Smásögur heimsins: Afríka eru komnar út

Jón Karl Helgason, 11/11/2019

Fjórða bindið af Smásögum heimsins hefur nú litið dagsins ljós. Það er helgað smásögum frá Afríku og geymir nítján sögur eftir jafnmarga höfunda. Sú elsta er frá upphafi tuttugust aldar og þær yngstu frá allra síðustu áratugum.  Meðal þekktra höfunda í þessum hópi eru Nadine Gordimer, Naguib Mahfouz og J. M. Coetzee, sem öll hafa fengið Nóbelsverðlaun, og Chimamanda Ngozi Adichie sem er ein af vonarstjörnum nígerískra bókmennta. En það er þó ekki síður gaman kynna þarna til sögu höfunda sem ekki hafa komið út á íslensku áður, svo sem Ibrahim al-Koni frá Líbíu, Edwige Renée Dro frá Fílabeinsströndinni, Assia Djebar (Fatima-Zohra Imalayen) frá Alsír. og Ousmane Sembène frá Senegal. Sem fyrr önnumst við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir ritstjórnina og þýðum valdar sögur en að auki komu níu aðrir þýðendur að verkinu.