hugarfóstur

Um daginn var ég spurður um merkingu orðsins hugarfóstur sem fólk greindi á um hvað merkti. Orðið hefur nefnilega ekki alltaf verið notað í sömu merkingu. Í Íslenskri orðabók á Snöru er aðeins gefin merkingin 'e-ð sem e-r ímyndar sér og styðst ekki við veruleikann, ímyndun', en í Íslenskri nútímamálsorðabók er auk þess gefin merkingin 'sem hefur orðið til í huga e-s, ný hugmynd' sem virðist vera yngri. Elstu dæmi um orðið eru frá því í upphafi 20. aldar og í þeim hefur það greinilega fyrri merkinguna eins og sést á dæmi úr Reykjavík 1914: „Ennfremur segir ritstj. „Lögréttu", að ég vilji ólmur segja Dönum „fjármálastríð“ á hendur. En þetta er ekki annað en hugarfóstur ritstjórans sjálfs.“

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt 'tankefoster, hjernespind'. Orðinu hugarfóstur svipar vitanlega til fyrrnefnda orðsins þótt hugsanafóstur væri nákvæmari samsvörun, en síðarnefnda orðið í skýringunni samsvarar nákvæmlega orðinu heilaspuni sem er skýrt á sama hátt í orðabókinni. Það orð er nokkru eldra í málinu – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1844. Fyrir kemur að þessi orð séu notuð saman, eins og í Vísi 1914: „Meðan svo er ástatt virðist ekki ástæða til að einblína svo á matarleysið framundan sjer, matarleysi, sem í raun og veru er heilaspuni eða hugarfóstur að eins.“ Notkun beggja orðanna virðist vera til áherslu eða skýringar frekar en tákna mismunandi merkingu.

Merking orðsins hugarfóstur virðist þó fljótlega hafa farið að breytast. Í Fálkanum 1939 segir um Mjallhvíti: „Nafn hennar var á hvers manns vörum engu síður en þjóðhöfðingja og stjórnmálamanna, þó að hún væri aðeins teiknuð stelpa, hugarfóstur Walt Disney.“ Í Alþýðublaðinu 1940 segir: „Þjóðir, sem búa langt frá Þýzkalandi, líta ef til vill á þessa hegningarlöggjöf sem hugarfóstur manns, sem þjáist af mikilmennskubrjálæði.“ Í Íslendingi 1951 segir: „Þúsundir manna, sem létu sér að vísu skiljast, að Sherlock Holmes var aðeins hugarfóstur Doyles, skrifuðu og mótmæltu harðlega að ævintýrum spæjarans lyki á svo ótilhlýðilegan og ótímabæran hátt.“

Þarna merkir hugarfóstur vissulega einhvers konar ímyndun sem þó raungerist. Skýringin á ímyndun í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'e-ð sem maður ímyndar sér, huglæg sköpun' og orðalagið „huglæg sköpun“ lýsir ágætlega merkingunni í hugarfóstur í þessum dæmum. Munurinn á þessum dæmum og elstu dæmunum um orðið er sá að hér er ekki lengur verið að tala um hugaróra. Á seinni árum hefur hugarfóstur fengið mun almennari og víðari merkingu og merkir eiginlega 'afurð hugmyndar' sem getur verið af ýmsum toga – félag, sýning, kvikmynd, bók, veitingastaður, sýningarsalur, o.s.frv. Á bak við þetta er oft einhver hugsjón þannig að jafnvel mætti oft segja að hugarfóstur merkti 'gæluverkefni'.

Nokkur dæmi: „Eitt hugarfóstur þeirra er bókaklúbburinn Ljósaserían“; „Stuttmyndin Rán er hugarfóstur kvikmyndagerðar- og sjómannsins Fjölnis Baldurssonar“; „Þessar meðferðir voru hugarfóstur dr. Heinrich Arnold Thaulow“; „Sýningin heitir Hugrún, sem er þá hugarfóstur okkar“; „Ég býð mig fram er hugarfóstur dansarans Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur“; „Sýningin er upphaflega hugarfóstur Gísla Pálssonar mannfræðings“; „Ljóðabókin Urð er komin út en hún er hugarfóstur Hjördísar Kvaran Einarsdóttur, íslenskufræðings“; „Galleríið er hugarfóstur og samstarfsverkefni list- og verkgreinakennara“; „Hjónin hafa mikla ástríðu fyrir því sem þau eru að gera og staðurinn er þeirra hugarfóstur“.

Langflest dæmi um orðið hugarfóstur á seinni árum virðast hafa þessa merkingu og sú upphaflega virðist vera nær horfin úr almennri notkun. Orðið heilaspuni sem upphaflega var samheiti við hugarfóstur hefur aftur á móti haldið í upprunalega merkingu. Þess vegna er í sjálfu sér meinlítið þótt hugarfóstur hafi fengið nýja merkingu – við eigum eftir sem áður ágætt orð til að tjá gömlu merkinguna.

Kósí

Í gær minnti forseti Alþingis varaþingkonu Pírata á að þingmálið væri íslenska, í tilefni þess að þingkonan notaði orðið kósí í ræðustól þingsins. Þingkonan var ekki sátt við þessa athugasemd og kom aftur í ræðustól til að benda á að orðið er í Íslenskri nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar, og skýrt 'notalegur, hlýlegur'. Orðið er líka að finna í Íslenskri orðabók og er þar skýrt 'notalegur, huggulegur'. Þar er það merkt ?? til að sýna að það sé vafasamt mál, en í Íslenskri nútímamálsorðabók er það alveg athugasemdalaust. Ég var spurður að því í morgunútvarpi Rásar 2 áðan hvort þetta væri íslenska, og hvenær og hvernig erlend orð yrðu íslenska. Fyrri spurningunni er auðvelt að svara játandi, en hvað með hina?

