Leifur heppni á hvíta tjaldinu

Jón Karl Helgason, 16/06/2015

the_vikingBókmennta- og listfræðastofnun efndi til alþjóðlegrar ráðstefnu, „Translation: The Language of Literature“, dagana 12. og 13. júní þar sem viðfangsefnin voru þýðingafræði, bókmenntaþýðingar og menningartengsl. Átján fræðimenn frá sjö háskólum fluttu erindi á ráðstefnunni en meðal viðfangsefna voru höfundar á borð við James Joyce, Jorge Luis Borges, William Faulkner og Sylvia Plath. Erindið sem ég flutti á ráðstefnunni, „Postediting the Vikings: From Sagas to Novels to Films“, fjallaði meðal annars um skáldsöguna The Thrall of Leif the Lucky eftir Ottilie A. Liljencrantz sem út kom í Bandaríkjunum árið 1902 og kvikmyndina The Viking frá 1928 sem byggð var á skáldsögu Liljencrantz.

Ímyndarvandi þjóðarpúkans

Jón Karl Helgason, 21/05/2015

Grímur Thomsen - net"Ímyndarvandi þjóðarpúkans" er titill á grein sem við Guðmundur Hálfdanarson birtum í nýju hefti Skírnis. Greinin snýst um bók Kristjáns Jóhanns Jónssonar, Grímur Thomsen. Þjóðernis, skáldskapur, þversagnir og vald, sem út kom á vegum Bókmennta- og listfræðastofnun Háskólans og Háskólaútgáfunni á liðnu ári. Í niðurlagi segir meðal annars: "greining Kristjáns Jóhanns Jónssonar á lífshlaupi Gríms Thomsen, viðhorfum hans, kveðskap og menningarpólitískum skrifum er mikilvægt framlag til greiningar á íslenskri menningarsögu nítjándu aldarinnar. Í fyrsta lagi opnar hún nýja sýn á Grím, sem hefur ekki notið þeirrar athygli sem hann á skilda. Hér hefur minningin um skáldið örugglega liðið fyrir náin tengsl þess við danska elítu, því að þótt það sé kannski fulllangt gengið að kalla Grím „þjóðarpúka“, eins og Kristján gerir á fleiri en einum stað ... þá var frami í danska stjórnkerfinu mönnum tæplega til framdráttar í tilfinningaþrungnu andrúmslofti sjálfstæðisbaráttunnar. Í öðru lagi er ritgerðin áhugaverð tilraun, í anda nýsöguhyggju, til að lesa ljóð skálds og menningarpostula í samhengi við aðra texta sem hann skildi eftir sig. Það er þó um leið ljóst að hægt væri að ganga mun lengra í nýsögulegri túlkun á ljóðum skáldsins."

Herra Þráinn (Mr. Wanna B.)

Jón Karl Helgason, 05/05/2015

1005Þriðja og síðasta hefti tímaritraðarinnar 1005 kemur út sunnudaginn 10. maí næstkomandi. 1005 samanstendur af sjö sjálfstæðum verkum að þessu sinni en þau eru: Eftirherman eftir Thomas Bernhard í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar, Fæðingarborgin í útgáfu Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, Blindur hestur eftir Eirík Guðmundsson, Jarðvist eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, Fundur útvarpsráðs 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur eftir Ragnar Helga Ólafsson, Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen og Herra Þráinn eftir þann sem þetta ritar. Líkt og sum fyrri verk mín rásar bókin sú á alvörulausum mörkum fræða og skáldskapar. Lesandinn slæst í för með herra Þránni sem ver dýrmætum tíma í að hlusta á Þórhall miðil í útvarpinu, skoða Marlboro-auglýsingar í erlendum tímaritum og horfa á ljósmynd af Sophiu Loren og Jayne Mansfield inni á klósetti, milli þess sem hann svitnar í spinning í World Class.  Sá sem hefur séð sjálfsupptekinn nútímann með augum herra Þráins mun í versta falli rakna úr áralöngu roti og í besta falli yppta öxlum. Útgáfuhóf 1005 verður 10.05 í Mengi, Óðinsgötu 2, frá kl. 16-18. Allir velkomnir.

Wagner og víkingametal

Jón Karl Helgason, 14/04/2015

wagner"From Wagner to Viking Metal" er titill á fyrirlestri sem ég flyt við Humboldt-Universität í Berlín miðvikudaginn 22. apríl næstkomandi. Þar hyggst ég ræða um endurtekin þemu í  textagerð valdra víkinga-metal hljómsveita (þar á meðal einnar frá Mexíkó) og tengja þau útbreiddum hugmyndum í dægurmenningu 20. aldar um Valhöll sem paradís heiðinna manna. Einnig hyggst ég rekja þræði frá tónlist hljómsveitanna aftur til endurvinnslu Wagners á arfleifð eddukvæða. Fyrirlesturinn, sem hefst kl. 18.00, er hluti af fyrirlestrarröðinni Das Alte im Neuen. Aktualisierungen der altnordischen Literatur in der Gegenwartskultur sem Nordeuropa-Institut við skólann skipuleggur nú á vordögum.

Mánasteinn, Munch og ExpresSJÓNisminn

Jón Karl Helgason, 30/03/2015

mánasteinn"Mánastein, Munch og expresSJÓNisminn" er titill á fróðlegri og skemmtilegri grein sem fyrrum nemandi minn, Ana Stanićević, birtir í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar (76/1, 2015). Þar er skáldsagan Mánasteinn eftir Sjón greind með hliðsjón af fagurfræði expressjónískra málverka, ekki síst verka norska málarans Edvards Munch. Greinin byggir á hluta af B.A. ritgerð höfundar í Íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands, en hinn hluti ritgerðarinnar var serbnesk þýðing Önu á Mánasteini. Vonir standa til að hún komi út í Serbíu á næstu misserum.

