Posted on Færðu inn athugasemd

Uppstú, uppstúf, uppstúfur – og uppstúningur

Það er við hæfi í dag að skoða orðið uppstú(f)(ur) sem merkir 'hvít, þykk sósa úr hveiti, smjöri og mjólk, jafningur'. Það er íslensk gerð af danska nafnorðinu opstuvning sem hefur sömu merkingu og er komið af sögninni opstue 'búa til jafning' – stuve merkir 'hita upp aftur, sjóða við hægan eld'. Í íslensku er f(v) (og reyndar g líka) oft mjög ógreinilegt eða hverfur alveg á eftir ú (og á og ó) í áherslulausum atkvæðum, í orðum eins og ljúf/ljúfur, dúfa/dúfur o.fl., og þess vegna er ekkert óeðlilegt að til verði bæði myndin uppstú og uppstúf. Karlkynsmyndin uppstúfur verður til vegna þess að orðið er miklu oftar notað í þolfalli og þágufalli en í nefnifalli – búa til uppstúf, hangikjöt með uppstúfi – og út frá því er nefnifallsmyndin uppstúfur búin til.

Elsta dæmi um aðlögun danska orðsins opstuvning að íslensku er jafnframt það sem fer næst fyrirmyndinni. Það er orðið uppstúning sem kemur fyrir í auglýsingu í Vísi 1922: „Allskonar uppstúning, svo sem: grænar baunir, asparges, rófur, kartöflur og margt fleira.“ Þarna virðist orðið þó frekar merkja 'niðursuðuvara' en 'jafningur'. Þetta er eina dæmið um kvenkynsmynd orðsins á tímarit.is en karlkynsmyndin uppstúningur er nefnd sem hliðarmynd undir uppstúf í Íslenskri orðabók. Elsta dæmið á tímarit.is um hvorugkynsmyndina uppstúf er frá 1927, elsta dæmi um karlkynsmyndina uppstúfur frá 1959 en elsta dæmi um uppstú frá 1946. Fimm dæmi eru hins vegar um lýsingarorðið uppstúfaður og það kemur fyrir í bréfi frá 1891.

Langalgengustu beygingarmyndir orðsins eru uppstúf og uppstúfi, og báðar gætu verið hvort heldur karlkyns- eða hvorugkynsmyndir eins og áður segir. En út frá myndum með ákveðnum greini sem ótvírætt tilheyra aðeins öðru kyninu sýnist mér að hvorugkynið hafi verið algengast áður fyrr en karlkynið hafi sótt á síðustu áratugi og sé algengast núna. Ég sé engar forsendur fyrir því að kalla eina þessara mynda réttari en aðra, hvað þá að amast við þeim. Málfarsbankinn segir reyndar: „Í staðinn fyrir orðin uppstú, uppstúfur og uppstúf er hægt að nota orðið jafningur.“ Á bak við þetta liggur líklega andóf gegn tökuorðum, en eins og Guðrún Kvaran segir á Vísindavefnum er jafningur líka tökuorð úr dönsku, að vísu síðan í lok 18. aldar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hættum að rakka ungt fólk niður vegna málfars

Þessi hópur var upphaflega stofnaður til að andæfa neikvæðri umræðu um íslenskuna á samfélagsmiðlum og í athugasemdadálkum vefmiðla. Þar veður uppi hneykslunarumræða sem ekki verður séð að hafi annan tilgang en þann að gera lítið úr fólki sem verður eitthvað á í máli – að mati þeirra sem skrifa. Iðulega kemur reyndar í ljós, þegar að er gáð, að um er að ræða einhvers konar vanþekkingu, misskilning eða rangtúlkun og málfarið sem hneykslast er á er gott og gilt. Einstaklega gott – eða vont – dæmi um þetta kom upp í vikunni þegar mbl.is birti frétt um kvikuna „sem spúst hefur upp á yfirborðið í eldgosinu við Sundhnúkagíga“. Þá mátti lesa á Facebook-síðu mbl.is og í hópunum Málvöndunarþátturinn og Skemmtileg íslensk orð:

„Unga fólkið er að meika það á Mogganum“; „Þvílíkt orðalag er þetta háskólamenntuð manneskja sem hefur slíkt orðalag“; „Nei nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að komast upp úr fyrsta bekk“; „Úr hvaða skóla útskrifaðist hann?“; „Þetta lið er ekki talandi“; „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“; „Fara blaðamenn ekki i skóla?; algjörlega ómenntaðir dregnir beint upp úr fjóshaug“; „Eru blaðamenn ekki búnir að eyða meirihluta æfinnar í skóla en rita svona bull í opinberan fjölmiðil??“; „á hverju er þetta lið????“; „Þau eru 3gja að verða 5“; „Hvernig er hægt að birta svona frétt á "barnamáli"?“; o.s.frv.

Þetta er bara brot af athugasemdum sem snúa beinlínis að þeim sem skrifuðu fréttina – við það bætast fjölmargar athugasemdir eins og „Orðið Spúst er víst til líka, en engu að síður orðskrípi“, „Vill Mogginn láta svona þvælu sjást?“, „Er þetta kannski eitt kynleysis orðið?“ og margar í sama dúr. Það kom fyrir ekki þótt inn í þessa þræði væri ótal sinnum settur hlekkur í Beygingarlýsingu íslensk nútímamáls þar sem myndin spúst er gefin upp sem sagnbót (lýsingarháttur þátíðar) í miðmynd af sögninni spúa. Vissulega er þetta sjaldgæf mynd, og fullkomlega eðlilegt að málnotendur átti sig ekki á henni. En það er ekki eðlilegt að gefa sér að um sé að ræða bernsku, heimsku, fákunnáttu eða menntunarskort þeirra sem skrifuðu fréttina.

