Posted on Færðu inn athugasemd

Göngum yfir brúnna

­Iðulega eru gerðar athugasemdir við breyttan framburð orð­mynda eins og ána, brúna, frúna, klóna, kúna, slána, spána, tána, þrána (þolfall eintölu með greini af á/ær, brú, frú, kló, kýr, slá, spá, , þrá), skóna (þolfall fleirtölu með greini af skór) og fleiri orðmynda með n á eftir á, ó eða ú. Þessar orðmyndir eru oft bornar fram með stuttu sér­hljóði í stað langs, eins og n-ið væri tvíritað – sagt fara yfir ánna, hlusta á spánna, missa trúnna, fara í skónna o.s.frv. Stundum er því haldið fram að þetta sé nýleg brey­­ting en svo er ekki.

Elsta dæmið sem ég hef fundið á tímarit.is og bendir til þessa framburðar er úr Vikunni 1930: „Sérstaklega eru það búðarlokur og aðrir uppskafningar, sem móttæki­leg­ast­ir eru fyrir trúnna á íhaldið“ og í Verkamanninum 1939 segir „Heill hópur kvenna tók trúnna hjá Jesús.“ Slæð­ing­ur af dæmum er frá fimmta áratugnum; í Morgunblaðinu 1944 stendur „var ekki hægt að ferja mjólk yfir ánna í gær“, í Þjóðviljanum 1947 segir „En þótt menn hafi yfir­leitt verið ánægðir með útvarpsdagskránna 1. maí“, og í Morg­un­blaðinu 1948 „Við brúnna tók á móti honum fyrsti stýrimaður“. Eftir þetta fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og sam­bæri­legar myndir af fleiri orðum koma fram.

Myndirnar á tímarit.is verða samt aldrei mjög margar, enda eru flest­ir textar þar væntanlega prófarkalesnir. Í ljósi þess hversu mörg dæmi hafa þó sloppið gegnum sí­una má ætla að sá fram­burður sem þessi ritháttur ber vott um sé a.m.k. hátt í hundrað ára gamall og hafi lengi verið nokkuð útbreiddur. Fjöldi dæma á netinu um flestar áðurnefndra ritmynda bendir líka til verulegrar útbreiðslu fram­burðarins. Þessi framburður hefur líka lengi verið til um­ræðu í málfarsþáttum, t.d. nokkrum sinnum hjá Gísla Jóns­syni í Morgunblaðinu, og það er því ljóst að hann hef­ur verið vel þekktur um áratuga skeið.

Þótt ég geti ekki fullyrt neitt um hvað valdi þessari breyt­ingu má nefna tvennt sem gæti skipt máli. Annars veg­ar eru áhrif frá þágufallinu – í kvenkynsorðunum er þar allt­af stutt sérhljóð (ánni, brúnni, frúnni, klónni, kúnni, slánni, spánni, tánni, þránni). Þótt ólíklegra sé mætti einn­ig hugsa sér áhrif frá eignarfalli fleirtölu, en þolfallsmynd­irnar falla saman við það í framburði ef sér­hljóðið stytt­ist. Í þolfallsmyndinni skónna er ekki um að ræða áhrif frá þágufallinu skónum, því að þar er langt sérhljóð, en hugsanlega frá eignarfalli fleirtölu skónna.

Hitt atriðið er hljóðfræðilegs eðlis. Það er þekkt í mál­sög­unni að samhljóð í endingu lengdist á eftir sérhljóðunum á, ó og ú. Venjuleg hvorugkynsending lýsingarorða er -t, eins og í stór-t, væn-t, gul-t, tóm-t; en t-ið tvöfaldast (og verð­ur aðblásið) í há-tt, mjó-tt, trú-tt. Einnig hefur -r lengst við svipaðar aðstæður í beygingu lýsingarorða; við fáum há-rri en ekki hári, mjó-rri en ekki mjóri, trú-rri en ekki trúri. Þetta eru að vísu ævafornar breytingar en þó er freistandi að spyrja hvort framburðarbreytingu þeirra orða sem hér um ræðir megi hugsanlega rekja til hliðstæðra áhrifa þessara sömu hljóða.

