Ég tók mér að skrifa svonefndar esseyjur (mætti líka skrifa S-eyjur eða S-egjur) í bókablöð Heimildarinnar á þessu hausti. Fyrsta grein mín, "Samtíminn séður frá sjónarhóli framtíðarinnar", var samræða við fræðibókina Tónar útlaganna eftir Árna Heimi Ingólfsson en sú næsta, "Senuþjófurinn Eleonore Niemand", rannsókn á svissneskum höfundinum sem skýtur upp kollinum í skáldsögunni Óljós eftir Geir Sigurðsson. Þriðja greinin kallaðist "Mótsagna umkenndur gludroði fortíðarinnar" og fjallaði um fræðiritð Svipur brotanna eftir Þóri Óskarsson sem helgað er ævi og skáldskap Bjarna Thorarensen. Fjórða greinin, "Eitrið í blóðrásinni", fjallaði um skáldsöguna Sporðdrekar eftir Dag Hjartarson.
North of the Sun: Critical Approaches to Sjón er titill á nýju greinasafni sem út er komið hjá Routledge í ritstjórn Úlfhildar Dagsdóttur, Lindu Badley og Gitte Mose. Þar fjalla fjórtan fræðikonur og fræðimenn um ólíkar hliðar á höfundarverki Sjóns en sjálfur slær hann botn í safnið með eftirmála. Grein mín í bókinni kallast "Sjón’s Nuclear Dystopia: Reflections on Stálnótt, Medúsa, and Johnny Triumph’s Musical Career" en þar vinn ég meðal annars úr viðtölum sem ég tók við meðlimi Medúsuhópsins á vegum Ríkisútvarpsins seint á síðustu öld.
„Óland kortlagt: Skáldskapur Eiríks Laxdals í íslensku og alþjóðlegu samhengi“ er yfirskrift athyglisverðrar ráðstefnu sem Árnastofnun og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands standa fyrir í Eddu, húsi íslenskunnar, dagana 30.-31. ágúst. Markmiðið er að vekja athygli á vanmetnu framlagi Eiríks til íslenskra bókmennta og bókmenntasögu. Þrátt fyrir að verk hans hafi verið til umræðu meðal fræðafólks frá því um miðja nítjándu öld kannast furðumargir hvorki við nafn Eiríks né skáldverkin sem hann lét eftir sig. Sjálfur hyggst ég gera samanburð á Sögu Ólafs Þórhallasonar, sem Eiríkur samdi í kringum aldamótin 1800 og fyrsta árgangi tímaritsins Ármann á Alþingi sem Baldvin Einarsson samdi að meira eða minna leyti og gaf út 1829. Í báðum tilvikum einkennist framsetning efnis af frásagnarrömmum sem er í senn ævafornt listbragð og póstmódernískt. Dagskrá ráðstefnunnar er á vef Árnastofnunnar.
Á sunnudag 11. ágúst kl. 13.00-17.00 verður málþingið Eftir sinni mynd í Listasafni Reykjavíkur þar sem þess er minnst að 150 ár eru liðin frá því að Kaupmannahöfn gaf Íslendingum sjálfsmynd Thorvaldsens. Gjöfin tengdist 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar. Um er að ræða fyrsta opinbera listaverkið hér á landi. Það stóð um áratugaskeið á miðjum Austurvelli en var flutt í Hljómskálagarðinn til að rýma fyrir líkneskinu af Jóni Sigurðssyni. Fyrirlestur minn á þinginu ber titilinn "Þjóðardýrlingurinn Thorvaldsen" en þar máta ég listamanninn inn í kenningar okkar Sveins Yngva Egilssonar, Marijan Dovic og Marco Juvans um menningarlega þjóðardýrlinga (e. cultural saints) Evrópu.
Málþing til heiðurs Terry Gunnell verður haldið föstudaginn 10. maí kl. 14.00-16.00 á Háskólatorgi HÍ. Tilefnið eru starfslok Terrys sem prófessors í þjóðfræði við Félagsvísindasvið. Málþingið samanstendur af stuttum (og sumpart alvörulausum) erindum og tónlistarflutningi. Það kom í minn hlut að fjalla um efnið "Ráðgjafinn Terry Gunnell" ("Terry Gunnell the consultant") en eins og allir vita naut alþjóðlegt kvikmyndateymi The Northman sérfræðiþekkingar hans fyrir fáeinum árum. Það hefði kannski verið heppilegt að fleiri myndrænar túlkanir norrænna goðsagna og fornsagna hefðu verið unnar undir verkstjórn Terrys?