Orðið kósí (eða kósý) er vitanlega tökuorð, komið af enska orðinu cozy. Elsta dæmi um það er í Skólablaðinu 1949: „Höfum vér eitt yfirmáta kósí kammersi meður prívat vaskhúsi til meðhöndlunar og brúkunar.“ Þetta er reyndar úr gamantexta sem er uppfullur af slettum og tökuorðum og því ekki alveg dæmigert. En frá sjötta áratugnum eru nokkur dæmi um orðið þótt þeim fari fyrst að fjölga um miðjan tíunda áratuginn og sérstaklega eftir aldamót. Frá síðustu 20 árum eru um 4000 dæmi um orðið á tímarit.is. Fyrst óformlegt tökuorð af þessu tagi er svo algengt á prenti er ljóst að það er mjög algengt í töluðu máli og engin leið að segja að það sé ekki íslenska. En hvenær verður orð úr erlendu máli að íslensku?

Fyrir 20 árum var gefin út endurskoðuð útgáfa af Íslenskri orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar. Það vakti athygli að í henni var að finna ýmsar erlendar slettur sem þóttu ekki virðulegt mál og fram að því höfðu ekki komist í orðabækur – orð eins og bögg, dissa, digg – og sjitt. Þessi orð voru vissulega merkt sérstaklega til að notendur gætu varað sig á þeim – tvö þau fyrstnefndu sem „slangur“, það þriðja sem „óforml.“, og það síðastnefnda með tveimur spurningarmerkjum sem tákna vafasamt mál. Samt sem áður voru ýmsir málvöndunarmenn ósáttir við að orðin skyldu sýnd og töldu að það yrði „að fara ákaflega gætilega í það að taka upp slanguryrði sem nánast er vitað að flestir kæra sig ekki um eða jafnvel hneykslast á“.

En verður orð íslenska við það að vera tekið upp í orðabækur? Eða þarf orð að vera í orðabókum til að geta kallast íslenska? Auðvitað ekki. Það eru ekki til nein föst viðmið um það hvaða orð skulu tekin í orðabækur. Það verður alltaf á endanum huglægt mat orðabókaritstjóra, þótt þeir geti vissulega stuðst við ýmis atriði eins og aldur orðanna í málinu, tíðni þeirra, útbreiðslu o.fl. Ýmis góð og gild íslensk orð er ekki að finna í almennum orðabókum af ýmsum ástæðum – þau geta verið of sérhæfð til að eiga erindi þangað, of sjaldgæf til að orðabókaritstjórar hafi fregnir af þeim, of ný til að vera komin inn, eða svo augljósrar merkingar að ástæðulaust þyki að skýra þau sérstaklega.

Vitanlega er erlendur uppruni ekki næg ástæða til að hafna orðum sem íslenskum – þá fyki talsverður hluti orðaforðans, t.d. jafnalgeng og hversdagsleg orð sem sápa og bíll. Það sem helst gæti komið í veg fyrir viðurkenningu á kósí sem íslensku orði er hljóðafarið og beygingin. Íslensk erfðaorð hafa ekki í í öðru atkvæði þótt vissulega séu til viðurkennd tökuorð af því tagi, eins og t.d. mánaðaheitin júní og júlí. Meira máli skiptir að orðið beygist ekki, en sama gildir um ýmis önnur lýsingarorð sem hafa komið inn í málið úr ensku á undanförnum áratugum – næs, kúl, töff o.fl. En einnig er til fjöldi óbeygðra rammíslenskra lýsingarorða – orð sem enda á -a eins og andvaka, fullburða, samferða o.fl., og -i, eins og hugsi.

Þrátt fyrir erlendan uppruna, hljóðafar og beygingarleysi hlýtur að verða að telja kósí hluta af íslenskum orðaforða vegna aldurs þess, tíðni og útbreiðslu eins og áður segir. Orðið hefur meira að segja verið notað nokkrum sinnum áður í þingræðum, fyrst árið 2015, án þess að séð verði að athugasemdir hafi verið gerðar við það. Það var því ástæðulaust af forseta Alþingis að gera athugasemd við notkun þess í gær.

Lágkúra Isavia

Í gær var sagt frá því í Morgunblaðinu að í flugvélum Icelandair væru allar tilkynningar nú á íslensku á undan enskunni. Í fréttinni kom fram að þetta hefði verið ákveðið eftir samræður við menningar- og viðskiptaráðherra, og í Fréttablaðinu kom fram að „ís­lenskir far­þegar létu einnig í sér heyra og létu vita að þeir vildu vera boðnir vel­komnir heim á ís­lensku“. Þetta sýnir eins og fleiri nýleg dæmi að þrýstingur málnotenda getur haft áhrif, og í framhaldi af þessu hafði Morgunblaðið samband við Isavia og spurði um enskunotkun í Leifsstöð en þar „eru flest skilti með ensk­una í for­grunni en ís­lensk­an kem­ur þar fyr­ir neðan sem annað tungu­mál“. Margsinnis hafa verið gerðar athugasemdir við þetta, án árangurs.