Umræða af þessu tagi er því miður ekki einsdæmi þótt þetta tilvik sé í svæsnara lagi. Mér sýnist athugasemdir helst koma frá fólki sem er komið yfir miðjan aldur eins og ég, en við þurfum að hafa í huga að íslenskan hefur breyst heilmikið frá því að við vorum að tileinka okkur hana og það er umhugsunarefni hvers vegna fólki finnst eðlilegt og sjálfsagt að rakka ungt fólk niður vegna málfars. Um leið er fólk að hreykja sjálfu sér og taka undir með faríseanum sem sagði: „Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“ Það þarf bara að skipta um örfá orð: „Guð, ég þakka þér að ég tala ekki eins og þetta fólk, unglingar, fáfróðir, ómenntaðir, eða þá eins og þessi fréttabörn.“

Íslenskan hefur alltaf verið að breytast, sem betur fer – lifandi mál hlýtur að breytast í takt við þróun þjóðfélagsins og þarfir málsamfélagsins. Það er líka alveg eðlilegt að okkur komi sumar breytingar undarlega fyrir sjónir og fellum okkur ekki við þær í fyrstu. En við megum fyrir alla muni ekki ráðast á unga fólkið og rakka niður mál þess. Við þurfum að fá unga fólkið í lið með okkur vegna þess að það verður að taka við íslenskunni. Það er ekki öðrum til að dreifa. En umræða af þessu tagi, þar sem sífellt er verið að segja unga fólkinu að það kunni ekki íslensku, er fremur til þess fallin að gera það fráhverft íslenskunni en til að vekja áhuga þess á viðgangi og framtíð málsins. Unga fólkið verður að fá á tilfinninguna að það eigi hlut í íslenskunni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Verkurinn leiðir – eða verkinn leiðir?

Ég fékk fyrirspurn um hvort ætti að segja verkurinn leiðir (fram í handlegg) eða verkinn leiðir. Fyrsta hugsun mín var að eðlilegt væri að segja verkinn leiðir en þegar ég fór að athuga málið sýndist mér það ekki jafn sjálfsagt og í fyrstu. Það er eðlilegt að tengja þessi dæmi við setningu þar sem verkur er andlag, svo sem taugin leiðir verkinn fram í handlegg. Í málinu er að finna ýmis pör þar sem þolfallsandlag í slíkri setningu er gert að frumlagi og fær þá venjulegt dæmigert frumlagsfall, nefnifall: hún stækkaði íbúðina íbúðin stækkaði, ríkisstjórnin lækkaði skattana skattarnir lækkuðu, hann minnkaði drykkjuna drykkjan minnkaði, þau opnuðu búðina búðin opnaði, þjálfarinn hvíldi þær þær hvíldu, o.fl.

Það eru reyndar til dæmi um þolfall í frumlagssæti í svipuðum setningum, eins og bátinn rak að landi og reykinn leggur upp. Í báðum tilvikum er þó rík tilhneiging til að nefnifall komi í stað þolfallsins. Þágufallsandlög halda hins vegar oftast fallinu – við segjum skipafélagið fjölgaði ferðunum ferðunum fjölgaði, skatturinn fækkaði undanþágum undanþágum fækkaði, o.s.frv. Stundum er það upp og ofan hvort þágufall helst eða nefnifall kemur í staðinn – kjörstjórnir loka kjörstöðum getur orðið bæði kjörstaðir loka og kjörstöðum lokar. Með sumum sögnum kemur alltaf nefnifall – hann velti bílnum verður bíllinn velti en ekki *bílnum velti – og reyndar var sagt ferðir fjölguðu og undanþágur fækkuðu á 19. öld.

Ég finn engar vísbendingar í orðabókum um fallnotkun með leiða í þessu sambandi, en samkvæmt dæmunum að framan mætti búast við nefnifalli, verkurinn leiðir fram í handlegg. Mikill meirihluti dæma á tímarit.is hefur líka nefnifall en dæmin eru reyndar mjög fá – 25 um nefnifall en aðeins sjö um þolfall. Elsta dæmi þolfallið er í Læknablaðinu 1978: „Verki leiðir út í eyru“. Elsta dæmi um nefnifallið er í Heilbrigðismálum 1985: „Verkurinn leiðir oftar út í vinstri handlegg en hægri.“ Þessi aldursmunur er svo lítill og dæmin svo fá að ekki er hægt að taka þolfallið fram yfir nefnifall á grundvelli hans. Í Risamálheildinni eru dæmin um 110 og öll nema sjö hafa nefnifall. Langflest dæmi um sambandið eru af samfélagsmiðlum.

