Mánasteinn, Munch og ExpresSJÓNisminn

Jón Karl Helgason, 30/03/2015

mánasteinn"Mánastein, Munch og expresSJÓNisminn" er titill á fróðlegri og skemmtilegri grein sem fyrrum nemandi minn, Ana Stanićević, birtir í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar (76/1, 2015). Þar er skáldsagan Mánasteinn eftir Sjón greind með hliðsjón af fagurfræði expressjónískra málverka, ekki síst verka norska málarans Edvards Munch. Greinin byggir á hluta af B.A. ritgerð höfundar í Íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands, en hinn hluti ritgerðarinnar var serbnesk þýðing Önu á Mánasteini. Vonir standa til að hún komi út í Serbíu á næstu misserum.

Hærmendene på Helgeland í Café Lingua

Jón Karl Helgason, 16/03/2015

indexÁ liðnu ári voru Íslendingasögur og -þættir gefin út í nýjum þýðingum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í tilefni af þessari merku útgáfu verður fimmtudaginn 19. mars dagskrá í Norræna húsinu á vegum Café Lingua þar sem þrír þýðendur ræða það mikla verkefni að þýða Íslendingasögurnar á norræn mál. Að auki hyggst ég ræða um áhrif Íslendingasagna á eitt þekktasta skáld Norðurlanda, Henrik Ibsen. Snemma árs 1857 fullyrti Ibsen í fyrirlestri, eins og hann hafði raunar gert áður, að Íslendingasögurnar væru ekki ýkja heppilegur efniviður fyrir nútímaleikritun. Samt liðu bara nokkrar vikur eða mánuðir þar til hann hófst handa við að skrifa Hærmendene på Helgeland. Fullskrifað kom verkið út sem viðauki við Illustreret Nyhedsblad vorið 1858 og var síðan frumsýnt í Kristiania norske Theater um haustið undir leikstjórn höfundarins. Ég mun draga fram með dæmum hvernig Ibsen nýtir sér hinar íslensku heimildir og ræða stuttlega hvernig verkið vísa fram á veginn til þekktari leikrita skáldsins. Dagskráin í Norræna húsinu hefst kl. 17.00.

Rabbað um hagnýt verkefni í kennslu

Jón Karl Helgason, 08/03/2015

uglaKennslunefnd Hugvísindasviðs heldur í marsmánuði þrjá rabbfundi um kennslu. Tilgangurinn er að skapa vettvang fyrir umræðu um bætta kennslu og kennslumenningu innan deilda sviðsins. Fundirnir verða í hádeginu miðvikudagana 11., 18. og 25. mars. Við Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda ríðum á vaðið núna á miðvikudaginn. Í mínu spjalli hyggst ég ræða um tilraunir mínar til að láta nemendur vinna hagnýt og raunhæf verkefni í námskeiðum, kosti þess og ókosti. Meðal verkefna sem ég fjalla um eru vefirnir Wikisaga: Lýsandi heimildaskrá Eglu og Njálu og Hrunið, þið munið: Gagnabanki um samtímasögu. Þá mun ég ræða samstarf mitt við Hugrás í tengslum við námskeiðið Loksins,loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku. Fundurinn verður í stofu 101 í Árnagarði frá kl. 12 til 12:45.

Vandinn við minnið

Jón Karl Helgason, 25/02/2015

Trouble with Memory - thumbnailThe Trouble with Memory III (Vandinn við minnið III) er titill á ráðstefnu (þeirri þriðju í röðinni) sem írsk-íslenska rannsóknanetið í minnisfræðum mun standa fyrir í tengslum við Hugvísindaþing í Háskóla Íslands, 13.-14. mars næstkomandi. Á ráðstefnunni verða fluttir rúmlega 20 fyrirlestrar sem tengjast írskum og/eða íslenskum viðfangsefnum. Fyrirlestur minn á þinginu, "Saints of Poetry: More than just a metaphor?" gerir merkilega tilvitnun í riti Carlyles, On Heroes, Hero-Worship, and the Heroic in History, að útgangspunkti sínum en markmið mitt er að rekja hvernig þjóðernisstefna og menningarminni hafa verið tengd hugmyndum um borgaraleg og ósýnileg trúarbrögð.  Fyrirlesturinn er hluti af málstofu sem er á dagskrá milli kl. 15.00 og 17.00 föstudaginn 13. mars.

Öræfi Ófeigs Sigurðssonar

Jón Karl Helgason, 09/02/2015

Oraefi-175x265

Skáldsagan Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson var bók vikunnar á Rás 1 í liðinni viku. Lesið var úr bókinni í Víðsjá og rætt við höfundinn í miðri viku en á laugardaginn spjallaði Þröstur Helgason við okkur Valgerði Þóroddsdóttur um söguna og feril Ófeigs. Bæði töluðum við lofsamlega um verkið enda er það í senn fjörlega skrifað og skemmtilega uppbyggt, auk þess að eiga afar brýnt erindi við lesendur. Hægt er að hlusta á þáttinn á vef Ríkisútvarpsins næstu dagana.

