Posted on Færðu inn athugasemd

Flokkun fólks eftir málfari

19. Íslensk málrækt felst í því að líta ekki niður á fólk sem talar ekki „rétta“ íslensku og hreykja sér ekki af eigin málfari og málkunnáttu.

Tungumálið er áhrifamikið valdatæki og hægt að misbeita því á margvíslegan hátt til að gera lítið úr fólki. Það er vel þekkt að málfar fólks sem talar ekki samkvæmt málstaðlinum hefur verið notað á þennan hátt eins og Kristján Árnason lýsir: „Það verða til um það dómar í samfélaginu hvað telst fagurt eða ljótt. Og einstaklingarnir eru vegnir og metnir eftir málfari sínu. Sá sem notar vont mál er ófínni, heimskari, eða jafnvel verri maður en sá sem notar gott mál. Sá sem er „ósýktur“ af þágufallssýki getur leyft sér að líta niður á þann sem er „þágufallssjúkur“.“

Sjálft orðið, „þágufallssýki“, er vitanlega mjög gildishlaðið og í blöðum frá undanförnum áratugum má finna fjölmörg dæmi um ótrúlega fordóma gagnvart fólki sem er haldið þessari „sýki“. Í blaði frá 1954 er t.d. hneykslast á málfari og flutningi útvarpsþáttar og klykkt út með því að segja: „Fyrir utan allt annað þjáðist flutningsmaður af magnaðri þágufallssýki. Svona manni ætti ríkisútvarpið ekki að hleypa að, það er blátt áfram skaðlegt máli og mennt.“ Svipuðu máli gegndi um þá málbreytingu sem ýmist var kölluð „flámæli“ eða „hljóðvilla“ – sem eru vitanlega gildishlaðin orð ekki síður en „þágufallssýki“.

Íslensk málfarsumræðu hefur löngum verið þessu marki brennd – full fordæmingar á málfari fólks, með gildishlöðnum orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamálgötumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámæltgormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“ eða „þágufallssjúkir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík.

Orðbragðið sem var notað um fólk sem tók þátt í málfarslegri umræðu var engu betra. Fólk sem aðhylltist meira frelsi í málfarsefnum var kallað reiðareksmenn, lausungarsinnar og jafnvel fimmta herdeild; en það var ekki heldur saklaust af því að tala um andstæðinga sína sem málfarsfasista, málfarslöggurmálfarsperra, málvendi og máleigendur, og segja þá stunda málveirufræði. Sem betur fer er þessi orðræða að mestu horfin úr dagblöðum en hefur nú færst á netið og veður uppi á Facebook og í athugasemdadálkum vefmiðla.

Orðræða af þessu tagi er ólíðandi og þeim sem viðhafa hana til minnkunar. Hún er móðgandi og særandi – í raun árás á það mál sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði, árás á sjálfsmynd þess. Og hún er sannarlega ekki til þess fallin að efla íslenskuna því að hún gerir fólk óöruggt og fælir það frá að nota málið – ýtir undir málótta. Iðulega virðist tilgangurinn fremur vera að hreykja sér af eigin kunnáttu en leiðbeina öðrum. En það er aldrei vænlegt til árangurs að tala niður til fólks. Íslenska er nefnilega alls konar eins og áður hefur verið lögð áhersla á – og á að vera það.

Posted on Ein athugasemd

Mismunun á grundvelli málstaðals

18. Íslensk málrækt felst í því að forðast að fordæma tilbrigði í máli sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði og eru hluti af málkerfi þess.

Tilbrigði í máli sem samræmast ekki hinum óopinbera íslenska málstaðli eru iðulega fordæmd og kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem á sér áratuga sögu í málinu og hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Auðvitað er ekki glóra í því.

Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiðimóðurmál okkar – hefur algera sérstöðu. Það er hluti af okkur sjálfum, mikilvægur þáttur í sjálfsmynd okkar. Þess vegna er ótækt að innræta fólki, í skólum eða á öðrum vettvangi, að það mál sem það hefur alist upp við sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Það er í raun og veru árás á okkur sjálf og fjölskyldu okkar ef okkur er sagt að mikilvægt sé „að lyfta þeim, sem ekki hafa átt nógu góðan „pabba og mömmu“ yfir málstig foreldranna“. Flokkun fólks eftir slíkum málfarsatriðum, t.d. á prófum, er engu betri en mismunun eftir kynferði, skoðunum, trú, kynhneigð o.s.frv. sem er bönnuð í 65. grein Stjórnarskrár.

