"There is a life after this one, Sire!" er titill á erindi sem ég flyt á ráðstefnunni Underground Imaginaries 2025: Spaces In Between sem fram fer í Napólí á Ítalíu dagana 3.-5. apríl næstkomandi. Skipuleggjendur eru Istituto Italiano per gli Studi Filosofici og Parthenope-háskóli en hugmyndin er að beina sjónum rannsakenda á sviði bókmennta, menningar og tungumáls að þeim merkingarríku afkimum sem leynast undir yfirborð jarðar. Sjálfur er ég í málstofu ásamt Marijan Dović og Luka Vidmar þar sem athygli beinist að greftrun, gröfum og uppgreftri. Í mínu erindi hyggst ég ræða um örlög meintra líkamsleifa síðasta biskupsins á Íslandi, Jóns Arasonar. Þær voru, að sögn, grafnar upp árið 1918 en þegar frá leið var óljóst hvor ætti meira tilkall til þessa umdeilda (þjóðar)dýrlings, kaþólska kirkjan eða íslensk stjórnvöld.
"Transgressive Languages of Halldór Laxness" er titill fyrirlestrar sem ég flyt við The University of Trento fimmtudaginn 27. mars kl. 16.00 (15.00 íslenskum tíma) í fyrirlestraröð sem skipulögð er innan Hugvísindasviðs skólans. Ég var beðinn að tala um málnotkun Nóbelsskáldsins og langar að ræða þá merkilegu þversögn að hann var á fimmta áratugnum bæði gagnrýnendur fyrir að láta prenta eigin verk og þýðingar með sérviskulegri stafsetningu (sem hann sagðist byggja á réttritunarhugmyndum Rasks) og fyrir að nota ekki í fornritaútgáfum sínum "samræmda stafsetningu forna" (sem hann sagði byggða á réttritunarhugmyndum Wimmers).
"Jarðvegur skapandi greina" er titill á stuttri grein sem ég birti í vorblaði Vísbendingar 21. mars, 2025. Blaðið er helgað þjóðhagslegu og menningarlegu hlutverki hinna svonefndu "skapandi greina". Í greininni velti ég fyrir mér hvernig hið svonefnda "almannarými" mótast hérlendis á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, m.a. í stásstofum, fyrir tilstilli félagasamtaka og á vettvangi blaða, tímarita. Tek ég meðal annars dæmi af tímariti Baldvins Einarssonar, Ármanni á Alþingi, og Unuhúsi, heimili Erlendar Guðmundssonar. Almannarýmið er mikilvæg forsenda þess fjölþætta íslensks listalífs sem tekur að blómstra fyrir alvöru á fullveldis- og lýðveldistímanum og er væntanlega og vonandi enn á okkar dögum jarðvegur skapandi einstaklinga á ýmsum sviðum.
Á 16. og 17. öld skapaðist sú hefð meðal betri borgara á Ítalíu og í Frakklandi að efna til menningarviðburða í heimahúsum. Starfsemi af þessu tagi, sem jafnan var kennd við vettvang sinn, stássstofuna (fr. salon), breiddist hratt út um alla Evrópu og víðar á næstu áratugum. Við Kristín Bragadóttir og Sveinn Yngvi Egilsson stöndum fyrir málstofu á Hugvísindaþingi þar sem verður hugað að íslenskum heimilum í Reykjavík og á Eyrarbakka á 19. og 20. öld sem þjónuðu líku hlutverki og hin evrópska stásstofa. Athyglin beinist meðal annars að Húsinu á Eyrarbakka og Brekkubæ, og Aðalstræti 6 í Reykjavík. Málstofan verður í stofu 309 í Árnagarði föstudaginn 7. mars kl. 15.15-16.45. Fyrirlestur minn, sem nefnist "Lýðræðisleg þekkingarrými. Frá Ármanni á Alþingi til Unuhúss", ætti að hefjast kl. 16.15.
