Posted on Færðu inn athugasemd

hliðiná

Nýlega var mér bent á að ungt fólk væri farið að nota hliðiná í stað sambandsins við hliðina á, t.d. ég stóð hliðiná henni, húsið er hliðiná búðinni. Ég hafði ekki tekið eftir þessu en slæðingur af dæmum finnst með gúgli og í Risamálheildinni eru 17 dæmi. Talsvert fleiri dæmi, 76 talsins, eru um við hliðiná, þar sem fyrri forsetningin heldur sér en nafnorðið og sú seinni renna saman. Slíkur samruni er vitaskuld fullkomlega eðlilegur í framburði en venjulega ekki viðurkenndur í ritmáli, þar sem reglan er sú að fara eftir uppruna – þótt stundum sé ritað oní, niðrí, uppí o.fl. samræmist það ekki ritreglum.

Elstu dæmin sem ég finn á tímarit.is um að hliðiná sé skrifað í einu lagi eru frá 1983 – í smásögu þar sem fjölmörg önnur dæmi eru um að sambönd sem eiga að vera í tvennu lagi samkvæmt stafsetningarreglum séu í einu orði, s.s. bakvið, inná, þarsem, einsog o.fl. Kringum aldamótin fer svo að sjást dálítið af dæmum um hliðiná, yfirleitt með við á undan. Ekki er ástæða til að ætla að sú fjölgun sýni einhverja breytingu á framburði þessa sambands eða tilfinningu málnotenda fyrir því, heldur ber hún væntanlega vott um að stafsetningarreglum sé ekki fylgt jafnstíft eftir.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um hliðiná eitt og sér er í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1998 þar sem bréfritari segir frá reynslu sinni af nýrri tegund strætisvagna: „Þegar hann svo lagði af stað sá ég strax eftir því að hafa ekki tekið eyrnahlífar með mér, þar sem ég hafði sest hliðiná vélinni.“ Auk áðurnefndra dæma í Risamálheildinni eru einstöku dæmi um það í blöðum og tímaritum frá allra síðustu árum að hliðiná sé notað á þennan hátt, sem sjálfstæð forsetning án við. Og þetta hefur líka sést í prentuðum bókum.

Í sjálfu sér er þetta mjög eðlilegt. Við höfum sérstakar forsetningar fyrir ýmiss konar afstöðu milli fólks og hluta – á, undir, yfir, hjá, við o.fl. Stundum er ekki til eitt orð fyrir einhverja afstöðu, heldur notað orðasamband, en það hefur þá tilhneigingu til að styttast eða renna saman eins og áður eru nefnd dæmi um – oná, niðrí, bakvið. Í þessu tilviki er um að ræða þriggja orða samband þar sem fyrsta orðið, við, er mjög áherslulítið í framburði og leggur í raun lítið af mörkum til merkingarinnar og því eðlilegt að það falli brott.

Það er ekki einsdæmi að forsetningar verði til á þennan hátt. Hér var áður nefnt bak við sem á að rita í tvennu lagi samkvæmt uppruna og er oftast ritað þannig, en eðlilegast væri að líta á sem eitt orð, forsetninguna bakvið. Sambandið hefur reyndar oft verið ritað í einu lagi – á tímarit.is eru hátt í 19 þúsund dæmi um bakvið, allt frá því snemma á 19. öld. Upprunalega er þetta þriggja orða samband, á bak við, þ.e. forsetning – nafnorðið bak – forsetning, og getur vissulega verið það enn, en hægt hefur verið að sleppa á frá því á 16. öld.

Annað dæmi má taka af forsetningunum sakir (einhvers) og sökum (einhvers), eins og Jón G. Friðjónsson hefur rakið. Í báðum tilvikum er upphaflega um að ræða nafnorðið sök í fleirtölu, annars vegar í þolfalli í sambandinu fyrir sakir (einhvers) og hins vegar í þágufalli í sambandinu af/fyrir sökum (einhvers). „Er og Grettir frægur maður fyrir sakir afls og hreysti“ segir í Grettis sögu; „því að eg er nú fyrir elli sökum til engis fær“ segir í Víga-Glúms sögu. Í fyrra tilvikinu fellur forsetningin fyrir brott á 13. öld, en elsta dæmi um brottfall af/fyrir á undan sökum er frá upphafi 14. aldar.

