016, grein okkar Sigríðar Sigurjónsdóttur í Netlu í fyrra, og í ótal erindum sem við höfum haldið undanfarin ár í tengslum við rannsóknarverkefnið Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Þróunin ætti því ekki að koma á óvart.

Þetta kallar á önnur viðbrögð en ef um tæknileg atriði varðandi læsi er að ræða.  Læsisátakið sem hefur verið í gangi er gott og gilt en það er samt hætt við að það skili litlu ef ekki er um leið hugað að því að styrkja stöðu íslenskunnar í samfélaginu, ekki síst meðal barna og unglinga. Til þess þarf margvíslegar aðgerðir og það er mikilvægt að ráðast að rótum vandans. Máltækniátak er í gangi, en það þarf líka að stórauka útgáfu á góðu lestrarefni fyrir börn og unglinga, framleiðslu á íslensku sjónvarps- og margmiðlunarefni, tölvuleikjagerð á íslensku, o.fl.

Til að byggja upp traust málkerfi barna á máltökuskeiði skiptir öllu máli að tala sem mest við börnin, lesa fyrir þau og lesa með þeim, og láta þau lesa sjálf þegar þau hafa aldur til. En þetta dugir ekki til þegar kemur að því að þjálfa lesskilning, eins og hann er mældur t.d. í PISA-prófum. Til að öðlast góðan lesskilning þurfa börnin að læra annars konar orðaforða en fæst með venjulegum yndislestri, og ná valdi á fjölbreyttari og flóknari setningagerðum en notaðar eru í samtölum og afþreyingarefni.

Þennan orðaforða og þessar setningagerðir þarf að kenna sérstaklega, með því að láta börn og unglinga lesa viðeigandi texta. Ef við viljum bæta lesskilning ungs fólks held ég að það sé forgangsverkefni að efla rannsóknir á íslenskum orðaforða og setningagerð – setja fram rökstudd viðmið um það hvaða orðaforða og hvaða setningagerðir hver aldurshópur þarf að hafa á valdi sínu, og útbúa síðan viðeigandi kennsluefni fyrir hvern aldurshóp.

Við höfum núna miklar upplýsingar um orðaforða í mismunandi textategundum. Risamálheildin sem komið hefur verið upp hjá Árnastofnun hefur að geyma á annan milljarð orða úr fjölbreyttum textum – fréttum, lagatextum, dómum, þingræðum, fræðsluefni, bloggi o.fl. Þarna eru komnar forsendur til að útbúa skrá um orð sem mikilvægt er að börn og unglingar tileinki sér, og nýta þá skrá til að velja eða semja texta sem hægt er að láta þau lesa.

Það skiptir öllu máli að átta sig á að ábyrgðin á því að bæta úr verður ekki lögð á skólakerfið eitt og sér – þetta er ekki síður verkefni foreldra og annarra uppalenda, og samfélagsins í heild. Það er mjög mikilvægt að auka íslenskukennslu í skólum og endurskoða námsefni eins og mennta- og menningarmálaráðherra vill gera, en það dugir skammt ef grundvöllurinn, sem er lagður á máltökuskeiði á fyrstu árum barnsins, er of veikur. Samtal foreldra og barna, og lestur fyrir börn og með börnum, er frumforsendan.

Ef þessi grundvöllur er sterkur getur skólakerfið byggt ofan á hann. En þá skiptir máli að kennslutíminn sé nýttur vel – ekki í ófrjóa greiningarvinnu eða vonlausa baráttu við langt gengnar málbreytingar, heldur í lestur hvers kyns texta, eflingu orðaforða og þjálfun í ritun og munnlegri tjáningu.

 

Posted on Færðu inn athugasemd

Stigbreytist margur?

Orðið margur er talið lýsingarorð í öllum kennslubókum og tæplega er ástæða til að efast um þá greiningu – orðið hefur bæði dæmigerða beygingu og setningarstöðu lýsingarorða. Eina vafaatriðið er stigbreytingin, sem vissulega er eitt megineinkenni lýsingarorða, því að margur hefur ekki reglulegt miðstig eða efsta stig – myndirnar *margari og *margastur eru ekki til, heldur eru fleiri og flestur notaðar í staðinn. En það er svo sem ekkert einsdæmi að algeng lýsingarorð stigbreytist óreglulega – margur er þar í hópi með góður, gamall, lítill, mikill, slæmur og illur.

Skortur á reglulegri stigbreytingu dugir því ekki til að gera flokkun orðsins sem lýsingarorðs vafasama. En það er samt ekki alveg ljóst að það sé rétt að greina fleiri og flestur sem beygingarmyndir af margur. Setningarstaða miðstigsins og efsta stigsins virðist nefnilega vera verulega frábrugðin stöðu frumstigsins. Flest lýsingarorð geta staðið milli lauss greinis og nafnorðs, og hafa þá veika beygingu: Hinir góðu menn, Hinar skemmtilegu konur, Hið ágæta fólk. Þótt frumstigið sé vissulega algengast í þessari setningagerð – eins og í málinu yfirleitt – geta miðstig og einkum efsta stig einnig staðið þar: Hinir betri/bestu menn, Hinar skemmtilegri/skemmtilegustu konur.

Frumstig lýsingarorðsins margur er mjög algengt í þessari setningagerð: Hin mörgu andlit Indlands, Hinir mörgu aðdáendur Einars Áskels, o.s.frv. Hins vegar koma miðstigið fleiri og efsta stigið flestir varla eða ekki fyrir í þessu sambandi, og raunar virðist veik beyging efsta stigs (sem ætti að vera *flestu) ekki vera til. Á tímarit.is eru dæmin um lausan greini + fleiri/flestir + nafnorð teljandi á fingrum annarrar handar, og í Risamálheildinni sem hefur að geyma á aðra milljón orða finnast engin dæmi um miðstigið eða efsta stigið í þessu sambandi en aftur á móti tæp 800 dæmi um frumstigið. Hjá öllum öðrum algengum lýsingarorðum má finna fjölda dæma um a.m.k. efsta stigið í þessu sambandi.

Setningafræðileg hegðun orðanna fleiri og flestur er því bæði frábrugðin hegðun frumstigsins margur, og einnig frábrugðin hegðun miðstigs og efsta stigs annarra lýsingarorða. Aftur á móti haga fleiri og flestur sér að þessu leyti eins og ótvíræð óákveðin fornöfn – það er ekki hægt að segja *Hinir sumu menn, *Hinir nokkru menn o.s.frv. frekar en *Hinir fleiri menn, *Hinir flestu menn. Það er freistandi að segja að fleiri og flestir séu ekki beygingarmyndir af lýsingarorðinu margur, heldur sjálfstæð orð – og raunar ekki einu sinni lýsingarorð, heldur óákveðin fornöfn.

Sú niðurstaða myndi í fyrsta lagi byggjast á því að þau eru orðmyndunarlega óskyld margur, í öðru lagi á ólíkri setningarstöðu þeirra, og í þriðja lagi á því að flestur hefur aðeins sterka beygingu eins og óákveðin fornöfn (fleiri er venjulega talið veik beyging en það er í raun merkingarlaust vegna þess að orðið hefur alltaf þetta sama form). En kannski væri þetta of djörf ályktun. Kannski er ekki hægt að ganga lengra en svo að taka undir með Gísla Jónssyni sem sagði einu sinni: „Auðvitað er ekkert hafdjúp á milli sumra orðflokka, og sum orð eru vanddregin í dilk.“ Kannski verða fleiri og flestur að fá að vera hálfpartinn í lausu lofti milli lýsingarorða og óákveðinna fornafna – eins og kannski ýmis.