Það er mjög brýnt að breyta málstaðlinum sem hefur gilt undanfarna öld, viðurkenna staðreyndir og gera ýmsar breytingar sem hafa verið í gangi, og verða ekki stöðvaðar, valkvæðar í staðlinum. Það gengur ekki endalaust að halda dauðahaldi í málfar sem er framandi fyrir stóra hópa fólks sem á íslensku að móðurmáli, og kalla málfar þess rangt. Jafnvel hörðustu málvöndunarmenn viðurkenna þetta: „Breytingin er orðin svo algeng, að viðurkenna verður hana sem rétt mál, hvað sem allri rökhyggju líður“ sagði Halldór Halldórsson prófessor um tiltekna málbreytingu.

En er þá ekkert rétt og rangt í máli? Jú – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“ segir í áliti nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum frá 1986. Í samræmi við þetta er alveg eðlilegt að gera athugasemdir við tilviljanakennd og einstaklingsbundin frávik frá staðlinum og kalla þau málvillur, en ef frávikin eru farin að ná til hóps af fólki og börn farin að tileinka sér þau á máltökuskeiði er eðlilegt að tala um málbreytingu eða tilbrigði í máli en ekki villu.

Á hinn bóginn er eðlilegt og gagnlegt að nemendur séu fræddir um það í skóla hvað hefur verið talið rétt og hvað rangt, og gerð skýr grein fyrir því að í sumum tilvikum geti það komið sér illa fyrir fólk að hafa ekki vald á þeim tilbrigðum sem hafa verið talin „rétt“ og samræmast málstaðlinum. Nemendur hafa þá val um hvort þeir leggja það á sig að tileinka sér tilbrigði sem kunna að vera í ósamræmi við þeirra eigið mál. Aðalatriðið er, eins og Guðmundur Andri Thorsson hefur sagt, að „íslenska er handa okkur […]. Hún er ekki útlenska. Hún er innlenska“.

Posted on Færðu inn athugasemd

Órökstudd fordæming tilbrigða

17. Íslensk málrækt felst í því að hafna órökstuddum fordæmingum ýmissa tilbrigða, jafnvel þótt lengi hafi verið barist gegn þeim í skólum.

Þótt engin lög séu til um form íslenskrar tungu er til óopinber málstaðall um rétt mál og rangt, gott og vont. Þessi málstaðall er hvergi skráður en heildstæðasta mynd af honum er hægt að fá með því að skoða Málfarsbankann. Samkvæmt staðlinum á ekki að skrifa mér langar heldur mig langar, ekki við hvorn annan heldur hvor við annan, ekki eins og mamma sín heldur eins og mamma hennar, ekki ég er ekki að skilja þetta heldur ég skil þetta ekki, ekki báðir tónleikarnir heldur – ja, hvað? Hvorir tveggja tónleikarnirHvorirtveggju tónleikarnir? Hver segir það eiginlega?

Það er enginn vafi á því að fyrra („ranga“) afbrigðið í hverri tvennd er málvenja margra – í sumum tilvikum örugglega meirihluta þjóðarinnar. En þrátt fyrir að um sé að ræða útbreiddar málbreytingar, flestar áratuga eða jafnvel alda gamlar, njóta þær ekki viðurkenningar sem vönduð íslenska. Til að hafna þeim er beitt ýmsum missterkum og missannfærandi rökum sem sum hver standast alls ekki. Ég hef þó grun um að ein röksemd sem ég hef hvergi séð orðaða beint sé mjög oft undirliggjandi hjá þeim sem amast við tilbrigðum. Hana mætti orða svona: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.

Vitanlega réttlætir það ekki vitleysu að hún hafi lengi verið höfð fyrir satt. En það má vel halda því fram að mikilvægt sé að festa ríki í málsamfélaginu og ekki sé hringlað með viðmið. Ef búið er að kenna áratugum saman að eitthvað sé rangt – þrátt fyrir að það sé eðlilegt málfar fjölda málnotenda – geti skapast óreiða og lausung í málinu ef það er allt í einu viðurkennt sem rétt mál. Þetta valdi vandræðum í kennslu og ýti undir þá hugmynd að það sé alveg sama hvernig fólk tali og skrifi. Þetta er sjónarmið margra og ástæða til að taka það alvarlega og bera virðingu fyrir því. En ég held að það sé rangt.