Það má vissulega hafa það á móti þessari breytingu að hún rjúfi tengslin milli lauss og við­skeytts greinis. Í þeim lausa er langt sérhljóð og eitt n í þol­falli eintölu kvenkyns og þolfalli fleirtölu karlkyns – mynd­in er hina í báðum tilvikum. En þótt viðskeyttur greinir sé vissulega kominn af lausum greini sögulega séð eru beygingar­leg­ir og setn­inga­fræðilegir eiginleikar þessara tveggja teg­unda greinis ólíkir á ýmsan hátt, og ekkert sem kallar á að framburðurinn sé sá sami. Þessi framburðarbreyting kallar ekki á breyt­ingu á stafsetningu, og eftir sem áður er hægt að vísa til lausa greinisins um fjölda n-a sem skuli skrifa í þeim viðskeytta.

Mörgum finnst umræddar myndir ljótar – sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að allt eru þetta framburðarmynd­ir sem eru viðurkenndar í málinu, bara sem aðrar beyg­ing­­ar­­myndir en hér er um að ræða. En flest kunnum við best við málið eins og við lærðum það – eða eins og við lærðum að það ætti að vera – og ömumst þess vegna við breytingum sem okkur finnst óþarfar. Það er fullkomlega eðlileg tilfinning, en í ljósi þess að þessi framburður á sér aldarlanga sögu, er mjög út­breidd­ur, er hliðstæður breyt­ing­um sem áður hafa orðið í málinu og eru fullkomlega viður­kenndar, og veldur eng­um ruglingi, þá tel ég hann engin málspjöll.

Posted on Færðu inn athugasemd

Appelsínugul viðvörun

Eitt vinsælasta tilefni nöldurs og tuðs í Málvöndunarþættinum á Facebook er lýsingarorðið appelsínugulur. Talað er um að þetta sé leiðindaorð, barnamál, tökuþýðing, fáránlegt orð, óþjált og asnalegt, o.s.frv. Í staðinn eigi að nota rauðgulur – það sé hið rétta heiti á þessum lit. Um þetta getur fólk skrifað aftur og aftur endalaust, undir merkjum málvöndunar.

Ég ólst upp við orðið rauðgulur, enda sáust appelsínur aldrei á mínu bernskuheimili nema á jólunum og á mörkunum að maður vissi hvernig þær væru á litinn. En orðið appelsínugulur er samt mun eldra – kemur fyrst fyrir svo að vitað sé árið 1916 og er því orðið meira en aldargamalt. Síðan á fjórða áratugnum hafa orðin tvö verið notuð hlið við hlið, rauðgulur þó mun algengara framan af. En frá því um 1980 hefur appelsínugulur verið mun algengara eins og tölur af tímarit.is sýna.


Vitanlega er appelsínugulur íslenskt orð. Það er ekki tökuorð og ekki heldur tökuþýðing þótt vissulega sé líkingin við lit appelsínu fengin erlendis frá (væntanlega úr dönsku frekar en ensku). Þetta er íslensk nýmyndun sem á sér hundrað ára hefð í málinu og margar kynslóðir hafa alist upp við. Að gera það brottrækt úr íslensku væri fullkomlega fráleitt.

Auðvitað getur fólk haft málefnalegar ástæður fyrir því að kjósa rauðgulur fremur en appelsínugulur, s.s. að fyrrnefnda orðið sé eldra. Það er líka þremur atkvæðum styttra og því þjálla í meðförum. Þar að auki finnst ýmsum það fallegra og ekkert við það að athuga. En að agnúast út í appelsínugulur á ekkert skylt við málvöndun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Af kæröstum og kærustum - allra kynja

Á Vísi má í dag finna fyrirsögnina Auðveldar kæröstum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Fólk var eitthvað að hnýta í myndina kæröstum en það er ástæðulaust – þetta er möguleg beyging þótt hún sé vissulega sjaldgæf. Þegar nafnorð með a í stofni fá beygingarendingu sem hefst á u kemur ö í stað a ef um áhersluatkvæði (fyrsta atkvæði) er að ræða – saga sögur, hani hönum, tala tölum o.s.frv. (nefnifallsendingin -ur er undantekning af ástæðum sem óþarfi er að rekja hér).