Enn eitt dæmi er handa. Sú forsetning er mjög algeng í nútímamáli en ekki til í fornu máli – þar er notaður forsetningarliðurinn til handa (einhverjum) þar sem handa er eignarfall fleirtölu af hönd. „Tekur Njáll nú upp goðorðið til handa Höskuldi“ segir í Njálu, og fjölmörg önnur dæmi eru í fornmáli um þetta samband. Nafnorðið hönd stýrir þá þágufalli eins og nafnorð gera í sumum tilvikum (dativus sympatheticus). En á 16. öld fellur forsetningin brott og eftir stendur aðeins handa, sem málnotendur fara þá að skynja sem forsetningu.

Það er því að sjá að málið sé að nota þessa sömu aðferð, að fella forsetningu framan af nafnorði, til að koma sér upp nýrri forsetningu, hliðiná. Það er auðvitað hægt að amast við þessari breytingu ef fólk vill og kalla þetta hina örgustu málvillu. Mér finnst þetta hins vegar bráðskemmtilegt dæmi um að íslenskan er sprelllifandi og getur jafnvel bætt orðum í hóp forsetninga sem venjulega er talinn lokaður orðflokkur. Þessi breyting á sér líka skýrar hliðstæður í tilurð forsetninga sem engum dettur í hug að hafa nokkuð á móti. Mér finnst að við eigum að taka hliðiná fagnandi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Til varnar tilbrigðum

Í gær setti ég inn í hópinn Málspjall á Facebook vangaveltur um það hvenær föt yrðu að þvotti, og síðan aftur að fötum. Ég setti þetta svo sem aðallega inn mér og öðrum til gamans, en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Í þeim fjörugu umræðum sem spunnust út frá þessu kom nefnilega í ljós, eins og mig grunaði, að fólk dregur mörkin á mismunandi stöðum – sem þýðir að merkingin sem fólk leggur í orðið þvottur er dálítið mismunandi.

Og þegar að er gáð gegnir örugglega sama máli um mikinn fjölda algengra orða – orða sem við notum jafnvel á hverjum degi. Höskuldur Þráinsson gerði einu sinni könnun á því hvernig fólk skilgreindi jafn hversdagslegt orð og bolli og þá kom í ljós að því fór fjarri að fólk væri sammála um hvað helst skilgreindi bolla og um hvers konar hluti væri hægt að nota það orð.

Auðvitað er þetta einmitt það sem við er að búast ef við höfum í huga hvernig við lærum málið. Við lærum merkingu orða ekki af orðabókarskilgreiningum, heldur af því hvernig þau eru notuð. Það erum við sjálf, hvert fyrir sig, sem byggjum upp málkerfi okkar og málkunnáttu úr því hráefni sem málumhverfið lætur okkur í té – út frá meðfæddum hæfileikum okkar til málnáms.

Þegar við lærum nýtt orð komum við okkur upp hugmynd um grunnmerkingu þess, en ekki endilega nákvæma afmörkun. Þess vegna getur afmörkunin orðið svolítið öðruvísi en hjá þeim sem við lærum orðið af. Merkingarmunurinn er samt venjulega svo lítill eða léttvægur að við áttum okkur sjaldnast á honum – og þá sjaldan það gerist truflar hann okkur yfirleitt ekki.

Lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er sá að málið þolir ágætlega tilbrigði. Það þolir vel að málnotendur leggi ekki allir nákvæmlega sömu merkingu í orð, jafnvel þótt um algeng og hversdagsleg orð sé að ræða. Það þolir líka vel að stundum séu notuð mismunandi orð um sama fyrirbærið; að ýmis orð séu ekki beygð eins í máli allra; að sumar sagnir stýri ekki sama falli í máli allra; og að sum orð og hljóðasambönd séu borin fram á mismunandi hátt.