Hvernig á maður að skrifa menningarsögu?

Jón Karl Helgason, 29/01/2015

sagaí Föstudaginn 30. janúar verð ég gestur á vikulegum hádegisfundi Sagnfræði- og heimspekideildar um söguleg efni. Þar hyggst ég ræða kafla um menningarsögu 20. aldar sem ég er að skrifa fyrir lokabindi Sögu Íslands en áætlað er að það komi út síðar á þessu ári. Í kaflanum, sem stefnir í að verða um 60-80 síður að lengd, langar mig annars vegar til að lýsa því hvernig menningarkerfið byggist upp frá einum áratug til annars og hins vegar hvernig nútíminn nær smám saman fótfestu innan ólíkra listgreina. Viðfangsefnið er í senn ákaflega víðfeðmt og spennandi en eftir því sem ég kemst nær því að ljúka verkefninu kvarnast úr trú minni á gildi þess. Fundurinn verður kl. 12-13 í Gimli, stofu 102.

Heimskringla wa dare ga kaita noka?

Jón Karl Helgason, 25/01/2015

snorri2

"Heimskringla wa dare ga kaita noka?: Sakuhin to Chosha/Bunsan Shippitsu-sha no Fukuzatsu na Kankei" er titill á japanskri þýðingu Tsukusu Jinn Ito á grein minni "Dreifður höfundarskapur Heimskringlu" sem nýlega birtist í fræðitímaritinu Balto-Scandia 31 (október 2014): 53-62. Í greininni vek ég athygli á því að textarnir sem saman mynda Heimskringlu eiga sér afar fjölbreytilegan uppruna og að erfitt er að meta hlutdeild Snorra Sturlusonar í hverjum texta fyrir sig. Útgáfa greinarinnar er einn af ávöxtum af heimsókn minni til Japan fyrir rúmi ári síðan en meðal markmiða hennar var að mynda tengsl við japanska fræðimenn sem sinna íslenskum fræðum.

Northern Myths, Modern Identities

Jón Karl Helgason, 20/11/2014

Adventure073p8Northern Myths, Modern Identities: The Nationalization of Mythologies in Northern Europe 1800-2014 er titill á viðamikilli alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður við Háskólann í Groningen í Hollandi dagana 27.-29. nóvember næstkomandi. Þar verða fluttir yfir 20 fyrirlestrar um gildi goðsagna og goðsögulegs hugsunarháttar fyrir þjóðríkjaþróun nútímans. Norræn goðafræði kemur þar töluvert við sögu. Meðal heiðursfyrirlesara eru Tom Shippey og Joep Leerssen. Ég er í hópi fjögurra fræðimanna sem koma frá Íslandi til að taka þátt í ráðstefnunni í Groningen en hinir eru Daisy L. Neijmann, Sumarliði Ísleifsson og Gylfi Gunnlaugsson. Líkt og í erindi mínu hjá Félagi þjóðfræðinga fyrr í mánuðinum hyggst ég ræða um birtingarmyndir Þórs í bandarískum teiknimyndum á árum síðari heimsstyrjaldar.

Þroskabraut Thors í bandarískum myndasögum

Jón Karl Helgason, 06/11/2014

sandman"Þroskabraut Thors í bandarískum myndasögum" er titill á fyrirlestri sem ég held á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í fundarsal Þjóðminjasafnsins á morgun, föstudaginn 6. nóvember kl. 12.00. Þar hyggst ég ræða um nokkrar lítt þekktar bandarískar myndasögur sem út komu á árunum 1940 til 1960 þar sem norræni þrumuguðinn var í aðalhlutverki. Ég hyggst færa rök fyrir því að þetta séu eiginlegir frumtextar fyrstu sögunnar um The Mighty Thor sem Marvel-fyrirtækið sendi frá sér árið 1962. Ps. Grein mín um þetta efni hefur nú birst í nýju hefti Tímarits Máls og menningar og ber þar titilinn "Æsilegasta ofturhetja allra tíma".

Spjallað við Kjarnann um styttur bæjarins

Jón Karl Helgason, 23/10/2014

vatnsberi"Engir falískir eirstöplar fyrir konur," er yfirskrift hljóðritaðs viðtals við mig sem birtist á Kjarnanum í þessari viku í viðtalsröðinni Þáttur um kúl hluti. Við Birgir Þór Harðarson hittumst á kaffihúsinu í Ráðhúsi Reykjavíkur og spjölluðum saman í tæpan hálftíma um stytturnar í Reykjavík, sögu þeirra og merkingu. Tilefnið var að einhverju leyti útgáfa bókar minnar Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga sem Sögufélagið gaf út fyrir rúmu ári síðan. Talið barst m.a. að styttunum af Jónasi Hallgrímssyni og Bertel Thorvaldsen en einnig að Vatnsbera Ásmundar Sveinssonar og Óþekkta embættismanninum eftir Magnús Tómasson.