Ég held þvert á móti að einstrengingslegt bann við tilbrigðum sem veru­legur hluti – jafnvel meirihluti – málnotenda elst upp við og notar í daglegu lífi sé miklu frekar til þess fallið að skapa óvissu og óreiðu í málnotkun en viðurkenning þessara tilbrigða. Það er hins vegar annað sem þarf að hafa í huga ef viðmiðum er breytt og farið að viðurkenna eitthvað sem áður hefur verið talið rangt. Við erum nefnilega föst í því, mörg hver, að dæma fólk eftir málfari – eftir því hversu vel það fylgir þeim viðmiðum sem hafa verið notuð um rétt og rangt. Þótt þeim viðmiðum væri breytt leiðir það ekki sjálfkrafa og umsvifalaust til breyt­ingar á viðhorfi okkar til tilbrigðanna – og fólksins sem notar þau.

Við þurfum að þora að breyta stefnunni – viðurkenna tilbrigði sem eiga sér langa sögu og eru útbreidd í málinu. Það er engin uppgjöf. En við þurfum ekki síður að hætta að dæma fólk eftir málfari, hvað þá að tengja málfar við andlegt eða líkamlegt atgervi fólks. Mismunun eftir málfari á ekki að viðgangast frekar en mismunun eftir kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð o.s.frv.

Posted on Færðu inn athugasemd

Förum varlega í leiðréttingar

16. Íslensk málrækt felst í því að hneykslast ekki á málnotkun annarra eða vera sífellt að leiðrétta fólk og gera athugasemdir við málfar þess.

Hnökrar á málfari náungans hafa lengi verið vinsælt umræðuefni Íslendinga. Leiðréttingar á algengum „málvillum“ hafa verið eitt helsta viðfangsefni málfarspistla í blöðum, haldið hefur verið úti bloggsíðum með það að megintilgangi að gagnrýna og leiðrétta málfar fólks, og á Facebook er hópur með meira en átta þúsund þátttakendum þar sem mörg innlegg snúast um hneykslun og leiðréttingu á málfari. Reyndar byggjast þær athugasemdir sem þar eru gerðar iðulega á fordómum, útúrsnúningum eða þekkingarskorti á málfræði og þekktum tilbrigðum í málinu.

Það er engin kurteisi að gera óumbeðnar athugasemdir við málfar annarra – slíkar athugasemdir eru iðulega til bölvunar og geta leitt til þess sem Stefán Karlsson kallaðimálótta“, þar sem málnotendur veigra sér við „að tjá sig í riti, þó ekki sé nema í  sendibréfi, eða að taka til máls á opinberum vettvangi, því að þeir óttast að brjóta þá bannhelgi orða og orðmynda, sem þeim hefur verið innrætt. Eftir því sem amazt er við fleiru, eftir því verður nemendum torveldara að muna hvað talið er óæskilegt, og þetta eykur á óöryggi málnotandans gagnvart því máli sem er þó hans eigið móðurmál og getur gert það fátæklegra eða annarlegra en vera þyrfti“.

Þetta á við um leiðréttingar sem gerðar eru í persónulegum samskiptum við fólk sem er komið af máltökuskeiði og á íslensku að móðurmáli. Öðru máli gegnir hins vegar um fólk sem kemur fram á opinberum vettvangi og hefur atvinnu af því að nota málið í ræðu eða riti. Við eigum kröfu á að það fólk vandi sig og beiti málinu af kunnáttu og þekkingu. Það er ekkert að því að benda á það sem betur má fara í máli þess, þótt auðvitað skipti máli hvernig þær ábendingar eru settar fram.

Alkunna er að á máltökuskeiði gera börn ýmsar villur í málnotkun, sé miðað við mál fullorðinna. Þekkt er t.d. að börn beygja sterkar sagnir veikt og segja hlaupaðibítti, látti í stað hljópbeit, lét o.s.frv. Það er ekkert óeðlilegt að foreldrar leitist við að leiðrétta börnin, þótt rannsóknir sýni reyndar að beinar leiðréttingar skili litlu. Árangursríkara er að hafa réttar myndir fyrir börnunum, en aðalatriðið er þó að sjá til þess að þau hafi næga íslensku í málumhverfi sínu – í samtali, lestri, hlustun og áhorfi. Þá koma réttu myndirnar oftast inn í mál þeirra fyrr en seinna, þótt vissulega geti stundum eitthvað breyst í máltökunni.

Fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli gerir vitanlega ýmiss konar villur þegar það er að læra málið. Vissulega má halda því fram að því sé greiði gerður með því að leiðrétta þessar villur – það flýti fyrir því að það nái fullu valdi á málinu en festist ekki í óeðlilegu eða röngu málfari. Þetta er samt vandmeðfarið og viðhorf þeirra sem eru að læra málið til slíkra leiðréttinga er misjafnt – sumir taka þeim fegins hendi en öðrum finnst þær stuðandi. Áður en farið er að leiðrétta málfar fólks er þess vegna er æskilegt að reyna að komast að því hvort það vilji láta leiðrétta sig – og virða óskir þess.

Posted on Færðu inn athugasemd

Rökrétt mál og ekki rökrétt

15. Íslensk málrækt felst í því að viðurkenna að tungumálið er ekki og á ekki að vera fullkomlega rökrétt, og krafa um það geldir málið.

Ein algengasta röksemd sem beitt er gegn nýjungum og tilbrigðum í máli er að þau séu ekki rökrétt. Að margra áliti er það hin endanlegi dómur yfir tilbrigðum og gefur ótakmarkað veiðileyfi á þau. Meðal þess sem er talið „órökrétt“ er að segja loka hurðinni vegna þess að hurðin sé fleki sem lokast ekki – dyrunum sé lokað; tala um að fara erlendis vegna þess að erlendis merki dvöl á stað, ekki hreyfingu til staðar; segja að verslunin opni klukkan 9 vegna þess að verslunin sé ekki gerandi – einhver opni hana; segja hún kynnti Svein fyrir þessari nýjung vegna þess að Sveinn kynntist nýjunginni, ekki öfugt; tala um nýslátrað kjöt vegna þess að kjötinu sé ekki slátrað, heldur dýrinu sem það er af.

Það væri auðvelt að tína til margfalt fleiri af sama tagi, og það væri líka auðveldlega hægt að vísa í fjölda heimilda um að amast hafi verið við þessum atriðum á þeim forsendum að þau séu ekki rökrétt en það er óþarfi – þið þekkið þetta örugglega öll. Sumt af þessu byggist reyndar á misskilningi á merkingu orða. Það er t.d. ljóst að erlendis hefur alla tíð getað merkt bæði ‘í útlöndum’ og ‘til útlanda’/’frá útlöndum’. Sömuleiðis merkir slátra ekki bara ‘drepa’ heldur ‘lóga dýri til matar og tilreiða kjöt og innmat í því skyni’.

En þetta er ekki aðalatriði málsins, heldur hitt að tungumálið er ekki, hefur aldrei verið, og á ekki að vera rökrétt. Tungumálið er samskiptakerfi sem hefur þróast í hundruð þúsunda ára og mótast af alls konar aðstæðum á tilviljanakenndan hátt. Í ljósi sögunnar væri mjög undarlegt ef það væri fullkomlega „rökrétt“. Tungumálið þarf hins vegar að vera nothæft sem samskiptatæki og til þess þarf að vera sæmilegt samkomulag í málsamfélaginu um form þess og beitingu. En forsenda þess samkomulags er ekki að málið sé „rökrétt“.

Hin „órökréttu“ tilbrigði eru nefnilega yfirleitt miklu merkilegri og áhugaverðari en svo að það sé hægt að vísa þeim út í hafsauga sem tilviljanakenndum rökleysum, „málvillum“. Þvert á móti – í flestum tilvikum er hægt að sýna fram á, eða a.m.k. leiða rök að því, að tilbrigðin stafi af því að málnotendur eru – ómeðvitað – að leita að kerfi. Máltilfinning þeirra finnur eitthvað athuga­vert við það sem hefur verið talið „rétt“, finnst það ekki falla almennilega að því málkerfi sem þeir hafa komið sér upp, og leitast við að bæta úr því.

Sú hugmynd eða krafa að tungumálið eigi alltaf að vera rökrétt ber vott um djúpstæðan en almennan misskilning á eðli tungumálsins. Hún er vond vegna þess að hún er röng. En hún er líka vond vegna þess að hún vinnur gegn tungumálinu. Hún bannar málnotendum að leita betra samræmis í málkerfi sínu og eykur þannig á óstöðugleika sem á endanum getur ýtt undir málbreytingar í stað þess að hamla þeim. Og síðast en ekki síst – hún hamlar hvers kyns nýsköpun, frjórri hugsun, og leik með tungumálið. Tungumál sem væri fullkomlega rökrétt væri óbærilega leiðinlegt. Þá gætum við eins talað forritunarmál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska er alls konar

14. Íslensk málrækt felst í því að gera sér grein fyrir því að íslenska er alls konar og ýmis tilbrigði í máli auðga það en spilla því ekki.