Málið sér um það sjálft að halda tilbrigðunum innan hæfilegra marka þannig að það geti gegnt hlutverki sínu sem samskiptatæki. Og rétt eins og við þurfum ekki að segja – og getum ekki sagt – að tiltekin merkingarleg afmörkun orðsins þvottur sé réttari en önnur þurfum við ekki heldur að segja að ein merking orðs sé réttari en önnur, ein beygingarmynd réttari en önnur, ein fallstjórn réttari en önnur, einn framburður réttari en annar. Málið plumar sig ágætlega án þess að tilbrigðum sé mismunað.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mistök voru gerð

Ég sá áðan færslu frá blaðamanni sem vitnaði í setninguna „Mistök voru gerð“ í yfirlýsingu eigenda Ásmundarsalar og sagði: „Mér finnst að við blaða- og fréttamenn ættum að gera með okkur samkomulag að losa okkur við þolmyndina og koma germyndinni í tísku í fréttaflutningi!“

Ég tek undir þetta. Þarna er verið að misbeita tungumálinu og sannarlega ekki í fyrsta skipti – nota þolmynd til að draga athygli frá gerendunum, þeim sem ábyrgð bera á mistökunum. Mistök gera sig ekki sjálf og engin ástæða til að láta gerendurna komast upp með að skýla sér á bak við andlitslausa þolmynd.

Með þessu er ég ekki að taka afstöðu til þessa tiltekna atviks – hvort eigendurnir gerðu mistök eða hvers eðlis þau voru. Þessi ábending hefur almennt gildi því að sams konar misbeiting málsins til að draga úr ábyrgð gerenda og afvegaleiða þar með lesendur eða áheyrendur, meðvitað eða ómeðvitað, er mjög algeng.

Ég skrifaði í fyrra pistil sem heitir „Germynd er fyrir gerendur“ og ágætt að rifja hann upp.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þunglyndi

Fyrir jól heyrði ég ágæta umræðu í morgunútvarpinu á Rás 2 um orðið þunglyndi. Umræðan spannst af frásögn með fyrirsögninni „Það þýddi ekkert að leggjast í þunglyndi og gefast upp“ á Vísi í nóvember. Sumum fannst orðið þunglyndi notað gáleysislega í þessari frásögn í ljósi þess að það er heiti á alvarlegum geðsjúkdómi en í þessu tilviki var ekki um slíkt að ræða, heldur merkti orðið fremur 'vonleysi' eða eitthvað slíkt, eins og það gerir mjög oft í daglegu tali. Þótt vel megi segja að þetta hafi verið óheppileg orðanotkun er engin ástæða til að gera því skóna að einhverjar illar hvatir hafi legið þar að baki.

Elsta dæmi um orðið þunglyndi er úr 9. bindi Rita Lærdómslistafélagsins frá 1788, í greininni „Registur yfir íslenzk sjúkdóma nöfn“ eftir Svein Pálsson lækni. Þar segir: „Samviskuveiki, Þúnglyndi, Sturlun, Fálæti, Fáleiki, Hiartveiki, Hrellíng, Hugtregi, Hugarvýl, eru almælt samnefni til Gedveikiu.“ Þótt upphaflega sé því um læknisfræðilegt íðorð að ræða hefur hefur orðið þunglyndi lengi verið notað í almennu máli án þess að það vísaði til sjúkdóms. Þetta sést vel á því að í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983 er orðið skýrt sem 'ókæti, dapurleiki, gleðileysi; svartsýni'.

Í þriðju útgáfu bókarinnar frá 2002 er fyrsta merkingarskýringin hins vegar 'sálrænn kvilli sem einkennist af vonleysi, hryggð og áhugaleysi' og merkt sem íðorð úr læknisfræði og skyldum greinum, en merkingarskýringin úr fyrri útgáfu bókarinnar kemur þar á eftir. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þunglyndi svo skýrt 'það að vera þunglyndur', en þunglyndur er sá 'sem er haldinn sálrænum kvilla sem einkennist af vonleysi, hryggð og áhugaleysi'. Þarna er sem sé hin almenna merking orðsins horfin en sú læknisfræðilega – sem er upphafleg í málinu eins og áður segir – stendur ein eftir.