Haft er eftir upplýsingafulltrúa Isavia að hann sé „að mörgu leyti sammála“ forstjóra Icelandair en segir þó „að það séu mikl­ar breytingar framund­an í flug­stöðinni á næstu árum og því mik­il­vægt að horfa á kerfi leiðbein­inga­skilta í mun stærra sam­hengi“. Þegar fólk í áhrifastöðum tekur hugmyndum vel en fer strax að tala um „stóra samhengið“ er ástæða til að vera á varðbergi. Þetta táknar nefnilega oftastnær að ekkert eigi að gera – það er verið að drepa málinu á dreif, enda segir upplýsingafulltrúinn líka: „Við höf­um enn ekki hafið þá vinnu að end­ur­skoða hvernig við get­um mögu­lega bet­ur sam­einað þau sjón­ar­mið að tryggja flæði og ör­yggi farþega á flug­vell­in­um ásamt því að halda ís­lensk­unni á lofti á sama tíma.“

Isavia hefur „ekki enn hafið þá vinnu“ að gera íslenskunni hærra undir höfði þrátt fyrir að stjórn Íslenskrar málnefndar hafi nokkrum sinnum skrifað Isavia um málið, bæði 2016 og 2017, en fyrirtækið hefur aldrei látið svo lítið að svara. Stjórnin skrifaði einnig forsætisráðherra, fjámálaráðherra og samgönguráðherra um málið og fékk lítil viðbrögð, nema hvað samgönguráðuneytið taldi í bréfi frá 18. október 2017 (sem var svar við bréfi stjórnarinnar 17. júní 2016 !!!) að ákvæði laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls þar sem segir að íslenska sé mál stjórnvalda ættu ekki við þótt Isavia sé ríkiseign þar sem engar greiðslur rynnu til þess frá ríkinu – sem er í besta falli umdeilanleg lögskýring.

Upplýsingafulltrúanum verður tíðrætt um öryggismál og segir: „Leiðbein­inga­skilt­in eða veg­vís­ar hafa ákveðið hlut­verk á flugvellinum sem snýr að því að farþegar kom­ist hratt og ör­ugg­lega milli staða. Mik­ill meiri­hluti farþega sem fara um Kefla­vík­ur­flug­völl skil­ur ekki íslensku.“ Auðvitað dettur engum í hug að hætta að hafa ensku á skiltunum. Það er bara verið að fara fram á að þjóðtungan sé höfð á undan, eins og gert er víðast hvar á evrópskum flugvöllum – meira að segja þótt fáir skilji viðkomandi tungumál. Á Írlandi er írska höfð á undan ensku, og í Skotlandi er skosk-gelíska víða á undan ensku. Fáir skilja þau mál, en það hefur samt ekki frést að öryggi á írskum og skoskum flugvöllum sé stefnt í voða vegna þessa.

Upplýsingafulltrúinn er samt borubrattur og heldur áfram: „Þegar kem­ur aft­ur að móti að ís­lenskri tungu og ís­lenskri menn­ingu almennt í flug­stöðinni þá eru klár­lega mik­il tæki­færi fyr­ir hendi, enda erum við með ís­lenska menn­ingu og tungu mjög framar­lega í okk­ar hönn­un­ar­for­send­um þegar kem­ur al­mennt að framtíðaruppbyggingu á Kefla­vík­ur­flug­velli. Íslensk­an skipt­ir Isa­via miklu máli. Við vilj­um að farþeg­arn­ir okk­ar upp­lifi það að þeir séu á Íslandi inni í flug­stöðinni á Kefla­vík­ur­flug­velli.“ Það er nú einmitt það sem hefur verið kvartað yfir – að farþegar upplifa það ekki að þeir séu á Íslandi. Fyrirtækið þykist ætla að leggja áherslu á íslenskuna „þegar kem­ur al­mennt að framtíðar­upp­bygg­ingu“ en gerir ekkert í samtímanum.

„En það er bjargræðisleið bæði fljótleg og greið“ eins og Spilverk þjóðanna söng. Isavia er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og fjármálaráðherra fer með eina hlutabréfið. Nú liggur beint við að á næsta hluthafafundi leggi ráðherrann fram tillögu um að Isavia breyti um stefnu og hafi íslensku á undan ensku á skiltum í Leifsstöð. Ráðherrann þarf síðan ekki annað en greiða atkvæði með eigin tillögu til að hún sé samþykkt einróma. Ég meina þetta í fúlustu alvöru. Ef stjórnvöld hafa raunverulegan vilja til að efla íslenskuna og setja hana í forgang þurfa þau að sýna þann vilja í verki. Menningar- og viðskiptaráðherra hefur gert það á ýmsan hátt, nú síðast með því að þrýsta á Icelandair – nú er komið að fjármálaráðherra. Yfir til þín, Bjarni.

Lifandi mál

Í gær birti Hildur Ýr Ísberg framhaldsskólakennari færslu úr lestrardagbók nemanda um Sjálfstætt fólk á Facebook. Færslan var birt með leyfi nemandans og ég fékk leyfi Hildar til að birta hana hér vegna þess að ég held að mörgum okkar í þessum hópi veiti ekki af að átta okkur á eðlilegu máli ungs fólks – og viðurkenna það. Þessi kynslóð á nefnilega alveg jafn mikinn hlut í málinu og við, en það veltur á henni – ekki okkur – hvort íslenskan verður notuð áfram. Þess vegna skiptir öllu að við höfnum ekki máli unga fólksins – þar með erum við að hafna því að íslenskan eigi framtíð. Að sögn kennara hefur nemandinn mjög gott vald á ritmáli og er fullfær um að skrifa formlegan texta en í þessu tilviki var ekki var gerð krafa um slíkt heldur var nemendum sagt að þau mættu nota eðlilegt talmál sitt. Færslan er svona:

„Ojjj hvað Bjartur er ehv hræsinn. “Ég er sjálfstæður maður og þú ert sjálfstæð kona” EINS OG HANN SÉ EKKI BEINLÍNIS AÐ BANNA HENNI AÐ VERA SJÁLFSTÆÐ??? Halló??? Síðan er hann bara ekkert að skilja afhverju hún er fúl eða afhverju henni langar heim bara bro, það er af því þú ert algjör bjáni. Hann líka bara lowkey að slutshamea hana og ásakar hana síðan um framhjáhald í næsta kafla OMG þessi karl. Andjóks væri ekki hissa ef hún væri að halda framhjá þusst hann er ömurlegur. Honum líka bara líkar betur við hana sofandi því hún er fúl vakandi en sæl sofandi AFHVERJU VARSTU ÞÁ AÐ GIFTAST HENNI??? Hann er líka bara mjög hrifin af kindum, vill ekki kýr heldur bara kindur, hversu fjölbreytt áhugamál vá.“

Ég ímynda mér að ýmsum hafi svelgst á við þennan lestur og þau sem eru á þeim buxunum geta vitanlega fundið æði margt til að hneykslast á og leiðrétta þarna – enskuslettur, „þágufallssýki“, „vera ekki að skilja“, óhefðbundnar orðmyndir, talmálslega orðaröð, stafsetningarvillur, notkun upphafsstafa og greinarmerkja, o.fl. En þau sem einblína á þessi frávik frá formlegu ritmáli missa algerlega af því sem raunverulega skiptir máli – hvað þetta er frábær texti sem sýnir mikla ástríðu og djúpa innlifun í efnið. En ekki bara það – hann sýnir líka frjóa, lifandi og eðlilega málnotkun sem er sannarlega íslensk. Þarna er m.a.s. notað orðið hræsinn sem nemandinn hefur sennilega búið til út frá hræsni en er reyndar gamalt í málinu þótt það hafi varla verið notað síðan á 19. öld.

Það er alveg eðlilegt að við sem eldri erum séum kannski ekki fullkomlega sátt við málfarið á þessum texta, en aðalatriðið er að við þurfum að vinna með það mál sem ungt fólk notar – ekki vinna gegn því. Við getum ekki beitt á það hundrað ára gömlum viðmiðum, sniðnum að gerólíku samfélagi. Auðvitað er sjálfsagt og mikilvægt að leiðbeina nemendum um málnotkun, þjálfa þau í beitingu mismunandi málsniða, benda þeim á að nota íslensk orð þar sem kostur er og hvetja þau til vandaðra vinnubragða. En að leiðrétta svona texta eftir úreltum málstaðli formlegs ritmáls, að segja nemendum að íslenskan þeirra sé vond, röng, og jafnvel ekki íslenska, væri sannarlega ekki til þess fallið að efla áhuga þeirra á málinu eða auka líkur á því að þau vilji nota það í framtíðinni. Við erum alls konar - og íslenskan verður að fá að vera það líka.

Er nafnháttarmerkið á útleið?

Sagnir sem standa í nafnhætti hafa iðulega á undan sér smáorðið sem þá nefnist nafnháttarmerki, í setningum eins og ég ætla fara og það er gaman lesa. Í gær fékk ég fyrirspurn um það hvort nafnháttarmerkið væri að hverfa úr máli ungs fólks – fyrirspyrjandi hafði m.a. heyrt „Mig langar rosalega fara til útlanda“ hjá unglingi. Ég hef ekki tekið eftir þessu sjálfur en hef stundum séð svipaðar athugasemdir í Málvöndunarþættinum og víðar. Þar hafa verið tilfærðar setningar eins og „Á ekki vera tilraunastofa þjóðfélagsspekúlanta“, „Ég ætla byrja á að hrósa báðum liðum fyrir að reyna gera þetta að fótboltaleik“, „þarf vera alltaf hlýðin“, o.fl. Þessi dæmi þurfa þó ekki öll að benda til undanhalds nafnháttarmerkisins.

Í eðlilegum framburði hverfur ð venjulega að mestu eða öllu leyti úr , hvort sem orðið er nafnháttarmerki, samtenging eða forsetning, og sama gildir um f (v) í forsetningunni af. Bæði orðin eru iðulega borin fram a, sem er skýringin á því að í ýmsum samböndum þar sem hefð er fyrir er nú oft notað af, og öfugt. Þetta heyrist sem sé ekki í framburði en kemur fram í riti. Við þetta bætist að í íslensku eru tvö áherslulaus sérhljóð úr hópnum a, i, u aldrei borin fram hvort á eftir öðru – þar sem þau ættu að koma saman fellur það fyrra alltaf brottt. Þótt skrifað sé þau eru að lesa og ég ætla að lesa er borið fram þau era lesa og ég ætla lesa. Nafnháttarmerkið hverfur sem sagt alveg í framburði.

Framburður eins og þau era lesa og ég ætla lesa bendir því ekki sérstaklega til þess að nafnháttarmerkið sé á útleið. Öðru máli gegnir vitaskuld ef slík dæmi sjást í riti – sem þau gera stundum. Þar gæti samt verið um að ræða ritun eftir framburði sem ekki þarf heldur að sýna undanhald nafnháttarmerkisins. Það sem skæri úr um þetta væru dæmi þar sem orðið á undan endar ekki á -a heldur einhverju öðru hljóði. Ef undanfarandi orð endar t.d. á -i ætti það að falla brott á undan nafnháttarmerkinu í samræmi við reglu sem áður er nefnd – ég reyni að lesa verður þá ég reyna lesa í eðlilegum framburði. En ef nafnháttarmerkinu er alveg sleppt ætti -i-ið að halda sér og framburðurinn að verða ég reyni lesa.

Í flestum þeim dæmum sem ég hef séð vísað til um meint brottfall nafnháttarmerkis endar undanfarandi orð á -a og því gæti verið um framburðarstafsetningu að ræða. En þetta gildir þó ekki í öllum tilvikum – það virðast líka vera dæmi um að nafnháttarmerkið falli brott á eftir öðrum hljóðum. Það væri þá málbreyting í uppsiglingu sem væntanlega ætti rætur í máltöku barna. Vegna þess að svo algengt er að nafnháttarmerkið falli alveg brott í eðlilegum framburði án þess að skilja eftir sig nokkur spor má hugsa sér að börn á máltökuskeiði átti sig ekki á því að neitt eigi að vera – og sé í málkerfi foreldra þeirra – í dæmum eins og ég ætla fara. Þessi skilningur sé síðan alhæfður á annað umhverfi þar sem hefur ekki fallið brott.

