Stór áfangi í vinnu við Wikisögu

Jón Karl Helgason, 01/09/2016

Wikidaga2016Eins og fram kom í nýlegri frétt á vef Árnastofnunnar heldur gagnagrunnurinn Wikisaga: Lýsandi heimildaskrá Eglu og Njálu, áfram að stækka og dafna. Í sumar hafa þrír framhaldsnemendur við Hugvísindasvið, þau Andri M. Kristjánsson, Barbora Davidkova og Ermenegilda Müller, starfað við verkefnið með styrk frá RANNÍS. Þau hafa bætt við heimildum um sögurnar tvær og skrifað og ritstýrt fjölda lýsinga á þessu heimildum. Við Svanhildur Óskarsdóttir erum ritstjórar efnisins og munum á næstu vikum og mánuðum vinna í þessu nýja efni, auk þess sem til stendur að fá nemendur sem sækja námskeið á sviðinu í haust til að vinna færslur fyrir vefinn.