Það breytir því ekki að margt fólk notar orðið enn í þeirri merkingu sem það hefur – eða hafði – í almennu máli, þ.e. um depurð, leiða eða vonleysi, án þess að um sé að ræða vísun til sjúklegs ástands. Ég hef iðulega gert það sjálfur og geri örugglega enn. Með slíkri málnotkun er yfirleitt alls ekki verið að gera lítið úr alvarleik sjúkdómsins eða þeim sem þjást af honum – þetta er einfaldlega málnotkun sem við sem erum komin yfir miðjan aldur ólumst upp við. Samt sem áður er vel skiljanlegt að fólki sem þekkir sjúkdóminn af eigin raun eða hefur komist í návígi við hann sárni þetta og finnist að sér vegið.

Það eru í sjálfu sér ýmis dæmi þess að sama orðið sé bæði nákvæmlega skilgreint íðorð í einhverri fræðigrein, iðngrein eða á öðru afmörkuðu sviði og einnig notað í almennu máli – oftast þá í skyldri merkingu en ekki jafn niðurnegldri. Við getum tekið einfalt dæmi af orðinu magi sem í Íðorðasafni lækna í Íðorðabankanum er skilgreint sem „Sá hluti meltingarvegar sem liggur milli vélinda og skeifugarnar“. En í daglegu tali er magi auðvitað notað í miklu víðari merkingu sem fellur ekki undir þessa skilgreiningu – talað um að vera með beran maga, slit á maganum, barn í maganum o.s.frv. Þetta truflar okkur yfirleitt ekki og veldur ekki misskilningi.

Út frá þessu má segja að það væri ekkert óhugsandi að nota þunglyndi áfram í hinni almennu merkingu sem það hefur haft, jafnframt því að nota það sem íðorð. En vegna þess hve geðsjúkdómum hefur fylgt mikil skömm og fordómar er eðlilegt að fólk sé viðkvæmt fyrir orðanotkun á þessu sviði. Það sem skiptir meginmáli hér, eins og í allri málnotkun, er tillitssemi, umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki. Við sem höfum vanist því að nota orðið þunglyndi í tiltölulega almennri merkingu þurfum að átta okkur á því að sú málnotkun getur stuðað fólk og ættum því að forðast hana – og fólk sem sárnar þessi málnotkun þarf að hafa í huga að talsverður hluti þjóðarinnar er alinn upp við að nota orðið á þennan hátt og meinar ekkert illt með því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málspjall

Þegar ég stofnaði Facebook-hópinn Málspjall fyrir hálfum fimmta mánuði eftir að hafa gefist upp á neikvæðri umræðu í Málvöndunarþættinum var ég með tvö markmið í huga. Annars vegar að skapa vettvang fyrir jákvæða, uppbyggilega, fræðandi og skemmtilega umræðu, fyrirspurnir og svör; og hins vegar að koma á framfæri fjölbreyttum fróðleiksmolum um íslenskt mál, málnotkun og málumhverfi sem fólk gæti haft gagn og gaman af, á máli sem fólk gæti skilið án mikillar málfræðimenntunar eða -þekkingar - fróðleik sem gæti hugsanlega aukið víðsýni fólks og dregið úr fordómum gagnvart öðrum tilbrigðum en þeim sem fólk er alið upp við eða hefur verið kennt að séu „rétt“.

Mér finnst hvort tveggja hafa tekist. Í hópnum eru flesta daga líflegar umræður og svör fást við flestum fyrirspurnum. Samtals eru komin hátt í þúsund innlegg í hópinn frá byrjun, og yfir 16 þúsund athugasemdir, en félagar í hópnum eru nú rúmlega 2700. Ég hef reynt að birta þar pistil á hverjum degi, stundum fleiri en einn á dag. Þessir pistlar eru nú orðnir hátt á annað hundrað og hafa flestir verið á bilinu 300-600 orð – sumir lengri en örfáir styttri. Auk þess hef ég sett inn fjölmargar styttri færslur og hlekki á efni á netinu, nýtt og gamalt. Það má vissulega halda því fram að pistlarnir séu of langir fyrir þennan vettvang, en þá má einnig lesa á heimasíðunni minni.

