Víkingurinn með róðukrossinn

Jón Karl Helgason, 24/04/2019

"Víkingurinn með róðukrossinn" er titill greinar sem ég birti í 2, hefti Tímarits Máls og menningar 2019 sem er nýútkomið. Kveikja greinarinnar er bandaríska kvikmyndin The Viking (1928) í leikstjórn Roy William Neill. Um er að ræða frjálslega aðlögun á skáldsögunni, The Thrall of Leif the Lucky (1902), eftir bandarísku skáldkonuna Ottilie A. Liljencrantz sem sótt hafði innblástur í íslenskar fornsögur. Viðfangsefni sögunnar og kvikmyndarinnar er sigling Leifs heppna Eiríkssonar til Norður Ameríku. Í grein minni er rakið með hvaða hætti Leifur ferðast úr íslenskum miðaldaheimildum, eftir síðum skáldsögunnar bandarísku og þaðan yfir á hvíta tjaldið og loks aftur til baka til Íslands árið 1932, nánar tiltekið upp á Skólavörðuhæð.