Sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir

Jón Karl Helgason, 15/10/2020

Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur er titill á nýrri fræðibók minni sem Dimma gefur út. Verkið fjallar um skáldverk sem varpa ljósi á eigið eðli, tilurð sína eða viðtökur. Hefð er fyrir því að kalla þessi verk metafiction á ensku og sjálfsögur á íslensku en í bókinni eru kynnt fleiri hugtök til leiks, svo sem sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir. Meðal þekktra erlendra verka sem tilheyra þessari hefð eru leikritið Sex persónur leita höfundar (1921) eftir Luigi Pirandello og skáldsagan Ástkona franska lautinantsins (1969) eftir John Fowles en í Sögusögnum er sjónum einkum beint að þeim þremur skáldum sem marka sjálfsöguleg tímamót hér á landi, strax um miðja síðustu öld.