Í Málfarsbankanum segir reyndar: „Sögnin leiða getur verið ópersónuleg. Með henni stendur frumlag í þolfalli: eitthvað (þf.) leiðir af einhverju (þgf.). Af þessu leiðir mikinn vanda. Ekki er hægt að rífa húsið án þess að af því leiði hættu.“ En þarna er um að ræða sambandið leiða af sem er dálítið annað, þótt vissulega gæti þessi notkun haft áhrif á máltilfinningu sumra. Einnig er hugsanlegt að skyld notkun sagnarinnar leggja valdi því að þolfall er stundum notað með leiða – sagt er verkinn leggur fram í handlegg. En mér sýnist bæði málhefð og samanburður við aðrar sagnir mæla eindregið með því að nota nefnifall í dæminu sem um var spurt og segja verkurinn leiðir fram í handlegg, þótt ég myndi hika við að kalla verkinn leiðir rangt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ný samtenging: útaf

Í umræðu um samtenginguna þannig að og afbrigðið þannig hér í dag var nefnt að útaf væri orðin algeng samtenging í máli unglinga – útaf ég gerði það. Þetta á væntanlega ættir að rekja til tengingarinnar út af því að sem er í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 en er þó ekki með í lista Björns Guðfinnssonar um orsakartengingar í Íslenzkri málfræði hans – þar eru taldar af því að, því að, fyrir því að, með því að, sökum þess að, sakir þess að, úr því að, vegna þess að, þar eð, þar sem, fyrst. Ég hef á tilfinningunni, án þess að geta vísað í heimildir því til stuðnings, að út af því að hafi ekki þótt sérlega virðuleg tenging, hvort sem það er ástæða eða afleiðing þess að Björn hafði hana ekki með í lista sínum um „allar helztu samtengingar“ í málinu.

Elsta dæmi um út af því að á tímarit.is er í Norðurfara 1849: „Um þetta leiti var líka mikill órói í Berlinni út af því að Wrangel […] hafði gefið út ávarp til þjóðarinnar.“ Allmörg dæmi eru um tenginguna frá næstu áratugum en undir lok aldarinnar fer að bóla á afbrigðinu út af að, án því – fyrst í vesturíslensku blöðunum. Elsta dæmið er í Lögbergi 1890: „Hann sagði nýlega við blaðamann einn, að mesta ófriðarhættan væri innifalin í gremju Frakka út af að hafa misst fylki þau, sem þeir urðu að fá Þjóðverjum í hendur 1871.“ Eftir aldamótin fer þetta að sjást í blöðum á Íslandi – „Eg vissi að ferðin var ákvörðuð og var með sjálfum mér hryggur út af að missa nú álftirnar“ segir í Dýravininum 2001. Slæðingur af dæmum er um út af að nær alla 20. öldina.

Þetta afbrigði virðist þó horfið úr málinu – ég hef ekki rekist á yngri dæmi um það en frá 1990. En einnig bregður fyrir afbrigðinu út af því, án . Sama gerist í öðrum orsakartengingum sem innihalda því aðaf því að, því að, fyrir því að, úr því að og með því að. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í Nýjum kvöldvökum 1909: „Hvað sagði svo maðurinn þinn, þegar þú félst í öngvit út af því hann neitaði um kjólefnið.“ Fáein önnur dæmi frá 20. öld má finna en það er þó einkum á síðustu tveimur áratugum sem þetta afbrigði verður algengt – einkum á samfélagsmiðlum, en þó er einnig töluvert af dæmum í formlegra málsniði, s.s. „En það er líka út af því hann hefur skipt út einni blekkingu fyrir aðra“ í Morgunblaðinu 2009.

En afbrigðið sem nefnt var í upphafi, útaf ­– án bæði því og og langoftast skrifað í einu orði – er nýlegt. Sárafá dæmi eru um það úr prentmiðlum – það elsta sem ég rakst á var í Feyki 2014: „Villi Árnason er í uppáhaldi en það er nú bara útaf ég þekki hann og treysti!“ Annað dæmi er úr Munin 2016: „Og ég var ekki böstaður … og þetta var versta nótt lífs míns útaf ég þurfti svo mikið að pissa.“ Hins vegar eru fjölmörg dæmi á samfélagsmiðlum alveg frá aldamótum þannig að þetta gæti vel verið talsvert eldra í talmáli. Ritháttarafbrigðið útað var einnig nefnt í umræðum um þetta hér í hópnum – í Risamálheildinni er slæðingur af dæmum um það í þessu hlutverki. Þetta afbrigði er mjög eðlilegt í ljósi lítils framburðarmunar á f (v) og ð í enda orðs.

Samtengingin út af því að er fjögur orð, lengri en nokkur önnur samtenging málsins. Það er því engin furða að tilhneiging sé til að stytta hana og hér hafa verið nefnd afbrigðin út af að, út af því og útaf (út af). Trúlegt er að síðastnefnda afbrigðið hafi ekki orðið til beint úr út af því að heldur hafi annað hvort hinna verið millistig – hugsanlega frekar út af að vegna þess að það virðist hverfa úr málinu um svipað leyti og útaf kemur upp. Frekari rannsóknir þyrfti þó til að skera úr þessu og kannski er það ekki hægt. Hvað sem því líður sé ég enga ástæðu til að amast við útaf sem tengingu. Ýmsar nýjar samtengingar hafa orðið til frá fornu máli og þetta er stutt og lipurt orð sem þegar hefur fest sig í sessi í þessu hlutverki. Fögnum því að málið er lifandi!

Posted on Færðu inn athugasemd

Ný samtenging: þannig

Í fyrstu útgáfu bókarinnar Íslenzk málfræði, sem kom út 1937, telur Björn Guðfinnsson upp „allar helztu samtengingarnar“ í málinu. Þeim er skipt í tvo meginflokka, aðaltengingar og aukatengingar, og síðarnefndi flokkurinn skiptist svo aftur í tíu undirflokka. Einn þeirra er afleiðingartengingar sem eru einungis taldar tvær – svo að, eins og ég hljóp hratt svo að ég hrasaði og datt, og , en þá er svo í aðalsetningunni á undan – ég hljóp svo hratt ég hrasaði og datt. Þessi upptalning tenginga er svo nær óbreytt í seinni útgáfum bókarinnar, sem var námsefni íslenskra grunnskólanema mestallan seinni helming 20. aldar. Hana er einnig að finna í ýmsum yngri ritum og stundum virðist talið að þetta sé endanlegur og óbreytanlegur listi.

