Ráðstefna um Einlyndi og marglyndi

Jón Karl Helgason, 27/04/2019

Öld einlyndis og marglyndis er titill málþings sem fram fer í Hannesarholti 27. apríl en tilefnið er 100 ára afmæli fyrirlestra sem Sigurður Nordal flutti í Bárubúð í Reykjavík veturinn 1918-1919. Ráðstefnan er haldin í þeirri trú að hugtök Nordals einlyndi og marglyndi, og flókið samspil þeirra, geri okkur kleift að hugsa upp á nýtt um áleitnustu deilumál í heimspekilegri sálfræði og siðfræði samtímans en einnig til að skilja hræringar í bókmenntum og menningarlífi Íslands á tuttugustu öld. Í fyrirlestinum sem ég flyt á þessari ráðstefnu beini ég sjónum að síðarnefndu atriðunum, einkum því hvernig Nordal gerði í Bárubúð upp við arfleifð naturalismans í skáldskap og listum.