Ráðstefna um fjölkerfafræði í Reykholti

Jón Karl Helgason, 09/06/2016

itamarInternational Society for Polysystem Studies (Alþjóðasamtök um fjölkerfafræði) standa fyrir sinni fyrstu ráðstefnu í Reykholti 28. til 29. júní næstkomandi. Fjölkerfafræðin, sem var þróuð af ísraelska bókmenntafræðingnum Itamar Even-Zohars á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, kortleggur með hvaða hætti bókmenntakerfi samfélaga tengjast öðrum kerfum innan samfélagsins og með hvaða hætti ólík bókmenntakerfi skarast. Skrif Even-Zohars höfðu meðal annars mikil áhrif á þróun þýðingafræða. Sérstakur gestur ráðstefnunnar er hinn þekkti þýðingafræðingur José Lambert en meðal annarra fyrirlesara eru Massimiliano Bampi (Università Ca’ Foscari-Venezia), Thomas S. Harrington (Trinity College), Roel During (Wageningen University), Rakefet Sela-Sheffy (Tel Aviv University), Müge Işıklar Koçak og Nafize Sibel Güzel (Dokuz Eylül Üniversitesi), Wadda C. Ríos-Font (Barnard College) og Jaume Subirana (Universitat Oberta de Catalunya). Við Gauti Kristmannsson munum einnig halda þarna fyrirlestra en Þýðingasetur HÍ á aðild að ráðstefnunni. Itamar Even-Zohar mun bregðast við fyrirlestri Lamberts og taka þátt í umræðum. Fræðimenn á sviði bókmenntafræði og þýðingafræða eru hvattir til að kynna sér þessa fjölbreyttu ráðstefnu. Aðgangur er ókeypis en gestafjöldi takmarkaður þannig að þeir sem áhuga hafa á að sækja ráðstefnuna eru beðnir að senda mér tölvupóst á netfangið jkh(hjá)hi.is.