Sambandið þannig að hefur þó mikið verið notað sem afleiðingartenging undanfarna áratugi. Í flestum eldri dæmum þar sem þannig að stendur saman er þannig hins vegar atviksorð sem tilheyrir aðalsetningunni en er ekki hluti tengingar, eins og „Gáfnalag hans var þannig, að hann var ekki sérlega fljótskarpur“ í Andvara 1890. Einstöku gömul dæmi má þó finna um notkun sambandsins í hlutverki tengingar, svo sem „Tóttin smá mjókkar í eystri endann, þannig að hann er sem hálf kringlóttr fyrir“ í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1883. En þessi notkun hefur sennilega ekki tíðkast að nokkru marki fyrr en talsvert var liðið á 20. öld, úr því að sambandið komst ekki í áðurnefnda upptalningu Björns Guðfinnssonar á tengingum.

Ef marka má tímarit.is virðist notkun þannig að sem samtengingar hafa farið að aukast um miðja 20. öld, en þó einkum upp úr 1980. Upp úr 1990 virðist þannig að verða algengasta afleiðingartengingin og er nú mun meira notuð en svo (með og án ) bæði samkvæmt tímarit.is og Risamálheildinni. Sambandið er tilfært sem samtenging í Íslenskri nútímamálsorðabók en er sjaldnast nefnt í umfjöllun um samtengingar – „Hvers vegna er svo að afleiðingartenging en ekki þannig að?“ spyr Halldór Ármann Sigurðsson í grein um „Fleiryrtar aukatengingar“ 1981. Í bók Bruno Kress frá 1982, Isländische Grammatik, er þannig að nefnt sem afleiðingartenging en er t.d. ekki nefnt í Handbók um málfræði eftir Höskuld Þráinsson frá 2021.

En ekki nóg með það. Í gær var bent hér á að þannig væri oft notað eitt og sér sem tenging, án . Ég hafði ekki tekið eftir þessu en fór að athuga það og komst að því að þetta er orðið mjög algengt. Einstöku dæmi um þetta má finna frá síðasta fjórðungi 20. aldar, t.d. „Þannig hann var alltaf að fara út í kirkju til að gera þar bæn sína“ í Tímanum 1978 og „Ég valt hérna í fyrra líka þannig ég er vanur að velta á Akureyri“ í Morgunblaðinu 1986. Eitthvað af slíku kann þó að vera prentvillur. En undir aldamót fer dæmum á prenti að fjölga smátt og smátt og þetta er mjög algengt á samfélagsmiðlum alveg frá upphafi þeirra í byrjun aldarinnar – en ekki á prenti fyrr en á allra síðustu árum. Dæmin í Risamálheildinni frá síðustu 20 árum skipta tugum þúsunda.

Brottfall er í sjálfu sér mjög eðlileg þróun. Það er alkunna að mjög algengt er – og gamalt í málinu – að falli brott úr tengingunum því að, þó að og svo að sem verða þá því, þó og svo. Þótt samtengingar séu venjulega taldar lokaður orðflokkur eru þess dæmi að í hann bætist, og sambandið þannig að er orðið fast í sessi sem tenging. Það er því farið að haga sér eins og aðrar fleiryrtar tengingar og einn þáttur í þeirri hegðun er að það sleppir og verður bara þannig. Vissulega þykir ýmsum vandaðra mál að hafa með í því að, þó að og svo að eins og Málfarsbankinn bendir á og væntanlega gildir þá sama um þannig að. En enginn vafi er á því að samtengingin þannig er orðin kyrfilega föst í málinu og dæmum um hana mun fjölga áfram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað merkir útséð um?

Í gær var hér spurt um merkingu setningarinnar „enda útséð að Bandaríkin myndu beita neitunarvaldi“ sem kom fyrir í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Málið snýst um orðið útséð sem lítur út eins og hvorugkyn lýsingarháttar þátíðar af sögninni útsjá sem að vísu er til en í annarri merkingu. Orðið er því greint sem lýsingarorð (sem aðeins kemur fyrir í hvorugkyni) bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók en í hvorugri er það skýrt sérstaklega heldur eingöngu í sambandinu það er útséð um að, sem skýrt er 'það eru engar líkur lengur á að' í þeirri síðarnefndu. Í Málfarsbankanum segir: „Setningin það er útséð um eitthvað merkir: eitthvað gerist ekki.“ En þessi merkingarskýring á augljóslega ekki við umrætt dæmi.