Það er rétt að hafa í huga að mjög oft er nafnháttur sagna notaður án þess að nafnháttarmerki fylgi. Á eftir sögnum eins og reyna að (gera eitthvað), eiga að (gera eitthvað), þurfa að (gera eitthvað), ætla að (gera eitthvað) o.fl. fer nafnháttur með nafnháttarmerki, en á eftir mega (gera eitthvað), munu (gera eitthvað), skulu (gera eitthvað), vilja (gera eitthvað) o.fl. fer nafnháttur án nafnháttarmerkis. En þessi flokkun hefur breyst; fram yfir miðja 20. öld gátu sagnir eins og hyggjast, reynast, virðast, sýnast o.fl. tekið með sér nafnháttarsögn með nafnháttarmerki: „Skipshöfnin fór þá í bátana og hugðist draga skipið áfram“ í Norðurlandi 1905; „Þetta virðist vera reglulegur stjarfi“ í Vísi 1915; o.s.frv.

Börn á máltökuskeiði heyra því ótal mismunandi setningar þar sem nafnháttarmerki fylgir ekki með nafnhætti – bæði setningar þar sem nafnháttarmerkið hefur aldrei verið, eins og með ýmsum sögnum sem nefndar eru hér að framan, og setningar þar sem nafnháttarmerkið hefur verið en hverfur í framburði. Það er þess vegna ekkert óhugsandi að þau dragi (ómeðvitað) þá ályktun að nafnháttarmerkið sé óþarft – komi sér upp málkerfi þar sem nafnháttur er notaður án þess að nafnháttarmerki fylgi. Dæmin sem nefnd eru hér að framan sýna að notkun nafnháttarmerkisins breyttist á síðustu öld og það hefur verið á undanhaldi. Vel má vera að við séum nú að verða vitni að framhaldi þeirrar þróunar.

Við stöndum saman öll sem eitt

Það vakti nokkra athygli fyrr í sumar þegar Bubbi Morthens breytti texta sínum við stuðningslag KR. Þar var áður sungið í karlkyni – „Við stöndum saman allir sem einn“, „Við erum harðir allir sem einn“, „Við erum svartir, við erum hvítir“ og „sameinaðir við sigrum þá“. En eftir breytinguna er alls staðar notað hvorugkyn – „Við stöndum saman öll sem eitt“, „Við erum hörð öll sem eitt“, „Við erum svört, við erum hvít“ og „sameinuð við sigrum þá“. Þessi breyting fékk blendnar viðtökur – mörgum fannst það sjálfsagt og eðlilegt að koma til móts við breytta tíma og breyttan hugsunarhátt á þennan hátt, en öðrum varð ekki um sel og jafnvel var talað um „woke-væðingu“ og „PC-væðingu“ KR-inga.

Í viðtali lagði Bubbi áherslu á að með breytingunni væri verið að höfða til allra, af hvaða kyni sem væri. „Nýja útgáfan er að sögn Bubba nútímaleg og geta allir tengt sig við lagið, ekki bara karlkyns fótboltaáhugamenn eins og áður var.“ „Lagið var fínt á sínum tíma en það var barn síns tíma. Það þurfti allar þessar breytingar í þjóðfélaginu en ég náði þessu loksins. Nú eiga allir lagið.“ Ef til vill finnst einhverjum ósamræmi í því að nota karlkyn í „Nú eiga allir lagið“ í stað þess að segja „Nú eiga öll lagið“ þegar verið er að breyta karlkyni í hvorugkyn í textanum sjálfum, en það er misskilningur. Það er nefnilega grundvallarmunur á því að nota allir eitt og sér eða með persónufornafni, við allir, eins og er í textanum.

Um þennan mun hefur Höskuldur Þráinsson nýlega fjallað ítarlega í grein í Málfregnum. Þegar allir er notað eitt og sér, í dæmum eins og nú eiga allir lagið, allir velkomnir o.s.frv., er átt við óskilgreindan hóp fólks. Þar er karlkynið notað sem sjálfgefið kyn eins og lengstum hefur verið gert í íslensku. En allt öðru máli gegnir þegar sagt er við allir eins og í upphaflega textanum. Þá afmarkar persónufornafnið við hópinn, takmarkar hann við KR-inga – hann verður ekki lengur óskilgreindur í sama skilningi og áður. Þar er kynið því ekki sjálfgefið, heldur vísandi – vísar til þessa tiltekna hóps. Þar með verður óeðlilegt að nota það um blandaðan hóp, eins og KR-ingar eru – í vísun til blandaðra afmarkaðra hópa er notað hvorugkyn.

Vissulega mætti halda því fram að karlkynið í upphaflega textanum vísaði til KR-ingar sem er vitanlega karlkynsorð og því væri hvorki um að ræða sjálfgefið kyn né vísandi kyn, heldur samræmiskyn svo að enn sé vísað í áðurnefnda grein Höskuldar. Einnig má benda á að ýmsum finnst óeðlilegt að karlkyn sé notað sem sjálfgefið (hlutlaust, ómarkað) kyn í íslensku og vilja breyta því – nota hvorugkyn í staðinn. Þeim myndi því finnast „Nú eiga allir lagið“ jafn óæskilegt og „Við stöndum saman allir sem einn“. En hvað sem þessu öllu líður er ljóst að breyting Bubba á textanum er ekki aðeins eðlileg út frá viðhorfum og tíðaranda – hún er í fullkomnu samræmi við íslenskt málkerfi og brýtur ekki gegn málhefðinni á nokkurn hátt.