Okkur hættir til að halda að sú íslenska sem við erum sjálf alin upp við, hvert og eitt, sé betri og réttari en sú sem fólk af öðru landshorni eða á öðrum aldri talar, og okkur hættir til að telja að annað en það sem við þekkjum sjálf eða erum vönust sé rangt. Um þetta má t.d. sjá fjölmörg dæmi í málfarshópum á samfélagsmiðlum þar sem er  daglegt brauð að fólk setji inn dæmi um eitthvert orð eða orðalag sem það hefur heyrt eða séð og kannast ekki við – oftast til að furða sig eða hneykslast á því, ef ekki fordæma það. Iðulega er þó um að ræða orð eða orðalag sem er gamalgróið í málinu, en e.t.v. bundið við ákveðinn landshluta eða aldurshóp, eða hefur látið undan síga fyrir öðru afbrigði.

Það er líka mjög algengt að fólk hafi áhyggjur af því að tiltekið orð sé að útrýma öðru sem hafi verið hefðbundið að nota um sama fyrirbæri. Ég veit ekki hvað oft ég hef séð fólk gera athugasemdir við að orðið snjóstormur komi í staðinn fyrir hríðbylur og ýmis önnur orð sem fólk tilfærir, og nýlega var fólk að láta í ljós áhyggjur af því að orðið snjófjúk væri að útrýma skafrenningi. Þegar að er gáð kemur yfirleitt í ljós að því fer fjarri að eldri orðin, þau sem fólk hefur áhyggjur af, séu að hverfa úr málinu – þau eru oftast mun algengari en hin, sem fólki finnst vera að útrýma þeim. En við tökum meira eftir nýjungum en því sem við erum vön.

Setningafræðilegar breytingar geta líka auðgað málið. Sambandið getur hafa virðist koma fram á 19. öld og var áður iðulega leiðrétt í hefur getað – en merking þessara tveggja sambanda er hreint ekki sú sama, enda lifa þau hlið við hlið. Svipað má segja um sambandið vera að gera eitthvað, en iðulega er amast við aukinni notkun þess í setningum eins og Þeir voru að spila vel og Ég er ekki að skilja þetta í stað Þeir spiluðu vel og Ég skil þetta ekki. En nýja afbrigðið útrýmir ekki hinu eldra, heldur bætist við, enda er merkingin ekki alveg sú sama. Það má þess vegna halda því fram að þessar nýjungar geri okkur kleift að tjá fíngerðari merkingarblæbrigði en áður var hægt.

Fólk hefur það stundum á móti nýjungum í máli, bæði nýjum orðum og nýjum setningagerðum, að þær séu óþarfar og segist vera „á móti því að breyta málinu nema þörf sé á því“. Þó er iðulega lögð áhersla á mikilvægi þess að íslenska sé „auðugt og blæbrigðaríkt mál“. Þetta kemur ekki alveg heim og saman. Nýjungar í máli eru iðulega óþarfar, strangt tekið, en þær auðga samt málið – gera okkur kleift að tjá sömu hugsun á mismunandi hátt. Í íslensku hafa alla tíð verið margs konar tilbrigði – í framburði, orðafari, beygingum, setningagerð og merkingu. Slík tilbrigði eru eðlileg og mikilvæg í lifandi máli. Íslenskan er nefnilega alls konar – fögnum fjölbreytileikanum!

Posted on Færðu inn athugasemd

Tilbrigði og málfarsleg stéttaskipting

13. Íslensk málrækt felst í því að standa gegn málfarslegri stéttaskiptingu undir merkjum varðveislu og verndunar íslenskrar tungu.

Tilbrigði í máli hafa verið heldur illa séð á Íslandi síðan á 19. öld. Þar sem mismunandi mál­venjur hafa verið uppi hefur verið lögð áhersla á að hampa einni þeirra sem réttri en segja hinar „rangt mál“. Þetta gildir á flestum sviðum málsins – í beygingum, fallstjórn, orðaröð, setn­inga­gerð og merkingu orða. Dæmin eru svo mörg og svo vel þekkt að óþarfi er að tilgreina þau hér. Eina svið málsins sem hefur sloppið að mestu við þessa samræmingartilburði er framburður.