Ef stofninn er tvíkvæður og a er í seinna atkvæði hans kemur venjulega u frekar en ö á undan endingu sem hefst á u kennari – kennurum, spilaði – spiluðum o.s.frv. Þetta er þó ekki algilt – stundum kemur ö þarna en ekki u, sbr. Ítali – Ítölum, og stundum koma fram tvímyndir, önnur með u og hin með ö – af Búlgari er til bæði Búlgurum og Búlgörum. Tvímyndirnar eru sérstaklega algengar þegar um er að ræða orð með tvö a í stofni – þá fáum við myndir eins og banönum og bönunum, kastölum og köstulum, sandölum og söndulum, o.fl.

Í þessu tilviki er um að ræða tvö orð, karlkynsorðið kærasti og kvenkynsorðið kærasta. Stofn þeirra er sá sami, kærast-, og eðlilegasta mynd þágufalls fleirtölu væri þess vegna sú sama, kærustum. En það er ekki hægt að tvítaka sömu myndina og segja Auðveldar kærustum og kærustum utan Schengen að koma til landsins. Af því að myndin kærustum dekkar bæði kyn væri vissulega hægt að hafa fyrirsögnina bara Auðveldar kærustum utan Schengen að koma til landsins, en ég hef samt á tilfinningunni að kærustum yrði yfirleitt skilið sem kvenkyn í því tilviki.

Í fréttinni er haft eftir dómsmálaráðherra: „kærustur og kærastar í einhverju formi utan Schengen geta komið hingað á þeirri undanþáguheimild“. Blaðamaður hefur væntanlega viljað láta koma fram í fyrirsögn að þetta gilti um bæði kyn og þess vegna gripið til sjaldgæfari beygingarmyndar til að ná aðgreiningu. En hvers vegna skiljum við kærustum frekar sem kvenkyn en karlkyn, ef sú tilfinning mín er rétt? Ég held að það sé vegna þess að ýmis kvenkynsorð enda á -ustaunnusta, þjónusta, orusta o.fl. – og þess vegna tengjum við myndir með -ust- frekar við kvenkyn.

Ég sagði hér áður að myndin kærustum dekkaði „bæði kyn“, en kynin eru kynin eru ekki bara tvö. Í hýryrðasamkeppni Samtakanna 78 var lagt til að kærast yrði notað sem hvorugkynsorð hliðstætt kærasti og kærasta. Í hvorugkynsorðum sem hafa a í stofni kemur u í þess stað í fleirtölu í einkvæðum orðum – barnbörn, land, lönd o.s.frv. Ef a er í seinna atkvæði tvíkvæðra hvorugkynsorða fær fleirtalan stundum u, eins og í hundrað hundruð, stundum ö, eins og í líkan – líkön, og stundum koma fram tvímyndir, eins og héröð og héruð. Fleirtalan af hvorugkynsorðinu kærast yrði væntanlega kæröst, og þágufall fleirtölu þá kæröstum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Landamæri Íslands

Eftir að opnað var fyrir ferðir til landsins fyrir fáum vikum hefur orðið landamæri og samsetningar af því, ekki síst landamæraskimun, verið áberandi í fréttum. Sagt er að fólk fari í skimun á landamærum við komuna til landsins, smit hafi greinst á landamærum, o.s.frv. Ekki eru allir ánægðir með þessa notkun orðsins og benda á að í orðabókum sé það skilgreint sem 'mörk milli tveggja ríkja' eða 'staður þar sem tvö lönd mætast'. Vegna þess að Ísland er eyja geti það ekki átt sér nein landamæri.

Orðið landamæri er gamalt – kemur fyrir í fornu máli en þá og allt fram á 19. öld iðulega í eintölu. Þótt það merki vissulega oft 'mörk milli tveggja ríkja/landa' er ljóst að bæði að fornu og nýju getur það líka merkt 'ytri mörk tiltekins lands/ríkis' – án þess að tiltekið sé hvað er hinum megin við mörkin. Þannig er t.d. hægt að tala um þýsku landamærin í merkingunni 'ytri mörk Þýskalands', án þess að tiltaka öll lönd sem liggja að Þýskalandi.