Málið er nefnilega flóknara en þetta. Elsta dæmi um útséð á tímarit.is er í Skírni 1832: „þókti nú útséð um það, að eigi mundi liðsvon framar frá Líthauen.“ Samhengið sýnir að merkingin er 'þótti nú orðið ljóst að ekki kæmi liðsauki frá Litháen'. Þarna er athyglisvert að neitunin eigi er í setningunni sem útséð tekur með sér, en miðað við skýringu orðabóka og Málfarsbankans er henni í raun ofaukið vegna þess að orðið útséð felur hana í sér. Fjölda hliðstæðra dæma með neitun má finna á 19. öld. Í Þjóðólfi 1868 segir t.d.: „Og fyrst að útséð er um, að Prófessorinn getur ekki orðið við þessari ósk Reykvíkinga.“ Í Fjallkonunni 1889 segir: „Sumum féll svo allr ketill í eld, að þeir töldu útséð um það, að ekkert gagn gæti orðið að þessu þingi.“

Hér hlýtur útséð að merkja 'orðið ljóst, komið í ljós' og sama máli gegnir um ýmis elstu dæmi um orðið án eftirfarandi neitunar. Í Skírni 1837 segir: „Þetta fréttaár hefir orðið ríkt af viðburðum í þjóðlífi Portúgísa, þó ekki sé ennþá útséð hvaða enda þeir fá.“ Í Þjóðólfi 1868 segir: „Þegar nú var útséð um, að allir væri komnir sem viðstaddir vildi vera.“ En einnig eru ýmis dæmi um að notkun útséð rími við lýsingu orðabókanna. Í Skírni 1842 segir: „sögðu og að útséð væri um allt prentfrelsi, ef jafningjar oftar leifði sér að dæma í prentfrelsis málum.“ Í Norðlingi 1877 segir: „Útséð þykir um að aðrir Norðurálfubúar bendlist við þennan ófrið, nema ef vera skyldi Serbar.“ Í Skuld 1879 segir: „Það er nú útséð um það, að hér komi sumar í ár.“

Eins og áður segir er neitun í raun innifalin í þeirri merkingu útséð sem orðabækur gefa, 'engar líkur lengur á að'. Setninguna það er útséð um að þetta takist má m.a. umorða sem það er vonlaust að þetta takist, það er óhugsandi að þetta takist, það er útilokað að þetta takist og í öllum þeim dæmum er einhvers konar neikvæða merkingu að finna í orðinu sem kemur í stað útséð-laust, ó- og -lokað. En í útséð felur hvorugur orðhlutinn í sér neikvæða merkingu og þess vegna er ekkert undarlegt að margir málnotendur skynji ekki neitunina í merkingu orðsins og noti það fremur í hlutlausri merkingu – skilji það var útséð (um) að þetta tækist fremur sem 'það var komið í ljós að þetta tækist' en 'það var orðið útilokað að þetta tækist'.

Það verður því ekki betur séð en útséð (um) hafi haft tvær merkingar alveg frá upphafi, báðar mjög algengar – annars vegar þá sem orðabækur segja, 'engar líkur (lengur) á', og hins vegar 'orðið ljóst, komið í ljós'. Síðarnefnda merkingin á t.d. augljóslega við í þeim fjölmörgu dæmum þar sem spurnarsetning kemur á eftir, s.s. „Það er enn þá ekki útséð um, hvernig málinu lýkur milli Englendinga og Rússa“ í Austra 1885 og „Enn er ekki útséð um hvort tekist hefur að stöðva lekann endanlega“ í Fréttablaðinu 2010. Þar eð merkingarnar virðast álíka gamlar, eiga sér órofa sögu, og hafa báðar verið algengar allan tímann sé ég engar forsendur fyrir því að taka aðra fram yfir hina. Dæmið sem vísað var til í upphafi hlýtur því að teljast rétt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Setningafræðileg nýjung: Boðháttur í aukasetningum

Sagnir í boðhætti lúta tveimur setningafræðilegum takmörkunum sem greina þær frá sögnum í öðrum persónuháttum (framsöguhætti og viðtengingarhætti): Í fyrsta lagi standa þær jafnan fremst í setningu – við segjum farðu heim! og vertu rólegur! en ekki *þú far heim og *þú ver rólegur eða *strax farðu (/ far þú) heim og *nú vertu (/ ver þú) rólegur. Í öðru lagi standa boðháttarsagnir eingöngu í aðalsetningum, ekki í aukasetningum – við segjum gerðu svo vel að fá þér að borða en ekki *gerðu svo vel að fáðu þér að borða, og ég skipa þér að fara heim en ekki *ég skipa þér að farðu heim. Þetta gildir í nútímamáli en í fornu máli eru hins vegar dæmi um að boðháttarsögn sé ekki fremst í aðalsetningu, og að boðháttur sé hafður í aukasetningu.

En í seinni tíð er hins vegar orðið algengt að boðháttarsagnir séu notaðar í ákveðnum gerðum aukasetninga. Þetta eru dæmi eins og „Þannig að vertu bara ánægð með sjálfa þig“ í Orðlaus 2002, „Það sem ég vil segja við þig er að láttu þær ekki rugla þig í ríminu“ á Bland.is 2002, „Eins ráðið sem ég get gefið er að farðu með þær í hreinsun“ á Bland.is 2003, „Það er spennandi tími framundan þannig að njóttu þess sem koma skal“ í Orðlaus 2006, „Kona, líttu þér nær, þú sast í hrunstjórninni, en hafðir ekki heilindi til þess að segja af þér – svo að talaðu varlega“ í Morgunblaðinu 2012, „Þannig að farðu nú að skrifa niður sigrana“ í Fréttablaðinu 2017, „Þeir rukka fyrir bílinn og bensínið svo að notaðu hann“ á vef Ríkisútvarpsins 2018 – og mörg fleiri.