Dæmum ekki fólk út frá nafni

Lengst af 20. öldinni var útlendingum sem sóttu um íslenskan ríkisborgararétt gert skylt að kasta nafni sínu og taka upp íslenskt nafn í staðinn. Þetta ákvæði var lengi umdeilt og var sem betur fer fellt úr gildi fyrir 30 árum þótt leifar þess sé enn að finna í lögum um mannanöfn. Stundum tekur fólk sér þó íslensk nöfn af fúsum og frjálsum vilja til að falla betur inn í samfélagið og til að erlenda nafnið taki ekki alla athygli af nafnberanum, eins og fram kom í viðtali við Margréti Adamsdóttur fréttakonu í sumar. En nú er fólk sem ber erlend nöfn aftur farið að breyta þeim af nauðsyn – ekki vegna þess að það sé lagaskylda, heldur vegna fordóma Íslendinga í garð útlendinga. Á þetta bendir Monika K. Waleszczynska í viðtali í Vísi í dag:

„Mér finnst of algengt að vinnuveitendur horfi framhjá umsóknum fólks með útlenskt nafn og ákveði hreinlega fyrirfram að þetta sé einhver sem talar ekki ensku eða íslensku.“ „Fyrir vikið kemst margt hæft fólk ekki í atvinnuviðtöl. Ekki einu sinni fólk sem er af annarri kynslóð innflytjenda, hefur alist hér upp, talar góða íslensku og hefur menntað sig hér alla tíð.“ „Við vitum til þess að fólk hreinlega taki út útlenska nafnið sitt á ferilskrám til þess eins að auka möguleikana sína á að komast í atvinnuviðtal.“ „Þá breytir það föðurnafninu sínu í til dæmis Hinriksson eða -dóttir, notar fyrra nafn föður í stað erlends fjölskyldunafns. Til þess eins að koma frekar til greina sem umsækjandi.“

Nafnið okkar er eitt það dýrmætasta og hjartfólgnasta sem við eigum – hefur fylgt okkur flestum frá því áður en við munum eftir okkur og er eiginlega óaðskiljanlegur hluti af okkur. Jafnvel þótt fólk ákveði sjálft að skipta um nafn er það erfið ákvörðun eins og Margrét Adamsdóttir sagði í viðtalinu sem vitnað var til hér að framan. Þess vegna var það ómanneskjulegt og ljótt þegar útlendingum var gert skylt að skipta um nafn til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Og þess vegna er óþolandi þegar fólk sér sig tilneytt til að kasta nafni sínu, kasta hluta af sjálfu sér, til þess að eiga möguleika á að komast eitthvað áfram á Íslandi. Sýnum umburðarlyndi og breytum þessu – dæmum ekki fólk út frá nafni!

Spánsk, spönsk eða spaunsk?

Af lýsingarorðinu sem vísar til Spánar eru til þrjú afbrigði – spanskur, spánskur og spænskur. Af þessum þremur afbrigðum er spanskur langsjaldgæfast, einkum á síðustu áratugum, en hin bæði algeng þótt spænskur hafi sótt á undanfarið. Í afbrigðinu spanskur kemur ö í stað a í nokkrum beygingarmyndum eftir venjulegum beygingarreglum eins og sýnt er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamálsspönskum (í þágufalli eintölu í karlkyni og þágufalli allra kynja), spönsku (í þágufalli eintölu í hvorugkyni) og spönsk (í nefnifalli eintölu í kvenkyni fleirtölu og nefnifalli og þolfalli fleirtölu í hvorugkyni). Á hinn bóginn mætti búast við að afbrigðið spánskur hefði á í öllum beygingarmyndum eins og BÍN sýnir.

En málið er flóknara en þetta. Þegar lagður er saman fjöldi dæma um einstakar beygingarmyndir af spanskur og samsvarandi beygingarmyndir af spánskur á tímarit.is kemur í ljós að þær myndir sem hafa a eru aðeins tæp 14% af heildarfjöldanum – myndir með á eru því rúm 86%. En málið snýst við þegar kemur að beygingarmyndum með ö (spönsk, spönsku, spönskum). Þær eru nefnilega tæp 90% af heildinni – samsvarandi beygingarmyndir með á (spánsk, spánsku, spánskum) eru aðeins rétt rúm 10%. Eina skýringin á þessu er sú að myndirnar með ö séu mjög oft notaðar sem beygingarmyndir af spánskur í stað myndanna með á sem búast mætti við. Algengasta beygingin af spánskur er því sú sem er sýnd hér:

Hvernig má skýra þetta? Hljóðin á og ö eiga ekki að skiptast á í beygingu þótt a og ö geri það iðulega. Lykilinn að þessu er að finna í því sem nefnt var í umræðu um þessi afbrigði hér í hópnum í vor, að oft væri borið fram spaunskum þótt skrifað sé spönskum. Þótt á og ö skiptist ekki á í beygingu gera á og au það nefnilega í fjölda orða eins og langurlöngum, svangursvöngum, bankibönkum o.s.frv. Þarna er vissulega skrifað a og ö en þau tvíhljóðast í á og au á undan ng og nk. Það verður ekki betur séð en beyging afbrigðisins spánskur verði fyrir áhrifum frá þessum víxlum þótt á sér þar ekki tilkomið við tvíhljóðun og þar sé ekki nk á eftir heldur nsk. Hljóðavíxlin í beygingunni sem hér fylgir eru því í raun alveg eðlileg.