Ísland liggur augljóslega ekki að neinu öðru landi, en hins vegar á það sér vitaskuld ytri mörk þótt e.t.v. megi deila um hvort þau séu í fjöruborði eða við 12 mílna landhelgislínu. Á tímarit.is má líka finna allt að 100 ára gömul dæmi um landamæri Íslands og í Lagasafninu er fjöldi dæma um að landamæri í þessari merkingu eigi við Ísland. Þegar flugfarþegar lenda á Keflavíkurflugvelli eru þeir því komnir inn fyrir landamæri Íslands.

Fyrir daga flugsamgangna komst fólk ekki inn í land nema fara yfir ytri mörk þess þar sem þau voru dregin, hvort sem var á landi eða í fjöruborði. Nú er þetta breytt – þótt flugvellir séu oft fjarri landamærum er fyrst þar hægt að ná til farþega eftir að þeir koma inn fyrir landamærin. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að tala um að skimun á landmærum, landamæraskimun, landamæraeftirlit o.s.frv. fari fram þar. Það þýðir ekki að landamæri Íslands séu í Leifsstöð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Samtengdir tvíburar

Í Fréttablaðinu var fyrr í sumar sagt frá því að „elstu samtengdu tvíburar heims“ væru látnir. Ýmsum fannst þetta óeðlilegt og bentu á að á íslensku væri venja að tala um samvaxna tvíbura frekar en samtengda. Á tímarit.is er aðeins eitt dæmi um samtengda tvíbura, frá 2001. Aftur á móti eru yfir 250 dæmi um orðalagið samvaxnir tvíburar, það elsta frá lokum 19. aldar. Það er sem sé löng og rík hefð fyrir því orðalagi (þótt síamstvíburar sé reyndar langalgengasta orðið, með yfir 600 dæmi), og sjálfsagt hefur mörgum virst sem einfaldlega væri hér á ferð hrá þýðing á enska heitinu sem um er að ræða, conjoined twins. En þetta er ekki alveg svo einfalt.

Í Íðorðabankanum er enska heitið conjoined twins nefnilega þýtt sem samtengdir tvíburar. Sú þýðing er komin úr Íðorðasafni lækna og varla hægt að telja hana ranga, þótt orðalagið samvaxnir tvíburar sé í betra samræmi við íslenska málhefð. Ástæða þess að það orðalag er ekki notað í Íðorðasafni lækna er væntanlega sú að það hefur ekki þótt nógu nákvæmt frá fræðilegu sjónarmiði. Samtengdir tvíburar eru nefnilega strangt tekið ekki samvaxnir. Ástæðan fyrir því að þeir eru samtengdir er sú að okfruma (frjóvgað egg) hefur ekki skipt sér fullkomlega. Það er því ekki um það að ræða að tvíburarnir hafi „vaxið saman“ eins og orðið samvaxnir gefur í skyn og þess vegna hefur þótt eðlilegra að nota orðið samtengdir sem er hlutlausara.

Fagmál og íðorð lúta öðrum lögmálum en almennt mál. Íðorð þurfa að hafa nákvæma merkingu og mega ekki vera villandi. Öðru máli gegnir um almennt mál – það er oft „órökrétt“ á ýmsan hátt og uppfullt af orðum sem halda má fram að standist ekki fræðilega. En það er allt í lagi – orð í almennu máli merkja það sem málsamfélagið lætur þau merkja, ekki það sem íðorðanefndir ákveða að þau merki. Þeirra lögsaga nær aðeins til íðorðanna. Á hinn bóginn eru til ýmis orð sem eru bæði notuð í almennu máli og einnig sem íðorð og það getur vissulega stöku sinnum skapað vanda – sérstaklega ef fólk færir skilgreiningu íðorðsins yfir á notkun þess í almennu máli þar sem hún á ekki við.