Í öllum þessum dæmum væri hægt að setja þú skalt + nafnhátt í staðinn fyrir boðháttarsögnina – þú skalt bara koma, þú skalt tala varlega, þú skalt nota hann o.s.frv. Aukasetningin sem inniheldur boðháttarsögnina er langoftast tengd við aðalsetninguna með aukatengingunum svo að og einkum þannig að þótt öðrum tengingum bregði fyrir. Á tímarit.is má sjá að dæmum um að þannig að þú skalt og einkum svo að þú skalt hefur fækkað mikið undanfarna áratugi og er líklegt að boðháttarsagnir hafi að einhverju leyti komið í staðinn. Einstöku eldri dæmi má einnig finna um boðhátt í aukasetningum tengdum með því að, t.d. „Því að líttu á!“ í Dagfara 1906, „Því að taktu eftir“ í Sunnudagsblaði Tímans 1964, og „Því að vertu viss“ í DV 1985.

En annars fer þessi setningagerð að sjást á prenti rétt fyrir aldamót – elsta dæmi sem ég fann var „Ég hræðist engan þannig að komdu bara“ í DV 1996 og dæmum á tímarit.is fór svo smátt og smátt fjölgandi upp úr aldamótum og einkum á síðasta áratug. Setningagerðina er þó enn sem komið er aðallega að finna í óformlegu málsniði – sennilega eru innan við hundrað dæmi um hana í öðrum textum Risamálheildarinnar en þeim sem koma af samfélagsmiðlum, en þar hefur hún verið mjög algeng síðan um aldamót. Það er sem sé greinilegt að þarna er ný setningagerð komin inn í málið og þótt henni fylgi óhefðbundin notkun boðháttar sé ég enga ástæðu til að amast við henni – þetta eru engin málspjöll.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þel, þelhvítt og þeldökkt fólk

Á síðu Facebookvinar lenti ég í umræðu um orðið þelhvítur sem er mjög sjaldgæft en kemur fyrir í Vefaranum mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness – „persóna úr goðsögn, sem hefði alið aldur sinn með þelhvítum skógardilkum“. Einhverjum fannst vera innri mótsögn í því orði þar eð þel merkti 'myrkur' eins og í orðinu næturþel. En það er misskilningur – orðið næturþel merkir vissulega 'næturtími' en þel vísar þar ekki til myrkurs. Sumum fannst hins vegar eðlilegt að þel tengdist hvítur gegnum ull sauðfjár sem skiptist í tog og þel sem er 'mjúk ull kinda undir grófari ull, toginu' – þel væri því mýksti og hvítasti hluti ullarinnar. En ull svartra og mórauðra sauðkinda skiptist líka í tog og þel þannig að því fer fjarri að þel sé alltaf hvítt.

Það er samt ekki nýtt að líta svo á að þel vísi til ullar í orðum eins og þelhvítur. Fyrir 60 árum skrifaði Hannes á horninu (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson) í Alþýðublaðið um „þetta sífellda þelstagl í útvarpi og blöðum“ og virðist hafa verið í deilu við fréttamenn Ríkisútvarpsins um orðið þeldökkur: „En að kalla yður þelhvíta er í rauninni svo fávíslegt, óþarft og alrangt að engu tali tekur, því að ég ætla, að ekkert hvítt þel þekji húð yðar, sem réttlæti að þér séuð kallaðir þelhvítir menn. – Þá er hitt líka jafn fávíslegt, óþarft og alrangt að kalla svarta menn þeldökka, því að þeir eru örugglega ekkert loðnari um kroppinn en þér, og þá heldur ekkert dökkt þel, sem þekur húð þeirra, er réttlætir, að þeir séu kallaðir þeldökkir menn frekar en þér þelhvítir.“

Orðið þel kemur fyrir þegar í fornu máli í merkingunni 'grunnur, undirlag'. Í Adónías sögu frá 15. öld segir: „Umkringis á skildinum var ein spöng sterk með járn en þelið á skildinum var svart sem hrafn.“ Þarna er þelið eiginlega yfirborð skjaldarins sem er undirlag undir ýmiss konar skraut. Auk þess getur þel merkt 'hugarfar, hugur til e-s', einkum í samsetningum eins og vinarþel, bróðurþel, þelgóður, þelhlýr o.fl. en einnig sem sjálfstætt orð, eins og í „Þel getur breyst við atorð eitt“ í „Einræðum Starkaðar“ eftir Einar Benediktsson. Einnig er þel 'himna í kviðarholi og um ýmis lífæri'. Vel er hægt að sjá tengsl með þessum merkingum. Í ullinni er þel undirlag togsins, himnan er yfirborð eða viðmót, og hugarfarið er undirlag viðmóts.

En langalgengasta samsetningin með þel er þeldökkur. Það orð kemur fyrst fyrir í Alþingisbókum Íslands á 17. öld: „skarpleitur, þeldökkur“. Næst kemur orðið fyrir í Sunnanpóstinum 1838: „Balfúr var frídur, þeldøckur, vel vaxinn madur“, og síðan ekki fyrr en í Draupni 1892: „Maður nokkur roskinn, þeldökkur og brúnaþungur, grúfði yfir þeim.“ Framan af er ljóst að orðið merkir 'með dökka húð' en ekki 'svartur maður'. Það sést t.d. greinilega á dæmum eins og „Blaðamaðurinn snýr sér að Torvö, sem er þeldökkur af sólbruna“ í Alþýðublaðinu 1931, „Aftast í salnum sat mjög þeldökkur maður“ í Norðurljósinu 1932, og „Þú ert auðvitað nokkuð þeldökkur – en það getur stafað af sólbruna og vindi“ í Heimskringlu 1941.

