Kundera, Barnes og minnisfræði

"Skáldskaparfræði, speglar og miðaldir" er titill á grein sem ég hef nú birt á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands en þar ræði ég um rannsóknir nokkurra fræðimanna sem hafa afhjúpað skáldskaparfræði íslenskra miðaldabókmennta og haft veruleg áhrif á mínar eigin rannsóknir. Greinin er að stofni til hluti af erindi sem ég flutti árið 2010 á málþinginu Staðlausir stafir sem helgað var Helgu Kress, lærimóður minni í Almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún er þekktust fyrir feminískar bókmenntarannsóknir sínar en þarna vek ég athygli á einni hlið þeirra sem minni gaumur hefur verið gefinn. Ég ræði í framhaldi stuttlega um rannsóknir Laurence de Looze og Torfa H. Tuliniusar á Egils sögu, en ég hef unnið töluvert með þeim báðum á liðnum árum, nú síðast ásamt Russell Poole að ritstjórn bókarinnar Egil: The Viking Poet, sem mun koma út hjá University of Toronto Press innan tíðar.
Sigríður Helga Þorsteinsdóttir birtir athyglisverða fræðigrein um Guðríði Þorbjarnardóttur í greinasafninu Menningararfur á Íslandi sem er nýkomið út hjá Háskólaútgáfunni undir ritstjórn Ólafs Rastricks og Valdimars Tr. Hafstein. Greinina kallar Sigríður Helga "Þjóðardýrlingur heldur til Rómar: Hagnýting Guðríðar Þorbjarnardóttur 1980-2011" en hún er byggð á MA-ritgerðinni "Biskipamóðir í páfagarði" frá 2013. MA-ritgerðin var skrifuð undir minni leiðsögn á sínum tíma en það er alltaf sérstakt ánægjuefni þegar nemendur vinna lokaritgerðir sínar áfram til birtingar. Ég óska Sigríði Helgu hjartanlega til hamingju með þennan góða áfanga.
Áhugahópur um rannsóknir á bankahruninu 2008, orsökum þess og eftirstöðvum, stendur þriðjudaginn 6. október fyrir opinni málstofu í stofu 301 í Árnagarði, Háskóla Íslands. Þar munu fjórir nemendur við skólann kynna rannsóknir sínar á þessu viðamikla viðfangsefni. Fyrirlesarar eru Þórhildur Ólafsdóttir, sem leitar skýringa á því að heilsa virðist að mörgu leyti batna í efnahagskreppum, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, sem ræðir um búsáhaldabyltinguna, kosningabaráttu Besta flokksins og upplestur á Rannsóknarskýrslu Alþingis í Borgarleikhúsinu sem dæmi um andóf í opinberu rými, Markús Þ. Þórhallsson, sem fjallar um baráttu InDefence-hópsins gegn Icesave-samningunum, og Guðrún Baldvinsdóttir sem greinir skáldsögurnar Bankster eftir Guðmund Óskarsson og Gæsku eftir Eirík Örn Norðdahl út frá þeirri hugmynd að bankahrunið hafi framkallað ákveðið tráma í sjálfsmynd þjóðarinnar. Þá verður opnaður nýr banki, gagnabankinn Hrunið, þið munið, sem nemendur af Hugvísindasviði og Félagsvísindasviði hafa verið að leggja inn á undanfarna mánuði. Gagnabankanum er ætlað að geyma upplýsingar um kortlagningu fræðimanna, listamanna og annarra á íslenskri samtímasögu. Við Guðni Th. Jóhannesson og Markús Þórhallsson höfum ritstýrt efninu á þessum vef en við bindum vonir við að fleiri kennarar og nemendur við skólans leggi þessu verkefni lið. Málstofan hefst kl. 16.30 og er öllum opin.
Erik Skyum-Nielsen og Catherine Eyjólfsson hafa aukið orðstír íslenskra bókmennta í Frakklandi og Danmörku á liðnum árum og áratugum með þýðingum sínum. Þau tóku við nýrri heiðursviðurkenningu, ORÐSTÍR; sem ætluð er þýðendum íslenskra bókmennta, á Bessastöðum fimmtudaginn 10. september og tóku svo þátt í pallborðsumræðum ásamt Bergsveini Birgissyni og Auðu Övu Ólafsdóttur í Norræna húsinu daginn eftir. Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta (MÍB), Bókmenntahátíð í Reykjavík, Bandalag þýðenda og túlka, Embætti forseta Íslands og Íslandsstofa og var ég fulltrúi MÍB í úthlutunarnefndinni þetta árið. Íslenskar bókmenntir standa í stórri þakkarskuld við fólk eins og þau Erik og Catherine.