Ég geri þetta af því að ég hef gaman af því. En líka vegna þess að ég er sannfærður um að það er mikilvægt að íslensk málfarsumræða breytist og ég vil leggja mitt af mörkum til þess – sýna að það er hægt að ræða um íslenskt mál og tilbrigði þess á jákvæðan hátt, án þess að fordæma tiltekin tilbrigði eða fólkið sem notar þau. Og það er ekki bara hægt – það er beinlínis lífsnauðsynlegt fyrir íslenskuna að fólkið sem notar hana finni sig í henni, finnist það eiga hlutdeild í henni og hafa eitthvað um hana að segja. Það er forsenda fyrir því að fólki þyki vænt um málið og vilji halda í það og leggja sig fram um að nota það á öllum sviðum. En þá verðum við öll að átta okkur á því að íslenska er alls konar – og það er styrkur hennar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Unnið að heiman

Frá því að kórónuveiran fór að geisa hér snemma á árinu hefur fjöldi fólks flutt starfsstöð sína meira og minna inn á heimilið og tengst venjulegum vinnustað gegnum netið. Það hefur iðulega verið sagt að fólk vinni að heiman. Þetta er væntanlega komið til fyrir áhrif frá ensku, work from home, en það er svo sem ekki næg ástæða til að amast við því. Hins vegar er því oft haldið fram að vinna að heimanrangt hugsað vegna þess að að heiman merki 'ekki heima' og því hljóti ég vinn að heiman að merkja 'ég vinn ekki heima'.

En það er ekki endilega rétt. Þótt ég er að heiman merki vissulega 'ég er ekki heima' gegnir öðru máli um ég fer að heiman sem merkir 'ég er heima en fer þaðan'. Eins er hægt að tala um horfa að heiman þar sem maður er heima og horfir þaðan, o.fl. Sambandið að heiman getur því annaðhvort merkt kyrrstöðu og þá er maður ekki heima (ég er að heiman), eða stefnu / hreyfingu og þá er maður heima en stefnir þaðan í einhverjum skilningi (ég fer að heiman, ég horfi að heiman).

En hvernig á að skilja að heiman í ég vinn að heiman – er það kyrrstaða eða einhvers konar hreyfing? Hér er grundvallaratriði að fólk gerir mun á því að vinna heima og vinna að heiman – það fyrrnefnda á við þegar heimilið er hinn venjulegi vinnustaður, en það síðarnefnda þegar venjulegur vinnustaður er annars staðar en fólk er heima tímabundið vegna aðstæðna. Í ljósi þess að maður tengist vinnustað utan heimils rafrænt finnst mér hægt að líta svo á að að heiman sé stefna en ekki kyrrstaða í þessu tilviki og þess vegna sé ekkert óeðlilegt við að segja ég vinn að heiman.

Posted on Færðu inn athugasemd

Lítill minnihluti

Með nafnorðunum minnihluti og meirihluti er hægt að nota lýsingarorðið stór, en einnig mikill. Þegar þessi orð standa með meirihluti skiptir ekki öllu hvort þeirra er notað – stór meirihluti og mikill meirihluti merkir u.þ.b. það sama, t.d. sex af sjö. En ef þau standa með minnihluti er málið mun flóknara – mikill minnihluti merkir að það er mikill munur á stærð minnihluta og meirihluta, en stór minnihluti merkir (í mínu máli a.m.k.) að minnihlutinn er verulegur hluti af heildinni, þótt hann sé vissulega minnihluti. Það mætti t.d. segja að einn af sjö væri mikill minnihluti, en þrír af sjö væru stór minnihluti. Við getum e.t.v. litið svo á að mikill vísi bara til fyrri liðar samsetta orðsins, minni-, en stór vísi til seinni liðarins, hluti.