Hér höfum við áhugavert dæmi um ósamræmi milli almenns máls og fagmáls. Í almennu máli er hefð fyrir því að tala um samvaxna tvíbura, en í fagmálinu er talað um samtengda tvíbura. Hvort tveggja er „rétt“ í einhverjum skilningi, en það má velta því fyrir sér hvorn kostinn sé eðlilegra að velja í blaðafrétt. Hvort er mikilvægara að fylgja hefð almenns máls eða nota orð úr fagmáli sem er fræðilega „réttara“? Blaðamaðurinn þarf að meta þetta hverju sinni – og huga þá bæði að hagsmunum lesenda og íslenskunnar. Er hugsanlega hægt að túlka almenna orðið þannig að það feli í sér einhverja fordóma? Er íðorðið svo framandi að það sé líklegt til að torvelda skilning á fréttinni? O.s.frv. Þarna er ekkert einhlítt svar til, en mikilvægt að hafa þetta í huga.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hroðvirkni er óafsakanleg

Eins og oft hefur komið fram vil ég fara mjög varlega í að gera athugasemdir við málfar fólks og finnst það oftast hreinn dónaskapur. En fólk sem hefur skrif að atvinnu verður að vanda sig – það er engin ástæða til að afsaka hroðvirkni. Mér blöskraði þegar ég las þessa frétt – sérstaklega vegna rangra þýðinga úr dönsku en sitthvað er líka við íslenskuna að athuga. Hér er farið yfir það helsta:

  • „Handboltastjarnan Mikkel Hansen, leikmaður PSG í Frakklandi og danska landsliðsins, er orðinn stúdent en hann fékk hvítu húfuna um helgina.“ Í frétt BT sem virðist vera helsta heimildin stendur hins vegar „For lørdag fik han sat den blå hue på hovedet“. Húfan er sem sé blá en ekki hvít.
  • „Þá er það möguleiki að setja húfuna á síðasta stúdentinn frá Vestskoven í Albertslund.“ Á dönskunni er þetta „Så blev der mulighed for at sætte huen på årets sidste hhx-student“. Þó að "mulighed" geti vissulega þýtt 'möguleiki' væri 'tækifæri' réttari þýðing þarna. Og þetta er ekki „síðasti stúdentinn“ heldur „síðasti stúdent ársins“.
  • „Mjög öflugt að ráða við fjölskylduna, handboltann og prófin“. Á dönsku: „virkeligt stærkt at klare både familie, håndbold og eksamen“. „Mjög öflugt“ er vond þýðing á „virkelig stærkt“ – eðlilegt væri 'vel af sér vikið'. Og „ráða við“ er vond þýðing á „klare“ – eðlilegt væri 'geta sinnt' eða eitthvað slíkt.
  • „Eftir að húfan fór á loft keyrði Hansen frá skólanum í hvítum jeppa sem var skreyttur með bæði fánum og greni“. Á dönsku: „Efter huen kom på plads, blev Mikkel Hansen kørt afsted i en hvid Jeep, der var pyntet med både flag og grene“. Undarlegt að segja „húfan fór á loft“, Hansen keyrði ekki frá skólanum heldur var honum ekið, og bíllinn var ekki skreyttur með greni, heldur greinum.
  • „stúdentar í Danmörku keyra þannig um götur bæjarins í rútu eftir að húfan fari á loft“. Ég veit ekki hvaðan rútan kemur – í frétt BT er talað um „studentervogn“ en vissulega kann þetta að vera úr annarri heimild. En þarna er aftur talað um að „húfan fari á loft“ sem er undarlegt, og a.m.k. ætti að nota framsöguháttinn fer en ekki viðtengingarháttinn fari.
  • „Þetta er svo sætt. Þetta er svo vel gert. Hann fær þetta sérstaklega í dag. Hann var í skólanum hjá okkur en þegar hann flutti hefur þetta verið á netinu.“ Danska orðið sejt þýðir ekki 'sætt'. Og „þegar hann flutti hefur þetta verið á netinu“ gengur ekki upp, þótt það standi „da han flyttede“ á dönsku – verður að vera 'eftir að hann flutti'.
  • „Að verða stúdent er ekki það eina góða sem hefur komið fyrir Danann á árinu því hann gifti sig unnustu sinni, Stephanie Gundelach, í maí.“ Sambandið koma fyrir er notað um eitthvað sem maður hefur ekki vald á og er því rangt þarna. Eðlilegra væri líka að nota giftist en gifti sig.
Posted on Færðu inn athugasemd

Eigðu góðan dag

Orðasambandið Eigðu góðan dag er iðulega notað í kveðjuskyni, t.d. í verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum. Þetta virðist ekki vera gamalt í málinu – elstu dæmi á tímarit.is eru um 30 ára gömul. Næstum jafnlengi hefur verið amast við orðalaginu. Gísli Jónsson sagði t.d. í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1994: „Nú er því miður ýmislegt notað að bresk-bandarískum hætti í staðinn, eins og smekkleysan „eigðu góðan dag“.“ Fjölda svipaðra athugasemda má finna í ýmsum málfarsþáttum frá síðustu áratugum.