Þrír nemendur, sem ég hef leiðbeint, voru að ljúka við BA- eða MA-ritgerðir í vor og sumar. Guðrún Lára Pétursdóttir, nemandi í Almennri bókmenntafræði, skrifar í sinni MA-ritgerð, "Að segja satt og rétt frá" um fagurfræði Braga Ólafssonar. Hún leggur þar megináherslu á að greina skáldsögurnar Hvíldardaga og Samkvæmisleiki. Eva-Maria Klumpp, nemandi í Íslensku sem öðru máli, fjallar um tilvísanir söguhöfundar Njáls sögu til samkynhneigðar í BA-ritgerð sem ber titilinn "Var Njáll hommi?" BA-ritgerð Robertu Soparaite, sem einnig er nemandi í Íslensku sem öðru máli, ber titilinn "Hvernig verður maður til?" Hún hefur að geyma greiningu á skáldsögunni Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson í ljósi kenninga Jean Piaget. Allar þessar ritgerðir eru, eins og flestar aðrar lokaritgerðir á háskólastigi hér á landi, aðgengilegar á Skemmunni.
Dagana 7.-9. september var ég gestakennari við Universitat Oberta de Catalunya í Barcelona og ræddi þar um minnisfræði og mennningarlega þjóðardýrlinga. Gestgjafi minn var Jaume Subirana, dósent í bókmenntum við skólann, en kynni okkar hófust þannig að hann þýddi grein eftir mig yfir á katalónsku. Ber hún titilinn "El paper dels sants culturals en els estats nació europeus" og birtist í í tímaritinu L’Espill á liðnu ári. Subirana hefur fjallað um ýmsar hliðar katalónskra bókmennta og menningar á liðnum árum, og kynnti hann mig m.a. fyrir helsta þjóðdýrlingi Katalóníumanna í hópi ljóðskálda, Jacint Verdarguer. Stóra uppgötvun ferðarinnar voru hins vegar fregnir um að Antoni Gaudi ("arkitekt Guðs") sé á góðri leið með að verða tekinn í helga manna tölu af páfa.
"Í dæmigerðri víkingamynd er víkingurinn árásargjarn berserkur –villimannleg andstæða siðmenningarinnar sem fer um með báli og brandi, rænandi og ruplandi, hneppir fólk í ánauð, nauðgar og drepur." Svo lýsir Kevin J. Harty þeirri mynd sem oftast er brugðið upp af norrænum miðaldamönnum á hvíta tjaldinu. Í tveimur þáttum sem verða á dagskrá Rásar 1 sunnudagana 23. og 30. ágúst nk. fjalla ég um einkenni og afurðir þessarar kvikmyndategundar. Höfuðáhersla verður lögð á kvikmyndirnar The Viking frá 1928 og The Vikings frá 1958. Báðar voru aðlaganir á nútímaskáldsögum sem sjálfar voru byggðar á íslenskum miðaldatextum; annars vegar Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu og hins vegar Ragnars sögu loðbrókar. Þættirnir eru á dagskrá kl. 10.15, lesari er Klara Helgadóttir en um hljóðstjórn sáu Ragnar Gunnarsson og Mark Eldred. Ps. Nú er hægt að nálgast þessa tvo þætti á hlaðvarpi RÚV.
Bókmennta- og listfræðastofnun efndi til alþjóðlegrar ráðstefnu, „Translation: The Language of Literature“, dagana 12. og 13. júní þar sem viðfangsefnin voru þýðingafræði, bókmenntaþýðingar og menningartengsl. Átján fræðimenn frá sjö háskólum fluttu erindi á ráðstefnunni en meðal viðfangsefna voru höfundar á borð við James Joyce, Jorge Luis Borges, William Faulkner og Sylvia Plath. Erindið sem ég flutti á ráðstefnunni, „Postediting the Vikings: From Sagas to Novels to Films“, fjallaði meðal annars um skáldsöguna The Thrall of Leif the Lucky eftir Ottilie A. Liljencrantz sem út kom í Bandaríkjunum árið 1902 og kvikmyndina The Viking frá 1928 sem byggð var á skáldsögu Liljencrantz.
"Ímyndarvandi þjóðarpúkans" er titill á grein sem við Guðmundur Hálfdanarson birtum í nýju hefti Skírnis. Greinin snýst um bók Kristjáns Jóhanns Jónssonar, Grímur Thomsen. Þjóðernis, skáldskapur, þversagnir og vald, sem út kom á vegum Bókmennta- og listfræðastofnun Háskólans og Háskólaútgáfunni á liðnu ári. Í niðurlagi segir meðal annars: "greining Kristjáns Jóhanns Jónssonar á lífshlaupi Gríms Thomsen, viðhorfum hans, kveðskap og menningarpólitískum skrifum er mikilvægt framlag til greiningar á íslenskri menningarsögu nítjándu aldarinnar. Í fyrsta lagi opnar hún nýja sýn á Grím, sem hefur ekki notið þeirrar athygli sem hann á skilda. Hér hefur minningin um skáldið örugglega liðið fyrir náin tengsl þess við danska elítu, því að þótt það sé kannski fulllangt gengið að kalla Grím „þjóðarpúka“, eins og Kristján gerir á fleiri en einum stað ... þá var frami í danska stjórnkerfinu mönnum tæplega til framdráttar í tilfinningaþrungnu andrúmslofti sjálfstæðisbaráttunnar. Í öðru lagi er ritgerðin áhugaverð tilraun, í anda nýsöguhyggju, til að lesa ljóð skálds og menningarpostula í samhengi við aðra texta sem hann skildi eftir sig. Það er þó um leið ljóst að hægt væri að ganga mun lengra í nýsögulegri túlkun á ljóðum skáldsins."