Orðspor Williams Faulkners á Íslandi

Jón Karl Helgason, 31/08/2020

Fimmtudaginn 27. ágúst varði Haukur Ingvarsson með glans doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Orðspor Williams Faulkners á Íslandi 1930–1960“. Þar er leitað svara við því hvernig nafn  Williams Faulkners varð til og þróaðist á íslenskum menningarvettvangi frá því að það bar fyrst á góma í íslenskum prentmiðli 1933 og þar til síðasta þýðing Kristjáns Karlssonar á smásögu eftir Faulkner birtist á prenti árið 1960. Víðtækara markmið ritgerðarinnar er að kanna samspil íslenska bókmenntakerfisins við erlend bókmenntakerfi á umbrotatímum í Íslandssögunni þegar staða landsins gagnvart umheiminum tók miklum breytingum.  Andmælendur við vörnina voru dr. Soffía Auður Birgisdóttir og dr. Rósa Magnúsdóttir. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn minni en í doktorsnefndinni sátu einnig dr. Ástráður Eysteinsson dr. Valur Ingimundarson. Hér er hægt að horfa á upptöku frá vörninni.

Um rannsóknina