Í beygingu lýsingarorðanna danskur og franskur koma fyrir samsvarandi myndir með ö – dönsk, dönsku, dönskum; frönsk, frönsku, frönskum. Það er hins vegar engin tilhneiging til þess að bera þær fram með au enda hafa þessi orð engar á-myndir sem ýti undir víxl við au – *dánskur eða *fránskur er ekki til. Framburðurinn spaunsk, spaunsku, spaunskum hlýtur að vera tilkominn vegna áhrifa frá á-inu í spánskur og stafa af því að málnotendur tengi spánskur við orð með ng og nk og finnist eðlilegt að beita sams konar hljóðavíxlum og í þeim orðum. En það getur samt vel verið að tilvist afbrigðisins spanskur, þar sem ö kemur fram í ákveðnum myndum og er ekki borið fram au, sé einhvers konar forsenda þess að víxlin komi fram.

Við getum borið þetta saman við lýsingarorðið skánskur, af Skánn. Þar er engin tilhneiging til neinna hljóðavíxla í beygingu – myndir eins og *skönskum eða *skaunskum eru ekki til. En þar er ekki heldur til hliðarmyndin *skanskur sem *skönskum gæti verið beygingarmynd af. Við getum skrifað spönskum vegna þess að myndin spanskur er til og við vitum að a og ö skiptast oft á í beygingu. Við gætum hins vegar ekki skrifað *skönskum vegna þess að við vitum að á og ö skiptast ekki á í beygingu – og við getum ekki heldur skrifað *skaunskum vegna þess að þótt á og au skiptist á í beygingu vitum við að í slíkum tilvikum er ekki skrifað au. Þar af leiðir að engar forsendur eru fyrir hljóðavíxlum og skánskum eini möguleikinn.

Nauðsynlegar viðbætur við íslenska málstefnu

Endurskoðuð íslensk málstefna fyrir 2021-2030 er ágæt um margt og hægt að taka undir flest sem í henni stendur. En það er ekki nóg – í hana vantar efnisþætti sem nauðsynlegt hefði verið að taka fyrir. Þannig er engan vísi að endurskoðun íslensks málstaðals að finna í stefnunni, þrátt fyrir að í henni sé lögð áhersla á nauðsyn þess að málstaðallinn taki breytingum í samræmi við breytingar á samfélaginu. Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir lögfræðingur hefur gert úttekt á stefnunni í meistararitgerð og borið hana saman við málstefnuna frá 2009, og ég er sammála því mati hennar að þótt stefnan sé framför frá fyrri stefnu hefði þurft að leggja meiri áherslu á inngildingu innflytjenda í málsamfélagið.

Í tengslum við þetta hefði þurft að fjalla ítarlega um stöðu og hlutverk ensku á Íslandi í málstefnunni. Með sívaxandi fjölda útlendinga í samfélaginu og á íslenskum vinnumarkaði vakna fjölmargar spurningar, svo sem: Hvenær og til hverra er eðlilegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu? Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni og réttindi fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni og réttindi fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Ekki er víst að svör við öllum þessum spurningum eigi erindi í íslenska málstefnu en þar er samt mjög brýnt að staða og réttindi ensku í málsamfélaginu verði tekin til umræðu. Fyrirséð er að enskunotkun mun aukast á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins á næstu árum og mikilvægt að sú aukning verði ekki skipulags- og eftirlitslaus, heldur verði reynt að stýra henni í þann farveg sem skerðir hlut íslensku minnst. Ekki er fjallað neitt um þetta í málstefnunni, en þó verður að geta þess að samkvæmt fundargerð stjórnar Íslenskrar málnefndar er áformað að halda málþing um sambýli íslensku og ensku næsta vor. Mikilvægt er að það málþing verði nýtt til stefnumótunar í þessum málum sem verði hluti af íslenskri málstefnu.

En fleira vantar í stefnuna. Þrátt fyrir að tengsl tungumáls og kyns hafi verið mjög til umræðu á undanförnum árum er ekki vikið einu orði að því efni í málstefnunni – hugtakið kynhlutlaust mál er þar hvergi nefnt. Þetta er vissulega umdeilt, viðkvæmt og vandmeðfarið mál – líklega það svið tungumálsins þar sem mest ólga og heitastar tilfinningar eru um þessar mundir. En þeim mun meiri ástæða hefði verið til þess að taka það til umræðu. Ef til vill hefur stjórn Íslenskrar málnefndar litið svo á að Skýrsla um kynhlutlaust mál sem hún lét vinna í fyrra og samþykkti á svipuðum tíma og málstefnuna dygði. En sú skýrsla hefur verið gagnrýnd og nauðsynlegt er að þetta efni fari inn í málstefnuna sjálfa.

Þessa umræðu hefði einnig þurft að taka upp á breiðari grundvelli og fjalla almennt um mál og mannréttindi, ekki síst málnotkun ýmissa minnihlutahópa og fólks í viðkvæmri stöðu svo sem trans fólks, fatlaðs fólks o.fl. Þessir hópar hafa að undanförnu gert ýmsar tilraunir til að breyta orðfæri og orðræðu um sig en þær tilraunir hafa stundum mætt mikilli andstöðu og jafnvel verið hafðar að háði og spotti. Í stefnunni er vissulega talað um mikilvægi þess að „bera virðingu fyrir málnotkun allra sem tala íslensku og gæta þess að málnotkun sé ekki útilokandi“ og að „nota orð og orðfæri um mismunandi þjóðfélagshópa sem fólk í þeim hópum kýs sjálft“ en æskilegt hefði verið að helga þessu efni heilan kafla.