Undir miðja 20. öld fjölgar dæmum um þeldökkur mjög – þá er farið að nota orðið í merkingunni 'svartur maður' sem verður fljótt aðalmerking orðsins og er enn. Sú er merkingin væntanlega í Speglinum 1949: „Joe Louis, hinn heimsfrægi, þeldökki hnefaleikameistari.“ Í Heima er bezt 1951 segir: „Ekki var hann samt Abbyssiníumaður, því hann var hvítur, en Abbyssiníumenn eru þeldökkir.“ Í Vísi 1952 segir „Í ýmsum borgum Suður-Afríku voru í gær haldnir fundir til þess að mótmæla setningu laga, sem skerða réttindi þeldökkra manna.“ Í Þjóðviljanum 1952 segir: „Um fjórir fimmtu hlutar Suður-Afríkubúa eru af þeldökkum kynþáttum en hvítir menn stjórna landinu einir og þrengja kosti hins þeldökka fólks í hvívetna.“

Í nútímamáli er þeldökkur nánast alltaf notað sem flokkun fremur en lýsing og þá sjaldan þelhvítur er notað gegnir sama máli um það. Í Þjóðviljanum 1956 segir: „Þeldökkir menn þar í borg hafa nú í rúmt ár krafizt réttar síns að mega ferðast í strætisvögnum bæjarins án þess að verða að lúta fyrir þelhvítum mönnum.“ Á seinni árum virðist Þorvaldur Gylfason vera sá eini sem hefur notað þelhvítur á prenti og þau þrjú dæmi sem eru um orðið í Risamálheildinni eru öll frá honum, t.d. í Morgunblaðinu 2000 þar sem hann talar um að „halda friðinn og vernda blökkumenn gegn þelhvítum þrælahöldurum frá lokum borgarastyrjaldarinnar 1865.“ Þótt þelhvítur hafi ekki breiðst út eða komist í orðabækur er þetta eðlilegt orð í þessari merkingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Andartak, augnablik – og móment

Ég sé stundum gerðar athugasemdir við orðið móment sem hefur töluvert verið notað í málinu undanfarið. Orðið fór að stinga sér niður í blöðum og tímaritum upp úr 1970 en dæmum fjölgaði verulega eftir 1990 og einkum á þessari öld. Á tímarit.is eru um 840 dæmi um orðið, þar af um 730 frá þessari öld. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í tíu þúsund, þar af rúm átta þúsund af samfélagsmiðlum. Orðið er kannski ekki sérlega íslenskulegt en nokkur hliðstæð tökuorð eru þó til í málinu – algengast er sement en önnur eru t.d. sakrament og testament sem þó eru algengari í myndunum sakramenti og testamenti, en einnig pergament, element og komment – það síðastnefnda merkt „óformlegt“ bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók.

Oft er sagt að móment sé með öllu óþarft orð og í stað þess eigi að nota íslensku orðin andartak eða augnablik. Fyrrnefnda orðið merkti reyndar til skamms tíma 'andardráttur' en það síðarnefnda hefur oft verið litið hornauga vegna dansks uppruna síns. Jón Aðalsteinn Jónsson segir í Morgunblaðinu 1990: „Elzta dæmi no. augnablik í OH er frá um 1600. Er það úr guðsorðariti, prentuðu á Hólum: „er þad ecke nema so sem eitt Augnablik ad reikna“, eins og þar stendur stafrétt. Það er Guðbrandur biskup, sem þýðir svo. Þá kemst sr. Hallgrímur þannig að orði í Passíusálmum sínum: „fæst sízt með fögru gjaldi / frestur um augnablik“. Mörg önnur dæmi er unnt að tilgreina allt fram á okkar dag og oftast um stutt tímamark.“

Í upptalningu á „röngum málvenjum“ í Samtíðinni 1943 segir Björn Sigfússon: „Augnablik er úr dönsku, Öjeblik, en heitir á íslenzku augabragð.“ En viðhorfin til orðsins augnablik hafa mildast með árunum. Í öðrum pistli frá 1990 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Augnablik merkir […] andartak, örstutta stund. Það er sú merking, sem mun almennust í mæltu máli og margir hafa horn í síðu, þar sem hún er tökumerking úr dönsku, og álíta því, að no. andartak sé vandaðra mál og fari oftast betur í íslenzku en no. augnablik. Þessu orði hefur samt skolað upp á strönd Íslands fyrir mörgum öldum og verður tæplega sent á haf út úr þessu.“ Og í  Málfarsbankanum er gengið alla leið og sagt: „Augnablik og andartak eru jafngild orð.“

En aftur að orðinu móment. Það er flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók, sagt „óformlegt“ og skýrt 'mjög stutt stund, augnablik, andartak', en þetta er ekki fullnægjandi skýring. Orðið merkir oft 'hápunktur, blómatími' eða jafnvel 'tækifæri' eða eitthvað í þá átt, eins og t.d. í „Samt eigum við nú okkar móment í glápi, bæði í tölvu og sjónvarpi“ í Morgunblaðinu 2015, „Það er samt ekki alveg þannig að ég hafi ekki átt mín móment sem íþróttahetja á mínum yngri árum“ á mbl.is 2019, „Við klúðruðum mörgum færum og KR áttu sín móment“ í Vísi 2020, og „Að mínu mati var eitt lið á vellinum, þeir áttu sitt móment í 20 mínútur“ á fótbolti.net 2013. Í síðasta dæminu er vitaskuld greinilegt að merkingin er ekki 'mjög stutt stund'.

