Athyglisverðar lokaritgerðir

Jón Karl Helgason, 19/09/2015

bragiÞrír nemendur, sem ég hef leiðbeint, voru að ljúka við BA- eða MA-ritgerðir í vor og sumar. Guðrún Lára Pétursdóttir, nemandi í Almennri bókmenntafræði, skrifar í sinni MA-ritgerð, "Að segja satt og rétt frá" um fagurfræði Braga Ólafssonar. Hún leggur þar megináherslu á að greina skáldsögurnar Hvíldardaga og Samkvæmisleiki. Eva-Maria Klumpp, nemandi í Íslensku sem öðru máli, fjallar um tilvísanir söguhöfundar Njáls sögu til samkynhneigðar í BA-ritgerð sem ber titilinn "Var Njáll hommi?" BA-ritgerð Robertu Soparaite, sem einnig er nemandi í Íslensku sem öðru máli, ber titilinn "Hvernig verður maður til?" Hún hefur að geyma greiningu á skáldsögunni Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson í ljósi kenninga Jean Piaget. Allar þessar ritgerðir eru, eins og flestar aðrar lokaritgerðir á háskólastigi hér á landi, aðgengilegar á Skemmunni.