Vissu­lega lagði Björn Guðfinnsson fram tillögur að samræmingu framburðar um miðja síðustu öld en þeim var ekki hrundið í framkvæmd, þótt ómögulegt sé að segja hvað hefði orðið ef Birni hefði enst aldur til að fylgja þeim eftir. Þótt óneitanlega hafi borið við að grín sé gert að sumum framburðartilbrigðum hafa þau sjaldnast verið talin beinlínis röng. Ekki er ólíklegt að þetta stafi af því að tilbrigðin tengdust flest tilteknum land­svæðum og fólk greip til varna fyrir sitt hérað.

Þau fáu tilbrigði sem hafa leyfst á öðrum sviðum, svo sem í beygingu og merkingu, hafa flest verið af þessu tagi – tiltekin beyging eða merk­ing orðs tengist ákveðnu landsvæði og er þess vegna frekar umborin. Einu fram­burðar­tilbrigði, „flámælinu“ svokallaða, var þó reynt að útrýma skipulega – með ýmsum aðferðum sem sumar hverjar þættu ekki við hæfi nú. En það var einmitt ekki bundið einu tilteknu land­svæði heldur kom upp á nokkrum stöðum á landinu – og sum þeirra landsvæða voru ekki hátt skrifuð meðal þeirra sem réðu mestu í menntun og menningarlífi.

Fólk sem ræður yfir tungumálinu ræður yfir þjóðfélaginu og andstaðan við tilbrigði er í grunninn pólitík. Hún beinist gegn máli þeirra sem eiga undir högg að sækja, þeirra sem eru ekki í valdastöðum í þjóðfélaginu. Þess vegna eru landshlutabundin tilbrigði viðurkennd og jafn­vel hampað – þau eiga sér þingmenn. En málbrigði sem einkum eru bundin við ungt fólk og fólk sem er lítið menntað, af erlendum uppruna, eða stendur af einhverjum sökum höllum fæti í þjóðfélaginu eiga sér enga þingmenn. Þess vegna eru þau fordæmd og voru iðulega – þótt það sjáist sem betur fer sjaldan í seinni tíð – tengd við leti, seinfærni í námi, greindar­skort og höfuðborgarsvæðið.

Með þessu er hvorki verið að segja að öll málvöndun sé af hinu illa né að fólk sem amast við til­brigðum í máli sé meðvitað að reyna að halda öðrum niðri. Því fer fjarri. Þvert á móti er enginn vafi á að flestum sem gera athugasemdir við málfar og beita sér gegn málbreytingum gengur gott eitt til og vilja fyrst og fremst vernda og varðveita íslenskuna. En andstaða við tilbrigði í máli sem fólk hefur iðulega tileinkað sér á máltökuskeiði er ekki rétta aðferðin til þess.

Sú andstaða fletur og geldir málið, auk þess sem hún ýtir undir málfarslega mismunun og stéttaskiptingu. Í rannsóknum undanfarinna áratuga hafa komið fram skýrar vísbendingar um tengsl ákveðinna fordæmdra málbrigða hjá börnum við menntun og þjóðfélagsstöðu foreldra. Það er alvarleg þróun sem við þurfum að vinna gegn í stað þess að ýta undir hana.

Posted on Færðu inn athugasemd

Aðgát skal höfð

12. Íslensk málrækt felst í því að sneiða hjá orðum og málnotkun sem getur verið særandi eða útilokandi fyrir ákveðna þjóðfélagshópa.

Í 65. grein Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Þetta þýðir auðvitað líka að það má ekki nota tungumálið til að mismuna fólki eftir þeim þáttum sem þarna eru taldir – eða einhverjum öðrum. Það er samt oft gert.

Víða erlendis er niðrandi orðalag um fólk af ákveðnum uppruna eða húðlit alþekkt. Vegna þess hversu einsleitir íbúar Íslands hafa verið til skamms tíma hefur þetta ekki verið mikið vandamál hér, en það gæti breyst. Fyrir fáum árum varð t.d. töluverð umræða um orðið múlatti sem notað var í dagblaði um Obama þáverandi forseta Bandaríkjanna. Bent var á að þetta væri orð sem þætti niðrandi núorðið og væri ekki við hæfi í opinberri umræðu.