Eins og þarna kemur fram er því oft haldið fram að þetta orðalag sé komið beint úr ensku þar sem gjarna er sagt Have a nice day við svipaðar aðstæður. Þótt vel kunni að vera að enska orðasambandið sé fyrirmyndin er varla hægt að segja að um beina þýðingu sé að ræða vegna þess að sögnin er önnur. Orðalagið á sér líka fordæmi í fornu máli. Í fornum textum eru nokkur dæmi um sambandið hafa góðan dag og þótt sögnin sé ekki sú sama virðist þetta vera mjög hliðstætt Eigðu góðan dag – en þó nær enska orðalaginu.

Myndin eigðu er boðháttur, og þótt dæmigert hlutverk þess háttar sé að gefa einhvers konar skipanir eða fyrirmæli eins og nafnið bendir til er hann líka iðulega notaður til að tjá ósk fremur en skipun eða tilmæli. Þetta á einkum við um sagnir sem tákna skynjun eða tilfinningu, vegna þess að þar er um að ræða eitthvað sem við höfum yfirleitt ekki stjórn á. Sagt er Hafðu það gott, Vertu sæl, Sofðu rótt, Skemmtu þér vel, Eigðu mig o.s.frv. þar sem formið er boðháttur en merkingin ósk en ekki skipun. Sama er að segja um Eigðu góðan dag.

Stundum hefur verið stungið upp á því að nota Njóttu dagsins í staðinn fyrir Eigðu góðan dag en ekki verður séð að það sé betri íslenska – það er bein samsvörun við Enjoy the day í ensku. Sambandið Eigðu góðan dag er íslenska – öll orðin eru íslensk, það á sér skýra hliðstæðu í fornu máli, og það er ekki hrá þýðing eða yfirfærsla úr ensku. Það er komin 30 ára hefð á sambandið í málinu og engin ástæða til að amast við því. Aftur á móti er rétt að forðast boðháttarmyndina áttu en sambandinu Áttu góðan dag bregður stundum fyrir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Smit

Fyrr í sumar var haft samband við mig frá fjölmiðli nokkrum þar sem hafði orðið ágreiningur á ritstjórninni um meðferð orðsins smit sem hefur heyrst æði oft undanfarið ár. Prófarkalesarar höfðu leiðrétt setninguna „Fjöldi smita er kominn yfir hundrað“ og sagt að hana yrði að umorða, vegna þess að smit væri ekki til í fleirtölu. Það er vissulega rétt að samkvæmt orðabókum er þetta eintöluorð, og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gaf til skamms tíma enga fleirtölubeygingu, þótt hún sé komin inn núna. Á tímarit.is má þó finna dæmi um fleirtölu orðsins frá síðustu áratugum, en þau eru örfá.

Hér er samt ekki allt sem sýnist. Í orðabókum er merking orðsins sögð vera 'það þegar sjúkdómur (sýklar) berst frá einum einstaklingi til annars'. En í fréttum síðustu mánaða er mjög algengt að sagt sé að smitum hafi fjölgað, tvö smit hafi greinst í gær o.s.frv. Þarna hefur orðið greinilega fengið nýja merkingu, vissulega mjög skylda hinni upprunalegu. En í stað þess að það vísi til ferlisins, eins og orðabókarskilgreiningarnar gera, vísar það nú til útkomunnar úr ferlinu. Þar með verður ekkert óeðlilegt að nota það í fleirtölu og tala um mörg smit.

Annað svipað dæmi er orðið þjónusta sem til skamms tíma var oftast haft í eintölu en nú sést oft í fleirtölu. Fleirtalan þjónustur er þó til þegar í fornu máli – „Hann skipaði mönnum í þjónustur“ stendur í Heimskringlu. Í Norðra 1910 segir að eitt af hlutverkum ráðherra Íslands sé „að setja menn í hinar ýmsu þjónustur er varða ábyrgð fyrir almenningi“. Í hagskýrslum hefur liðinn „ýmsar þjónustur“ verið að finna í meira en 40 ár. Svo eru það auðvitað guðsþjónustur sem lengi verið notaðar í fleirtölu.