En málið vandast þegar maður áttar sig á því að orðin stór og mikill hafa sama andheiti, þ.e. lítill. Það veldur engum vandkvæðum þegar orðið stendur með meirihluti – meirihlutinn hlýtur alltaf að vera stærri en minnihlutinn, þannig að lítill meirihluti getur ekki þýtt annað en að stærðarmunur meirihluta og minnihluta er ekki mikill. En hvað merkir lítill minnihluti? Merkir það að um sé að ræða lítinn hluta af heildinni, t.d. einn af sjö – eða að lítill munur sé á stærð hlutanna, t.d. þrír af sjö? Vísar lítill til fyrri liðarins, minni-, eins og mikill, þ.e. til þess að þessi hluti sé litlu minni en hinn – eða vísar það til seinni liðarins, hluti, eins og stór, þ.e. til þess að um sé að ræða lítinn hluta af heildinni?

Posted on Færðu inn athugasemd

Ekki ósjaldan

Stundum er amast við því að sambandið ekki ósjaldan sé látið merkja 'alloft' eins og það gerir oftastnær. Mörgum finnst það órökrétt, því að ó‑ sé neitunarforskeyti og ósjaldan merki 'oft' – ekki ósjaldan hljóti þá að merkja 'sjaldan', því að neitanirnar, ekki og ó‑, vegi hvor aðra upp. En það er reyndar alls ekki alltaf svo að forskeytið ó‑ neiti merkingu stofnsins sem það tengist. Iðulega merkir það miklu fremur 'slæmur, vondur'; ósjór er 'vondur sjór', óvani 'vondur vani', óbragð 'vont bragð', o.s.frv. Ef stofninn er sjálfur neikvæðrar merkingar getur svo farið að u.þ.b. sama merking fáist, hvort sem ó‑ er notað eða ekki; læti og ólæti eru nokkuð svipuð, og sömuleiðis þefur og óþefur.

En þótt forskeytið ó‑ hafi alls ekki alltaf beina neitunarmerkingu felur það sennilega yfirleitt eitthvað neikvætt í sér. Það er þó nokkuð greinilegt að ó‑ í ósjaldan er neitandi merkingar, og ósjaldan eitt sér er andstæðrar merkingar við sjaldan. Það má því halda því fram að það sé „órökrétt“ að láta ekki ósjaldan merkja það sama. En því fer fjarri að tungumálið sé alltaf „rökrétt“, og það er ekki hægt að líta fram hjá því að það er gömul og mjög rík málvenja fyrir því að ekki ósjaldan merki 'alloft'. Í stað þess að neitanirnar vegi hvor aðra upp má segja að þær leggist saman.

Það er alþekkt að merking samsettra orða er sjaldnast bara summa af merkingu samsetningarliðanna – við þurfum að læra merkingu samsetningarinnar sérstaklega og í orðum sem virðast hliðstæð að gerð geta tengsl liðanna verið með ýmsu móti. Orðið hús birtist t.d. í fjölmörgum ólíkum samsetningum. Þannig vísar timburhús til efnis hússins, einingahús fremur til byggingaraðferðar, íbúðarhús til nýtingar, fjölbýlishús til skipulags, eldhús og þvottahús eru ekki einu sinni hús, heldur herbergi – að ekki sé talað um gleraugnahús og nálahús. Þetta lærum við smátt og smátt, á máltökuskeiði eða síðar, og það vefst ekkert fyrir okkur.

Meginreglan er hins vegar sú að merking setningarliða og heilla setninga sé leidd af merkingu einstakra orða. Það er í raun frumforsenda tungumálsins, veldur því að hægt er að læra það – það er auðvelt að ímynda sér hversu óyfirstíganlegt viðfangsefni það væri ef við þyrftum að læra merkingu allra setninga málsins sérstaklega. En þótt þetta sé meginreglan eru samt ótal dæmi um að bæði setningarliðir og heilu setningarnar hafi merkingu sem þarf að læra sérstaklega en er ekki að öllu leyti fyrirsegjanleg út frá merkingu einstakra orða. Þetta eru einkum hvers kyns orðtök og málshættir, en einnig ýmis föst orðasambönd af öðru tagi. Eitt slíkt samband er ekki ósjaldan.