Ýmis orð sem áður voru notuð um fatlað fólk þykja nú óviðeigandi og önnur orð eru komin í þeirra stað. En vandinn er sá að nýju orðunum hættir til að verða líka fordómafull og óviðeigandi smátt og smátt. Það er mikilvægt að breyta orðanotkun og útrýma gildishlöðnum og niðurlægjandi orðum eins og fávitiaumingi, vitfirringahæli o.s.frv., en það dugir þó skammt ef hugarfarið breytist ekki. Meðan fordómar í garð tiltekins hóps eru ríkjandi í samfélaginu munu þeir alltaf hengja sig á orðin sem notuð eru um þennan hóp. Hverfi fordómarnir úr samfélaginu hverfa þeir líka úr málnotkuninni.

Þetta sést vel á orðum eins og hommi og lesbía. Það er ekki langt síðan þessi orð voru mjög niðrandi og máttu t.d. ekki heyrast í útvarpi. Málvöndunarmenn reyndu að hafa vit fyrir samkynhneigðu fólki og lögðu til að nota í staðinn orðin hómi og lespa, og auk þess nafnorðin kynhvörf og kynhvarfi og lýsingarorðið kynhvarfur. Það var ekki von að samkynhneigt fólk sætti sig við að það væri talað niður til þess á þennan hátt. Það hélt sig við orðin hommi og lesbía og með breyttu hugarfari í garð samkynhneigðra hefur staða þessara orða líka breyst, þannig að nú þykja þau góð og gild í almennri umræðu.

Það er ekki síst mikilvægt að huga vel að orðanotkun þegar talað er við og um börn. Ég þekki menni sem fæddist með ákveðna fötlun sem olli háni ýmsum óþægindum og hugarangri. Þegar efnt var til leitar að fegursta orðinu í íslensku fyrir nokkrum árum sagðist hán ekki vera í vafa um hvaða orð hán myndi velja sem ljótasta orð málsins. Það var lýsingarorðið vanskapaður. Þetta orð heyrði hán stundum notað um sjálft sig þegar hán var barn og tengir ýmsar óþægilegar minningar við það.

Vitanlega kemur það stundum fyrir okkur að nota orðalag sem einhver áheyrandi eða lesandi tekur nærri sér. En sé ljóst að það sé ekki af ásetningi, heldur þekkingar- eða hugsunarleysi, tekur fólk það yfirleitt ekki illa upp. Stundum er við hæfi að biðjast afsökunar en aðalatriðið er að muna þetta næst. Íslenskan á það ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misnotkun málsins til að afvegaleiða fólk

11. Íslensk málrækt felst í því að vera á verði gagnvart því að stjórnvöld og önnur valdamikil öfl misbeiti tungumálinu í blekkingarskyni.

Í hinni frægu skáldsögu 1984 eftir George Orwell er kynnt tungumálið „nýlenska“ (newspeak) þar sem vald­hafar afbaka tungumálið í því augnamiði að stýra hugsun þegnanna. Í þessu tungu­máli er merkingu orða iðulega hliðrað til eða snúið á haus. Jónas Kristjánsson ritstjóri skrifaði marga beitta pistla um beitingu ís­lenskra ráðamanna á þess háttar tungutaki, og Sig­urður Páls­son skáld vísaði til þess í ræðu árið 2014 þar sem hann sagði „grafalvarlegt hvernig ráða­menn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merk­ingar“.

Sem dæmi um þetta má nefna þegar farið var að nota orðið gengisbreyting um það sem áður var alltaf kallað gengislækkun og hafði á sér neikvæðan blæ. Þegar samningar um aðild Íslands að Evrópusambandinu voru í gangi notuðu andstæðingar aðildar orðið aðlögunarviðræður sem þýðingu á accession negotiations, en stuðningsmenn aðildar töldu það ranga þýðingu og vildu tala um samningaviðræður eða aðildarviðræður. Eitt af skýrustu dæmum undanfarinna ára er svo leiðréttingin sem ríkisstjórnin 2013-2016 notaði um stórfellda færslu fjármagns úr ríkissjóði til fólks sem hafði verið með verðtryggð húsnæðislán. Ótal önnur dæmi úr íslenskri stjórn­mála­um­ræðu síðustu ára mætti nefna.

En það eru ekki bara stjórnmálamenn sem misbeita tungumálinu á þennan hátt. Haustið 2019 svaraði biskup Íslands spurningu um áhrif þess að kristinfræði sé ekki lengur kennd í skólum með því að segja „Það hefur orðið siðrof held ég“. Í umræðu eftir á sagði biskup að með þessu ætti hún ekki við siðleysi heldur „rof við siðinn sem við höfum lifað eftir um aldir á Íslandi“. Þótt ekki sé ástæða til að hafna þessari eftiráskýringu liggur í augum uppi að með þessari notkun orðs­ins er meðvitað eða ómeðvitað verið að leiða áheyrendur á villigötur – orðið siðrof kallar í huga áheyrenda á hina venjulegu og alþekktu merkingu orðsins, ‘upplausnarástand’.