Nú býður fjöldi fyrirtækja ýmsar þjónustur. Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er mælt með því að tala um þjónustu í fleirtölu (nema í þeirri fornu merkingu: þjónustustúlka). Í stað þess að segja „margar þjónustur“ er t.a.m. hægt að nota: margs konar þjónusta, ýmis þjónusta.“ En þetta gengur ekki alltaf. Merking orðsins hefur nefnilega víkkað dálítið þannig að í stað almennrar merkingar er það látið vísa til tiltekinnar skilgreindrar þjónustu sem veitt er (og seld sérstaklega) – símaþjónusta, vefþjónusta, póstþjónusta o.s.frv. Þá er eðlilegt að auglýsa ýmsar þjónustur í boðiýmiss konar þjónusta í boði er miklu óljósara og fleirtalan þjónustur liggur beint við enda á hún sér langa hefð.

Málið snýst sem sé ekki um það hvort fleirtölumyndirnar smit og þjónustur séu til – það eru þær augljóslega, og málfræðilega er ekkert við þær að athuga. Þær fela hins vegar í sér merkingarvíkkun orðanna sem um er að ræða. Það er svo smekksatriði hvort fólk fellir sig við þessa merkingarvíkkun og því verður hver að svara fyrir sig. En það má benda á að fjölmörg hliðstæð dæmi eru til í málinu – sum almennt viðurkennd, önnur ekki. Og sum slík tilvik sem áður var amast við þykja núna góð og gild.

Til skamms tíma börðust umvandarar t.d. harkalega gegn fleirtölunni keppnir og sögðu að keppni væri aðeins til í eintölu og merkti 'kapp' – eins og orðið gerir t.d. í setningunni það var alltaf mikil keppni á milli systkinanna. En við þessa óhlutstæðu merkingu hefur bæst merkingin 'kappleikur', eins og t.d. í systkinin háðu margar keppnir. Þessi merkingarvíkkun er a.m.k. 90 ára gömul. Nú hef ég ekki séð amast við fleirtölunni keppnir í 15-20 ár og dreg þá ályktun af því að flestir séu búnir að taka hana í sátt – Málfarsbankinn segir „Fleirtalan keppnir á aðeins við þegar talað er um kappleiki eða mót en ekki þegar orðið merkir: kapp“. Önnur svipuð dæmi eru sultur og krydd. Það kemur í ljós hvernig fer með smit og þjónustur.

Annars skrifaði Höskuldur Þráinsson prófessor einu sinni ágæta smágrein um þetta efni og er rétt að vísa á hana hér.

Posted on Færðu inn athugasemd

Notum ekki íslensku gegn fólki

Ég skrifaði nýlega pistil þar sem ég hvatti fólk til að tala íslensku við útlendinga sem eru að læra málið í stað þess að skipta strax yfir í ensku eins og Íslendingum er gjarnt þegar viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. En ég var svo bláeygur að ég hafði ekki hugsað út í að þetta er ekki endilega bara óþolinmæði og hugsunarleysi, heldur stundum notað á meðvitaðan hátt til að gera lítið úr fólki og gefa því til kynna að það eigi ekki heima hér, eins og kemur fram í viðtali við Miriam Petru Ómarsdóttur Awad í mbl.is í dag:

„„[…] það skipt­ir í raun ekki máli hversu vel þú tal­ar ís­lensku, það er samt fullt af fólki sem mun samt koma fram við þig eins og þú sért ekki Íslend­ing­ur. Birt­ing­ar­mynd­ir for­dóma eru mis­jafn­ar en úti­lok­un og nei­kvæðar at­huga­semd­ir eru hluti þeirra,“ seg­ir Miriam.

„Eitt af því sem ýtir und­ir til­finn­ing­ar um úti­lok­un er til dæm­is þegar fólk er í sí­fellu ávarpað á ensku jafn­vel þó það svari á ís­lensku eða hafi jafn­vel byrjað sam­talið á ís­lensku. Marg­ar höfðu lent í því, og ég hef sjálft mikið lent í því, að fólk tal­ar ensku við mig að fyrra bragði.