Þótt stjórn Íslenskrar málnefndar hafi samþykkt hina endurskoðuðu málstefnu fyrir ári, og hún gildi frá 2021, hefur lítið farið fyrir kynningu á henni. Skýringin mun vera sú að ætlunin er að leggja málstefnuna fram sem þingsályktun í haust, eins og gert var við fyrri málstefnu á sínum tíma. Þar sem stefnan á að gilda allan þriðja áratuginn, allt til 2030, er mikilvægt að í henni sé tekið á málum sem fyrirsjáanlega verða afdrifarík fyrir íslenskuna og fyrirferðarmikil í samfélagsumræðunni á næstu árum. Það er enn hægt að bæta við efnisþáttum sem á vantar fyrir þinglega meðferð málstefnunnar og ég vonast til að í þeirri stefnu sem Alþingi samþykkir verði tekið á þeim málum sem nefnd eru hér að framan.

Semjum nýjan málstaðal

Það er ljóst að þau viðmið sem enn eru notuð um „rétt“ mál og „rangt“ eru í mjög mörgum tilvikum úrelt. Í bók minni Alls konar íslenska fer ég yfir 50 málbrigði sem eru eða hafa verið talin „röng“ þrátt fyrir að þau hljóti að teljast „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu, „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“. En það er hægara sagt en gert að breyta þessum viðmiðum. Til þess vantar okkur tæki og vettvang, en ekki síður forystu og vald, vilja og kjark. Upplagt tækifæri til breytinga á viðmiðunum gafst þó þegar Íslenskri málnefnd var falið að endurskoða íslenska málstefnu „til samræmis við breytta tíma“.

Þessari endurskoðun er lokið og fyrir ári, í september 2021, samþykkti stjórn Íslenskrar málnefndar nýja íslenska málstefnu fyrir árin 2021-2030. Þetta er á margan hátt framsækið plagg þar sem lýst er skýrum vilja til að endurskoða viðmið um „rétt“ mál og „rangt“. Þar segir m.a.: „Kjarni íslenskrar málstefnu er jákvætt viðhorf til íslenskrar tungu með málrækt að leiðarljósi. Það felur í sér vilja til að varðveita tungumálið en um leið að íslenska sé löguð meðvitað og skipulega að nýjum aðstæðum sem hefur í för með sér að viðmið um það sem telst gott mál eða málstaðall hlýtur að taka breytingum. Það felur einnig í sér að tungumálið þjóni samskiptahlutverki sínu og að rækta margbreytileika þess.“

Í stefnunni er vakin athygli á hættunni sem felst í því að málstaðallinn fjarlægist venjulegt mál: „Viðmið um viðeigandi málsnið og rétt mál, sem kallað hefur verið íslenskur málstaðall, hafa ekki breyst í samræmi við breytingar í íslensku samfélagi á undanförnum áratugum. Standi málstaðallinn í stað leiðir það til þess að bilið milli staðalsins og málnotkunar almennings breikkar og það gæti hæglega leitt til þess að almenningur, einkum unga fólkið, finni frekar samsömun í öðrum málum en íslensku.“ Jafnframt er bent á að „vegna þess að tungumálið er í stöðugri þróun hlýtur málstaðallinn einnig að vera það þrátt fyrir að hann sé í eðli sínu íhaldssamari en daglegt mál.“

Miðað við þetta hefði mátt vænta þess að stjórn Íslenskrar málnefndar léti ekki hér við sitja, heldur yndi sér í að endurskoða málstaðalinn. En ekkert bólar á því enn, þótt ár sé liðið síðan stjórnin samþykkti endurskoðaða málstefnu. Þess vegna held ég að ekki sé eftir neinu að bíða að stofna áhugahóp um endurskoðun málstaðalsins – hann er ekki opinbert gagn og því þarf ekki atbeina stjórnvalda. Áhugahópurinn gæti t.d. verið skipaður fólki frá Íslenskri málnefnd; málræktarsviði Árnastofnunar; háskólakennurum í íslenskri málfræði; Samtökum móðurmálskennara; Menntamálastofnun; Ríkisútvarpinu; Blaðamannafélaginu; Rithöfundasambandinu; og fleiri áhugasömum.

Fyrsta verk hópsins yrði að skilgreina verkefnið – hvað er málstaðall, á hverju á hann að byggjast, og hvernig viljum við að hann verði notaður? Síðan þarf að safna dæmum sem taka þarf afstöðu til, svo sem atriðum sem nefnd eru í Málfarsbankanum, dæmum sem rædd hafa verið í ýmsum málfarsþáttum og málfarshópum, og ýmsum öðrum þar sem ástæða þykir til að festa ákveðin viðmið í sessi. Þá þarf að taka rökstudda og frjálslynda afstöðu til álitamála, m.a. umdeildra og erfiðra mála eins og kynhlutleysis, tillits til ákveðinna þjóðfélagshópa, sjónarmiða og viðhorfa, o.fl., og ekki hika við að leyfa tilbrigði. Að lokum þarf að skrifa nýjan staðal og birta hann.

Mikilvægt er að kynna endurskoðaðan málstaðal vel og hvetja til þess að honum sé fylgt í skólum, fjölmiðlum o.v. En það er ekki nóg – endurskoðaður málstaðall krefst breytinga á kennaramenntun, kennsluefni, kennsluaðferðum og prófum, sem og handbókum og uppflettiritum, á pappír og neti. En hann krefst ekki síst breytinga á hugarfari – aukins umburðarlyndis gagnvart tilbrigðum í máli og skilnings á að þótt eitt sé rétt þarf annað ekki að vera rangt. Málstaðallinn þarf svo að vera í stöðugri endurskoðun. En sjálfsagt er þetta óraunhæft. Kannski sitjum við uppi með úreltan málstaðal, sífellt fjarlægari venjulegu máli, langt fram eftir öldinni. Það sakar samt ekki að láta sig dreyma.