Ég tók mér að skrifa svonefndar esseyjur (mætti líka skrifa S-eyjur eða S-egjur) í bókablöð Heimildarinnar á þessu hausti. Fyrsta grein mín, "Samtíminn séður frá sjónarhóli framtíðarinnar", var samræða við fræðibókina Tónar útlaganna eftir Árna Heimi Ingólfsson en sú næsta, "Senuþjófurinn Eleonore Niemand", rannsókn á svissneskum höfundinum sem skýtur upp kollinum í skáldsögunni Óljós eftir Geir Sigurðsson. Þriðja greinin kallaðist "Mótsagna umkenndur gludroði fortíðarinnar" og fjallaði um fræðiritð Svipur brotanna eftir Þóri Óskarsson sem helgað er ævi og skáldskap Bjarna Thorarensen. Fjórða greinin, "Eitrið í blóðrásinni", fjallaði um skáldsöguna Sporðdrekar eftir Dag Hjartarson.
North of the Sun: Critical Approaches to Sjón er titill á nýju greinasafni sem út er komið hjá Routledge í ritstjórn Úlfhildar Dagsdóttur, Lindu Badley og Gitte Mose. Þar fjalla fjórtan fræðikonur og fræðimenn um ólíkar hliðar á höfundarverki Sjóns en sjálfur slær hann botn í safnið með eftirmála. Grein mín í bókinni kallast "Sjón’s Nuclear Dystopia: Reflections on Stálnótt, Medúsa, and Johnny Triumph’s Musical Career" en þar vinn ég meðal annars úr viðtölum sem ég tók við meðlimi Medúsuhópsins á vegum Ríkisútvarpsins seint á síðustu öld. Ps. Við Úlfhildur, Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Ásta Kristín Benediktsdóttir spjölluðum við Sjón um bókina á Hugvarpi Hugvísindasviðs HÍ.
„Óland kortlagt: Skáldskapur Eiríks Laxdals í íslensku og alþjóðlegu samhengi“ er yfirskrift athyglisverðrar ráðstefnu sem Árnastofnun og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands standa fyrir í Eddu, húsi íslenskunnar, dagana 30.-31. ágúst. Markmiðið er að vekja athygli á vanmetnu framlagi Eiríks til íslenskra bókmennta og bókmenntasögu. Þrátt fyrir að verk hans hafi verið til umræðu meðal fræðafólks frá því um miðja nítjándu öld kannast furðumargir hvorki við nafn Eiríks né skáldverkin sem hann lét eftir sig. Sjálfur hyggst ég gera samanburð á Sögu Ólafs Þórhallasonar, sem Eiríkur samdi í kringum aldamótin 1800 og fyrsta árgangi tímaritsins Ármann á Alþingi sem Baldvin Einarsson samdi að meira eða minna leyti og gaf út 1829. Í báðum tilvikum einkennist framsetning efnis af frásagnarrömmum sem er í senn ævafornt listbragð og póstmódernískt. Dagskrá ráðstefnunnar er á vef Árnastofnunnar.
Á sunnudag 11. ágúst kl. 13.00-17.00 verður málþingið Eftir sinni mynd í Listasafni Reykjavíkur þar sem þess er minnst að 150 ár eru liðin frá því að Kaupmannahöfn gaf Íslendingum sjálfsmynd Thorvaldsens. Gjöfin tengdist 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar. Um er að ræða fyrsta opinbera listaverkið hér á landi. Það stóð um áratugaskeið á miðjum Austurvelli en var flutt í Hljómskálagarðinn til að rýma fyrir líkneskinu af Jóni Sigurðssyni. Fyrirlestur minn á þinginu ber titilinn "Þjóðardýrlingurinn Thorvaldsen" en þar máta ég listamanninn inn í kenningar okkar Sveins Yngva Egilssonar, Marijan Dovic og Marco Juvans um menningarlega þjóðardýrlinga (e. cultural saints) Evrópu.
Málþing til heiðurs Terry Gunnell verður haldið föstudaginn 10. maí kl. 14.00-16.00 á Háskólatorgi HÍ. Tilefnið eru starfslok Terrys sem prófessors í þjóðfræði við Félagsvísindasvið. Málþingið samanstendur af stuttum (og sumpart alvörulausum) erindum og tónlistarflutningi. Það kom í minn hlut að fjalla um efnið "Ráðgjafinn Terry Gunnell" ("Terry Gunnell the consultant") en eins og allir vita naut alþjóðlegt kvikmyndateymi The Northman sérfræðiþekkingar hans fyrir fáeinum árum. Það hefði kannski verið heppilegt að fleiri myndrænar túlkanir norrænna goðsagna og fornsagna hefðu verið unnar undir verkstjórn Terrys?