Það er samt alltaf verið að segja að út­lend­ing­ar þurfi bara að læra ís­lensku og að við verðum að vera opn­ari fyr­ir því að fólk tali ís­lensku með hreim, sem er al­veg rétt, en það er samt bara þannig að ef þú lít­ur út á ein­hvern hátt þá lít­ur fólk á þig sem út­lend­ing.““

Það er alvarlegt mál þegar íslenskan er notuð á þennan hátt. Við megum aldrei nota íslenskuna eða takmarkaða íslenskukunnáttu til að mismuna fólki. Það er vanvirðing við fólkið sem þetta bitnar á – og ekki síður vanvirðing við íslenskuna.

En þótt það sé sjálfsagt að leitast við að tala íslensku við útlendinga á það ekki alltaf við, eins og Alondra Silva Muñoz bendir á í viðtali í mbl.is í gær þegar hún er spurð hvað sé það erfiðasta við að vera inn­flytj­andi á Íslandi:

„„Ég held að það sé að finna jafn­vægi hvað varðar tungu­málið. Tungu­málið get­ur verið eitt­hvað sem úti­lok­ar þig og læt­ur þér líða eins og þér sé út­hýst en það get­ur líka verið eitt­hvað sem fólk deil­ir með þér til þess að láta þér líða vel og vald­efla þig.“

Hún seg­ir að marg­ir meini mjög vel þegar þeir tala ís­lensku við inn­flytj­end­ur og það geti látið þeim líða vel.

„En í viss­um aðstæðum viltu kannski ekki tala ís­lensku vegna þess að þú vilt ekki að neins kon­ar mis­skiln­ing­ur eigi sér stað. Til dæm­is inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins eða á mik­il­væg­um fundi í vinn­unni.““

Það er skiljanlegt að fólk óttist misskilning við slíkar aðstæður og vilji því forðast að nota tungumál sem það talar ekki reiprennandi. En hin hliðin á málinu er auðvitað sú að viðmælendurnir hugsa eins – vilja nota tungumál þar sem þeir eru á heimavelli við aðstæður þar sem misskilningur má ekki verða. Vandinn er hins vegar sá að tungumálið sem lágmarkar hættu á misskilningi er ekki það sama hjá báðum aðilum.

Það er engin einföld lausn til á þessu. Í heilbrigðiskerfinu er fólk auðvitað að sækja sér nauðsynlega þjónustu og á rétt á að komið sé til móts við það eins og hægt er. Þetta er flóknara í samskiptum á vinnustað – þar er um að ræða hlutverk sem fólk velur sér og það á ekki sömu kröfu á því að geta talað annað tungumál en opinbert mál landsins.

Mál af þessu tagi verður að vera hægt að leysa án þess að íslenskan sé alltaf víkjandi, en jafnframt án þess að brotið sé á rétti fólks eða það haft afskipt. Og það á að vera hægt, ef hafðar eru í heiðri grundvallarreglur í mannlegum samskiptum – umburðarlyndi, tillitssemi, sveigjanleiki, og virðing fyrir öðru fólki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Enska í strætó

Ég fer í strætó einu sinni á ári - þegar ég þarf að fara með bílinn minn í tékk upp í óbyggðir. Í hvert skipti ergi ég mig yfir því að í vögnunum er texti á ensku án þess að samsvarandi texti sé líka á íslensku. Ekki bara einhver texti, heldur texti sem varðar öryggisatriði og mikilvægt er því að allir skilji.


Ég hef a.m.k. tvisvar skrifað upplýsingafulltrúa Strætó um þetta og hann hefur lofað bót og betrun en það virðist ekki hafa gengið eftir. Ég sé líka ekki betur en þetta sé andstætt málstefnu Reykjavíkurborgar (ég veit að Strætó er ekki borgarfyrirtæki en borgin er langstærsti eigandinn og það væri eðlilegt að málstefnan gilti þar).

Ekki segja að þetta sé ástæðulaust nöldur því að allir skilji ensku. Í fyrsta lagi er það ekki rétt - það skilja ekki allir ensku. En í öðru lagi snýst málið ekki um það, heldur um stöðu málsins í samfélaginu. „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi“ auglýsti bæjarfógetinn árið 1848.