Elsta dæmi um ekki ósjaldan í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá því um 1800, og á tímarit.is má finna hátt í 2500 dæmi um sambandið ekki/eigi ósjaldan, allt frá miðri 19. öld til dagsins í dag. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á merkingu dæmanna, en þó leikur enginn vafi á því að í langflestum þeirra merkir sambandið 'alloft' en ekki 'sjaldan'. Þetta er því grunnmerking sambandsins sem fráleitt væri að hafna. Auðvitað má segja að hægt sé að misskilja það – en sama gildir þá um ótal orðtök og málshætti sem ekki á að túlka bókstaflega. Samhengið sker venjulega úr um merkinguna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fjórum sinnum minni

Ég hef margoft séð fólk gera athugasemdir við setningar eins og ferðamenn eru fimm sinnum færri en í fyrra eða tekjurnar eru fjórum sinnum minni en á síðasta ári. Athugasemdirnar lúta oftast að því að tölur hækki við margföldun en lækki ekki og þess vegna sé ekki „rökrétt“ að tala um fimm sinnum færri eða fjórum sinnum minni. En þetta er misskilningur. Tala hækkar því aðeins við margföldun að hún sé margfölduð með hærri tölu en 1. Tala sem er margfölduð með lægri tölu en 1 lækkar – 4 × 0,5 er 2.

Þegar við margföldum með tölu sem er hærri en 1 má segja að við séum að margfalda með almennu broti þar sem 1 er nefnarinn (fyrir neðan strik) en talan sem margfaldað er með er teljarinn (fyrir ofan strik). 5 × 2 má eins skrifa 5 × 2/1 – útkoman er sú sama, þ.e. 10. Þegar nefnarinn er 1 er hins vegar ástæðulaust, og ekki venja, að setja þetta upp sem brot. Ef við tölum um eitthvað sem er fleira, stærra eða hærra en annað erum við að margfalda með teljaranum (og deila með 1).

En þegar við tölum um eitthvað sem er færra, minna eða lægra en annað er teljari brotsins 1, en við margföldum með nefnaranum. Segjum að tekjurnar á síðasta ári hafi verið átta milljónir og séu fjórum sinnum minni í ár – þá er þetta 8 × ¼ = 2. Með því að skipta úr orði sem táknar aukningu (fleiri, stærri, hærri) í orð sem táknar minnkun (færri, minni, lægri) færum við okkur niður fyrir strikið og margföldum með nefnara í stað teljara. Það má líka orða það þannig að sinnum fleira/stærra/hærra sé margföldun, sinnum færra/minna/lægra sé deiling.

Þetta er sett svona upp fyrir fólk sem vill endilega að málið sé rökrétt, til að sýna fram á að þetta er einmitt fullkomlega rökrétt. En það skiptir í raun engu máli. Aðalatriðið er að þetta er alþekkt málvenja og hefur verið það a.m.k. síðan um miðja 19. öld. Ég er alinn upp við þetta og það hefur aldrei hvarflað að mér að merkingin sé eitthvað óljós. Og ég held svo sem að fólk sem hneykslast á þessari málnotkun og þykist ekki skilja við hvað er átt viti alveg hver merkingin er. Það er bara þessi krafa um „rökrétt“ mál sem flækist fyrir því – að ástæðulausu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Sagnasamsetningar

Í gær sá ég á vef Fréttablaðsins fyrirsögnina „Frelsissviptur, laminn og rændur“, og fyrir helgi sá ég í frétt í DV setninguna „Í gær nafnbirti Morgunblaðið þennan mann“. Þarna eru tvö dæmi um samsettar sagnir sem hafa verið nokkuð áberandi í málinu að undanförnu, ekki síst í umræðu um hvers kyns lögreglumál. Auk frelsissvipta og nafnbirta má nefna haldleggja, ökuleyfissviptamyndbirta og örugglega fleiri. Samsettar sagnir af þessu tagi, með nafnorð sem fyrri lið, eru ekki ýkja margar í málinu þótt sumar eigi sér vissulega hefð. Finna má nokkurra áratuga gömul dæmi um flestar þessara sagna en notkun þeirra virðist hafa aukist mjög á allra síðustu árum og einhverjar bæst við.

