Þjóðardýrlingurinn Thorvaldsen
Á sunnudag 11. ágúst kl. 13.00-17.00 verður málþingið Eftir sinni mynd í Listasafni Reykjavíkur þar sem þess er minnst að 150 ár eru liðin frá því að Kaupmannahöfn gaf Íslendingum sjálfsmynd Thorvaldsens. Gjöfin tengdist 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar. Um er að ræða fyrsta opinbera listaverkið hér á landi. Það stóð um áratugaskeið á miðjum Austurvelli en var flutt í Hljómskálagarðinn til að rýma fyrir líkneskinu af Jóni Sigurðssyni. Fyrirlestur minn á þinginu ber titilinn "Þjóðardýrlingurinn Thorvaldsen" en þar máta ég listamanninn inn í kenningar okkar Sveins Yngva Egilssonar, Marijan Dovic og Marco Juvans um menningarlega þjóðardýrlinga (e. cultural saints) Evrópu.