Orðin andartak og augnablik eru bæði skýrð 'örstutt stund' og auk þess hvort með öðru í Íslenskri nútímamálsorðabók en í skýringuna vantar að orðin geta annars vegar vísað til tímapunkts og hins vegar verið tímamæling. Í þetta gerðist á sama andartaki / augnabliki er um tímapunkt að ræða en í bíddu andartak / augnablik, ég verð til eftir andartak / augnablik og þau komu eftir fáein andartök / augnablik er um tímamælingu að ræða. Enska orðið moment hefur báðar merkingarnar en ég held að í íslensku hafi tökuorðið móment aðeins þá fyrrnefndu – það er tæpast hægt að segja *bíddu (eitt) móment, *ég verð til eftir móment eða *þau komu eftir fáein móment. Þarna greinir móment sig skýrt frá bæði andartak og augnablik.

Þegar metið er hvort erlent tökuorð eigi erindi inn í íslensku skiptir máli hvort það hefur sömu merkingu og eitthvert orð sem fyrir er í málinu. Ef móment getur merkt annað en andartak og augnablik eru það því rök fyrir því að nota orðið í íslensku. Ég held reyndar að í a.m.k. sumum dæmum um móment hér að framan væri einnig hægt að nota orðið augnablik sem bendir þá til þess að orðabókaskýring þess, 'örstutt stund, andartak' þarfnist líka endurskoðunar að því leyti. Aftur á móti fyndist mér orðið andartak óeðlilegt eða ónothæft í þessum dæmum. Hvað sem því líður sýnist mér ljóst að orðið móment sé komið inn í málið og verði „tæplega sent á haf út úr þessu“ þrátt fyrir erlendan uppruna – ekki frekar en augnablik á sínum tíma.

Posted on Færðu inn athugasemd

Dýr og ódýr fargjöld

Í Málvöndunarþættinum var vakin athygli á því að orðalagið „Verð á fargjöldum“ hefði komið fyrir í fréttum Ríkisútvarpsins í dag. Þótt það væri ekki sagt berum orðum má gera því skóna að málshefjanda hafi þótt þetta orðalag óeðlilegt, og er ekki einn um það – þetta er algengt umkvörtunarefni í málfarsumræðu. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Fargjaldið kostar sjö þúsund. Rétt væri: Farið kostar sjö þúsund krónur. Eða: Fargjaldið er sjö þúsund krónur.“ Í sama kveri segir einnig: „Sagt var: Fargjöld eru mismunandi dýr. Rétt væri: Fargjöld eru mismunandi . Eða: Far er misjafnlega dýrt.“ Málfarsbankinn er ekki eins afdráttarlaus en segir: „Betra er að tala um eða lág (far)gjöld en „dýr eða ódýr (far)gjöld“.“

Gísli Jónsson skýrði þetta svo í þætti sínum í Morgunblaðinu 1982: „Er hægt að selja eða kaupa fargjöld? […] Ég svara þessu neitandi. Við kaupum ekki fargjald. Við kaupum far eða farmiða og gjöldum svo og svo mikið fyrir. Það gjald er fargjald, sem við þannig látum af hendi rakna, en við seljum það hvorki né kaupum.“ Þetta má auðvitað til sanns vegar færa, og rímar við skýringu orðsins fargjald í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'verð sem farþegi greiðir fyrir far (og flutning á farangri sínum)'. Það er samt athyglisvert að í þætti frá 1989 birti Gísli – athugasemdalaust – texta frá Íslenskri málstöð þar sem segir „eiga kost á ódýrara fargjaldi en hinn almenni farþegi“ og að „farþegi geti fengið ódýrara fargjald með vissum skilyrðum“.

Á tímarit.is eru um 50 dæmi um selja fargjald, elst í Lögréttu 1914: „því eru þeir neyddir til að selja fargjald tvöfalt eða jafnvel fjórfalt hærri“; hátt í 40 dæmi um kaupa fargjald, elst í Heimskringlu 1941: „hann fékk mér fé til að kaupa fargjald fyrir til Argentínu“; um 120 dæmi um verð á fargjöldum, elst í Lögbergi 1941: „sama verð á fargjöldum og átti sér stað fyrir stríðið“; um 170 dæmi um fargjald kostar, elst í Heimskringlu 1886: „Fargjald hjeðan frá bænum […] kostar 75 cents“; rúm 150 dæmi um dýrt fargjald, elst í Fréttum frá Íslandi 1877: „Fargjald og fararbeini hefur og þótt óþarflega dýr“; hátt í 1400 dæmi um ódýrt fargjald, elst í Lögbergi 1897: „Sýningarstjórnin hefur samið […] um frámunalega ódýrt fargjald hingað“.

Skýringin á þessu orðalagi er ósköp einföld – orðið fargjald hefur bætt við sig merkingu og merkir það sama og orðið far, þ.e. 'flutningur', til viðbótar merkingunni sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók. Eins og oft hefur verið skrifað um hér gerist það iðulega að merking samsettra orða breytist með tímanum og verður „órökrétt“ – hættir að vera summa eða fall af merkingu samsetningarliðanna. Elsta dæmi um orðið fargjald er frá 1873 þannig að orðið hefur getað haft merkinguna 'flutningur' næstum því frá upphafi – elsta dæmið frá 1877 eins og nefnt er hér að framan. Það er því rétt mál og í fullu samræmi við málhefð að tala um að kaupa og selja fargjöld, verð á fargjöldum, að fargjöld kosti svo og svo mikið, eða dýr og ódýr fargjöld.