Skýr dæmi um misnotkun tungumálsins í því skyni að afvegaleiða umræðuna er að finna í yfirlýsingu útgerðarfyrirtækis vegna kórónuveirusmits um borð í togara fyrirtækis­ins haustið 2020. Þar var t.d. sagt „Því miður fórst það fyrir“ að tilkynna grun um smit. Að farast fyrir merkir að eitthvað hafi gleymst eða lent í útideyfu – ekki að það hafi vísvitandi verið hunsað. Einnig var hvað eftir annað talað um „mistök“ þar sem augljóslega var um meðvitaða vanrækslu og hugsanlega lög­brot að ræða.

En misbeiting tungumálsins kemur ekki bara fram í orðanotkun – hún getur líka komið fram í setningagerð. Þannig er þolmynd iðulega notuð í stað germyndar til að draga athygli frá gerendum, einkum þegar um afbrot eða mistök er að ræða – sagt t.d. „Konu hrint fram af svölum“ og „Mistök voru gerð“. Gerendum er þannig skýlt á bak við andlitslausa þolmynd og þeirri tilfinningu laumað inn hjá fólki, meðvitað eða ómeðvitað, að um óhappatilvik sé að ræða frekar en ásetningsbrot.  Látum ekki tungumálið ganga í lið með gerendum – notum germynd þar sem við á, ekki þolmynd. Germynd er fyrir gerendur.

Posted on Ein athugasemd

Virðing við viðmælendur

10. Íslensk málrækt felst í því að sýna viðmælendum sínum virðingu og umburðarlyndi og leggja málnotkun þeirra alltaf út á besta veg.

Tungumálið er félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikil­vægasta sam­skipta­tæki okkar við annað fólk. Þess vegna má íslenskan ekki staðna, heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í fram­burði, beyg­ingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða skipa því í andstæðar fylkingar.

Við megum ekki láta það bitna á fólki á nokkurn hátt að það talar ekki nákvæmlega sömu íslensku og við. Það má ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist ís­lensk­an ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Í allri umgengni okkar við íslenskuna þurfum við að hafa umburðar­lyndi, virðingu og tillitssemi við annað fólk að leiðarljósi.

Furðu oft virðist það talið íslenskunni til framdráttar að misskilja viljandi málnotkun annarra eða leggja hana út á verri veg. Innlegg í málfarsumræðu á samfélagsmiðlum og athugasemdadálkum vefmiðla ganga t.d. iðulega út á það að setja inn setningar þar sem setninga­gerðin býður upp á fleiri en eina túlkun, ekki síst fyrirsagnir úr fjölmiðlum, og snúa út úr þeim. Oftast er samt enginn vafi á því við hvað er átt, og einbeittan brotavilja þarf til að misskilja setningarnar. Hótfyndni er ekki málrækt.

Málið er fullt af margræðni. Ótalmargt sem við segjum má túlka á fleiri en einn veg, ef viljinn er fyrir hendi. Við tökum hins vegar sjaldnast eftir því vegna þess að málskynjun okkar síar ólíklegu merkingarnar frá. Við skiljum setningar út frá aðstæðum, og aðstæðurnar – hvort sem það eru einhver málleg atriði, þekking okkar á viðmælanda og viðfangsefni, ytra umhverfi, eða eitthvað annað – duga venjulega til að útiloka aðrar merkingar en þá sem viðmælandi lagði í það sem hann sagði.

Öllum verður okkur á – við mismælum okkur, segjum einhverjar ambögur, notum rangt eða óviðeigandi orð, eða víkjum á annan hátt frá hefðbundnu og viðurkenndu málfari. Það er ekki í þágu íslenskunnar að gera mikið úr slíku, nota það til að niðurlægja mælandann eða hreykja sjálfum sér. Það er bæði í þágu málnotenda og málsins að frávik frá því sem okkur kann að þykja rétt eða viðeigandi málnotkun séu lögð út á besta veg.

Íslenskan er nefnilega alls konar. Íslenska með hreim er líka íslenska. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Það var hrint mér er líka íslenska. Vissulega ekki nákvæmlega sú íslenska sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir sextíu árum eða svo, en það gefur mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana og telja mína íslensku réttari eða betri.