Hærmendene på Helgeland í Café Lingua

Jón Karl Helgason, 16/03/2015

indexÁ liðnu ári voru Íslendingasögur og -þættir gefin út í nýjum þýðingum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í tilefni af þessari merku útgáfu verður fimmtudaginn 19. mars dagskrá í Norræna húsinu á vegum Café Lingua þar sem þrír þýðendur ræða það mikla verkefni að þýða Íslendingasögurnar á norræn mál. Að auki hyggst ég ræða um áhrif Íslendingasagna á eitt þekktasta skáld Norðurlanda, Henrik Ibsen. Snemma árs 1857 fullyrti Ibsen í fyrirlestri, eins og hann hafði raunar gert áður, að Íslendingasögurnar væru ekki ýkja heppilegur efniviður fyrir nútímaleikritun. Samt liðu bara nokkrar vikur eða mánuðir þar til hann hófst handa við að skrifa Hærmendene på Helgeland. Fullskrifað kom verkið út sem viðauki við Illustreret Nyhedsblad vorið 1858 og var síðan frumsýnt í Kristiania norske Theater um haustið undir leikstjórn höfundarins. Ég mun draga fram með dæmum hvernig Ibsen nýtir sér hinar íslensku heimildir og ræða stuttlega hvernig verkið vísa fram á veginn til þekktari leikrita skáldsins. Dagskráin í Norræna húsinu hefst kl. 17.00.

Rabbað um hagnýt verkefni í kennslu

Jón Karl Helgason, 08/03/2015

uglaKennslunefnd Hugvísindasviðs heldur í marsmánuði þrjá rabbfundi um kennslu. Tilgangurinn er að skapa vettvang fyrir umræðu um bætta kennslu og kennslumenningu innan deilda sviðsins. Fundirnir verða í hádeginu miðvikudagana 11., 18. og 25. mars. Við Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda ríðum á vaðið núna á miðvikudaginn. Í mínu spjalli hyggst ég ræða um tilraunir mínar til að láta nemendur vinna hagnýt og raunhæf verkefni í námskeiðum, kosti þess og ókosti. Meðal verkefna sem ég fjalla um eru vefirnir Wikisaga: Lýsandi heimildaskrá Eglu og Njálu og Hrunið, þið munið: Gagnabanki um samtímasögu. Þá mun ég ræða samstarf mitt við Hugrás í tengslum við námskeiðið Loksins,loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku. Fundurinn verður í stofu 101 í Árnagarði frá kl. 12 til 12:45.

Vandinn við minnið

Jón Karl Helgason, 25/02/2015

Trouble with Memory - thumbnailThe Trouble with Memory III (Vandinn við minnið III) er titill á ráðstefnu (þeirri þriðju í röðinni) sem írsk-íslenska rannsóknanetið í minnisfræðum mun standa fyrir í tengslum við Hugvísindaþing í Háskóla Íslands, 13.-14. mars næstkomandi. Á ráðstefnunni verða fluttir rúmlega 20 fyrirlestrar sem tengjast írskum og/eða íslenskum viðfangsefnum. Fyrirlestur minn á þinginu, "Saints of Poetry: More than just a metaphor?" gerir merkilega tilvitnun í riti Carlyles, On Heroes, Hero-Worship, and the Heroic in History, að útgangspunkti sínum en markmið mitt er að rekja hvernig þjóðernisstefna og menningarminni hafa verið tengd hugmyndum um borgaraleg og ósýnileg trúarbrögð.  Fyrirlesturinn er hluti af málstofu sem er á dagskrá milli kl. 15.00 og 17.00 föstudaginn 13. mars.

Öræfi Ófeigs Sigurðssonar

Jón Karl Helgason, 09/02/2015

Oraefi-175x265

Skáldsagan Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson var bók vikunnar á Rás 1 í liðinni viku. Lesið var úr bókinni í Víðsjá og rætt við höfundinn í miðri viku en á laugardaginn spjallaði Þröstur Helgason við okkur Valgerði Þóroddsdóttur um söguna og feril Ófeigs. Bæði töluðum við lofsamlega um verkið enda er það í senn fjörlega skrifað og skemmtilega uppbyggt, auk þess að eiga afar brýnt erindi við lesendur. Hægt er að hlusta á þáttinn á vef Ríkisútvarpsins næstu dagana.

Hvernig á maður að skrifa menningarsögu?

Jón Karl Helgason, 29/01/2015

sagaí Föstudaginn 30. janúar verð ég gestur á vikulegum hádegisfundi Sagnfræði- og heimspekideildar um söguleg efni. Þar hyggst ég ræða kafla um menningarsögu 20. aldar sem ég er að skrifa fyrir lokabindi Sögu Íslands en áætlað er að það komi út síðar á þessu ári. Í kaflanum, sem stefnir í að verða um 60-80 síður að lengd, langar mig annars vegar til að lýsa því hvernig menningarkerfið byggist upp frá einum áratug til annars og hins vegar hvernig nútíminn nær smám saman fótfestu innan ólíkra listgreina. Viðfangsefnið er í senn ákaflega víðfeðmt og spennandi en eftir því sem ég kemst nær því að ljúka verkefninu kvarnast úr trú minni á gildi þess. Fundurinn verður kl. 12-13 í Gimli, stofu 102.