Á þessu vori hef ég kenndi í Endurmenntun námskeið sem nefnist Unuhús: Miðstöð listalífs um miðbik 20. aldar. Námskeiðinu lauk formlega í lok apríl en eiginlegur lokapunktur þess er þó viðburður sem við Sunneva Kristín Sigurðardóttir stöndum að á Gljúfrasteini nú á laugardaginn, 4. maí kl. 16.00. Hann ber yfirskriftina "Ásur þrjár og Ingur tvær. Vinahópur Erlendar í Unuhúsi". Sunneva ræðir þar m.a. um vináttu Erlendar, Nínu Tryggvadóttur og Sólveigar Sandholt en ég mun m.a. fjalla um vináttu Erlendar við Stefán Bjarman og Benedikt Stefánsson.
"Gamanmynd í fjórum sýningum" er titill nýrrar greinar sem ég birti í vorhefti Andvara. Þar reyni ég að kortleggja landnám myndasögunnar á íslenskum vettvangi og legg höfuðáherslu fyrstu þrjá áratugi liðinnar aldar. Ég staðfesti með ýmsum misþekktum dæmum að Muggur og Tryggvi Magnússon eru brautryðjendur á þessu sviði en dreg líka fram tvær skopmyndir eftir Vestur-Íslendinga þar sem talblöðrur er nýttar. Eldri myndin, "Verkefni" eftir P.M. Clemens, birtist í Heimskringlu 1908 og yngri myndin, "Síðasta atriðið í síðasta þætti í "Beinadalnum" ..." eftir Charles Thorson, birtist í Heimkringlu 1909.
Í byrjun febrúar var þýski bókmenntaþátturinn Literatur helgaður íslenskum glæpasögum og var ein af rannsóknarspurningum þáttarins "Hvers vegna skrifa Íslendingar svona margar glæpasögur?" Ég var meðal þeirra sem Marten Hahn ræddi við í þessu sambandi en af öðrum viðmælendum hans má nefna Ragnar Jónasson, Yrsu Sigurðardóttur og Lilju Sigurðardóttur. Skýringar okkar voru af ýmum og ólíkum toga. Hægt er að nálgast upptöku af þættinum, sem kallaður var "Eis, Feuer, Mord" á heimasíðu Deutschlandfunk.
Miðvikudaginn 7. febrúar verða 120 ár liðinn frá fæðingu Einars Ragnars Jónssonar, sem er þó betur þekktur undir nafninu Ragnar í Smára. Hann var goðsögn í lifanda lífi; kraftmikill sveitastrákur úr Flóanum sem gerðist iðnrekandi, bókaútgefandi, málverkasafnari og lífið og sálin í íslensku tónlistarlífi um áratugaskeið. Af þessu tilefni efnum við Marteinn Sindri Jónsson til viðburðar í Hannesarholti undir yfirskriftinni Sögur af Ragnari í Smára. Formleg dagskrá hefst klukkan 17.00 í Hljóðbergi, sal Hannesarholts, en kaffihúsið á jarðhæðinni er opið á undan fyrir þá sem vilja koma fyrr og skála fyrir afmælisbarninu. ps. Viðtal við mig var flutt í Mannlega þættinum á Rás 1 á sjálfan afmælisdaginn og miðvikudaginn 1. maí var fluttur útvarpsþáttur okkar Marteins Sindra sem byggði á dagskránni í Hannesarholti. Þá birti ég einnig grein í tímaritið Vísbendingu um "viðskiptamódel Ragnars í Smára".
Í júní 2020 fékk ég styrk frá HÍ vegna stuðnings við samfélagsvirkni akademísks starfsfólks. Verkefnið, „Lög og bókmenntir“, miðaði að því að efla samræðu milli sviða lögfræði og bókmenntafræði um lög og bókmenntir, m.a. með námskeiðahaldi. Vegna COVID frestaðist upphaf verkefnis um rúmt ár en í millitíðinni hóf Ég samstarf við Hafstein Þór Hauksson, dósent við Lagadeild, um þetta verkefni og hafa allir viðburðir verið skipulagðir af okkur í sameiningu. Alls hafa verið skipulögð þrjú tengd námskeið, hið fyrsta með þátttöku starfsfólks Héraðsdóms Reykjavíkur, og síðari tvö með félögum í Lögfræðingafélagi Íslands, og tvær málstofur, sú fyrri á Hugvísindaþingi og sú síðari á Þjóðarspegli. Einnig hefur verkefnið tengst ferð Lögfræðingafélagsins á söguslóðir Sjöundármála, þátttöku Jóns Karls á öðru Hugvísindaþingi og umfjöllun í Lögmannablaðinu. Annáll starfsins er aðgengilegur hér á vefnum.