Til skamms tíma hefði fremur verið sagt maðurinn svipti hana frelsi en maðurinn frelsissvipti hana, fremur lögreglan lagði hald á efnið en lögreglan haldlagði efnið, fremur blaðið birti mynd af honum en blaðið myndbirti hann, fremur blaðið birti nafn hennar en blaðið nafnbirti hana. Þarna er andlag sagnarinnar (beint andlag ef hún hefur tvö, eins og svipta) gert að fyrri lið samsettrar sagnar. Samsetta sögnin fær svo nýtt andlag sem getur haft mismunandi uppruna – í forsetningarlið eins og með haldleggja og myndbirta, sem eignarfallseinkunn eins og með nafnbirta, og e.t.v. kemur fleira til greina. Nýja andlagið fær þolfall, a.m.k. í þessum dæmum, óháð því hvaða fall það hafði í stöðu sinni með ósamsettri sögn.

Í öllum þessum tilvikum eru til samsett nafnorð með viðskeytinu -ing sem samsvara sögnunum – frelsissvipting, haldlagning, myndbirting, nafnbirting. Viðskeytið -ing gegnir því hlutverki að mynda verknaðarnafnorð af sögnum – svipting er 'það að svipta', lagning er 'það að leggja', birting er 'það að birta' o.s.frv. Þegar orð með -ing eru samsett kemur tvennt til. Annaðhvort er -ing-nafnorð myndað fyrst af sögninni og öðrum lið svo bætt framan á það (birta+ing > birting, nafn+birting > nafnbirting), eða samsetta sögnin er mynduð fyrst og síðan myndað verknaðarnafnorð af henni með því að skeyta við hana -ing (nafn+birta > nafnbirta, nafnbirta+ing > nafnbirting).

Ef marka má tímarit.is eru flest eða öll samsettu -ing-orðin eldri en samsettu sagnirnar – í mörgum tilvikum töluvert eldri. Það bendir til þess að fyrri möguleikinn hér á undan sé sá rétti. Það er í sjálfu sér viðbúið – samsett nafnorð af þessu tagi eru algeng í málinu og eiga sér langa hefð en samsettar sagnir sjaldgæfar. En það þýðir aftur að samsettu sagnirnar eru myndaðar af samsettu nafnorðunum en ekki öfugt. Þetta er í raun og veru mjög áhugaverð niðurstaða vegna þess að þarna er hefðbundnu orðmyndunarferli snúið við. Málnotendur vita að -ing-nafnorði samsvarar venjulega sögn og búa hana til út frá nafnorðinu með því að draga -ing frá (nafnbirting÷ing > nafnbirta) í stað þess að -ing-nafnorðið sé myndað af sögn eins og venja er.

Slík „öfug“ orðmyndun er svo sem ekki einsdæmi þótt hún sé sjaldgæf. Sögnin jólaskreyta er t.d. meira en hálfrar aldar gömul og sennilega mynduð af nafnorðinu jólaskraut þótt vissulega sé hugsanlegt að sögnin skreyta sé tekin og jóla- bætt framan við til að sýna um hvers konar skreytingu er að ræða. En fjölgun og aukin notkun sagna af þessu tagi gæti bent til þess að tilfinning málnotenda fyrir eðli og gerð íslenskra sagna sé eitthvað að breytast. Þessar sagnir trufla mig ekki sérstaklega, og hér má hafa í huga að oft er talað um að íslenska sé sagnamál fremur en nafnorða, og betra sé að nota færri orð en fleiri. Þessar sagnir bæði stytta setningar og fækka nafnorðum í þeim. Fólk getur svo haft misjafnar skoðanir á því hvort það sé næg réttlæting fyrir þessari nýbreytni.